Skip to main content

Hagnýt siðfræði

Hagnýt siðfræði

Hugvísindasvið

Hagnýt siðfræði

MA gráða – 90 einingar

Nám í hagnýtri siðfræði er sniðið fyrir fólk með margvíslegan bakgrunn sem vill verða færara um að takast á við siðferðileg viðfangsefni í nútímasamfélagi.

Skipulag náms

X

Viðskiptasiðfræði (HSP710F)

Námskeiðið fjallar um þær siðferðilegu áskoranir sem fyrirtæki geta staðið frammi fyrir og hvernig taka má á þeim áskorunum hvort sem þær eru að finna innan fyrirtækjanna sjálfra eða í samskiptum þeirra við stjórnvöld og samfélagið í heild. Námskeiðið hefur að markmiði að bæta hæfni og getu nemenda með því að kynna fyrir þeim kenningar innan viðskiptasiðfræðinnar og vinna með þær í samvinnu við ýmsa þátttakendur námskeiðsins úr röðum atvinnulífs. Kennsluefni námskeiðsins, meðal annars bókin Business Ethics, veitir tækifæri til þess að kynnast og greina siðferðilegar áskoranir í formi dæmisagna í lok hvers kafla. Kennsluefnið í heild varpar ljósi á þróun viðskiptasiðfræðinnar sem viðfangsefni innan fyrirtækja og samfélaga, svo og þróun fyrirtækjamenningar í samhengi við viðskiptasiðfræði og leiðir til að takast á við siðferðileg álitamál í viðskiptum. Enn fremur hvaða áskoranir og tækifæri á sviði viðskiptasiðfræðinnar geta boðið fyrirtækjum og samfélagi. Háskóla Íslands er umhugað að mennta fólk þar sem lögð er áhersla á samfélagslega ábyrgð, jafnrétti, nýsköpun og þróun sem miðar að aukinni sjálfbærni með gott siðferði að leiðarljósi og verður það rauður þráður í gegnum námskeiðið.  

Í námskeiðinu verða helstu hugtök og heiti innan viðskiptasiðfræði kynnt í gegnum fyrirlestra, þátttöku nemenda við greiningu og kynningu á hugtökum innan viðskiptasiðfræðinnar. Enn fremur munu gestir úr atvinnulífi og stjórnsýslu vera gestir í námskeiðinu þar sem þeir miðla af reynslu sinni þegar kemur að ólíkum þáttum viðskiptasiðfræðinnar. Horft er til þess að þema hvers tíma verði rætt við viðkomandi gest. Tímunum er skipt þannig að fleiri en eitt þema getur verið tekið fyrir hverju sinni. Þema getur líka flotið yfir fleiri en einn tíma. Allir nemendur velja sér þema til þess að skilgreina (líka þeir sem taka 1,5 og 3,0 einingar). E nemendur sem taka 6,0 og 7,5 ECTS einingar fá tækifæri til þess að leggja mat á stöðu viðskiptasiðferðis í fyrirtæki í samvinnu við atvinnulífið.   

Nemendur í HSP710F sem er 6 eininga námskeið veiti því sérstaka athygli að námskeiðið er kennt í seinni lotu annarinnar, samkvæmt lotukerfi Viðskiptafræðideildar. Hefst námskeiðið eftir miðjan október og lýkur í byrjun desember.

X

Verkefni á kjörsviði (HSP712F)

Markmið námskeiðsins er að koma nemendum í hagnýtri siðfræði í gang með meistararitgerðina. Þeir kynnast reglum um MA ritgerðir og fá aðstoð við val á leiðbeinanda. Námskeiðið auðveldar nemendum að skipuleggja ritgerðina (í samráði við leiðbeinanda). Nemendur kynna hugmyndir sínar um lokaverkefni í hópnum og fá umræðu um þær.

X

Siðfræði náttúrunnar (HSP722M)

Námskeiðið fjallar um samband manns og náttúru frá heimspekilegu sjónarhorni. Fjallað er um helstu frumkvöðla náttúrusiðfræðinnar og áhrifamestu kenningar sem settar hafa verið fram. Gerð grein fyrir ólíkri náttúrusýn manna og mismunandi grunnafstöðum til náttúrunnar - þ.e. mannhverfri, visthverfri og lífhverfri afstöðu. Einnig fjallað um tengsl umhverfis- og þróunarmála og tengsl umhverfishyggju og lýðræðisþróunar. Rætt um álitaefni eins og: Getur siðfræðin nýst við lausn umhverfisvandamála?, Hvers konar verur hafa siðferðisstöðu?, Geta náttúrleg fyrirbæri búið yfir eigingildi?, Hafa dýr einhver réttindi?, Er einhver grundvallarmunur á (af)stöðu karla og kvenna gagnvart náttúrunni?, og Hvert er siðferðilegt inntak sjálfbærrar þróunar?

X

Siðferðileg álitamál samtímans (HSP723M)

Áleitin siðferðileg úrlausnarefni ofarlega á baugi í nútímasamfélagi eru meginviðfangsefni þessa námskeiðs. Sjónum er beint að möguleikum siðfræðinnar á að takast á við klemmur sem upp koma, jafnt í lífi einstaklinga sem á samfélagsgrundvelli. Val á viðfangsefnum getur breyst milli ára en meðal mögulegra viðfangsefna námskeiðsins má nefna tjáningarfrelsi, stöðu flóttafólks, réttindi dýra, fátækt og ójöfnuð, kynjamisrétti, kynþáttamisrétti, umhverfismál og ýmis álitamál úr heilbrigðiskerfinu. Farið er í tengsl fræðilegrar og hagnýttrar siðfræði. Námskeiðið byggir á fyrirlestrum með ríkri áherslu á virka þátttöku nemenda í umræðum.

X

Gagnrýnin hugsun (HSP724M)

Námskeiðinu er ætlað að gera nemendum grein fyrir mikilvægi gagnrýninnar hugsunar með því að kynna helstu hugtök og aðferðir og mismunandi skilning á eðli og hlutverki hennar. Nemendur verða þjálfaðir í gagnrýninni hugsun eins og hún kemur fyrir í heimspeki og í daglegu lífi og starfi. Lögð er áhersla á að greina röksemdafærslur og vinna með rökskipurit. Helstu rökvillur og rökbrellur verða ræddar og nemendum kennt hvernig má greina þær og forðast. Ítarlega verður farið í samband gagnrýninnar hugsunar og siðfræði.

Kennslan fer fram í fyrirlestrum og umræðutímum. Sérstök áhersla er lögð á umræður um raunhæf úrlausnarefni. Reynt verður að hafa verkefni eins hagnýt og kostur er og tengja þau sem flestum sviðum daglegrar reynslu.

X

Verkefni tengt siðfræði náttúrunnar (HSP725M)

Verkefni tengt námskeiðinu HSP722M Siðfræði náttúrunnar.

X

Siðfræði vísinda og rannsókna (HSP806F)

Námskeiðið er eingöngu ætlað framhaldsnemum. Tekið verður mið af þörfum nemenda af ólíkum fræðasviðum við útfærslu námskeiðsins. 

Kennsla fer fram frá 12. janúar til 16. febrúar á föstudögum kl. 13:20 til 15:40.

Viðfangsefni:
Meðal annars verður fjallað um eftirfarandi efni: Fagmennska og ábyrgð vísindamanna. Kröfur um fræðilega hlutlægni og hlutleysi vísinda. Jafnréttissjónarmið og ríkjandi viðmið í vísindastarfi. Vald og vísindi. Hagsmunaárekstrar í vísindastarfi. Vísindin og samfélagið. Siðfræði rannsókna.

Markmið: 
Nemendur öðlist þekkingu á siðferðislegri vídd vísinda og rannsókna og fái þjálfun í að greina og rökræða um siðferðileg ágreiningsefni tengd vísindum og rannsóknum í nútímasamfélagi.

Kennsla er í formi fyrirlestra og umræðna. Námskeiðið er hugsað sem akademískt samfélag þar sem nemendur taka virkan þátt í markvissri umræðu um viðfangsefnin. Hver nemandi flytur framsöguerindi samkvæmt áætlun sem gerð er í upphafi misseris og jafnframt kynna aðrir nemendur sér efnið og ræða það í málstofunni undir handleiðslu kennara.

X

Siðfræði (HSP808F)

Sama námskeið og HSP202G en lægra einingavægi, auknar kröfur og lágmarkseinkunn 7,25 þar sem um grunnnámskeið er að ræða.

Veitt verður yfirlit yfir þrjár af höfuðkenningum siðfræðinnar, reist á lestri frumtexta: kenningu Aristótelesar í Siðfræði hans, Johns Stuarts Mill í Nytjastefnunni og Immanuels Kant í Frumspeki siðlegrar breytni.

Námskeiðið er 10 eininga inngangsnámskeið í II. hluta heimspekináms. Ætlast er til að það sé tekið á öðru misseri fyrsta námsárs í heimspeki. Námskeiðið getur verið valnámskeið fyrir nemendur í ýmsum öðrum greinum.

Fluttir verða 2 x 12 fyrirlestrar. Lestur námsefnisins er nauðsynlegt skilyrði fyrir árangursríkri þátttöku í tímum. Hver fyrirlestur tekur fyrir afmarkað efni. Að loknum fyrirlestri verða glærur settar inn á heimasvæði námskeiðsins í Uglu.

X

Meistararannsókn (HSP809F)

Námskeiðinu er ætlað að leggja grunn að meistararannsókn nemandans sem mun ljúka með MA ritgerð. Nemandinn vinnur undir handleiðslu leiðbeinanda við að afla sér þekkingar á helstu rannsóknum á sviði MA rannsóknar sinnar (umfangið á að svara til lesturs um 10 tímaritsgreina) og kynnir sér jafnframt nýlegar alþjóðlegar rannsóknir á fræðasviði sínu. Nemandinn mótar rannsóknarspurningar og gerir rannsóknaráætlun sem kynnt er í hópi samnemenda. Nemandinn skilar rannsóknayfirliti í formi ritgerðar (um 5000 orð).

X

Heilbrigðis- og lífssiðfræði (HSP823M)

Fjallað verður um nokkur helstu álitamál á sviði lífsiðfræði á síðustu árum, einkum í tengslum við þróun á sviði erfðavísinda og erfðarannsókna og hugsanleg áhrif þeirra á heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstefnu.

Námskeiðið verður kennt samþjappað frá 2.–25. mars. Fyrirlestrar eru á þriðjudögum og fimmtudögum 15–17:20. 

Í lok námskeiðsins verður haldin málstofa með framsögum nemenda og verður tilhögun hennar ákveðin í samráði við nemendur. 

X

Meistararitgerð í hagnýtri siðfræði (SIÐ431L)

Meistararitgerð til 30e skal vera 20.000-30.000 orð. Í henni skal tekið til rannsóknar afmarkað og samstætt viðfangsefni og það kannað rækilega með fræðilegum aðferðum. Í upphafi skal gera grein fyrir viðfangsefninu, þeim spurningum sem bornar verða upp og rannsóknaraðferð. Niðurstöður verður að setja fram skýrt og aðgengilega. Almenn krafa til meistararitgerða er að þar sé fylgt viðurkenndum fræðilegum rannsóknaraðferðum og að þær séu sjálfstætt framlag til þekkingarsköpunar á fræðasviðinu. Meistararitgerð skal að jafnaði vera skrifuð á íslensku eða ensku. Í hverri ritgerð skal vera útdráttur á íslensku og ensku.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Ólafur Ólafsson
Þórunn Sveinbjarnardóttir
Ólafur Ólafsson
MA

Ég hafði starfað í heilbrigðisgeiranum sem lyfjafræðingur í áratugi þegar ég hóf nám í hagnýtri siðfræði. Námið var áhugavert og ýtti undir opna umræðu og skapandi hugsun. Þannig var að ég sat í laganefnd Lyfjafræðingafélags Íslands þegar hrunið skall á og varð mér þá ljós skortur á siðfræðilegri hugsun þegar kom að skerðingu réttinda sjúklinga. Þó að margt hafi áunnist verður alltaf þörf fyrir gagnrýna siðfræðilega hugsun í samfélaginu. Námið hefur gagnast vel, verið hagnýtt, meðal annars í nefndarvinnu minni í Siðanefnd Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda, sem setur siðareglur um samskipti lyfjaiðnaðarins og heilbrigðisstarfsmanna, -stofnana og sjúklingasamtaka. Námið hefur reynst gott vegarnesti. 

Þórunn Sveinbjarnardóttir
MA

Hagnýta siðfræðin færði mér ný og betri verkfæri til að mynda mér upplýsta skoðun um flókin málefni. Hún kenndi mér líka að varast það að hrapa að ályktunum um mál sem ég hef fyrirfram sterkar skoðanir á. Það var holl lexía. Hagnýt siðfræði er parktískt og gott nám fyrir alla sem vilja vanda sig í vinnunni.

Hafðu samband

Þjónustuborð Hugvísindasviðs
s.525 4400 hug@hi.is.
Opið virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.

3. hæð Aðalbyggingar.
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík.

Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér þjónustuborð á Háskólatorgi.

Fylgstu með Hugvísindasviði

 Instagram   Youtube 
 Facebook

Aðalbygging Háskóla Íslands

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.