Skip to main content
3. nóvember 2020

Alþjóðadagar alfarið á netinu

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á alþjóðasamstarf og ferðalög fólks um heiminn en hann kemur ekki í veg fyrir að Alþjóðadagar verði haldnir með pompi og prakt í Háskóla Íslands dagana 4.-6. nóvember. Í boði verða fjölbreyttir viðburðir á netinu þar sem stúdentar og starfsfólk geta kynnt sér möguleika til náms og starfa í útlöndum á næsta ári, þegar faraldurinn verður vonandi á undanhaldi.

Alþjóðadagar hafa verið haldnir í Háskóla Íslands um árabil og hafa frá upphafi dregið að sér forvitna og ferðaþyrsta stúdenta og starfsfólk. Markmið daganna er að vekja athygli á alþjóðlegu samstarfi Háskólans og þeim fjölmörgu tækifærum sem standa þessum tveimur hópum til boða um allan heim.

Skrifstofa alþjóðasamskipta og alþjóðanefnd Stúdentaráðs slá ekkert af dagskránni í ár þótt faraldur geisi enda hefur það sýnt sig að hann hefur ekki stöðvað för stúdenta um heiminn. Þannig verða um 180 nemendur á vegum Háskóla Íslands í skiptinámi víða um heim í vetur og þá hófu yfir 700  nemendur með erlent ríkisfang nám við Háskóla Íslands í haust, 174 skiptinemar og 543 á eigin vegum.
Dagskrá Alþjóðadaga stendur yfir í þrjá daga og fer alfarið fram á netinu í takt við tilmæli sóttvarnayfirvalda. 

Herlegheitin hefjast á hádegi miðvikudaginn 4. nóvember þegar fulltrúi frá Skrifstofu alþjóðasamskipta fer yfir þá fjölbreytu möguleika sem nemendum í bæði grunn- og framhaldsnámi býðst til starfsþjálfunar eða rannsóknarvinnu í háskólum, fyrirtækjum eða stofnunum í Evrópu. Sama dag fara jafnframt kynningar á Erasmus+ ferða- og dvalarstyrkjum fyrir starfsfólk skólans við erlenda háskóla og möguleikum stúdenta á skiptinámi við þá rúmlega 400 erlendu háskóla sem Háskóli Íslands á í samstarfi við. Það vissara að vanda valið á skóla til skiptináms og þess vegna býðst áhugasömum að spjalla við fyrrverandi skiptinema um hvaðeina sem tengist ferlinu og dvölinni í lok dags bæði 4. og 6. nóvember.

Háskóli Íslands er í eðli sínu alþjóðlegur háskóli og þess vegna verða sams konar kynningar á skiptinámi, ferða- og dvalarstyrkjum og starfsþjálfun erlendis í boði á ensku þann 5. nóvember. Jafnframt fer fram kynning þann dag þátttöku Háskólans í AURORA-samstarfsnetinu og Aurora Alliance verkefninu, en hvort teggja snýst um að efla samstarf evrópskra háskóla og skapa ný tækifæri fyrir starfsfólk og nemendur. Deginum lýkur svo með alþjóðlegu barsvari á netinu á vegum alþjóðanefndar Stúdentaráðs en þar gefst þátttakendum kostur á að sýna fram á hvers konar misgagnlega þekkingu á Íslandi og heiminum sem þeir kunna að búa yfir.

Upplýsingastofa um nám erlendis verður með erindi um nám erlendis á eigin vegum þann 6. nóvember og þann dag gefst nemendum aftur tækifæri á að kynna sér skiptinám.

Áhugasöm ættu ekki að láta Instagram-reikninga Háskóla Íslands (haskoli_islands) og Skrifstofu alþjóðasamskipta (internationalofficeui) fram hjá sér fara þessa daga því þar munu nemendur í skiptinámi og starfsþjálfun erlendis veita innsýn í dvölina og erlendir nemendur við Háskóla Íslands lýsa reynslu sinni af dvölinni hér á landi.

Í tengslum við Alþjóðadaga stendur Skrifstofa alþjóðasamskipta fyrir ljósmyndasamkeppni þar sem nemendum, sem farið hafa í skiptinám eða eru í skiptinámi, gefst kostur á að deila ljósmyndum sem lýsa upplifuninni af skiptinámi vel. Verðlaun verða veitt fyrir flottustu myndirnar og þær verða allar til sýnis á Alþjóðadögum og fram eftir nóvember.

Dagskrá Alþjóðadaga í heild sinni má finna á vef Háskóla Íslands.

Á gátt Alþjóðadaga má enn fremur finna nánari upplýsingar um námsdvöl erlendis og heyra reynslusögur skiptinema.
 

""