Skip to main content
7. nóvember 2022

Leiðin liggur út í lönd á Alþjóðadögum HÍ

Leiðin liggur út í lönd á Alþjóðadögum HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Stefnumót við fyrrverandi skiptinema og fulltrúa ýmissa sendiráða á svokölluðu Alþjóðatorgi, kynningar á skiptinámi og starfsþjálfun erlendis, karókí og ljósmyndasamkeppni er meðal þess sem verður í boði á hinum árlegu Alþjóðadögum HÍ dagana 8.-11. nóvember. 

Alþjóðadagar hafa fyrir löngu unnið sér sess í haustdagskrá Háskólans en markmið daganna er að vekja athygli á alþjóðlegu samstarfi Háskólans og þeim fjölmörgu tækifærum sem standa nemendum og starfsfólki til boða um allan heim. 

Kynningar á þeim ótal möguleikum á skiptinámi, sem Háskólinn býður upp á, fara fram bæði á meginháskólasvæðinu og í Stakkahlíð og þá gefst einnig færi á að ræða við skiptinema um reynslu þeirra á netfundum. Upplýsingastofa um nám erlendis leiðir nemendur í allan sannleika um hvernig best sé að leita að námi eða starfi erlendis og möguleikar á Erasmus+ ferða- og dvalarstyrkjum utan Evrópu fyrir starfsfólk verða kynntir.

Samhliða Alþjóðadögum fer fram rafræn ráðstefna hjá Aurora-samstarfsnetinu (Aurora Biannual) sem Háskóli Íslands tekur virkan þátt í. Hluti dagskrár verður opinn öllum, en þar má sérstaklega nefna World Café um geðheilbrigðismál þar sem nemendur og starfsfólk tíu háskóla safnast saman og ræða hvernig stuðla megi að bættu geðheilbrigði. 

Flóttamaður frá Úkraínu með tónleika á Alþjóðatorgi

Alþjóðadagar HÍ ná hámarki fimmtudaginn 10. nóvember með svokölluðu Alþjóðatorgi á Háskólatorgi milli kl. 11.30 og 13. Þar geta nemendur rætt við fyrrverandi og núverandi skiptinema, fulltrúa frá sendiráðum fjölmargra ríkja og fjölmörgum íslenskum stofnunum um skiptinám, starfsþjálfun, sumarnám og nám á eigin vegum. Svið og deildir innan HÍ og starfsfólk Alþjóðasviðs verður einnig á staðnum og veitir upplýsingar um námsdvöl erlendis.

Yana Prydhodko, sellóleikari frá Úkraínu og meðlimur í Dnieper Symphony Orchestra, kemur fram á Alþjóðatorgi en hún flúði hingað til lands vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Ingibjörg Helga Steingrímsdóttir spilar undir á píanó. 

Taktu þátt í ljósmyndasamkeppni á Instagram

Nemendum býðst enn fremur að taka þátt í ljósmyndasamkeppni á Instagram í tengslum við Alþjóðadaga. Þema keppninnar er „hápunktur skiptinámsins“ þar sem nemendur geta sent inn myndir úr skiptinámi sínu, bæði hér á landi sem og erlendis. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir bestu og vinsælustu myndina. 

Þá verður einnig nóg um að vera á Stúdentakjallaranum í tengslum við Alþjóðadaga en þar verður bæði boðið upp á karókí fimmtudagskvöldið 10. nóvember og botninn sleginn í Alþjóðadaga með lifandi tónlist föstudaginn 11. nóvember.

Hægt er að kynna sér ríkulega dagskrá Alþjóðadaga á vef Alþjóðasviðs HÍ
 

Þátttakendur á Alþjóðatorgi á Háskólatorgi