Þroskaþjálfafræði til starfsleyfis - Viðbótardiplóma
Þroskaþjálfafræði til starfsleyfis sem þroskaþjálfi
Viðbótardiplóma – 60 einingar
Þroskaþjálfafræði til starfsleyfis er viðbótarnám fyrir þau sem hafa lokið BA-prófi í þroskaþjálfafræði og vilja öðlast starfsréttindi sem þroskaþjálfi. Í kjarnanámskeiðum er lögð áhersla á hagnýta vettvangstengingu og munu nemendur stunda vettvangsnám á starfsviði sem tengist því kjörsviði sem valið er.
Skipulag náms
- Haust
- Inngildandi rannsóknaraðferðir
- Þroskaþjálfar í menntakerfinu
- Mannréttindi í heimi margbreytileikans
- Kynjajafnrétti í skólastarfiV
- Vor
- Vettvangsnám: Tengsl fags og fræða
- Árangursríkur stuðningur og hagnýting matstækja
- Innbyrðing kúgunarV
- Trans börn og samfélagV
- Algild hönnunVE
- Starfstengd leiðsögn og handleiðslaVE
- Óháð misseri
- Bjargráð og stuðningurV
Inngildandi rannsóknaraðferðir (ÞRS104F)
Í námskeiðinu er sjónum beint að þróun rannsókna og rannsóknaraðferða innan gagnrýnna fræða svo sem fötlunar -, hinsegin- og kynjafræði. Athyglin beinist að gagnrýni jaðarsettra hópa á hefðbundnar rannsóknir, en sú gagnrýni á meðal annars rætur sínar að rekja til femínískra fræða. Farið verður yfir með hvaða hætti nýlegar áherslur endurskilgreina valdatengsl milli rannsakanda og þátttakenda. Slíkar rannsóknir byggjast á nánu samstarfi á milli þátttakenda og fræðifólks þar sem byggt er á gagnkvæmri virðingu og þátttöku. Markmið þeirra er að vera umbreytandi og stuðla að valdeflingu þátttakenda í öllu rannsóknarferlinu. Rýnt verður í helstu einkenni, möguleika og takmarkanir slíkra rannsóknarhefða og aðferð, t.d. starfendarannsókna, þátttökurannsókna, samvinnurannsókna, dagbókaskrifa, sögulokaaðferð og spurningalista út frá algildri hönnun, auk þess sem fjölbreyttar samstarfsleiðir verða kynntar. Þá verður sjónum beint að þeim fjölmörgu siðferðilegu áskornunum sem mæta samstarfsaðilum í slíkum rannsóknum. Áhersla verður á að kynna og ræða nýjar rannsóknir og þróunarverkefni á sviðinu.
Þroskaþjálfar í menntakerfinu (ÞRS103F)
Á námskeiðinu er fjallað um hlutverk þroskaþjálfa á ólíkum stigum og sviðum menntakerfis. Hugmyndafræðin um inngildandi menntun verður sett í samhengi við hugmyndir, lykilhugtök og faglegar áherslur þroskaþjálfafræða. Sjónum er beint að leiðtoga- og ráðgjafahlutverk þroskaþjálfa í íslensku menntakerfi, með áherslu á stuðning við virka og fulla þátttöku, teymisvinnu og þverfaglegt samstarf.
Fjallað verður um þróun og framkvæmd stoðþjónustu innan menntakerfis á Íslandi og stuðningshugtakið skoðað frá víðu sjónarhorni með því að líta til allra leiða og aðgerða sem auka hæfni menntastofna og samfélags til að mæta fjölbreytileikanum. Horft verður til þess hvernig hægt sé að virkja umhverfið til stuðnings og gera stuðninginn sjálfbæran.
Mannréttindi í heimi margbreytileikans (ÞRS101F)
Í þessu námskeiði verður fjallað um mannréttindi í víðu samhengi, með áherslu á margbreytileika mannlífsins og þróun inngildandi samfélaga. Fjallað verður um réttindagæsluhlutverk þroskaþjálfa og nemendur takast á við að greina kerfislæga mismunun jaðarhópa út frá ólíkum mismunabreytum. Fjallað verður um geðheilbrigði og áföll með áherslu á tengsl valds og mismununar. Líkanið „vald, ógn og merking“ verður kynnt sem greiningartæki sem unnið getur markvisst gegn innbyggðri kerfislægri mismunun jaðar- og viðkvæmra hópa. Þá verður staða mannréttinda í víðu samhengi rædd og hvernig hægt er að bregðast við gagnrýni á hugmyndina um jöfn grundvallarréttindi til handa öllu fólk í heimi þar sem umræða verður stöðugt skautaðri. Mannréttindahugtakið verður skoðað í sögulegu samhengi og farið yfir lykil mannréttindasamninga og innbyrðis tengingu þeirra. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna verða kynnt með áherslu á hvernig þau tengjast og eru samofin mannréttindum og mannréttindasamningum. Nemendur þjálfast jafnframt í verkefnavinnu við að beita mannréttindasjónarhorni við að greina stöðu ólíkra hópa, svo sem fatlaðs fólks, flóttafólks, kvenna og barna.
Kynjajafnrétti í skólastarfi (KME101F)
Í námskeiðinu verður fjallað um kynjafræði og hvernig helstu hugtök þeirra, svo sem kyn, jafnrétti, kyngervi, kynhlutverk, samtvinnun, hinsegin fræði, kynímynd, staðalmyndir, kynbundið ofbeldi, kynfræðsla, karlmennska og kvenleiki, nýtast til að skilja og skipuleggja skólastarf. Þá verður kynnt löggjöf um kynjajafnrétti og kynjajafnréttisfræðslu og fjallað um tengsl kynjajafnréttis og annars jafnréttis, sbr. aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla. Sérstök áhersla er lögð á að nemendur í námskeiðinu geti greint námsumhverfi, aðferðir og námsefni frá kynjasjónarhorni. Einnig að þeir geti greint val leikja í leikskóla og í frímínútum og skólaíþróttum.
Nemendur þurfa að mæta í lok nóvember til að kynna lokaverkefni sitt í námskeiðinu.
Í námskeiðinu verður gengið verður út frá því grundvallarsjónarmiði sem kemur fram í aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla að menntun um jafnrétti kynjanna feli í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu í því augnamiði að kennarar geti kennt börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra á forsendum kyns.
Námsmat mun felast í lestrardagbókum, hugtakakönnun og hagnýtum verkefnum tengdum skólastarfi á viðkomandi skólastigi. Skyldumæting er í kynningu lokaverkefnis.
Vettvangsnám: Tengsl fags og fræða (ÞRS205F)
Í vettvangsnámi fá nemendur tækifæri til þess að dýpka starfstengda þekkingu á sínu kjörsviði og tengja við fræðilegan og faglegan grunn sem og eigin starfskenningu. Áhersla er lögð á virka þátttöku í öllum þeim þáttum er felast í starfi þroskaþjálfa, þar sem sjónum er beint að réttindagæslu-, ráðgjafar- og leiðtogahlutverki þroskaþjálfa, teymisvinnu, þverfaglegu samstarfi og samráði við notendur þjónustu.
Leiðbeinendur í vettvangsnámi eru þroskaþjálfar sem starfa á kjörsviði nemanda. Leiðbeinendur hafa umsjón með námi og verkefnum nemanda á vettvangi í samstarfi við umsjónarkennara vettvangsnámsins. Nemendur vinna starfstengd verkefni í samræmi við kröfur vettvangsnámsins sem lúta að ábyrgð og skyldum þroskaþjálfa, faglegum og fræðilegum forsendum sem og beinni þátttöku í starfi á völdu sviði. Jafnframt því fá nemendur aðstöðu til að vinna að starfstengdum verkefnum í námskeiðum á sínu kjörsviði sem þeir sækja samhliða vettvangsnámi.
Árangursríkur stuðningur og hagnýting matstækja (ÞRS206F)
Í þessu námskeiði er fjallað um árangursríkan stuðning við félags- og tilfinningafærni (e. social-emotional learning) nemenda á ýmsum aldri, bæði í hópum og á einstaklingsgrundvelli, með áherslu á hlutverk þroskaþjálfa, inngildandi samfélag og mannréttindi. Fjallað verður á gagnrýninn hátt um styrk- og veikleika ýmissa aðferða í stuðningi við félags- og tilfinningafærni, með hliðsjón af stöðu rannsókna á þessu sviði. Einnig er fjallað um undirstöðuatriði matstækja, styrkleika og takmarkanir matstækja sem nýtt eru hérlendis, túlkun matsniðurstaðna og hagnýtingu þeirra í störfum þroskaþjálfa á vettvangi.
Nemendur sækja námskeiðið samhliða námskeiðinu ÞRS205F Vettvangsnám: tengsl fags og fræða. Áhersla á er að verkefni námskeiðsins séu vettvangstengd og hagnýt. Starfandi þroskaþjálfar sem eru skráðir í 30e viðbótardiplómu eða meistaranám í þroskaþjálfafræðum geta unnið verkefnin á eigin vinnustað.
Innbyrðing kúgunar (ÞRS003M)
Kúgun minnihlutahópa er málefni sem félagsvísindi hafa skoðað töluvert síðustu áratugina en styttra er síðan farið var að rannsaka sálfræðileg áhrif kúgunar sem birtist oft í innbyrðingu kúgunarinnar. Í þessu námskeiði verða nemendum kynntar gagnrýnar kenningar sprottnar upp úr síð-nýlendu sálfræði. Farið verður bæði í það hvernig kúgun er innbyrt en einnig verður varpað ljósi á innbyrðingu kúgunar ákveðinna hópa, t.d. fatlaðra, innflytjenda og hinsegin fólks. Þekking samfélagsins á sálrænum áhrifum innbyrðingar þessara hópa er mikilvæg og þegar fagfólk starfar á vettvangi er þýðingarmikið bregðast rétt við birtingarmyndum innbyrðingar og reyna að draga úr neikvæðum áhrifum hennar eins og hægt er.
Trans börn og samfélag (UME204M)
Markmið:
Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum og rannsóknum í fræðum sem koma inn á veruleika og upplifanir trans fólks (trans fræði). Einnig verða meginhugmyndir gagnrýnna bernskufræða kynntar. Áhersla verður lögð á að þátttakendur verði meðvitaðir um veruleika trans ungmenna og trans barna og samfélagslega orðræðu um málaflokkinn.
Viðfangsefni:
Unnið verður meðal annars með hugtökin kyngervi, kynjatvíhyggja, kynsegin, kynvitund, samtvinnun, trans* hugtakið, síshyggja, umhyggja, barnavernd og réttindi barna. Fjallað verður um megininntak transfræða/hinseginfræða og hvernig hægt er að nýta sér þá nálgun til varpa ljósi á uppeldi, menntun, samfélag, tómstunda- og félagsstarf og íþróttir. Nálgunin verður í anda gagnrýnna trans- og bernskufræða og félagslegrar mótunarhyggju. Enn fremur verður fjallað um skólakerfi og aðrar stofnanir, hérlendis og erlendis, og hvernig margs konar mismunun skapast og viðhelst og getur ýtt undir stofnanabundna transfóbíu og síshyggju. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendar rannsóknir í tengslum við efnið. Þá verður lögð áhersla á að þjálfa verðandi uppeldis- og menntunarfræðinga, þroskaþjálfa, foreldrafræðara, kennara, tómstunda- og félagsmálafræðinga, stjórnendur og annað fagfólk til að skapa hinsegin/trans vænt andrúmsloft í viðeigandi hópum sem unnið er með.
Algild hönnun (ÞRS002M)
Námskeiðið er bæði fræðilegt og hagnýtt. Hugmyndafræði algildrar hönnunar verður rædd út frá sjónarhornum jafnréttis, fötlunarfræða og hönnunar. Skoðuð verða tengsl við aðstæðubundið sjálfræði, inngildandi menntun og heilsu. Sjónum verður beint að ólíkum leiðum til að ná markmiðum algildrar hönnunar og það skoðað í samhengi við hugtökin viðeigandi aðlögun og viðeigandi stuðningur.
Nemendur kynnast útfærslum og lausnum í anda algildrar hönnunar á ólíkum sviðum og fá tækifæri til að hanna umhverfi og móta algildar leiðir til þátttöku á völdu sviði.
Námskeiðið er skipulagt út frá hugmyndum algildrar hönnunar í námi. Lagt er upp með að nemendur öðlist þannig hagnýta þekkingu og færni í því að skipuleggja námsumhverfi, kennslu, fræðslu og upplýsingamiðlun á algildan hátt ásamt reynslu af því að læra í slíku námsumhverfi.
Starfstengd leiðsögn og handleiðsla (ÞRS004M)
Námskeiðið skiptist í þrjá meginefnisþætti. Í fyrsta lagi umfjöllun um starfstengda leiðsögn í vettvangsnámi og við nýliða í starfi. Í öðru lagi umfjöllun um lykilþætti sem nýtast nemendum og fagfólki við að njóta leiðsagnar og handleiðslu við eigin fagþróun. Í þriðja lagi er fjallað um eðli og framkvæmd handleiðslu og þau líkön sem þar er gagnlegt að þekkja.
Meginmarkmið námskeiðsins er að efla skilning nemenda á gildi þess að nýta og njóta lærdómssamfélags og stuðnings við eigin fagþróun undir leiðsögn á námsárum og sérhæfðri faghandleiðslu á öllum stigum starfsferils. Einnig öðlist nemendur dýpri skilning á tengslum streitu, starfsþreytu og starfsþrots og verndandi hlutverki starfstengdrar leiðsagnar og handleiðslu þar að lútandi. Á námskeiðinu fá nemendur í hendur verkfæri til aukinnar sjálfsþekkingar, verndar og viðbragðsfærni í starfi.
Bjargráð og stuðningur (ÞRS006M)
Í þessu námskeiði er fjallað um undirstöðuatriði Bjargráðakerfisins Bjargar, sem byggist á gagnreyndum aðferðum, með sérstakri áherslu á fatlað fólk og aðra jaðarsetta notendahópa. Farið verður yfir leiðir til að efla færni í núvitund, streituþoli, tilfinningastjórn og samskiptum. Markmiðið er að nemendur tileinki sér þekkingu á aðferðunum, leikni í að beita þeim í eigin lífi og starfi og geti stutt notendur við að tileinka sér aðferðirnar. Ætlast er til að nemendur beiti þessum aðferðum í starfi og nýti sér handleiðslu kennara meðan á námskeiði stendur.
Hafðu samband
Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
1. hæð, Stakkahlíð – Enni
s. 525 5950 mvs@hi.is
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Fylgstu með Menntavísindasviði
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.