Um MA-nám í máltækni | Háskóli Íslands Skip to main content

Um MA-nám í máltækni

Máltækni (e. language technology) er þverfaglegt rannsóknar- og þróunarsvið sem spannar m.a. tölvunarfræði, málvísindi, gervigreind, tölfræði og sálfræði. Máltækni hefur það að markmiði að þróa búnað sem getur unnið með, skilið og myndað mannlegt mál, þannig að það verði nothæft í samskiptum manns og tölvu. Markmið meistaranáms í máltækni er að veita nemendum vísindalega og hagnýta þjálfun og búa þá undir framhaldsnám og störf af ýmsu tagi.

Unnt er að fara mismunandi leiðir í máltækninámi á Íslandi. Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík eiga samstarf um meistaranám, og Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands kemur einnig að náminu.

Eftirfarandi lýsing á aðeins við M.A.-nám í máltækni við Íslensku- og menningardeild.

Umsóknarfrestur

Umsóknarfrestur fyrir meistara- og doktorsnám á Hugvísindasviði er til 15. apríl fyrir innritun á haustmisseri, en erlendra umsækjenda utan EES-svæðisins til 1. febrúar. Umsóknarfrestur á vormisseri er til 15. október. Heimilt er að taka við umsóknum um doktorsnám á öðrum tímum ef sérstaklega stendur á. Umsóknum skal skilað til Nemendaskrár Háskóla Íslands á sérstöku rafrænu eyðublaði sem aðgengilegt er á vef skólans.

Inntökuskilyrði

Aðgang að M.A.-námi í máltækni veitir B.A.-próf með fyrstu einkunn (7,25) í íslensku eða almennum málvísindum sem aðalgrein, eða B.S .-próf í tölvunarfræði eða hugbúnaðarverkfræði með a.m.k. 6,50 í aðaleinkunn. Þeir sem hafa lokið háskólaprófi í öðrum skyldum greinum geta einnig sótt um inngöngu og er þá undirstaða þeirra metin sérstaklega.

Námsskipan 

Um er að ræða tveggja ára nám, 120 e. Námið skiptist í 90 e í námskeiðum og 30 e meistaraprófsritgerð. Hægt er að sækja um að skrifa 60 e ritgerð og taka þá 60 e í námskeiðum. A.m.k. 50 e skulu vera úr sérhæfðum máltækninámskeiðum (M eða F-námskeiðum) en hugsanlegt er að taka hluta þeirra hjá samstarfsaðilum (Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, eða erlendum háskólum). Samsetning námsins fer a.n.l. eftir bakgrunni hvers nemanda. Allt að 20 e geta verið úr grunnnámi á því sviði sem nemandi hefur ekki bakgrunn í (málfræði eða tölvunarfræði).

Bundið val er milli inngangsnámskeiða eftir bakgrunni nemenda. Nemendur með próf í hugvísindagreinum skulu taka sérstök inngangsnámskeið í forritun í Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild (TÖL105G Tölvunarfræði 1a og TÖL023M Forritun í máltækni) og nemendur með próf úr tæknigreinum skulu taka sérstakt inngangsnámskeið um íslenskt málkerfi (MLT301F Íslenskt málkerfi og máltækni). Hægt er að taka allt að 30 einingar í meistarastigsnámskeiðum í ýmsum skyldum greinum (íslenskri málfræði, almennum málvísindum, tölvunarfræði, hugbúnaðarverkfræði, sálfræði, talmeinafræði o.fl.). Nemendur sem skráðir eru í meistaranám í máltækni við Íslensku- og menningardeild geta tekið allt að 50e við Háskólann í Reykjavík án þess að greiða skólagjöld.

Meistaraprófsverkefni í máltækni vegur yfirleitt 30 e. Viðfangsefni velur stúdent í samráði við kennara á því sérsviði sem hann hefur valið. Meistaraprófsverkefni felst yfirleitt í hönnun og/eða forritun máltæknilegs hugbúnaðar ásamt fræðilegri greinargerð, en annars konar máltæknileg verkefni koma þó til greina. Hægt er að sækja um að vinna 60 e meistaraprófsverkefni.

Kennsluhættir og námsmat

Kennslan byggist á fyrirlestrum, æfingatímum, umræðum og ekki síst margs kyns verkefnavinnu, bæði málfræðilegri og tölvunarfræðilegri. Áhersla er lögð á virka þátttöku nemenda. Þar sem hér er um framhaldsnám að ræða er gert ráð fyrir verulegu frumkvæði og sjálfstæði nemenda í vali og útfærslu viðfangsefna. Námsmat fer fram með skriflegum prófum, forritunarverkefnum, ritgerðum o.fl.  

Námsmarkmið

Að loknu námi er gert ráð fyrir að nemendur

 • hafi góða þekkingu og skilning á helstu aðferðum sem beitt er við vélræna greiningu mannlegs máls, og sérþekkingu á greiningu annaðhvort talaðs eða ritaðs máls
 • hafi góða þekkingu á hljóðkerfi, beygingarkerfi og setningagerð íslensks nútímamáls, og helstu mállegum gagnasöfnum sem til eru fyrir íslensku
 • hafi góða þekkingu á undirstöðuþáttum forritunar og formlegrar málfræði og þekki helstu forritunarmál sem notuð eru í málvinnslu
 • þekki helstu viðfangsefni og vandamál sem fengist er við í máltækni á alþjóðavettvangi
 • geti unnið fjölbreyttar upplýsingar úr mállegum gagnasöfnum, flokkað þær og túlkað
 • hafi gott vald á forritun og geti skrifað hugbúnað til að sinna tilteknum verkefnum á sviði máltækni
 • séu færir um að semja útdrætti og erindi fyrir fræðilegar ráðstefnur og skrifa fræðigreinar til birtingar í tímaritum
 • geti sett eigið viðfangsefni í fræðilegt samhengi á fræðasviði sínu, lagt mat á ágreiningsefni innan fræðanna og borið eigin niðurstöður saman við niðurstöður annarra fræðimanna
 • geti beitt þekkingu sinni og færni til að takast á við ný úrlausnarefni á sviði máltækni
 • hafi yfir að ráða hæfni í mannlegum samskiptum og geti stýrt verkefnum á sviði máltækni
 • geti tekið þátt í fræðilegum rökræðum um álitamál á sviði máltækni og sýnt viðhorfum annarra skilning og virðingu
 • séu færir um að greina frá fræðilega rökstuddum niðurstöðum á sviði máltækni, einir eða í samstarfi við aðra, jafnt í áheyrn sérfræðinga og almennings
 • geri sér grein fyrir fjölbreyttum möguleikum á hagnýtingu máltækni í nútíma samfélagi
 • þekki helstu leiðir til að viðhalda þekkingu sinni og kunnáttu og séu færir um að afla sér frekari þekkingar á fræðasviði sínu.

Doktorsnám

Að loknu meistaraprófi í máltækni er hugsanlegt að fara í doktorsnám í íslenskri málfræði eða tölvunarfræði með máltækni að áherslusviði.

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.