Hagnýt skjalfræði - Viðbótardiplóma


Hagnýt skjalfræði
Viðbótardiplóma – 30 einingar
Diplóma í hagnýtri skjalfræði er hagnýt 30 eininga námsleið fyrir þau sem lokið hafa bakkalárprófi í einhverri grein. Námið er ætlað nemendum sem hafa áhuga á að vinna við skjalavörslu og skjalastjórn, hvort sem er hjá opinberri stofnun, opinberu skjalasafni eða fyrirtæki.
Skipulag náms
- Haust
- Opinber skjalavarsla og skjalastjórn í fortíð og nútíð
- Einkaskjöl: Vitnisburður hinna valdalausu?B
- Einkaskjalasöfn - varðveisla og notkun þeirra til rannsóknaB
- Hagnýtt verkefni í skjalfræðiB
- Internetið og upplýsingaleitirV
- Upplýsinga- og skjalastjórn hjá skipulagsheildumV
- Opinber stjórnsýslaV
- Vor
- Stjórnsýsluréttur fyrir stjórnendur og starfsmenn opinberra stofnana
- Brenndu bréfið. Skriftarkunnátta á 19. öld og sendibréf sem heimildB
- Hagnýtt verkefni í skjalfræðiB
- Skjalalestur 1550-1850B
- Miðlun og menningB
- Rannsóknir og heimildaleit í skjalasöfnumB
Opinber skjalavarsla og skjalastjórn í fortíð og nútíð (SAG103M)
Í þessu námskeiði er farið yfir hlutverk opinberra skjalasafna og skjalavörslu og skjalastjórn í fortíð og nútíð. Farið verður yfir upprunaregluna og þýðingu hennar fyrir sagnfræðirannsóknir og ágrip af stjórnsýslusögu. Þá verður fjallað um lagaumhverfi opinberrar skjalavörslu og skjalastjórnar á Íslandi og eftirlitshlutverk opinberra skjalasafna. Farið verður yfir skilgreiningu á afhendingarskyldum aðilum og skyldum þeirra samkvæmt lögum. Jafnframt verður fjallað um þróun skjalavörslu og skjalastjórnar á 20. og 21. öld og skjalasöfn og skráning þeirra skoðuð. Þá verður fjallað um uppbyggingu nútíma skjalasafna með tilliti til reglna sem um þau gilda. Helstu verkefni skjalastjóra verða skoðuð. Gestakennarar eru m.a. sérfræðingar í Þjóðskjalasafni Íslands og munu þeir fara yfir helstu verkþætti í skjalavörslu og skjalastjórn afhendingarskyldra aðila.
Einkaskjöl: Vitnisburður hinna valdalausu? (SAG816M)
Einkaskjöl eru einn þýðingarmesti heimildaflokkur sem sagnfræðingar vinna með í rannsóknum sínum. Á tíunda áratug 20. aldar tóku sagnfræðingar bæði erlendis og á Íslandi að vinna markvisst með þessa tegund heimilda og finna áhugaverðar leiðir til að nýta þær við rannsóknir. Mikil grósaka hljóp í heimildaútgáfur þar sem þessi heimildaflokkur var unnin upp í hendurnar á leikum sem lærðum. Í þessu námskeiði verða ólíkar birtingarmyndir einkaskjala könnuð, eðli þeirra og notkunarmöguleikar rannsakaðir og spáð í tengsl einstaklingsins og fræðimannsins er við mismunandi tegundir þeirra eins og dagbækur, einkabréf, ljósmyndir, fræðilega spurningalista, munlegar heimildir, minningaskrif, rafræna miðlun sjálfsins, sjálfsævisögur, endurminningarrit, skáldævisögur og samtalsbækur svo eitthvað er nefnt. Nemendur munu meðal annars fá það hlutverk að kanna þau einkaskjöl sem þau sjálf hafa safnað að sér og mikilvægi þeirra fyrir þeirra eigin líf.
Einkaskjalasöfn - varðveisla og notkun þeirra til rannsókna (SAG103F)
Fjallað verður um einkaskjalasöfn, varðveislu þeirra og hvernig þau nýtast sem heimildir um sögu liðinna tíma. Skoðað verður hvaða hlutverk skjalavörslustofnanir hafa í varðveislu einkaskjalasafna og söfnun þeirra, hvernig og hvar einkaskjalasöfn eru varðveitt á Íslandi, m.a. í samanburði við önnur lönd. Jafnframt verður fjallað um hvernig einkaskjalasöfn hafa verið notuð sem heimildir og aðgengi að þeim. Vinna í námskeiðinu krefst virkrar þátttöku. Fyrirlestrar verða haldnir og auk þeirra er gert ráð fyrir að nemendur leysi verkefni í hópvinnu og sjálfstætt. Gert er ráð fyrir heimsóknum til vörslustofnana sem varðveita einkaskjalasöfn.
Hagnýtt verkefni í skjalfræði (SAG104F)
Námskeiðið er æfing í sjálfstæðum vinnubrögðum við þann þátt skjalavörslu og skjalastjórnar sem nemandi velur sér. Nemendur velja sér verkefni í samráði við kennara. Verkefnið á að vera hagnýtt og getur til dæmis falið í sér skráningu og frágang á opinberu skjalasafni eða einkasjalasafni ásamt greinargerð, hvers konar vinna við skjalasafn stofnunar eða hjá einkaaðila með greinargerð um þá vinnu t.d. gerð málalykils, skjalavistunaráætlunar eða við tilkynningu á rafrænu gagnasafni.
Internetið og upplýsingaleitir (UPP215F)
Í námskeiðinu er lögð áhersla á að nemendur öðlist skilning á mikilvægi aðgangs að þekkingu og upplýsingum og þeir kynnist og geti beitt aðferðum við að meta þekkingar- og upplýsingalindir, einkum á rafrænu formi. Fjallað verður um notkun internetsins við upplýsingaleit og til samskipta t.d. með samfélagsmiðlum og farið í leitartækni og leitarvélar á internetinu. Enn fremur verður fjallað um mismunandi tegundir rafrænna heimildalinda á ólíkum fræðasviðum og gerð grein fyrir leitaraðferðum. Nemendur munu öðlast reynslu í rafrænni upplýsingaleit og þjálfun í að leiðbeina öðrum við leitir.
Upplýsinga- og skjalastjórn hjá skipulagsheildum (UPP105F)
Fjallað verður um sögu og þróun upplýsinga- og skjalastjórnar og kynnt til sögunnar ýmis félög og samtök á sviðinu í Evrópu, Ameríku og Ástralíu. Fjallað er um lög, reglugerðir og reglur um upplýsingar, skjöl og skjalasöfn og farið í aðferðir, tilgang og markmið upplýsinga- og skjalastjórnar. Framkvæmd skjalakönnunar og hönnun skjalaflokkunarkerfis verður kennd og fjallað um gerð skjalavistunaráætlunar. Fjallað verður um gæðastaðal um skjalastjórn ISO 15489, skjalakerfi, öryggisáætlanir fyrir skjöl, frágang eldri skjala. Lögð verður áhersla á skipulag gagna óháð formi. Sýnt verður fram á hvernig hægt er að nota ýmis konar hugbúnað við skipulagningu gagna, skráningu, vistun og endurheimt. Farið verður í þarfagreiningu og innleiðingu á upplýsinga- og skjalastjórn. Nemendur þurfa að geta hannað flokkunarkerfi fyrir upplýsingar og skjöl og kortlagt upplýsingar og skjöl í skipulagsheildum. Farið verður í heimsóknir á ólík skjalasöfn og unnið á vinnustofu um gerð málalykla. Nemendur vinna hópverkefni og einstaklingsverkefni á misserinu.
Opinber stjórnsýsla (OSS111F)
Á þessu kynningar- og inngangsnámskeiði fá nemendur heildaryfirsýn yfir skipulag og þróun opinberrar stjórnsýslu. Fjallað er um megineinkenni opinberrar stjórnsýslu á Íslandi, þar á meðal grundvöll hennar og helstu mótunarþætti. Í námskeiðinu er farið yfir grundvallarhugtök stjórnsýslufræðanna. Kynntar eru helstu kenningar um skipulagsheildir, valddreifingu og ákvörðunartöku í opinberri stjórnsýslu og lýst þróun stjórnsýslufræðinnar sem fræðigreinar. Athyglinni er sérstaklega beint að tengslum milli opinberrar stjórnsýslu og stjórnmála og áhrifum þeirra tengsla á uppbyggingu, starfshætti og stefnumótun. Áhersla er lögð á greiningu og skilning á því hvað skilur að einkarekstur annars vegar og opinberan rekstur og þjónustu hins vegar.
Athugið að námskeiðið er aðeins kennt með fjarnámssniði.
2x40 mínútna fyrirlestrar sendir út á netinu og 1x40 mínútna fyrirspurnar- og umræðutími á netinu (Zoom-fundir) á viku.
Stjórnsýsluréttur fyrir stjórnendur og starfsmenn opinberra stofnana (OSS204F)
Fjallað verður um íslensk stjórnvöld, íslenska stjórnsýslukerfið, reglur sem gilda um samskipti og yfirstjórn innan stjórnsýslukerfisins, um meðferð stjórnsýslumála og upplýsingarétt almennings. Aðalháerslan er á meðferð stjórnsýslumála og þýðingu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í því sambandi.
Brenndu bréfið. Skriftarkunnátta á 19. öld og sendibréf sem heimild (SAG410M)
Í námskeiðinu verður rætt um sendibréf frá lokum átjándu aldar til upphafs þeirrar tuttugustu. Fjallað er um sendibréf sem heimild en einnig sem vettvang tjáningar, sköpunar og sjálfsmótunar. Skoðað verður hverjir skrifuðust á og um hvað. Spurt verður um sannleika og lygi í bréfum. Og hvað segja bréf okkur um stétt, stöðu, kyn? Lesin verða innlend og erlend verk um rannsóknir á sendibréfum og skriftarkunnáttu og sérstök áhersla lögð á hið hversdagslega í bréfaskrifum. Loks verða lesin sendibréf frá þessu tímabili, einkum í útgefnum bréfasöfnum.
Hagnýtt verkefni í skjalfræði (SAG104F)
Námskeiðið er æfing í sjálfstæðum vinnubrögðum við þann þátt skjalavörslu og skjalastjórnar sem nemandi velur sér. Nemendur velja sér verkefni í samráði við kennara. Verkefnið á að vera hagnýtt og getur til dæmis falið í sér skráningu og frágang á opinberu skjalasafni eða einkasjalasafni ásamt greinargerð, hvers konar vinna við skjalasafn stofnunar eða hjá einkaaðila með greinargerð um þá vinnu t.d. gerð málalykils, skjalavistunaráætlunar eða við tilkynningu á rafrænu gagnasafni.
Skjalalestur 1550-1850 (SAG813F)
Nemendur öðlast færni í að lesa íslenska skrift frá tímabilinu, einkum frá 17. og 18. öld. Farið verður í helstu atriði skriftarþróunar, rætt um varðveislu ritheimilda og kynntar aðferðir við útgáfu gamalla texta.
Miðlun og menning (HMM240F)
Í námskeiðinu er menningarhugtakið teknar til gagnrýninnar skoðunar. Kenningar og skilgreiningar eru reifaðar samtímis því sem hlutverk, skilyrði og áhrif menningar í samtímanum eru vegin og metin. Markmiðið er að skapa samræðu fræðilegrar umræðu um menningararf, menningarstefnu og menningarlega sjálfbærni við praktísk úrlausnarefni sem tengjast miðlun menningar. Þannig er hugað að samspili menningarlífs við félagslegar, pólitískar og hagrænar aðstæður í sögu og samtíð og kannað hvernig þessir þættir bæði skilyrða og gera mögulega menningarmiðlun í samtímanum. Skoðað er hvernig menningararfur, hefðir, félagslegt minni, hugmyndir um upprunaleika og sjálfsmynd hafa áhrif á mótun og endursköpun menningar og hvernig nota má hugtök eins og „menningarlegt auðmagn“, „menningarlegt forræði“ og „orðræða um menningararf“ til að greina og skilja birtingarmyndir menningar.
Námskeiðið er ekki kennt í fjarnámi.
Rannsóknir og heimildaleit í skjalasöfnum (SAG206M)
Nemendur læra og þjálfast í aðferðum skjalfræðilegra rannsókna, heimildaleit í skjalasöfnum og að meta heimildagildi skjala. Nemendur taka þátt í verklegum æfingum sem tengjast námsefni.
Hafðu samband
Þjónustuborð Hugvísindasviðs
s.525 4400 hug@hi.is.
Opið virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.
3. hæð Aðalbyggingar.
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér þjónustuborð á Háskólatorgi.
Fylgstu með Hugvísindasviði

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.