Skip to main content

Kennsla félagsfræði, mannfræði og þjóðfræði, MT

Kennsla félagsfræði, mannfræði og þjóðfræði, MT

Þverfræðilegt framhaldsnám

Kennsla félagsfræði, mannfræði og þjóðfræði

MT gráða – 120 einingar

Viltu læra að kenna þitt fag og fá starfstéttindi sem framhaldsskólakennari? Þessi námsleið er sniðin að nemendum sem hafa lokið grunnnámi í háskóla úr félagsfræði, mannfræði eða þjóðfræði. 

MT nám felur það í sér að nemandi getur tekið kennslufræðitengd námskeið í stað þess að skrifa 30 eininga rannsóknarritgerð.

Skipulag náms

X

Kennsla samfélagsgreina og vettvangsnám 1 (SFG105F)

Nemendur kynnast kennsluaðferðum, verkefnagerð og námsmati í samfélagsgreinum og nokkrum greinum hugvísinda, að frátöldum íslensku og námi í erlendum tungumálum, og eru þjálfaðir í að ígrunda eigin afstöðu til náms og kennslu. Verkefni í námskeiðinu eru samþætt vettvangsnámi. Lögð er áhersla á mikilvægi ígrundunar fyrir verðandi kennara. Því er gert ráð fyrir að þátttakendur ígrundi, þrói og dýpki hugmyndir sínar um nám og kennslu í samfélagsgreinum og verði þannig betur í stakk búnir til að kenna sínar greinar og til þess að halda áfram að þróast sem kennarar.

Innan námskeiðsins kynnast nemendur umgjörð og innra starfi skóla. Auk þess fá nemendur nokkra þjálfun í kennslu sinnar greinar. Starfsþjálfun fer fram í framhaldsskólum með megináherslu á faggreinakennslu og tekur mið af starfstíma framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir umtalsverðri viðveru nemenda í skólum. Starfsþjálfun er skipulögð í samstarfi við valda skóla og felst m.a. í þátttöku í almennu skólastarfi, aðstoð við kennslu og æfingakennslu. Starfsþjálfun á haustmisseri er tengd námskeiðinu Inngangi að kennslufræði og skal þetta námskeið því tekið samhliða því.

X

Inngangur að kennslufræði (KEN104F)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist innsýn inn í íslenskar og alþjóðlegar rannsóknir og kenningar á sviði skólastarfs. Meginviðfangsefni námskeiðs eru kenningar um og rannsóknir á námi, samskiptum og kennsluháttum. Einnig eru kenningar um og rannsóknir á starfi og fagmennsku kennara, svo og lagaákvæði, siðareglur og þess háttar, meðal meginviðfangsefna námskeiðsins.

Við val viðfangsefna og skipulag námskeiðsins er tekið mið af því að meginstarfsvettvangur þeirra sem taka námskeiðið verður í framhaldsskóla.

X

Kennsla samfélagsgreina og vettvangsnám 2 (SFG206F)

Nemendur kynnast kennsluaðferðum, verkefnagerð og námsmati í samfélagsgreinum og nokkrum greinum hugvísinda, að frátöldum íslensku og námi í erlendum tungumálum, og eru þjálfaðir í að ígrunda eigin afstöðu til náms og kennslu. Verkefni í námskeiðinu eru samþætt vettvangsnámi. Lögð er áhersla á mikilvægi ígrundunar fyrir verðandi kennara. Því er gert ráð fyrir að þátttakendur ígrundi, þrói og dýpki hugmyndir sínar um nám og kennslu í samfélagsgreinum og verði þannig betur í stakk búnir til að kenna sínar greinar og til þess að halda áfram að þróast sem kennarar.

Innan námskeiðsins kynnast nemendur umgjörð og innra starfi skóla. Auk þess fá nemendur nokkra þjálfun í kennslu sinnar greinar. Starfsþjálfun fer fram í framhaldsskólum með megináherslu á faggreinakennslu og tekur mið af starfstíma framhaldsskóla. Gert er ráð fyrir umtalsverðri viðveru nemenda í skólum. Starfsþjálfun er skipulögð í samstarfi við valda skóla og felst m.a. í þátttöku í almennu skólastarfi, aðstoð við kennslu og æfingakennslu.

Starfsþjálfun á vormisseri er tengd námskeiðinu Námskrá og skólaþróun í framhaldsskólum og skal þetta námskeið því tekið samhliða því.

X

Námskrá og skólaþróun í framhaldsskólum (KEN213F)

Í námskeiðinu er fjallað um námskrárfræði og menntastefnu með áherslu á námskrár, nemendur og þróunarstarf í framhaldsskólum.

Viðfangsefnum í námskeiðinu er ætlað að þjálfa fagmannlegt verklag við mótun menntastefnu, námskrárgerð og skólaþróun í framhaldsskólum á Íslandi. 

X

Mentor í Spretti (GKY001M)

Í námskeiðinu felast verkefni nemenda í  að vera mentor fyrir þátttakendur á framhalds- og háskólastigi í verkefninu „Sprettur”. Mentorar sinna því mikilvæga starfi að styðja og hvetja ungmenni í námi og félagslífi. Hlutverk mentora er að skapa uppbyggjandi samband við þátttakendur, vera jákvæð fyrirmynd og taka þátt í sameiginlegum viðburðum skipulögðum í Spretti. Mentorhlutverkið snýst um tengslamyndun og samveru sem felur í sér skuldbindingu gagnvart ungmennunum sem mentor styður.  

Sprettur er verkefni sem styður við nemendur með innflytjenda- eða flóttamannabakgrunn sem koma úr fjölskyldum þar sem fáir eða engir hafa háskólamenntun.  Nemendur í námskeiðinu eru mentorar þátttakenda og eru þeir tengdir saman með hliðsjón af sameiginlegu áhugasviði. Hver mentor ber ábyrgð á að styðja tvo þátttakendur. Mentorar skipuleggja samveru og verja þremur klukkustundum á mánuði (frá ágúst fram í maí) með þátttakendum í Spretti, þremur klukkustundum í mánuði í heimavinnuhópi og mæta í fimm málstofur sem dreifast yfir skólaárið. Nemendur skila dagbókarfærslum á Canvas í nóvember og mars. Dagbókarfærslur byggjast á lesefni og hugleiðingum nemenda um mentorstarfið. Námskeiðið er kennt á íslensku og ensku.  

 Nemendur sækja um þátttöku á námskeiðinu. Sjá rafrænt umsóknareyðublað.  Umsækjendur fara í viðtal og eru 15-30 nemendur valdir til þátttöku.   

Frekari upplýsingar um verkefnið „Sprettur” má nálgast hér: www.hi.is/sprettur 

X

Kenningar í félags- og mannvísindum (FMÞ102F)

Námskeiðið fjallar um nýleg verk og stefnur sem valdið hafa, eða eru líkleg til að valda, straumhvörfum í félags- og mannvísindalegri hugsun. Áhersla er lögð á samfélagslegt og sögulegt samhengi kenninganna. Kennsla fer fram í fyrirlestrum og umræðum. Skyldumæting er í umræðutíma einu sinni í viku í 40 mínútur. Fjarnemar geta mætt í kennslustofu eða tekið þátt í gegnum Internetið (með Zoom). 

X

Sjálfið mætir samfélaginu: Félagssálfræði hversdagslífsins (FÉL701F)

Hversdagslíf okkar getur sýnst leiðinlega venjubundið og fyrirsjáanlegt. Félagssálfræðin sýnir þó að um er að ræða spennandi og fjölbreytilegt fyrirbæri sem hvílir á flóknu samspili einstaklingsbundinna þátta og samfélagslegra formgerða. Í þessu námskeiði verða kenningar og rannsóknir félagssálfræðinga nýttar til að varpa ljósi á það sem dylst að baki glitri hins sjálfgefna. Farið verður frá því sem öllum er opinbert til þess sem við dyljum og felum, skoðað það sem auglýsendur, sölufólk og áhrifavaldar gera til að sveigja okkur og beygja og skoðað að hve miklu leyti breytur á borð við kyn, stétt og þjóðerni stjórna því hvað við sjáum, hvernig við sjáum og hvernig framkoma okkar og viðbrögð við áreiti hversdaglífsins eru.

Lagt er upp með að nemendur vinni fjölbreytileg smærri verkefni í tengslum við umfjöllunarefni námskeiðsins, ýmist einir eða í hóp. Þó svo félagssálfræði nýti bæði eigindlegar og megindlegar aðferðir verður áherslan á eigindlegar aðferðir í verkefnum nemenda svo sem myndgreining, samtalsgreining og þátttökuathuganir.

X

Kenningar og sjónarhorn í fötlunarfræði (FFR102F)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu á þróun hugmynda og kenninga um fötlun og fái innsýn í fræðilega umfjöllun og rannsóknir á því sviði. Lögð er áhersla á þróun fötlunarfræða sem þverfræðilegrar og gagnrýnnar fræðigreinar með náin tengsl við réttindabaráttu fatlaðs fólks. Fjallað verður um margbreytileg félagsleg og menningarleg sjónarhorn og kenningar fræðigreinarinnar. Sérstök áhersla verður á þá hugmyndafræði sem legið hefur til grundvallar stefnumótunar og þjónustu við fatlað fólk undanfarna áratugi, þ.e.; 1) hugmyndafræði um “eðlilegt líf” normaliseringu, 2) hugmyndafræði um “sjálfstætt líf” independent living og 3) mannréttindasjónarmið. Jafnframt verður fjallað um tengsl hugmyndafræðinnar við daglegt líf fatlaðs fólks. 

X

Upplýsingafræði og miðlun í samfélagi margbreytileikans (UPP109F)

Í námskeiðinu verður fjallað um sígild viðfangsefni og kynntir helstu straumar og stefnur á sviði upplýsingafræði.  Áhersla verður lögð á að fjalla um fræðilegar skilgreiningar, kenningar og líkön varðandi upplýsingahegðun og upplýsinga- og miðlalæsi, sem og áhrifaþætti við öflun og miðlun upplýsinga og þekkingar. Fjallað verður um eðli og einkenni upplýsinga og þekkingar. Gerð verður grein fyrir þróun rannsókna á sviðinu og hugsanlegri hagnýtingu slíkra rannsókna á starfsvettvangi. Fjallað verður um skilgreiningar og kenningar um upplýsinga- og miðlalæsi. Einnig verður fjallað um upplýsingahegðun út frá mismunandi samfélagshópum og gerð grein fyrir hugtökum og kenningalegri nálgun á því sviði, svo sem upplýsingaþörf , upplýsingasvæði, hindranir við upplýsingaöflun, upplýsingafátækt, hliðvarsla, lögmálið um minnsta fyrirhöfn og mismunandi form upplýsingaleitar.

X

Lífshlaupið, sjálf og samfélag (FFR302M)

Aðstæður og reynsla fatlaðs fólks er miðlæg í umfjöllun námskeiðsins, þar sem áhersla er á lífshlaupið og þau meginsvið sem snerta daglegt líf, svo sem fjölskyldulíf, menntun, atvinnu og búsetu. Rýnt verður í íslenskar og erlendar rannsóknir um líf og aðstæður fatlaðs fólk og þau fjölmörgu öfl sem móta sjálfsmynd og sjálfsskilning fatlaðra barna, ungmenna og fullorðins fólks. Fræðileg umfjöllun námskeiðsins er tengd við lagasetningar, stefnumótun, þjónustu, velferðarkerfi og félagslegar aðstæður fatlaðs fólks. 

X

Afbrot og frávikshegðun (FÉL0A1F)

Í námskeiðinu verður farið ítarlega í helstu kenningar í afbrotafræði og félagsfræði frávika. Nemendur munu lesa rannsóknagreinar þar sem kenningarnar eru prófaðar, bæði á Íslandi og erlendis.

Fjallað verður um mismunandi brota- og efnisflokka í félags- og afbrotafræðilegu ljósi, t.d. kyn og afbrot, búferlaflutninga og afbrot.

Áhersla er lögð á nemendur tengi saman kenningarlega umræðu og fyrirliggjandi rannsóknir.   

X

Hnattræn heilsa (MAN0A3F)

Í námskeiðinu verður farið yfir helstu forgangsverkefni á fræðasviði hnattrænnar heilsu (e. global health). Fjallað verður um mismunandi sjúkdómsbyrði landa, ójöfnuð og helstu félags- og efnahagslegu áhrifaþætti á líf og heilsu fólks í hnattvæddum heimi. Sérstök áhersla verður á að skoða heilsu mæðra, nýbura, barna og ungs fólks frá hnattrænu sjónarhorni og uppbyggingu heilbrigðiskerfa til að veita góða og tímanlega þjónustu. Jafnframt verður fjallað um áskoranir í næringu þjóða og geðheilbrigði og forvarnir og samfélagslega þýðingu sýkinga eins og malaríu, berkla, HIV/AIDS, kóleru, Ebólu og COVID-19. Þá verður fjallað um áhrif umhverfis, ofbeldis, menningar, neyðarástands og starf alþjóðlegra stofnana og þróunarsamvinnu, Heimsmarkmiðin og siðfræðileg álitamál.

Vinsamlega athugið að ef þörf krefur vegna þátttöku erlendra nemenda þá verður námskeiðið kennt á ensku.

X

Hnattvæðing (MAN095F)

Í námskeiðinu verða skoðaðar nýlegar kenningar og rannsóknir sem tengjast hnattvæðingu og hnattrænum ferlum. Markmið námskeiðsins er að gefa nemendum yfirsýn yfir mikilvæg þemu sem tengjast hnattvæðingarferlum.  Skoðaðar verða rannsóknir sem varpa ljósi á ólíkar hliðar hnattvæðingar og afleiðingar fyrir félagslegan, efnislegan og pólitískan veruleika. Í námskeiðinu er bæði fjallað á gagnrýnin hátt um fyrrnefnd hugtök en einnig lögð áhersla á að skoða rannsóknir á hvernig fólk er þátttakendur/þolendur/gerendur í hnattvæðingarferlum.

Kennslan felst í fyrirlestrum og umræðum. 

Námskeiðið verður kennt á ensku

X

Þróunarsamvinna: Stefnur og stofnanir. Lesnámskeið. (MAN018F)

Fjallað verður um ágreining um þróunarsamvinnu. Þá verða kynntar mismunandi leiðir til þróunaraðstoðar, styrk þeirra og veikleika. Til umfjöllunar verða fjölþjóðastofnanir, tvíhliða stofnanir, frjáls félagasamtök, nýir þróunaraðilar og viðskipti. Nálganir sem ræddar verða eru m.a. verkefnanálgun, geiranálgun, árangursmiðuð stjórnun, þátttökunálgun og  samþætting. Einnig verður fjallað um auðlindir og umhverfismál. Loks verður rætt um þróunarsamvinnu í óstöðugum ríkjum og neyðraðstoð.

Athugið: Námskeiðið er einungis ætlað nemendum í diplómanámi í þróunarfræði og hnattrænni heilsu.

X

Umhverfismannfræði (MAN509M)

Námskeiðið fjallar um rannsóknir mannfræðinnar og annarra fræðigreina félags- og mannvísinda á náttúru, umhverfi og tengslum manneskjunnar og umhverfis hennar. Ýmis grunnhugtök og fræðilegar hugmyndir sem umhverfismannfræðin og skyldar greinar nota verða kynnt og rædd.

Gerð er grein fyrir ýmsum tilraunum til að varpa ljósi á tilurð og einkenni ýmissa menningarstofnana og félagslegra ferla með skírskotun til vistkerfa og efnislegra skilyrða sem forsendu tilvistar þeirra. Þá verður vikið að gagnrýni sem þessi sjónarmið hafa sætt. 

Sérstaklega verður vikið að þeim nýju viðhorfum sem skapast hafa í umhverfismálum á síðustu árum, meðal annars hvað varðar auðlindanýtingu af ýmsu tagi og umhverfishyggju.

Síðast en ekki síst verður farið yfir ýmsa snertifleti loftslagsbreytinga og samfélaga víða um heim. Loftslag, loftslagsbreytingar og samfélög og menning verða einnig skoðuð í sögulegu ljósi, út frá ýmsum kenningum sem hafa komið fram um samband þeirra og gagnkvæm áhrif.

Nokkur etnógrafísk dæmi um samspil manns og umhverfis eru höfð til hliðsjónar í námskeiðinu. 

X

Mannskepnur og önnur dýr (ÞJÓ110F)

Kennsla fer fram með fyrirlestrum, umræðu, rafrænum fyrirlestrum og vettvangsferðum í náttúru og á söfn.

Samskipti manneskjunnar við önnur dýr er viðfangsefni þessa námskeiðs sem við nálgumst frá bæði fræðilegum og listrænum sjónarhornum. Nemendur vinna sjálfstæð verkefni, um dýr að eigin vali, þar sem áhersla er einnig lögð á sjónræna framsetningu - t.d. teikningar eða ljósmyndir.  Í fyrirlestrum verður m.a. fjallað um hvítabirni, hvali, geirfugla og lunda og nýlegar rannsóknir á þeim.  Fjallað verður um áhrifavald og ólíkar birtingarmyndir dýra í margvíslegu listrænu og menningarlegu samhengi, til dæmis í fornbókmenntum, þjóðsögum, munnmælum, kvikmyndum, fréttum, efnismenningu og ferðamennsku. Þá verður til dæmis hugað að „framhaldslífi“ dýra í formi listmuna, safngripa og minjagripa. Við munum skoða gripi í einkaeigu og á opinberum vettvangi og spyrja spurninga á borð við: hvað gerist þegar lifandi dýri er breytt í safngrip? Hvernig þróast og breytist merking dýrsins í ólíku samhengi? Hvernig mótast hugmyndir okkar um dýr? Tekist verður á við hlutverk ólíkra dýra í þekkingasköpun og mótun orðræðu um loftslagsmál og málefni norðurslóða, tengsl við ákveðin landsvæði og menningarhópa og hlutverk þeirra í ímynda- og sjálfsmyndasköpun bæði fortíðar og samtíma.  Stigið verður út fyrir hefðbundna ramma sem snúa að aðgreiningu manna/dýra og annarra lífvera um leið og við könnum samtvinnaða hugmynda- og vistheima þeirra.

Markmið

Markmið námskeiðs er að velta upp áríðandi spurningum og málefnum er snúa að sambúð fólks og dýra, loftlagsbreytingum, útrýmingu dýrategunda og sjálfbærni. Við munum íhuga hvernig listamenn, rannsakendur, aðgerðasinnar og söfn hafa tekið þátt í umræðu um þessi málefni og hvernig hægt sé að þróa umræðuna áfram. Við munum skoða hvernig mismunandi lista- og menningarminjasöfn miðla hugmyndum og upplýsingum um samband manna og dýra í gegnum safneign sína og sýningar. Nemendur eru hvattir til að nálgast, með gagnrýnum hætti, sjónrænt efni, muni, gripi og texta, bæði rafrænt en einnig með heimsóknum á söfn og sýningar. 

X

Hagnýt þjóðfræði (ÞJÓ304M)

Fjallað verður um hagnýtingu þjóðfræðilegrar þekkingar og hvernig aðferðir og vinnubrögð þjóðfræðinnar geta komið að notum til að breikka og dýpka umræðu og opnað leiðir til að hafa jákvæð samfélagsleg áhrif. Fjallað verður um tengsl þjóðfræði við ferðaþjónustu, safnastarf, listir og margvíslega miðlun þjóðfræðiefnis. Rætt verður um gagnasöfn tengd þjóðfræði á Íslandi og möguleika á hagnýtingu þeirra. Skoðað hvernig nýta má sögulegt efni, viðtöl og vettvangsrannsóknir, og setja niðurstöður fram, svo sem með sýningum, hátíðum og viðburðum, blaðaskrifum, bókaútgáfu, vefútgáfu, útvarpsþáttagerð og gerð  heimildamynda. Ólíkar aðferðir til að ná til ólíkra markhópa verða ræddar og hvernig miðla má efni til breiðra hópa gesta, lesenda, hlustenda eða áhorfenda. Siðferðileg, efnahagsleg, menningarleg og pólitísk álitamál við hagnýta þjóðfræði tekin til umfjöllunar.

Námskeiðið verður að hluta lotukennt, 3 daga í þriðju kennsluviku í Reykjavík og 4 daga í verkefnavikunni á Hólmavík á Ströndum. Nemendur vinna verkefni tengd hagnýtri þjóðfræði, en ekkert lokapróf er í áfanganum.

X

Söfn sem námsvettvangur (SAF016F)

Einn megintilgangur safna á Íslandi er að skila menningar- og náttúruarfi landsins til komandi kynslóða og stuðla að aukinni þekkingu á þessari arfleifð og skilningi á tengslum hennar við umheiminn. Ætlast er til þess (samkvæmt safnalögum) að söfn reyni að „auka lífsgæði manna“ með því að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista náttúru eða vísinda. Söfn og safnfræðsla geta því haft áhrif á samfélag, hópa og einstaklinga. Safnafræði getur komið hér að liði og er megin viðfangsefni námskeiðsins. Kynntar verða fræðilegar kenningar sem hafa að markmiði að stuðla að fjölbreyttri og áhrifamikilli fræðslu tengdri fornleifum, list, náttúruvísindum, menningarlegri arfleifð og öðrum viðfangsefnum safna. Hugað verður að fjölbreyttum markhópum safnfræðslu, hlutverki safngesta innan safna, rými, textagerð, margmiðlun, gagnvirkni og fleira.

Þetta er fjarkennslunámskeið sem skiptist í þrjár lotur. Í hverri lotu eru ör-fyrirlestrar frá kennara með hugleiðingum um námsefnið, gesta-fyrirlestrar (stafrænir) og aukaefni. Þrjár stað og/eða ZOOMlotur eru yfir önnina, þar sem nemendur fá fyrirlestra frá starfsmönnum safna og vinna að fræðsluverkefni í samstarfi við safn í Reykjavík. Verkefnið verður þróað út frá fræðilegum áhuga nemenda undir handleiðslu kennara og með aðstoð starfsmanna safnsins.

X

Viðfangsefni í samfélagsgreinamenntun (SFG107F)

Viðfangsefni: Fjallað verður um valin viðfangsefni tengd samfélagsgreinamenntun, þ.e. innan landafræði, lífsleikni, siðfræði, sögu, heimspeki, trúarbragðafræði eða þjóðfélagsfræði. Skoðaðar verða kenningar og rökræður um viðfangsefni, hugtök og nálganir á þessu sviði í kennslu og skólastarfi með það fyrir augum að nemendur geti nýtt sér umræðuna til að dýpka sýn sína á samfélagsgreinamenntun. Áhersla er lögð á þverfaglega nálgun í samfélagsgreinakennslu um leið og nemendum gefst kostur á að skoða betur þær greinar og viðfangsefni sem höfða mest til þeirra.

Vinnulag: Námskeiðið byggist á lestri fræðilegra texta og umræðum um þá. Gert er ráð fyrir að nemendur kynni sér þá og taki svo þátt í umræðum. Umræðutímarnir verða ekki teknir upp en þeir sem ekki komast í umræðutíma geta uppfyllt þátttökuskyldu með því að skila þátttökubloggi. Einnig eru reglulega unnin rökræðuverkefni. Þá kynna nemendur efni á málþingi og skrifa lokaverkefni.

X

Ólík sjónarhorn á íslenska miðaldasögu (SFG103M)

Viðfangsefni: Í námskeiðinu verður fjallað um stóra drætti í íslenskri miðaldasögu, svo sem fólksflutninga, upphaf fastrar búsetu, átök trúarbragða, stéttaskiptingu, borgarastríð á Sturlungaöld og samskipti og tengsl við aðrar þjóðir. Meðal annars verður beitt sjónarhornum félagssögu, kynjasögu og umhverfissögu og nemendur þjálfaðir í beitingu sögulegrar hugsunar og rökfærslu, jafnt við eigin lestur sem og í samfélagsgreinakennslu. Áhersla verður lögð á að vinna með frumheimildir af margvíslegu tagi, sérstaklega í kennslu sögu og samfélagsgreina, en leiðarstef námskeiðsins er hvernig hægt sé að kenna efnið í grunn- og framhaldsskólum.

Vinnulag: Upptökur af fyrirlestrum sem nemendur kynna sér utan kennslustunda, vinnusmiðjur, vettvangsferðir, skapandi málstofur, sjálfstæð verkefni og samvinnuverkefni.

X

Söfn sem námsvettvangur (SAF016F)

Einn megintilgangur safna á Íslandi er að skila menningar- og náttúruarfi landsins til komandi kynslóða og stuðla að aukinni þekkingu á þessari arfleifð og skilningi á tengslum hennar við umheiminn. Ætlast er til þess (samkvæmt safnalögum) að söfn reyni að „auka lífsgæði manna“ með því að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista náttúru eða vísinda. Söfn og safnfræðsla geta því haft áhrif á samfélag, hópa og einstaklinga. Safnafræði getur komið hér að liði og er megin viðfangsefni námskeiðsins. Kynntar verða fræðilegar kenningar sem hafa að markmiði að stuðla að fjölbreyttri og áhrifamikilli fræðslu tengdri fornleifum, list, náttúruvísindum, menningarlegri arfleifð og öðrum viðfangsefnum safna. Hugað verður að fjölbreyttum markhópum safnfræðslu, hlutverki safngesta innan safna, rými, textagerð, margmiðlun, gagnvirkni og fleira.

Þetta er fjarkennslunámskeið sem skiptist í þrjár lotur. Í hverri lotu eru ör-fyrirlestrar frá kennara með hugleiðingum um námsefnið, gesta-fyrirlestrar (stafrænir) og aukaefni. Þrjár stað og/eða ZOOMlotur eru yfir önnina, þar sem nemendur fá fyrirlestra frá starfsmönnum safna og vinna að fræðsluverkefni í samstarfi við safn í Reykjavík. Verkefnið verður þróað út frá fræðilegum áhuga nemenda undir handleiðslu kennara og með aðstoð starfsmanna safnsins.

X

Upplýsingatækni í menntun og skólaþróun (SNU007F)

Í námskeiðinu er fjallað um:

  • áhrif upplýsingatækni á menntun og skólastarf
  • námskrá og stefnumótun á sviði upplýsingatækni í skólastarfi
  • hugtök, kenningar og rannsóknir sem tengjast notkun upplýsingatækni í námi og kennslu
  • innleiðingu tölva og upplýsingatækni í skólastarf
  • kennsluhætti, símenntun kennara, hugbúnað og stafrænt námsefni
  • stafræna hæfni nemenda og kennara og læsi á upplýsingar, miðla, tölvur og tækni
  • hlutdeild upplýsingatækni í lífi fólks innan og utan skóla

Vinnulag:
Lestur og umræða um námskrá og stefnu, fræði, nýjar rannsóknir og athuganir á vettvangi. Þátttakendur vinna einir eða í smærri hópum að efnissöfnun og kynningum á efni sem tengist áhugasviði þeirra. Þeir miðla hugmyndum sínum og reynslu af notkun upplýsingatækni í námi og kennslu og leggja sitt af mörkum við að byggja upp öflugt náms- og fagsamfélag.

X

Þróunarstarf í menntastofnunum (STM110F)

Markmið þessa námskeiðs er að þátttakendur öðlist hagnýta og fræðilega þekkingu á einkennum þróunarstarfs og þáttum í menningu menntastofnana sem stuðla að umbótum eða hindra þær. Jafnframt öðlist þeir leikni í að skipuleggja og leiða þróunarstarf, starfsþróunartækifæri og móta þróunaráætlanir. Byggt er á kenningum um faglegt lærdómssamfélag sem gerir ráð fyrir að faglegt nám og þróun stofununar séu nátengd.

Í lok námskeiðsins eiga nemendur að:

  • hafa skilning á helstu hugtökum og kenningum um þróun menntastofnana og skóla sem og frístundastofnana sem lærdómssamfélags,
  • geta tekið faglegar ákvarðanir um leiðir í starfs og skólaþróun sem og þróun frístundastofnana og rökstutt þær,
  • geta aflað fjölbreyttra gagna um þróunarstarf og metið gildi þeirra,
  • geta beitt hugtökum, kenningum, líkönum og aðferðum á raunveruleg viðfangsefni,
  • geta átt frumkvæði og haft forystu um rannsóknar- og þróunarverkefni í mennta- og frístundastofnunum til að efla fagmennsku,
  • geta greint leiðir til að efla kennara og starfsfólk frístundastarfi í með þátttöku alls samfélagasins.

Námskeiðið er skipulagt í lotum með fjarnámssniði, staðlotur (skyldumæting er í fyrri staðlotu) eru tvær auk kynninga á lokaverkefnum. Þess á milli fer fram lestur fræðilegs efnis, verkefnavinna og samræður þátttakenda. Auk þess býðst nemendum að taka þátt í umræðutímum um viðfangsefnin. Verkefni námskeiðsins eru hagnýt og tengjast þróunarstarfi og leiðsögn við raunverulegar aðstæður. Lögð er áhersla á samræðu og samstarf nemenda samhliða sjálfstæði í vinnubrögðum og frumkvæði auk virkni í umræðum og lestri fræðilegs efnis.

Námsmat byggir á fjölbreyttum verkefnum sem ýmist eru unnin í samvinnu við aðra eða eru einstaklingsverkefni. 

X

Mótandi afl: Menntun, réttlæti og gagnrýnin fræði (SFG102M)

Viðfangsefni: Í námskeiðinu er fjallað um samspil samfélagsgreina við samfélög sín, með áherslu á Ísland. Markmiðið námskeiðsins er að nemendur öðlast þjálfun í að ígrunda hvernig þeirra kennsla á þátt í að móta viðtekin samfélagsleg viðmið og hugmyndafræði. Einnig hvernig kennarar geti gripið inn í og hafa áhrif á mótunarferlið í anda félagslegs réttlætis.

Inntak: Nemendur öðlast skilning á því hvernig greinarnar höfðu grundvallaráhrif á hugmyndafræði þjóðernishyggju og heimsvaldastefnu á 19. öld og hvernig arfleifð þessara hugmyndastefna birtist okkur í samtímanum. Því næst er athyglinni beint að völdum flóknum viðfangsefnum úr samtímanum og um leið fjallað um hvernig og hvort samfélagsgreinar geti eða eigi að hafa áhrif á samfélög í samtímanum. Nemendur kynnast fræðilegum viðfangsefnum gagnrýnna fræða, sér í lagi viðfangsefnum sem tilheyra gagnrýnum menntunarfræðum, loftslagsbreytingamenntun, kynjafræði, hinsegin fræðum og eftirlendufræðum. Þeir öðlast jafnframt þjálfun í að beita nálgunum gagnrýnna fræða, einkum gagnrýnna menntunarfræða, í skólastofunni, m.a. í skipulagi kennslu og hönnun og framkvæmd verkefna

Vinnulag: Vinnulag námskeiðsins byggist meðal annars á umræðum á neti og umræðum og verkefnavinnu í tímum þar sem nemendur fást við álitamál og æfa sig í að glíma við þau í grunnskólakennslu.

X

Lífsleikni - sjálfið (SFG104F)

Viðfangsefni: Á námskeiðinu er unnið með þá þætti lífsleikni sem miða að sjálfinu og persónulegri hæfni með fræðilegum og hagnýtum hætti. Efni námskeiðsins er í samræmi við ákvæði úr námskrám íslenskra leik-, grunn- og framhaldsskóla um að efla andlega heilsu, heilbrigða sjálfsmynd og siðferðilegan styrk nemenda. Meðal annars er fjallað um mannkostamenntun, lífstilraunir og nútvitund.

Vinnulag: Fyrirlestrar og umræður verða í flestum vikum. Fyrirlestrar verða að jafnaði teknir upp fyrirfram og settir á Canvas-vef námskeiðsins. Gert er ráð fyrir að nemendur kynni sér þá og taki svo þátt í umræðum. Umræðutímarnir verða ekki teknir upp en þeir sem ekki komast í umræðutíma geta uppfyllt þátttökuskyldu með því að skila þátttökubloggi. Einnig eru unnin þrjú verkefni auk lokaverkefnis.

X

Kennsla í margbreytilegum nemendahópi (KME115F)

Markmið námskeiðsins er að starfandi kennarar og kennaranemar eflist í að nýta eigin auðlindir í vinnu með margbreytilegum nemendahópum.  Byggt er á kennslufræði menntunar fyrir alla (inclusive pedagogy) og kennslufræði nýsköpunarmenntar þar sem lögð er áhersla á heildstæða og skapandi nálgun við undirbúning og skipulag kennslu og að nýta auðlindir nemenda.

Viðfangsefni
Námskeiðið byggir á hugmyndafræði menntunar fyrir alla og nýsköpunar- og frumkvöðlamenntunar. Fjallað verður um mismunandi vinnubrögð og kynntir kennsluhættir og kennsluaðferðir sem hafa reynst vel í fjölbreyttum nemendahópum. Áhersla er á kennsluhætti og kennsluaðferðir nýsköpunarmenntar, samvirks náms, altæka hönnun náms, fjölmenningarlega kennslu og listrænar og skapandi aðferðir. Fjallað verður um samstarf við foreldra og aðrar starfsstéttir er starfa við eða tengjast skólastarfi. Þátttakendur skilgreina og þróa eigin starfskenningu.

Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt sem blandað nám, bæði fjarnám og staðnám. Kennslan fer fram bæði í staðlotum og staðtímum milli staðlota og á netinu. Námskeiðinu er skipt upp í fjórar námslotur (tímabil) sem eru skipulagðar út frá ákveðnum þemum. Þau tengjast öll kennslu í margbreytilegum nemendahópi og eru: hugmyndafræði menntunar fyrir alla og nýsköpunarmenntar, fagmennska og forysta í kennslu margbreytilegra nemendahópa, kennsluhættir í margbreytilegum nemendahópum og samstarf í skóla fyrir alla. Hver námslota stendur yfir í þrjár til fjórar vikur. Kennsla og nám verður í formi fyrirlestra, umræðna í tímum og á Canvas, stuttra verkefna í tímum og á Canvas og verkefna með formlegum skilum. Námskeiðið byggir á sjálfstæðri vinnu, ábyrgð og þátttöku nemenda.

Gert er ráð fyrir 80% þátttöku í virkni á námskeiðinu (þátttaka og skil verkefna). 

X

Kenningar í félagsfræði og heimspeki menntunar (MVS101F)

Í þessu námskeiði eru ræddar ýmsar áhrifamiklar kenningar á sviði félagfræði og heimspeki menntunar og þær settar í samhengi við álitamál í samfélaginu hversu sinni svo sem kynjajafnrétti, fjölmenningu, stéttaskiptingu, uppeldishætti, kennslufræði, lýðræði og skóla án aðgreiningar.

Á fyrri hluta misseris er röð fyrirlestra og umræðutímar. 

Á seinni hluta misseris vinna nemendur tiltölulega sjálfstæð verkefni í hópum og fá leiðsögn um notkun kenninga við mótun rannsóknaráætlana eða þróunarverkefna á sviði kennslu eða uppeldisfræða.

X

Nám fullorðinna og þróun mannauðs (NAF003F)

Símenntun, endurmenntun, mannauðsþróun eru hugtök sem æ fleiri þurfa að takast á við vegna vinnu sinnar. Stjórnendur þurfa til dæmis að útbúa símenntunaráætlanir, sérfræðingar þurfa að kenna samstarfsfólki sínu, kennarar koma að foreldrastarfi eða starfsþróun samkennara sinna og svo mætti lengi telja.  Þetta námskeið er fyrir fólk sem vill dýpka skilning sinn á námi fullorðinna, til að geta betur tekið ákvarðanir um símenntun, skipulagt fræðslustarf eða unnið á annan hátt með fullorðnum sem ætla að læra. Námskeiðið gefur fræðilegan grunn undir allt fræðslustaf með fullorðnum.

Markmið
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur öðlist haldgóða þekkingu á rannsóknum og kenningum um nám fullorðinna, og geti nýtt þá þekkingu til að taka rökstuddar ákvarðanir í tengslum við skipulagningu náms fyrir fullorðna og / eða við það hjálpa fullorðnum á annan hátt til að læra, takast á við breytingaferli og þroskast.

Inntak / viðfangsefni
Til að ná þessum yfirmarkmiðum takast nemendur við þrjú aðal viðfangsefni á námskeiðinu:

  1. Greiningu á hlutverki náms og menntunar fullorðinna í ljósi þróunar samfélagsins, rannsókn á því hvernig stofnanir samfélagsins hafa brugðist við - einkum hvað varðar aðgerðir sem ætlað er að styðja við nám fullorðinna. Þátttakendur læra að nota ýmis verkfæri til þess að greina samtímann og meta mögulegar þarfir fullorðinna fyrir nám.
  2. Rannsókn á sérkennum og sérstöðu fullorðinna námsmanna. Könnun á kenningum um hið sama og greining á gagni þeirra til að skýra og skipuleggja nám fyrir fullorðna og með þeim.
  3. Þátttakendur kynna sér nokkur meginstef úr kennslufræði fullorðinna. Hugmyndir um fullorðna námsmenn, þátttöku þeirra í fræðslu, áhugahvöt og hindranir, hlutverk leiðbeinenda í fullorðinsfræðslu, mótun námsumhverfis, samskipti kennara og nemenda og fleira.

Vinnulag

Námskeiðið verður kennt á formi sem er kallað "Valvíst nám". En það þýðir að þátttakendur geta valið hvort þeir mæta í skólann, taka þátt í gegnum fjarfundabúnað í rauntíma eða hlusta á upptökur og taka virkan þátt í samvinnu þátttakenda á netinu milli reglulegra funda.

Á námskeiðinu eru tvær "vinnulotur" þar sem allir þátttakendur vinna saman í heilan dag í tengslum við efni namskeiðsins. Þátttakendur eru hvattir til að mæta í húsnæði Menntavísindaseviðs við Stakkahlíð í vinnuloturnar. Þar verða teknar mikilvægar ákvarðanir um námskeiðið, þátttakendur kynnast vel og það styður við samvinnu þeirra á námskeiðinu, þá reynum við að beita aðferðum sem nýtast vel í fullorðinsfræðslu, þannig að þátttakendur upplifa ýmsar aðferðir sem þeir geta síðan nýtt við skipulagningu náms og kennslu.

Síðan hittast þeir vikulega í húsnæði skólans eða á netinu.

Á milli funda og vinnulota fer samvinnan fram á vef námskeiðsins, t.d. í gegnum skriflegar umræður á umræðuþráðum námskeiðsins.

Fyrir hverja er þetta námskeið?

Námskeiðið hentar öllum þeim sem koma – eða vilja koma – á einhvern hátt að ákvörðunum um nám fullorðinna, skipulagningu þess og útfærslu. Það hentar þannig fólki sem starfar við mannauðs- og fræðslumál innan fyrirtækja og stofnana, stjórnendur og verkefnastjóra í stofnunum sem bjóða upp á nám og námskeið fyrir fullorðna sem og sérfræðingum sem hafa áhuga á að kenna fullorðnum. Námskeiðið býður þessu fólki tækifæri að afla sér góðrar grunnþekkingar á helstu spurningum og viðfangsefnum sem snerta nám fullorðinna, forsendur, aðstæður og skipulagningu þess. Námskeiðið gefur þannig góða undirstöðu fyrir alls konar verkefni er varða nám fullorðinna almennt.

X

Margbreytileiki og félagslegt réttlæti (UME103F)

Markmið: Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist skilning á margbreytileika samfélagsins, mikilvægi hans í menntunarlegu félagslegu tilliti, átti sig betur á stöðu einstaklinga og hópa sem þrýst er að jaðri samfélagsins. Einnig munu nemendur öðlast þekkingu á margvíslegum myndum, tilurð og afleiðingum útilokunar og stimplunar og kunna skil á afmörkuðum þáttum í sögu og siðfræði sem varða margbreytileika, félagslegan auð, útilokun og félagslegt réttlæti. Einnig verður lögð áhersla á að nemendur öðlist færni í að beita fræðilegum hugtökum á vettvangi og geti sett hugmyndir um fagmennsku og fagstétt í sögulegt og siðfræðilegt samhengi. Rík áhersla er á að nemendur geti ígrundað eigin viðhorf og vinnu í ljósi siðfræðilegra, félagsfræðilegra og menntunarfræðilegra hugtaka eins og sjálfræðis, virðingar, mannlegrar reisnar, trausts og umhyggju, félagslegt réttlæti og félagsleg mismunun, félagsauður og valdefling.

Viðfangsefni: Meginviðfangsefni námskeiðsins er margbreytileiki samfélagsins og staða jaðarhópa í skóla og samfélagi. Námskeiðið skiptist í þrjá hluta þar sem fyrstu tveir hlutarnir byggjast á fræðilegri umfjöllun um álitamál, sögu og siðfræði, en í þriðja hlutanum er gert ráð fyrir að nemendur beiti þeim fræðilegu undirstöðum sem lagðar hafa verið í fyrstu tveim hlutunum til að skoða vettvang, eigið starf og eigin viðhorf.

X

Kynjajafnrétti í skólastarfi (KME101F)

Í námskeiðinu verður fjallað um kynjafræði og hvernig helstu hugtök þeirra, svo sem kyn, jafnrétti, kyngervi, kynhlutverk, samtvinnun, hinsegin fræði, kynímynd, staðalmyndir, kynbundið ofbeldi, kynfræðsla, karlmennska og kvenleiki, nýtast til að skilja og skipuleggja skólastarf. Þá verður kynnt löggjöf um kynjajafnrétti og kynjajafnréttisfræðslu og fjallað um tengsl kynjajafnréttis og annars jafnréttis, sbr. aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla. Sérstök áhersla er lögð á að nemendur í námskeiðinu geti greint námsumhverfi, aðferðir og námsefni frá kynjasjónarhorni. Einnig að þeir geti greint val leikja í leikskóla og í frímínútum og skólaíþróttum.

Nemendur þurfa að mæta í lok nóvember til að kynna lokaverkefni sitt í námskeiðinu.

Í námskeiðinu verður gengið verður út frá því grundvallarsjónarmiði sem kemur fram í aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla að menntun um jafnrétti kynjanna feli í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu í því augnamiði að kennarar geti kennt börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra á forsendum kyns.

Námsmat mun felast í lestrardagbókum, hugtakakönnun og hagnýtum verkefnum tengdum skólastarfi á viðkomandi skólastigi. Skyldumæting er í kynningu lokaverkefnis. 

X

Kynferðisbrot, lög og réttlæti (FÉL601M)

Umræðan um kynferðisbrot og hvernig eigi að bregðast við þeim hefur farið hátt síðustu misseri, þá sérstaklega í kjölfar #MeToo hreyfingarinnar. Rannsóknir sýna að einungis lítill hluti kynferðisbrotamála eru kærð til lögreglunnar og aðeins örlítill hluti þeirra lýkur með sakfellingu. Því má segja að málaflokkurinn einkennist af réttlætishalla. Í auknum mæli sjáum við einnig þolendur kynferðisbrota segja sögu sína á samfélagsmiðlum eða í fjölmiðlum og í sumum tilvikum eru meintir gerendur ásakaðir opinberlega sem getur vakið ólík viðbrögð og haft ýmiss konar afleiðingar.

Í þessu námskeiði verður leitað skýringa á þessari samfélagsþróun út frá sjónarhóli félags- og afbrotafræði. Í námskeiðinu verður meðal annars leitað svara við eftirfarandi spurningum: Hverjir fremja kynferðisbrot og af hverju? Hvernig er reynsla karla sem verða fyrir kynferðisbrotum önnur en reynsla kvenna? Hver er munurinn á réttarstöðu sakborninga og réttarstöðu brotaþola? Af hverju er munur á ætlun og framkvæmd laganna? Hvernig hefur refsivörslukerfið þróast? Hver er munurinn á lagalegu réttlæti og félagslegu réttlæti? Hvernig eru óhefðbundin réttarkerfi betri eða verri en hefðbundin réttarkerfi? 

X

Matur og menning: (NÆR613M)

Matur er mannsins megin, uppspretta orkunnar og forsenda lífsins. En matur er líka sneisafullur af merkingu. Matarhættir veita innsýn í heimsmynd okkar, lífssýn og listfengi og matur mótar tilveru okkar, líkama, samfélag, hagkerfi, hugarfar og siðferði. Sjálfsmynd okkar og minningar eru nátengdar mat og matur er einhver mikilvægasti miðillinn fyrir samskipti okkar við annað fólk.

Í námskeiðinu skoðum við hvað fólk borðar, hvernig, hvenær, með hverjum og hvers vegna. Með þeim hætti fáum við dýrmæta innsýn í kyngervi og kynslóðir, fæðuöryggi og rétt til matar, stéttaskiptingu og menningarlegan margbreytileika, skynheim og fegurðarskyn, tækni og matvælaframleiðslu, tísku og matarkúra, matarhefðir og menningararf, tilfinningar, vináttu og fjölskyldubönd. Matarhættir tengja þannig saman menningu og náttúru, hnattvæðingu og hið staðbundna, heimilið og vinnustaðinn, fortíð og samtíð, manneskjur og örverur.

Í námskeiðinu beinum við sjónum að sambandi matarframleiðslu og neyslu á 21. öld með sérstaka áherslu á lýðheilsu, siðferðislega neyslu og sjálfbærni.

Matur og menning eru þverfagleg viðfangsefni og því er þetta námskeið kennt í samstarfi námsbrauta í þjóðfræði og matvæla- og næringarfræði.

X

Fötlun og menning (FFR102M)

Meginviðfangsefni námskeiðsins er að rýna í stöðu og ímynd fatlaðs fólks og birtingarmyndir fötlunar í (dægur)menningu og listum. Fjallað verður um ímyndir og hlutverk fatlaðs fólks í sögulegu samhengi, dægurmenningu, fjölmiðlum, bókmenntum, listum og almennri orðræðu. Sérstök áhersla verður lögð á (list)menningu fatlaðs fólks, sjálfskilning, kvenleika og karlmennsku. Rýnt verður í fötlun sem einn lið í fjölbreytileika samfélaga og staðsetningu fatlaðs fólks í menningu og sögu.

X

Náms- og starfsferill, inngrip og mat (NSR009F)

Kynntar eru helstu kenningar og nýlegar rannsóknir um farsæla skólagöngu og brotthvarf frá námi í ljósi íslenskrar menntastefnu og margbreytileika nemenda. Jafnframt er fjallað um áætlun í náms- og starfsráðgjöf með áherslu á náms- og starfsfræðslu og horft til framkvæmdar hennar í nágrannalöndunum á undanförnum árum. Nemendur kynnast upplýsingaveitum um nám og störf og mati á skilvirkni náms- og starfsráðgjafar. Auk þess er umfjöllun um stöðu, þróun og framtíðarhorfur á íslenskum vinnumarkaði.

X

Persónulegir og félagslegir erfiðleikar (NSR203F)

Meginviðfangsefni námskeiðsins eru persónulegir og félagslegir erfiðleikar barna og ungmenna og horfur á fullorðinsárum. Kynntar eru helstu skilgreiningar á og algengi hegðunar-,  tilfinninga- og námserfiðleika með tilliti til fræða og alþjóðlegra flokkunarkerfa. Jafnframt er fjallað um áhættu- og vernandi þætti, seiglu og forvarnir. Áhersla er lögð á margbreytileika hópa. Nemendur kynnast viðeigandi úrræðum með áherslu á gagnreyndar aðferðir og samráð fagstétta.

X

Lýðræði, mannréttindi og borgaravitund barna og ungmenna (UME002F)

Í námskeiðinu er fjallað um lýðræði og mannréttindi og hvað það merkir að vera borgari í lýðræðissamfélagi á tímum hnattvæðingar. Rætt er um mikilvægi þess að borgarar skynji að þeir hafi tiltekinn rétt í samfélaginu en jafnframt ábyrgð og skyldur. Áhersla er lögð á fræðilega og stefnumótandi umræðu um borgaravitund (e. citizenship, civic engagement) bæði hér á landi og á alþjóðavísu. Þá er fjallað um lífsgildi og hvernig þau vísa ungu fólki veginn í hugsun og hegðun bæði sem einstaklingar og sem samborgarar í fjölmenningarlegu og síbreytilegu samfélagi nútímans. Einnig verður gerð grein fyrir rannsóknum um hlutverk heimila, skóla og félagasamtaka við að efla borgaravitund ungs fóks ásamt því að fjalla um tengsl borgaravitundar við mismunandi þroskaþætti og hæfni hjá börnum og ungmennum, svo sem samskipta- og fjölmenningarhæfni og siðferðiskennd.

ATH: Námskeiðið fer fram á Zoom. Kennsluinnlegg eru tekin upp og sett inn á námsumsjónarkerfið CANVAS fyrirfram. Vikulega eru umræðutímar (90 mín.) á netinu en í nokkur skipta í stofu og þá er einnig hægt að vera á neti. Nemendur kynna fræðilegt efni sem einstaklingar og ritgerð í hópastarfi einu sinni á misserinu.

X

Safn og samfélag: Sirkus dauðans? (SAF603M)

Fjallað verður um samfélagslegt hlutverk safna út frá margvíslegum sjónarhornum: efnahagslegum, pólitískum, menningarlegum, félagslegum og síðast en ekki síst alþjóðlegum. Fjallað verður meðal annars um hlutverk safna í hugmyndinni um þjóð, lagalegt umhverfi safna, rekstrarform, staða og hlutverk þjóðarsafna, safna í eigu sveitarfélaga, félagasamtaka og einkafyrirtækja, fjármögnun safnastarfs, stefna yfirvalda í málefnum safna, söfn og mannréttindi, söfn og áföll (trauma), kynjahugmyndir og fleira. Í námskeiðinu er einnig hugað að möguleikum safna á að virkja fólk og samfélög til þátttöku í starfsemi þeirra eins og söfnun, heimildaöflun, sýningarstjórnun, sýningargerð og annarri miðlun. Skoðuð verða innlend og erlend dæmi. Eftir því sem því verður komið við, eru farnar ein til tvær vettvangsferðir. Námskeiðið er eingöngu kennt í fjarnámi.

X

Trúarbrögð og lífsgildi í fjölmenningarsamfélagi (KME003M)

Námskeiðið miðar að því að nemendur dýpki þekkingu sína á stöðu og áhrifum trúarbragða í fjölmenningarsamfélagi. Fjallað verður um ýmsar kenningar er snerta trúarþörf og trúarreynslu mannsins, trúarlega sjálfsmynd og valda þætti nokkurra helstu trúarbragða heims. Einnig siði og venjur tengdar trúariðkun, einkum er haft geta áhrif á skólastarf. Þá verður fjallað um trúarbrögð og siðfræði, sameiginleg gildi ólíkra trúarbragða, stöðu trúarbragða, menningarleg og trúarleg átök sem eiga sér stað í dag og fordóma og misskilning tengdan trúarbrögðum. Nemendur velja sér trúarbrögð sem þeir dýpka þekkingu sína á, einkum með tilliti til þess að þau endurspegli vaxandi menningarlegan og trúarlegan fjölbreytileika hér á landi og vinna jafnframt vettvangstengd verkefni.

Vinnulag
Fyrirlestrar, samræður, mat og beiting fræða á tiltekin viðfangsefni, samstarf í hópum. Verkefni, m.a. vettvangstengt rannsóknarverkefni, og kynning í málstofum.

X

Ójöfnuður og heilsa (FÉL098F)

Félagslegur ójöfnuður hefur áhrif á heilsu. Almennt hafa þeir sem eru í viðkvæmari stöðu í samfélaginu verri heilsu en þeir sem að betra hafa það. Í þessu námskeiði er sjónum beint að sambandi félagslegrar stöðu og heilsufars. Nemendur munu kynnast helstu kenningum innan heilsufélagsfræðinnar, s.s. kenningum Link og Phelan um grundvallarástæður sjúkdóma (fundamental causes of disease) og fara yfir rannsóknir á sviðinu. Eitt mikilvægasta framlag félagsfræðinnar er skilningur á því hvernig stærri samfélagslegir þættir (t.d. heilbrigðis- og velferðarkerfið) móta líf einstaklinga og við munum því skoða hvernig samband félagslegrar stöðu og heilsu mótast af svona þáttum. Þar sem að heilsa fólks er flókið fyrirbæri munum við einnig skoða hana í þverfaglegu ljósi og notast meðal annars við kenningar og rannsóknir úr lýðheilsufræðum, heilbrigðisvísindum, mannfræði og stjórnmálafræði. 

X

Afbrot á Íslandi (FÉL0A4F)

Í upphafi námskeiðs er afbrotafræðin og viðfangsefni hennar skilgreind og útlistuð með dæmum. Helstu fræðilegu sjónarhorn kynnt, fræðilegar spurningar og rannsóknaráherslur. 

Í framhaldi eru tiltekin þemu tekin fyrir sem hafa verið áberandi í íslenskum rannsóknum í afbrotafræði. Afbrot á Íslandi í alþjóðlegu samhengi, gögn lögreglu yfir tíðni og tegundir ólíkra brota, ofbeldisbrot, áfengis- og vímuefnabrot og efnahagsbrot. Íslensk refsistefna skoðuð í ljósi alþjóðlegs samanburðar og afstaða borgaranna til afbrota og refsinga metin út frá ólíkum gögnum. 

Nemendur skrifa ritgerð um eitt ofangreindra þema þar sem settar eru fram rannsóknarspurningar og mögulegri gagnaöflun lýst. Jafnframt skrifa nemendur dagbók um efni fyrirlestra.

X

Réttarkerfið og löggæsla (FÉL007F)

Kennari lætur nemendum í té leslista sem inniheldur úrval af lesefni á sviði sakfræði. Fjallað verður um kenningar og rannsóknir félags- og afbrotafræðinga á réttar- og löggæslukerfinu. Áhersla er lögð á að nemendur tengi saman kenningarlega umræðu og fyrirliggjandi rannsóknir. Umræðutímar verða haldnir aðra hverja viku.

X

Fjölmenning og fólksflutningar (MAN017F)

Oft er talað um fólksflutninga og fjölmenningu sem eitt megin einkenni samfélaga samtímans. Í námskeiðinu eru kynntar helstu kenningar og stefnur sem fram hafa komið í tengslum við rannsóknir á fólksflutningum og fjölmenningu. Fjallað er á gagnrýninn hátt um margskonar kenningar sem tengjast þessum rannsóknarviðfangsefnum og gagnsemi þeirra skoðuð. Skoðuð eru hugtök eins og menning, samlögun, aðlögun og samþætting, en jafnframt gert grein fyrir hreyfanleika fortíðar og tengslum hans við fjölmenningu. Í námskeiðinu eru ólíkar nálganir og kenningarmótun fræðimanna fyrst og fremst dregnar fram og gerð grein fyrir helstu viðfangsefnum félagsvísindamanna á þessu sviði.

Kennslan fer fram í formi fyrirlestra og umræðna.

X

Ímyndir, vald og framandleiki (MAN101F)

Námskeiðið varpar ljósi á hvernig fordómar og staðalmyndir eru hluti af afmörkunarferli sem er rakið til nýlenduhyggju. Í námskeiðinu er því rýnt ferli afmörkunnar út frá gagnrýnum kenningum um kynþætti og eftirlendustefnu. Áhersla er lögð á að skoða ímyndir og orðræður fortíðar og nútímans um fólk sem eru afmarkað í samfélögum sem „hin‘“og hvernig „Hinun“ á sér stað. Út frá því gagnrýna ljósi, er ímyndasköpunin sem átti sér stað á tímum nýlenduveldanna greind sem og söguleg tenging þeirra við hugmyndir um menningu, sjálfsmyndir og þróun. Ferli sem jafnan er tengt við óríentalisma. Ennfremur er áherslan á tengingu eldri orðræðu við nýlenduhyggju, þjóðersnishyggju, og birtingamyndir nútímans sem beinast að jaðarsettum hópum i Evrópu. 

Í námskeiðinu, er einnig skoðað hvernig slíkar orðræður hafa áhrif á sjálfsmyndir samfélagslega flokkaða hópa, afmörkun byggða á líkamlegum forsendum og afmarkaða staði. Að því leiti, er skoðað atbeni fólks, mótsstöður, og leiðir til viðnáms gegn jaðarsentingu og rasisma. Að lokum er rýnt í hvenrig mannfræðilegar rannsóknir og afstaða fræðimanna hefur spilast inn í þekkingarmynstur og pólítik fortíðar og nútíðar.  

Námskeiðið er kennt á ensku.  

X

Alþýðumenning og fagurfræði hversdagsins (ÞJÓ212F)

Í námskeiðinu rannsökum við sjónarhorn þjóðfræðinnar á menningu og samfélag með sérstakri áherslu á daglegt líf og daglegt brauð - það sem kalla mætti prósa heimsins. Við tökum sögu þjóðfræðinnar til skoðunar með gagnrýnu hugarfari og setjum í samhengi við sögu grannfaganna og við könnum í sameiningu strauma og stefnur við upphaf 21. aldar. Þá förum við í saumana á helstu hugtökum, þ.á m. menningarmun og margbreytileika, þjóðerni, kyngervi, alþýðu, hefð, hópi, höfundi, hnattvæðingu, fjölhyggju, elleftu stundinni, menningarlegu forræði, menningararfi og eignarhaldi á menningu.

Markmiðið er að skilja hvernig mennirnir skapa hversdaginn og fylla daglegt umhverfi sitt merkingu, hvernig þeir móta líf sitt við aðstæður sem þeir hafa ekki sjálfir kosið sér, hvort heldur sem er í bændasamfélagi fyrri tíðar eða borgarsamfélagi 21. aldarinnar. Námskeiðið er ætlað meistaranemum, en er einnig opið nemendum á þriðja ári í BA-námi.

Markmið:

Í lok námskeiðsins er ætlast til að nemandinn:

  • Hafi lesið ýmis grundvallarrit í þjóðfræði
  • Kunni skil á straumum og stefnum á 20. og 21. öld
  • Þekki þær breytingar sem fagið hefur gengið í gegnum og þá sjálfsgagnrýnu umræðu sem fer nú fram innan fagsins
  • Hafi vald á lykilhugtökum í greiningu á alþýðumenningu og fagurfræði hversdagsins
  • Geti rökrætt um menningu hópa og menningarmun með tilvísun til kenninga og fræðilegra hugtaka

Vinnulag

Kennsla fer fram í fyrirlestrum og umræðum.

X

Norræn trú (ÞJÓ203F)

Trúarlíf manna á norðurslóðum er tekið fyrir og heimildir allt frá elstu tímum, eins og grafir, rúnasteinar, hellaristur og aðrar fornminjar verða skoðaðar. Einnig verða lesnar lýsingar á norrænum trúarathöfnum í verkum eftir Tacitus, Adam frá Brimum, Saxo Grammaticus og í fornritum Íslendinga eins og Eddukvæðum og Konungasögum. Auk norrænnar trúar verður fjallað um seið og sjamanisma. Örlagatrú er tekin til ítarlegrar umfjöllunar sem meginþáttur í forkristnum átrúnaði á Norðurlöndum. Loks er vikið að því hvernig kristindómur hefur fallið að norrænum lífsháttum og hugsunarhætti. Námskeiðið er kennt á ensku.

Vinnulag

Kennsla fer fram í fyrirlestrum, og umræðum um fyrirlestra.

X

Gagnrýnin hugsun og heimspekileg samræða (UME204F)

Markmið
Meginmarkmið námskeiðsins er að nemendur öðlist skilning á markmiðum og tilgangi þess að stunda heimspekilega rökræðu með börnum og fullorðnum. Að þeir hafi á valdi sínu grunnatriði í rökfræði og öðrum undirstöðuþáttum gagnrýninnar hugsunar. Einnig að nemendur kynnist hugmyndafræði barnaheimspekinnar, t.d. eins og hún hefur verið þróuð af Matthew Lipman. Hér skipta meginmáli hugmyndir hans um rannsóknarsamfélag og uppruni þeirrar hugmyndafræði í heimspeki bandarísku pragmatistanna Charles S. Peirce, Williams James, og Johns Dewey. Einnig að nemendur geti leitt heimspekilegar rökræður með hópi fólks með þeirri tækni sem hugmyndafræði barnaheimspekinnar felur í sér.

Viðfangsefni
Á námskeiðinu verður fjallað um rökræðuna sem kennsluaðferð og hugmyndafræði Matthews Lipman og annarra fræðimanna um tilgang og markmið þess að stunda heimspekilega rökræðu með börnum. Fjallað verður um tengsl íslenskra námskráa á mismunandi skólastigum við meginmarkmið heimspekilegrar samræðu, s.s. sjálfstæða hugsun, gagnrýna hugsun, skapandi hugsun, fordómaleysi, sjálfsþekkingu og undirbúning fyrir þátttöku í í lýðræðissamfélagi. Fjallað verður ítarlega um þessi hugtök eins og þau birtast í hugmyndafræði barnaheimspekinnar.

X

Lýðræði, mannréttindi og borgaravitund barna og ungmenna (UME002F)

Í námskeiðinu er fjallað um lýðræði og mannréttindi og hvað það merkir að vera borgari í lýðræðissamfélagi á tímum hnattvæðingar. Rætt er um mikilvægi þess að borgarar skynji að þeir hafi tiltekinn rétt í samfélaginu en jafnframt ábyrgð og skyldur. Áhersla er lögð á fræðilega og stefnumótandi umræðu um borgaravitund (e. citizenship, civic engagement) bæði hér á landi og á alþjóðavísu. Þá er fjallað um lífsgildi og hvernig þau vísa ungu fólki veginn í hugsun og hegðun bæði sem einstaklingar og sem samborgarar í fjölmenningarlegu og síbreytilegu samfélagi nútímans. Einnig verður gerð grein fyrir rannsóknum um hlutverk heimila, skóla og félagasamtaka við að efla borgaravitund ungs fóks ásamt því að fjalla um tengsl borgaravitundar við mismunandi þroskaþætti og hæfni hjá börnum og ungmennum, svo sem samskipta- og fjölmenningarhæfni og siðferðiskennd.

ATH: Námskeiðið fer fram á Zoom. Kennsluinnlegg eru tekin upp og sett inn á námsumsjónarkerfið CANVAS fyrirfram. Vikulega eru umræðutímar (90 mín.) á netinu en í nokkur skipta í stofu og þá er einnig hægt að vera á neti. Nemendur kynna fræðilegt efni sem einstaklingar og ritgerð í hópastarfi einu sinni á misserinu.

X

Fjarnám og kennsla (SNU008F)

Á námskeiðinu verða hugtökin fjarnám- og fjarkennsla og tengd hugtök s.s. blandað nám, dreifnám og netnám skoðuð og skilgreind. Skoðaðar verða hugmyndir og kenningar sem tengjast sviðinu og hvernig þær hafa þróast frá áherslu á sjálfstætt nám (independent study) á tímum bréfaskóla til áherslu á samskipti og uppbyggingu sameiginlegrar þekkingar á tímum netvæðingar og alþjóðahyggju. Fjallað verður um erlendar og innlendar rannsóknir á fjarnámi og -kennslu. Athygli er beint að stöðu fjarnáms á mismunandi skólastigum, fjarnemum og þörfum þeirra, kennsluháttum með nýtingu mismunandi miðla og hönnun fjarnámsáfanga m.t.t. alþjóðlegra viðmiða og gæðastaðla.

Vinnulag
Fyrirlestrar, lestur og umræður um fræði og nýjar rannsóknir; athuganir á mismunandi fjarnáms- og kennsluaðferðum og tæknibúnaði til fjarkennslu á mismunandi skólastigum. Meðal annars verður skoðað og rætt um það fjarnám sem þátttakendur hafa reynslu af sem fjarnemar og/eða kennarar, nemendur gera eitt minna hópverkefni (lausnaleitarnám) og annað stærra einstaklingsverkefni.

X

Áhættuhegðun og seigla ungmenna (UME206F)

Í námskeiðinu er lögð áhersla á umfjöllun um áhættuhegðun ungmenna (t.d. vímuefnaneyslu, frávikshegðun, brokkgenga skólagöngu) og seiglu þeirra í tengslum við ýmsa uppeldislega, félagslega og sálfræðilega þætti. Viðfangsefni eru m.a. samskiptahæfni, geðraskanir, kynheilbrigði og áföll. Fjallað er ítarlega um ýmis konar verndandi þætti og áhættuþætti og þátt heimila, skóla og tómstundastarfs í að stuðla að velferð ungmenna. Kynntar eru bæði innlendar og erlendar rannsóknir á fræðasviðinu. Sérstök áhersla er á rannsóknir sem skoða tengsl ýmissa þroskaþátta og áhættuhegðunar. Verkefni í námskeiðinu miða að því að leita eftir sýn ungs fólks á áhættuþætti í lífi sínu.

Athugið: Hægt er að taka námskeiðið í fjarnámi. Kennsluinnlegg eru almennt tekin upp og sett inn á námsumsjónarkerfið CANVAS fyrirfram en ef kennsla fer fram í rauntíma þá er hún tekin upp. Vikulega eru umræðutímar (60 mín.) þar sem nemendur geta valið milli þess að koma á staðinn eða vera með á netinu. Hið sama á við þegar ritgerðir eru kynntar einu sinni á önninni þá geta nemendur verið á staðnum eða með á netinu.

X

Lýðræði, mannréttindi og borgaravitund barna og ungmenna (UME002F)

Í námskeiðinu er fjallað um lýðræði og mannréttindi og hvað það merkir að vera borgari í lýðræðissamfélagi á tímum hnattvæðingar. Rætt er um mikilvægi þess að borgarar skynji að þeir hafi tiltekinn rétt í samfélaginu en jafnframt ábyrgð og skyldur. Áhersla er lögð á fræðilega og stefnumótandi umræðu um borgaravitund (e. citizenship, civic engagement) bæði hér á landi og á alþjóðavísu. Þá er fjallað um lífsgildi og hvernig þau vísa ungu fólki veginn í hugsun og hegðun bæði sem einstaklingar og sem samborgarar í fjölmenningarlegu og síbreytilegu samfélagi nútímans. Einnig verður gerð grein fyrir rannsóknum um hlutverk heimila, skóla og félagasamtaka við að efla borgaravitund ungs fóks ásamt því að fjalla um tengsl borgaravitundar við mismunandi þroskaþætti og hæfni hjá börnum og ungmennum, svo sem samskipta- og fjölmenningarhæfni og siðferðiskennd.

ATH: Námskeiðið fer fram á Zoom. Kennsluinnlegg eru tekin upp og sett inn á námsumsjónarkerfið CANVAS fyrirfram. Vikulega eru umræðutímar (90 mín.) á netinu en í nokkur skipta í stofu og þá er einnig hægt að vera á neti. Nemendur kynna fræðilegt efni sem einstaklingar og ritgerð í hópastarfi einu sinni á misserinu.

X

Gagnrýnin hugsun og heimspekileg samræða (UME204F)

Markmið
Meginmarkmið námskeiðsins er að nemendur öðlist skilning á markmiðum og tilgangi þess að stunda heimspekilega rökræðu með börnum og fullorðnum. Að þeir hafi á valdi sínu grunnatriði í rökfræði og öðrum undirstöðuþáttum gagnrýninnar hugsunar. Einnig að nemendur kynnist hugmyndafræði barnaheimspekinnar, t.d. eins og hún hefur verið þróuð af Matthew Lipman. Hér skipta meginmáli hugmyndir hans um rannsóknarsamfélag og uppruni þeirrar hugmyndafræði í heimspeki bandarísku pragmatistanna Charles S. Peirce, Williams James, og Johns Dewey. Einnig að nemendur geti leitt heimspekilegar rökræður með hópi fólks með þeirri tækni sem hugmyndafræði barnaheimspekinnar felur í sér.

Viðfangsefni
Á námskeiðinu verður fjallað um rökræðuna sem kennsluaðferð og hugmyndafræði Matthews Lipman og annarra fræðimanna um tilgang og markmið þess að stunda heimspekilega rökræðu með börnum. Fjallað verður um tengsl íslenskra námskráa á mismunandi skólastigum við meginmarkmið heimspekilegrar samræðu, s.s. sjálfstæða hugsun, gagnrýna hugsun, skapandi hugsun, fordómaleysi, sjálfsþekkingu og undirbúning fyrir þátttöku í í lýðræðissamfélagi. Fjallað verður ítarlega um þessi hugtök eins og þau birtast í hugmyndafræði barnaheimspekinnar.

X

Fjölbreyttir kennsluhættir - nemendamiðað nám (KME205F)

Markmið
Meginmarkmið þessa námskeiðs er að þátttakendur efli þekkingu sína á fjölbreyttum kennsluháttum og hæfni sína í að fjalla um þá með fræðilega viðurkenndum hætti.

Viðfangsefni
Á námskeiðinu verður fjallað um kennsluaðferðahugtakið og dæmi kynnt um fræðilega flokkun kennsluaðferða. Rannsóknum á kennsluaðferðum verða gerð sérstök skil, einkum innlendum rannsóknum. Þá verður fjallað um kennsluhætti og kennsluaðferðir sem tengjast hugmyndum um nemendamiðað og lýðræðislegt skólastarf (m.a. opinn skóla, sveigjanlega kennsluhætti, samvinnunám, samkennslu, lausnaleitarnám, heildstæð viðfangsefni, þemanám, samkomulagsnám og sjálfstæð, skapandi viðfangsefni). Efni námskeiðsins verður tengt þróun fjölbreyttra kennsluhátta hér á landi, og erlendis, og áhersla lögð á að þátttakendur ígrundi eigin reynslu af kennslu. Þátttakendum gefst tækifæri til að kynna sér einstaka kennsluhætti og kennsluaðferðir til nokkurrar hlítar og fjalla um það með fræðilegum hætti.

Vinnulag
Byggt er á fyrirlestrum, kynningum, málstofum, umræðum, sjálfstæðri vinnu, hópverkefnum, lestri og upplýsingaleit. Lögð er áhersla á að þátttakendur ígrundi eigið starf og greini, túlki og meti reynslu sína og tengi hana við fræði og rannsóknir. Þáttakendur ræða lesefni námskeiðsins og tengja það kennslustundum og eigin reynslu með aðstoð lestrardagbókar og annarra verkefna. Auk þess vinna nemendur lokaverkefni sem er hópverkefni.

X

Trúarbrögð og lífsgildi í fjölmenningarsamfélagi (KME003M)

Námskeiðið miðar að því að nemendur dýpki þekkingu sína á stöðu og áhrifum trúarbragða í fjölmenningarsamfélagi. Fjallað verður um ýmsar kenningar er snerta trúarþörf og trúarreynslu mannsins, trúarlega sjálfsmynd og valda þætti nokkurra helstu trúarbragða heims. Einnig siði og venjur tengdar trúariðkun, einkum er haft geta áhrif á skólastarf. Þá verður fjallað um trúarbrögð og siðfræði, sameiginleg gildi ólíkra trúarbragða, stöðu trúarbragða, menningarleg og trúarleg átök sem eiga sér stað í dag og fordóma og misskilning tengdan trúarbrögðum. Nemendur velja sér trúarbrögð sem þeir dýpka þekkingu sína á, einkum með tilliti til þess að þau endurspegli vaxandi menningarlegan og trúarlegan fjölbreytileika hér á landi og vinna jafnframt vettvangstengd verkefni.

Vinnulag
Fyrirlestrar, samræður, mat og beiting fræða á tiltekin viðfangsefni, samstarf í hópum. Verkefni, m.a. vettvangstengt rannsóknarverkefni, og kynning í málstofum.

X

Starfendarannsóknir (MVS011F)

Inntak / viðfangsefni
Á námskeiðinu verður farið yfir tilurð og þróun starfendarannsókna í ýmsum löndum, m.a. Japan, Ástralíu, Bandaríkjunum og Bretlandi. Rýnt verður í hugmyndafræði slíkra rannsókna og hinar margvíslegu myndir sem þær hafa tekið á sig og birtast í ólíkum orðum sem notuð eru um slíkar rannsóknir, t.d. starfendarannsóknir (action research), kennararannsóknir (teacher research), kennslurýni (lesson study), starfstengd sjálfsrýni (self-study) og practitioner research. Sérstök áhersla verður lögð á starfendarannsóknir í skólum og öðrum vettvangi menntunnar, þar á meðal á Íslandi og ákveðin dæmi skoðuð í því sambandi. Megináherslan í námskeiðinu er á að þátttakendur geri rannsókn á eigin starfi/starfsháttum og kynni hana í námskeiðinu. Ekki er skilyrði að nemendur séu í starfi þegar þeir taka námskeiðið.

Vinnulag
Námskeiðið er vettvangs- og samstarfsmiðað. Grunnhugmyndin er sú að þátttakendur geri rannsókn í tengslum við eigið starf í samráði við kennara og aðra þátttakendur í námskeiðinu og vinni úr henni í nánu samstarfi við kennara og aðra þátttakendur, t.d. í gegnum ígrundanir, kynningar og samræður. Nemendur halda leiðarbók eða rannsóknardagbók um rannsókn sínar og gera lestrardagbók í tengslum við lestur fræðigreina. Að auki taka þeir þátt í ýmis konar verkefnum og umræðum á netinu.

X

Menntun og menntastefnur í alþjóðlegu samhengi (STM207F)

Markmið námskeiðsins eru að nemendur geti greint yfirstandandi hræringar í þróun og framkvæmd menntastefnu í ýmsum löndum út frá ólíkum sjónarhornum, gagnrýnum kenningum og rannsóknum. Lögð er áhersla a að nemendur skilji merkingu og ólík form markaðsvæðingar í menntun, bæði varðandi þátttöku einkageirans (ytri markaðsvæðing) og kerfisbreytingar á opinbera menntageiranum (innri markaðsvæðing). Rýnt verður í hvernig stjórnarhættir (governance) og hlutverk skólastjórnenda, kennara, foreldra og nemenda í skólastarfi hafa mótast af þessum þáttum.

Fjallað er um menntakerfi og menntastefnur, tengsl við framkvæmd og möguleg áhrif þeirra á samfélagið, þ.m.t. á mismunandi nemendahópa eftir kynferði, stétt, búsetu, fötlun og uppruna. Til umfjöllunar eru alþjóðlegar rannsóknir á menntakerfum og lykilhugtök eins og gæði, val, stjórnun og skilvirkni.

Fyrirlestrar og samræða í vikulegum kennslustundum eða að fyrirlestrar verða birtir á námskeiðsvef og efni þeirra rætt í kennslustundum. Nokkir fyrirlesara kenna á ensku.  Nemendur vinna saman að beitingu fræðanna á tiltekin viðfangsefni. Námsmat samanstendur af fræðilegum ritgerðum og rannsóknarverkefnum sem nemendur kynna í málstofum. Hægt er að taka þátt í gegnum fjarfundarbúnað en lögð er áhersla á að nemendur séu á staðnum. 

X

Kenningar um nám: Hagnýting og rannsóknir (MVS009F)

Markmið
Markmið námskeiðsins er þríþætt. Í fyrsta lagi, að nemendur fái innsýn í valdar námskenningar, einkum þær sem hafa haft áhrif á uppeldis- og skólastarf á okkar tímum. Í öðru lagi, að nemendur öðlist skilning á hvernig nýta megi kenningarnar í framkvæmd við uppeldi, kennslu og skipulagningu náms fyrir fólk á öllum aldri. Í þriðja lagi, að nemendur þekki til rannsókna á áhrifum mismunandi kennslunálgana og hverjar þeirra teljast gagnreyndar til að ná tilteknum námsmarkmiðum.   

Inntak / viðfangsefni

  • Fjallað verður um nokkrar af meginkenningum um nám svo sem atferlishyggju (behaviourism), hugfræðilega nálgun (cognitive psychology) og félags- menningarkenningar (socio-cultural theories)
  • Áhersla er lögð á helstu hugtök sem beitt er í ofangreindum kenningum og að þær geta byggt á ólíkum skilgreiningum á námi
  • Nemendur lesa rannsóknargreinar þar sem þessum kenningum er beitt í uppeldis- og skólastarfi og þjálfast í að skilja notkun hugtaka og kenninga í rannsóknum á vettvangi
  • Fjallað verður um hvað gerir aðferðir gagnreyndar (evidence-based) og hvernig er hægt velja viðeigandi og áhrifaríkar aðferðir til að stuðla að námi fjölbreytts hóps á ólíkum sviðum.
  • Nemendur gera áætlun um námsferli á vettvangi uppeldis- og skólastarfs þar sem þeir beita viðeigandi kenningum að eigin vali og dýpka þar með þekkingu sína í einhverri af þeim kenningum sem fengist er við í námskeiðinu. Áhersla er lögð á tengsl áætlunar við rannsóknir og kenningar í verkefninu og að sama tíma sé hugað að hagnýtingu og útfærslu.
X

Menntun og kyngervi (UME004M)

Markmið: Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum  og rannsóknum um uppeldi og menntun í ljósi kynjafræðilegra sjónarmiða og hugtaksins kyngervi (gender).

Viðfangsefni. Unnið verður með hugtökin, kyngervi, kynjun, kynímyndir, staðalmyndir, kvenfrelsi, félagsleg mismunun, kynhlutverk, kynjablinda, tvíhyggja og valdatengsl. Fjallað verður um hvernig hugmyndir um menntun kynjanna hafa þróast sögulega, rýnt í orðræðuna um drengi og stúlkur og staðreyndir og gagnrýni á menntun og kynferði á öllum skólastigum. Sjónarmið félagslegar mótunarhyggju og eðlishyggju verða notuð til að útskýra mismunandi hugmyndir um kynjamismunun. Athyglinni verður beint sérstaklega að nýjum rannsóknum á sviðinu og fræðilegri nálgun mismunandi fræðimanna. Að síðustu verður athyglinni beint að íslenska skólakerfinu, stöðu drengja og stúlkna, leiðtogum og stjórnendum, námskrám og stöðu lögbundinnar jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendara rannsóknir á kyngervi og skólastarfi, t.d. rannsóknir á námsframmistöðu kynjanna, mismunandi hugmyndum stelpna og stráka um námsgreinar, námshæfni og námsval og hvernig skólar bregðast við kynjun skóla og samfélags.

Vinnulag
Námskeiðið er skipulagt sem staðnám, með möguleikum til fjarnáms ef þörf krefur. Námskeiðið byggist á fyrirlestrum, umræðum, málstofum, hópvinnu og verkefnavinnu.

X

Hinsegin menntunarfræði (SFG004M)

Markmið: Markmið námskeiðsins er að nemar kynnist hugmyndum, kenningum  og rannsóknum í hinsegin menntunarfræðum. Enn fremur að þeir fái góða innsýn inn í fræðaheim hinsegin fræða. Áhersla verður lögð að að nemar tileinki sér gagnrýna sýn á uppeldi og menntun og að þeir verði meðvitaður um veruleika hinsegin ungmenna.

Viðfangsefni: Unnið verður meðal annars með hugtökin kyngervi, kynhneigð, kynvitund, samtvinnun, karlmennska, kvenleiki, kynhlutverk, kynjatvíhyggja, gagnkynhneigðarhyggja og síshyggja. Fjallað verður um megininntak hinsegin menntunarfræða og hvernig nálgun þeirra getur varpað ljósi á menntun, uppeldi, tómstunda- og félagsstarf og samfélag. Nálgunin verður í anda hinsegin fræða og félagslegrar mótunarhyggju sem verða notuð til að útskýra ólíkar hugmyndir um kynhneigð, kynvitund og hinsegin kynverund. Enn fremur verður fjallað um skólakerfi, hérlendis og erlendis, og hvernig það viðheldur margs konar mismunun og ýtir jafnvel undir stofnanabundna gagnkynhneigðarhyggju og síshyggju. Lesnar verða nýjar íslenskar og erlendar rannsóknir í tengslum við kynhneigð, kynvitund, skólakerfi, kennslu og námsbækur. Þá verður lögð áhersla á að þjálfa verðandi fagfólk sem starfar með börnum og ungmennum í að búa til hinseginvænt andrúmsloft í barna- og ungmennahópi, að flétta hinsegin veruleika inn í starf sitt og bregðast við neikvæðum viðhorfum í garð hisneginleika.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hafðu samband

Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs

1. hæð, Stakkahlíð – Enni
s. 525 5950 mvs@hi.is

Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga

Fylgstu með Menntavísindasviði

 Instagram   Youtube 
 Facebook

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.