Hagnýt sálfræði


Hagnýt sálfræði
MS gráða – 120 einingar
Meistaranám í hagnýtri sálfræði er nátengt atvinnulífinu og er boðið upp á starfsnám sem tengist viðfangsefni hvers kjörsviðs fyrir sig.
MS próf í hagnýtri sálfræði veitir sterkan grunn undir doktorsnám.
Skipulag náms
- Haust
- Samfélag og heilsa
- Líkön fyrir undirliggjandi breytur I
- Gerð sjálfsmatskvarða
- Lýðheilsa: Vísindi, stjórnmál, forvarnirB
- Inngangur að umhverfis- og auðlindafræðiB
- Vor
- Líkön fyrir undirliggjandi breytur II
- Hagnýt félagssálfræði
- Ótti, samsæriskenningar og vantraust í stjórnmálumVE
- Heilbrigði og velferð - heilsueflandi samfélagV
- Heilbrigðis- og lífssiðfræðiV
- Heilsuhegðun og fæðuval – áhrifaþættir og mótunV
- Faraldsfræði hreyfingarV
- Náttúruvá og samfélagV
- Inngangur að eigindlegum rannsóknaraðferðumV
- TölfræðiV
- Eigindleg aðferðafræðiV
- Stjórnkerfi umhverfis- og auðlindamálaV
- Sjálfbær framtíðV
- Stefnumiðuð samfélagsábyrgð fyrirtækjaV
- UmhverfisskipulagV
Samfélag og heilsa (SÁL146F)
Í námskeiðinu er farið í saumana á ólíkum kenningum félagslegrar sálfræði og mögulegri hagnýtingu þeirra á sviðum samfélags, umhverfis- og heilbrigðismála. Til dæmis verður fjallað um samfélagslega mikilvæg málefni svo sem félagslega stöðu, mismunun og fordóma, ójöfnuð, fjölmenningu, öldrun, áföll, loftslagsbreytingar og margt fleira. Nemendur munu öðlast innsýn í það hvernig hagnýta má niðurstöður sálfræðirannsókna í stefnumörkun og forvörnum.
Líkön fyrir undirliggjandi breytur I (SÁL138F)
Fjallað verður um helstu líkön sem notuð eru til að vinna með undirliggjandi breytur í sálfræðilegum mælingum. Í fyrra námskeiðinu (Líkön fyrir undirliggjandi breytur I) verður unnið með staðfestandi þáttagreiningalíkön (confirmatory factor models) og formgerðarlíkön (ýmist þekkt sem structural equation models eða path model á ensku). Fjallað verður um forsendur líkananna, úrvinnsluaðferðir, túlkun niðurstaðna og leiðir til að vinna með gögn af ólíku tagi. Í síðara námskeiðinu (Líkön fyrir undirliggjandi breytur II) verður byrjað á að kynna aðferðir til að vinna með gögn þar sem mældar breytur eru flokkabreytur og þaðan farið yfir í náskyld líkön, svarferlalíkön (item response theory). Unnið verður með líkön fyrir tvíkosta gögn og algengustu líkön fyrir fjölkostagögn kynnt. Í seinni hluta námskeiðsins verða viðfangsefnin líkön fyrir langtímagögn sem nýta undirliggjandi breytur, þroskalíkön, (latent growth models), krosstengslalíkön (cross-lagged product models), og líkön fyrir þéttmælingagögn (Intensive longitudinal methods, einnig þekkt sem Daily-diary data, Ambulatory assessment eða Ecological-momentary data). Áhersla er lögð á hagnýta þjálfun í að greina gögn með þessum líkönum með verkefnum auk þess sem fjallað verðu um fræðilegan grunn líkana.
Gerð sjálfsmatskvarða (SÁL139F)
Í þessu námskeiði er fjallað um gerð sjálfsmatskvarða. Kynntar verða fræðilegar undirstöður slíkra mælinga eins og klassíska raungildiskenningu (classical true score theory). Megináherslan verður á hagnýta þjálfun í gerð slíkra mælitækja, álitamál sem rannsakendur standa gjarnan frammi fyrir við gerð þeirra og lausnir á þeim ræddar.
Lýðheilsa: Vísindi, stjórnmál, forvarnir (LÝÐ101F)
Í námskeiðinu er farið yfir skilgreiningar, sögu, markmið, gildissvið, siðfræði og aðferðir lýðheilsuvísinda svo og íslensk- og alþjóðleg lög og sáttmála sem tengjast lýðheilsu. Nokkur áhersla er lögð á lýðheilsu og heilbrigðisvísa í alþjóðlegu samhengi en einnig á íslenska heilbrigðiskerfið, stjórnun og fjármögnun þess svo og samanburð við heilbrigðiskerfi annara þjóða. Ennfremur er farið yfir söfnun heilbrigðisupplýsinga á Íslandi sem á alþjóðavísu og nýtingu þeirra til rannsókna og stefnumótunar í heilbrigðismálum. Einnig er lögð áhersla á þau svið lýðheilsu sem eru á döfinni hverju sinni.
Inngangur að umhverfis- og auðlindafræði (UAU102F)
Hin öra fjölgun mannkynsins og umsvifin sem henni fylgja hafa á undanförnum áratugum haft gríðarleg og sívaxandi áhrif á náttúruauðlindir og umhverfi. Til þess að skilja þessi áhrif og og geta valið réttu leiðirnar til að takast á við þau, þarf að beita þverfræðilegum aðferðum, þar sem gripið er jöfnum höndum til náttúrufræði, félagsfræði, hagfræði,verkfræði og fleiri greina. Áður en nemendur læra um þverfræðilegar aðferðir til að nálgast aðsteðjandi vanda, þurfa þeir að átta sig á því í hverju vandinn er fólginn en það er einmitt markmið þessa námskeiðs. Fjallað verður um umhverfi og auðlindir almennt með áherslu á gildi þeirra fyrir mannkynið og helstu orsakir umhverfisvandamála og þýðingu þeirra bæði í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Einkum verður farið yfir eftirtalda efnisflokka: Fólksfjölgun, tækni og hagvöxt. Líffræðilega fjölbreytni og útrýmingu tegunda. Jarðveg og jarðvegseyðingu. Landbúnað og umhverfisáhrif. Mengun og heilsu . Loftmengun, vatnsmengun og jarðvegsmengun. Helstu mengunarvalda í andrúmslofti og áhrif þeirra. Eyðingu ósonlagsins og loftslagsbreytingar. Sorp og spilliefni. Ferskvatnsauðlindir. Auðlindir sjávar. Auðlindir skóga og votlendis. Orkuauðlindir. Orkunýtingu og umhverfisáhrif.
Líkön fyrir undirliggjandi breytur II (SÁL239F)
Í þessu námskeiði er byggt ofan á þekkingu um mælilíkön sem kennd var á 1. misseri. Í námskeiðinu verður fjallað um einföld og flóknari formgerðarlíkön og aðrar aðferðir sem notaðar eru til þess að kanna sambönd milli undirliggjandi þátta. Nemendur munu öðlast verklega þjálfun í að beita líkönum til að prófa tengsl þátta í þversniðsgögnum, langtímagögnum og margþrepagögnum. Lögð verður rík áherlsa á að nemendur geti túlkað og greint frá niðurstöðum slíkra prófana.
Hagnýt félagssálfræði (SÁL240F)
Námskeiðið fjallar um hvernig nýta má kenningar, lögmál, aðferðir og niðurstöður rannsókna félagssálfræðinnar til að skilja og leysa raunveruleg samfélagsvandamál og viðfangsefni. Fjallað verður um heilsu- og fræðsluherferðir (social marketing), umhverfissálfræði, þvermenningarlega sálfræði (cross-cultural), hóphegðun, fordóma, ranghugmyndir og hugsanavillur um hagrænar stærðir, auglýsingar og neysluhegðun, fjármál og ályktunarvillur, svo dæmi séu tekin. Tilgangur námskeiðsins er ekki að kenna nemendum allt á þessum sviðum, heldur kynna þá fyrir ákveðnu sjónarhorni á samfélagsleg vandamál og hvernig er hægt að beita sálfræðilegri og vísindalegri þekkingu á þau. Lögð verður áhersla á sjálfstæð vinnubrögð nemenda og ýtt undir færni þeirra til að nýta þekkingu á félagssálfræði við þrautalausnir. Námsmat er fólgið í verkefnum þar sem praktísk vandamál eru tekin fyrir og leyst með kenningum og rannsóknarniðurstöðum félagssálfræði.
Ótti, samsæriskenningar og vantraust í stjórnmálum (STJ461G)
Þvert á það sem ætla mætti af stjórnmálaumræðu samtímans hafa ótti, samsæriskenningar og vantraust einkennt stjórnmál frá ómunatíð. Í námskeiðinu könnum við þessi fyrirbæri út frá þverfaglegu sjónarhorni stjórnmálasálfræði með stuðningi frá öðrum tengdum greinum. Í upphafi verður fjallað um traust í garð stjórnmála, stjórnmálamanna og meðborgara sem mikilvægt en vandmeðfarið hugtak innan stjórnmála. Við veltum fyrir okkur fylgifiskum vantrausts svo sem pólun samfélagshópa og stjórnmálaþátttöu. Því næst læra nemendur um sálfræði ótta og þekkt áhrif hans á skoðanir fólks. Sálfræði samsæriskenninga, orsakir þeirra og afleiðingar fyrir stjórnmálahegðun og -viðhorf verða einnig til umfjöllunar.
Heilbrigði og velferð - heilsueflandi samfélag (HHE404M)
Inntak og meginviðfangsefni
Megininntak námskeiðsins grundvallast af auknu vægi sem heilsa og vellíðan hefur fengið í öllu skólastarfi. í fyrsta lagi með innleiðingu á grunnstoðinni Heilbrigði og velferð eins og hún er kynnt í Aðalnámskrá og ritröð um grunnþætti menntunar. Í öðru lagi með heilsueflandi verkefnum Embættis landlæknis, sem beinast bæði að skólum og samfélaginu öllu. í þriðja lagi með Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem beinast að samfélaginu öllu.
Á fyrstu síðu í hefti um grunnstoðina Heilbrigði og velferð segir: „Heilbrigði byggir á andlegri, líkamlegri og félagslegri líðan. Það ræðst af flóknu samspili einstaklings við umhverfi sitt og félagslegum kringumstæðum. Allt skólastarf þarf að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velferð og vellíðan óháð efnahag og aðstæðum enda verja börn og ungmenni stórum hluta dagsins í skóla. Helstu áhersluþættir heilbrigðis eru jákvæð og raunsönn sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra. Allir þurfa að fá tækifæri til að njóta styrkleika sinna og byggja upp trausta sjálfsmynd sem er undirstaða þess að geta tekið upplýstar og ábyrgar ákvarðanir í tengslum við eigið heilbrigði. Veita þarf fræðslu um gildi hreyfingar, efla hreyfifærni og skapa öruggt umhverfi sem hvetur alla til að hreyfa sig. Í skólaumhverfinu þarf að stuðla að heilsusamlegu fæðuvali með fræðslu og góðu framboði á fjölbreyttum mat.”
Um Heilsueflandi samfélag segir í texta á vef Embættis landlæknis: „Samfélag sem leggur áherslu á að heilsa og líðan allra íbúa sé höfð í fyrirrúmi í allri stefnumótun og á öllum sviðum er Heilsueflandi samfélag.“ Einnig segir „Í heilsueflandi samfélagi er stöðug áhersla lögð á að bæta bæði hið manngerða og félagslega umhverfi íbúa, draga úr ójöfnuði, og draga úr tíðni og afleiðingum langvinnra sjúkdóma með margvíslegu forvarnar- og heilsueflingarstarfi.“
Vinnulag
Námskeiðið er kennt bæði sem staðnám og fjarnám þar sem fyrirlestrar eru teknir upp á settir inn á fjarnámsvef. Á námskeiðinu fá nemendur námsefni miðlað á vef, taka heimapróf á Canvas úr lesefni og vinna fræðileg verkefni. Í innlotum eru aðrir fyrirlestrar og vinnustofur. Skyldumæting er í staðlotur.
Til að standast námskeið þarf lágmarkseinkunnina 5,0 í sérhverju verkefni og prófi.
Heilbrigðis- og lífssiðfræði (HSP823M)
Fjallað verður um nokkur helstu álitamál á sviði lífsiðfræði á síðustu árum, einkum í tengslum við þróun á sviði erfðavísinda, og erfðarannsókna og hugsanleg áhrif þeirra á heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstefnu.
Námskeiðið verður kennt samþjappað frá 2.–25. mars. Fyrirlestrar eru á þriðjudögum og fimmtudögum 15–17:20.
Í lok námskeiðsins verður haldin málstofa með framsögum nemenda og verður tilhögun hennar ákveðin í samráði við nemendur.
Heilsuhegðun og fæðuval – áhrifaþættir og mótun (ÍÞH036M)
Viðfangsefni námskeiðsins er heilsuhegðun í víðum skilningi. Fjallað verður um heilsuhegðun mismunandi aldurshópa og samband líffræðilegra þátta, heilsuhegðunar og félagslegra aðstæðna. Farið verður yfir hvernig hegðun einstaklinga, bjargráð og streita hafa áhrif á heilsufar. Hegðun í tengslum við fæðuval og neysluvenjur er sérstaklega skoðuð. Þá verður horft til þess hvernig má móta heilsusamlegar lífsvenjur frá æsku, svo sem hafa áhrif á fæðuval og vinna á matvendni. Samfélagsáhrif og þáttur fjölmiðla eru einnig könnuð. Námsefnið byggir á fræðbókum og vísindagreinum frá mismunandi áttum og ólíkum sviðum sem spanna viðfangsefnið og nálgast það á ólíkan hátt.
Námskeiðið er ætlað nemendum á efri stigum grunnnáms og á meistarastigi og er opið öllum.
Faraldsfræði hreyfingar (ÍÞH211F)
Markmið: Að nemendur
– dýpki þekkingu sína á samspili lífshátta sem tengjast hreyfingu og heilbrigði og skoði rannsóknir á því sviði
– öðlist aukna þekkingu á ýmsum lífsstílstengdum sjúkdómum og á áhrifum hreyfingar og þjálfunar á þá, bæði gegnum fyrirbyggjandi aðgerðir (fyrsta stigs forvarnir) og sem meðferðarúrræði (annars stigs forvarnir).
Námskeiðinu er ætlað að kynna faraldsfræðilegar rannsóknaraðferðir á sviði tengsla hreyfingar og heilsufars og auka skilning og færni nemenda í að lesa vísindagreinar með gagnrýnum hætti. Farið verður í saumana á því hvernig hreyfing hefur áhrif á heilbrigði og minnkar áhættu á ýmsum lífsstílstengdum sjúkdómum. Rannsóknir og athuganir á samspili hreyfitengdra lífshátta og ólíkra heilsufarsþátta verða reifaðar. Námskeiðið verður kennt í fyrirlestraformi.
Náttúruvá og samfélag (LAN215F)
Í námskeiðinu er fjallað ítarlega um þann vanda sem náttúruvá af ýmsu tagi skapar samfélögum af mismunandi gerð og við ólíkar aðstæður. Framlag landfræði og félagsvísinda til þekkingar á náttúruvá og tengslum hennar við samfélagið er rakið. Farið er yfir helstu fræðileg hugtök og kenningar til að varpa ljósi á viðbrögð fólks og aðlögun þess að náttúruvá. Áhættuhugtakið er skoðað sérstaklega og gerð grein fyrir rannsóknum á skynjun einstaklinga og hópa á áhættu tengdri náttúruvá. Einnig er skoðað hvernig unnt er að leggja hlutlægt mat á áhættu og draga úr áhrifum atburða, staðbundið eða á stærri svæðum. Almannavarnahringrásin er kynnt og fjallað um hlutverk og ábyrgð hinna ýmsu viðbragðsaðila. Dæmi eru tekin af tilteknum atburðum í ríkari og fátækari hlutum heimsins. Nemendur kynna sér og safna gögnum um tiltekna atburði ítarlega, greina þau og rökræða viðbrögð og afleiðingar. Íslenskar rannsóknir landfræðinga og annarra á þessu sviði verða skoðaðar sérstaklega. Einnig fara nemendur í kynnisheimsóknir til íslenskra aðila og stofnana sem sinna almannavörnum og viðbragði við náttúruhamförum.
Inngangur að eigindlegum rannsóknaraðferðum (MVS212F)
Fjallað verður um ólíkar rannsóknarstefnur og tengsl þeirra við uppbyggingu og útfærslu rannsókna. Einnig um siðfræði vísinda með áherslu á hagnýt atriði og um gæðahugtök, s.s. réttmæti, trúverðugleika og ólíka sýn á þessi hugtök. Í námskeiðinu beinist athyglin að eigindlegum aðferðum. Kynnt verða algeng rannsóknarsnið eigindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemar fá nokkra þjálfun í að beita algengum aðferðum rannsókna m.a. vettvangsathugunum, viðtölum og heimildaathugunum. Þá vinna nemar með öflun, skráningu, flokkun, greiningu og túlkun gagna, og með framsetningu þeirra og gera heildstæða rannsóknaræfingu.
Fyrirlestrar, umræður og verkefni. Skyldumæting er í staðlotum.
Tölfræði (SÁL233M)
Viðfangsefni námskeiðsins er aðfallsgreining, túlkun niðurstaðna, mat á líkönum, líkanagerð og samanburð líkana. Gerð verður grein fyrir raunhæfri greiningu og mati á gæðum líkana. Fjallað verður m.a. umbreytingar, flokkabreytur og samvirkni.
Eigindleg aðferðafræði (STJ203F)
Námskeiðið er hagnýtt ætlað nemendum í meistaranámi í Stjórnmálafræðideild sem hyggjast vinna eigindlega rannsókn í meistaraverkefni sínu. Í námskeiðinu öðlast nemendur grunnfærni í framkvæmd eigindlegra rannsókna, sérstaklega eigindlegra viðtala. Einnig er fjallað um söfnun fyrirliggjandi eigindlegra gagna. Í námskeiðinu er gerð grein fyrir ólíkum leiðum við greiningu eigindlegra gagna, þ.m.t. innihalds- og orðræðugreiningu, og öðlast nemendur færni í greiningu gagna samkvæmt þeim. Í námskeiðinu vinna nemendur verkefni sem tengjas tlokaverkefnum þeirra við Stjórnmálafræðideild eftir því sem því verður viðkomið.
Stjórnkerfi umhverfis- og auðlindamála (UAU201F)
Námskeiðinu er skipt í þrjá hluta: Ábyrgð ríkisvalds, almennings og fyrirtækja í umhverfis og auðlindastjórnun. (1) Ábyrgð ríkisvaldsins. Inngangur að íslenska stjórnkerfinu, uppbygging, ákvarðanataka á landsvísu og hjá sveitarfélögum. Samband ýmsustu stjórnstiga, ríkisvaldið, þingið, ráðuneyti, stofnanir. Grænvæðing íslenskra stjórnmála. Alþjóðlegar stofnanir svo sem Sameinuðu Þjóðirnar. Alheimsbankinn. (2) Ábyrgð almennings. Samband þjóðfélaga og náttúruauðlinda og umhverfis, Skoðanir og þátttaka almennings í ákvarðanatöku. Fráls félagasamtök og hlutverk þeirra, bæði innlend og erlend. (3) Ábyrgð einkageirans. Þrískipt markmið (umhverfi, þjóðfélagssamhygð og hagnaður). Þjóðfélagsleg og umhverfisleg ábyrgð. Strategísk umhverfistjórn. Grænt bókhald. Umhverfiskostnaður. Umhverfismerki. Stuðlar svo sem ISO 14000. Sjálfbærar fjárfestingar.
Sjálfbær framtíð (UAU207M)
Markmið námskeiðsins er að þjálfa gagnrýna hugsun nemenda og leiðtogahæfileika með sjálfbæra framtíð að markmiði. Námskeiðið mun kenna praktískar aðferðir sem minnka munu vistfótspor (e. ecological footprint), einstaklinga/fyrirtækja/stofnana/samfélags. Áhersla verður lögð á þverfræðileika og vísindalegan ramma sjálfbærni - byggðan á aðferðafræði "systems thinking". Nemendur munu læra að nýta vísindi í víðum skilningi til að styðja við regulgerðir (e. Policy), kynnast þeim eiginleikum og aðferðum sem þarf til að leiða breytingar þjóðfélaga í átt til sjálfbærni auk þeirra þátta sem nauðsynlegir eru þegar sjálfbær samfélög eru skipulögð.
Við lok námskeiðsins munu nemendur hafa öðlast hæfileika til að leiða breytingar samfélags í átt til sjálfbærrar framtíðar. Nemendur munu ma. annars geta leitt vinnustofur sem miða að sjálfbærni. Námsmat mun fara byggt á frammistöðu í vinnustofum, kynningum og hópverkefnum.
Lotunámskeið, kennt yfir fjórar helgar. Dagsetningar á vormisseri 2023 eru: 20.-21. janúar, 10.-11. febrúar, 3.-4. mars og 24.-25. mars.
Stefnumiðuð samfélagsábyrgð fyrirtækja (UAU247F)
Í þessu 13 vikna námskeiði er gert ráð fyrir virkri þátttöku nemenda. Námskeiðið tekur mið af þeirri hugmynd að þótt stjórnvöld og óhagnaðardrifin félög skipti sköpum fyrir nútímasamfélag eru það fyrirtæki sem leggja grunn að þeirri verðmætasköpun sem velferð samfélagsins byggist á. Samhliða verðmætasköpuninni hafa fyrirtækin áhrif á samfélagið sem samanstendur af fjölmörgum hagaðilum sem og náttúrulegu umhverfi. Á móti kemur að það er samfélagið sem mótar leikreglur sem fyrirtæki starfa eftir sem og þær væntingar sem fyrirtæki taka mið af í þeirra ytra og innra umhverfi. Þar á meðal má nefna Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, t.d. markmið 8, 9, 12, 13, og 17, Parísarsamkomulagið, grundvallarviðmið Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagslega ábyrgð, Global Reporting Initiative og fleira. Þessi samverkun fyrirtækja, samfélags (í víðasta skilningi þess orðs) og náttúrulegs umhverfis er viðfangsefni samfélagsábyrgðar fyrirtækja.
Burtséð frá persónulegum skoðunum fólks á samspili viðskipta og samfélags þá eru hagnaðardrifin fyrirtæki mikilvæg. Í þessu námskeiði er leitast við að kanna víddir slíks samspils frá sjónarhóli mismunandi hagaðila. Það er gert á gagnvirkan hátt, með því að skoða og greina málefni sem tengjast samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja, með hermileikjum (simulation) og með tilviksrannsóknum (hópverkefni).
Námskeiðinu er skipt upp í fimm megin hluta. Í fyrsta hluta er skoðað hvað samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja merkir, hverjir eru drifkraftar samfélagsábyrgðar og réttindi og skyldur fyrirtækja. Í öðrum hluta er sjónum beint að sjónarhorni hagaðila og í þriðja hluta er fjallað um efnahagslega þætti. Í fjórða hlutanum er fjallað um stefnumarkandi þátt samfélagsábyrgðar og í fimmta hluta sjónarmið sjálfbærrar þróunar.
Umhverfisskipulag (UMV201M)
Markmið: Nemendur fá yfirsýn yfir umhverfismál í heiminum með áherslu á helstu umhverfisáhrif vegna uppbyggingar þjóðfélaga og nýtingar á auðlindum. Nemendur læra að meta og bera saman mismunandi byggðamynstur og skipulagsmarkmið með tilliti til umhverfisáhrifa þeirra.
Efnisatriði: Námskeiðið gefur nemendum yfirsýn á umhverfisvandamál bæði í nærumhverfi og í heiminum. Áherslan er á greiningu og mat á áhrifum mismunandi landnotkunar á umhverfið. Dæmi um slíkar greiningar eru rannsökuð og leitað að mögulegum skipulagslausnum. Núverandi skipulagsstefna er skoðuð og metin með tilliti til verndunar umhverfisins.
Kennsla: Fyrirlestrar og hópvinna. Fyrirlestrar verða um helstu þemu sem verður nánar fjallað um í hópverkefnum. Í fyrirlestrum verður mikið af dæmum úr fræðilegum rannsóknum kynnt. Nemendur munu einnig taka þátt í fyrirlestrum með umræðum og litlum hópverkefnum.
- Haust
- MS-ritgerð í hagnýtri sálfræði; Félagsleg sálfræðiV
- Áhrifavaldar heilbrigðis, forvarnir og heilsueflingV
- Afbrot og frávikshegðunV
- Kenningar og sjónarhorn í fötlunarfræðiV
- Lífshlaupið, sjálf og samfélagV
- Eigindlegar rannsóknaraðferðir IV
- Áfengis- og vímuefnamál I: Stefnumótun, þverfagleg nálgun og skilgreiningarVE
- Kostnaðar- og nytjagreiningVE
- Almenn kynjafræðiV
- Þróunarsamvinna: Stefnur og stofnanirV
- Hnattræn heilsaV
- R forritunV
- R fyrir byrjendurV
- Faraldsfræði næringarVE
- Mannauðsstjórnun ríkis og sveitarfélagaV
- Opinber stjórnsýslaV
- Sjálfbær þróun, stefnumótun umhverfismála og stjórnun náttúruauðlindaV
- Hnattrænar loftslagsbreytingarV
- Öldrunarfræði: Stefnumótun og þjónustaV
- Vor
- MS-ritgerð í hagnýtri sálfræði; Félagsleg sálfræðiV
MS-ritgerð í hagnýtri sálfræði; Félagsleg sálfræði (SÁL093L)
MS-ritgerð í hagnýtri sálfræði; félagsleg sálfræði
Áhrifavaldar heilbrigðis, forvarnir og heilsuefling (LÝÐ104F)
Stærstu áhættuþættir ótímabærra dauðsfalla svo sem hár blóðþrýstingur, tóbaksnotkun, yfirþyngd og hreyfingarleysi valda um 22 milljónum dauðsfalla árlega á heimsvísu. Bæta mætti allt að 5 árum við meðalaldur jarðarbúa með því að draga hóflega úr algengi átta algengstu áhættuþáttanna. Markmið námskeiðsins er að undirbúa nemendur fyrir þetta viðfangsefni og skiptast áherslur í nokkra meginþætti:
1. Áhrifavaldar heilbrigðis: Hvaða þættir hafa mest áhrif á heilsu og heilbrigði?
2. Aðferðafræði:
a) Hvernig skipuleggjum við forvarnar- og heilsueflingarverkefni?
b) Hvar er hagkvæmast að byrja? Hagfræðileg greining á inngripum.
c) Hvernig höfum við jákvæð áhrif á atferli einstaklinga? Líkön í atferlisfræði, áhugahvetjandi samtöl, atferlishagfræði, samskiptafræði og félagsleg markaðsfærsla.
d) Hvernig höfum við áhrif á ,,kerfið”? Hagsmunagæsla (lobbyismi), bréfaskrif til þingmanna, umfjöllun í fjölmiðlum.
3. Nánari umfjöllun um helstu viðfangsefni: háþrýsingur, sykursýki, hjarta- og æðasjúkdomar, næring og mataræði, ofþyngd og offita, hreyfing, tóbaksvarnir, krabbamein, áfengi og vímuefni, slysavarnir, umhverfi og atvinna, geðrækt og sjálfsvígsforvarnir, kynheilbrigði og sjálfsmynd, sértækar lausnir fyrir börn og unglinga.
Framsetning: Fyrirlestrar umsjónarkennara og valinna gestafyrirlesara sem eru meðal fremstu sérfræðinga þjóðarinnar á sínu sviði. Lagt verður upp úr umræðum, virkni og þátttöku nemenda í tímum. Einnig vinna nemendur hópverkefni þar sem þeir kynna sér til hlítar valinn áhættuþátt og gefa tillögur að úrbótum.
Afbrot og frávikshegðun (FÉL0A1F)
Í námskeiðinu verður farið ítarlega í helstu kenningar í afbrotafræði og félagsfræði frávika. Nemendur munu lesa rannsóknagreinar þar sem kenningarnar eru prófaðar, bæði á Íslandi og erlendis.
Fjallað verður um mismunandi brota- og efnisflokka í félags- og afbrotafræðilegu ljósi, t.d. kyn og afbrot, búferlaflutninga og afbrot.
Áhersla er lögð á nemendur tengi saman kenningarlega umræðu og fyrirliggjandi rannsóknir.
Kenningar og sjónarhorn í fötlunarfræði (FFR102F)
Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu á þróun hugmynda og kenninga um fötlun og fái innsýn í fræðilega umfjöllun og rannsóknir á því sviði. Lögð er áhersla á þróun fötlunarfræða sem þverfræðilegrar og gagnrýnnar fræðigreinar með náin tengsl við réttindabaráttu fatlaðs fólks. Fjallað verður um margbreytileg félagsleg og menningarleg sjónarhorn og kenningar fræðigreinarinnar. Sérstök áhersla verður á þá hugmyndafræði sem legið hefur til grundvallar stefnumótunar og þjónustu við fatlað fólk undanfarna áratugi, þ.e.; 1) hugmyndafræði um “eðlilegt líf” normaliseringu, 2) hugmyndafræði um “sjálfstætt líf” independent living og 3) mannréttindasjónarmið. Jafnframt verður fjallað um tengsl hugmyndafræðinnar við daglegt líf fatlaðs fólks.
Lífshlaupið, sjálf og samfélag (FFR302M)
Aðstæður og reynsla fatlaðs fólks er miðlæg í umfjöllun námskeiðsins, þar sem áhersla er á lífshlaupið og þau meginsvið sem snerta daglegt líf, svo sem fjölskyldulíf, menntun, atvinnu og búsetu. Rýnt verður í íslenskar og erlendar rannsóknir um líf og aðstæður fatlaðs fólk og þau fjölmörgu öfl sem móta sjálfsmynd og sjálfsskilning fatlaðra barna, ungmenna og fullorðins fólks. Fræðileg umfjöllun námskeiðsins er tengd við lagasetningar, stefnumótun, þjónustu, velferðarkerfi og félagslegar aðstæður fatlaðs fólks.
Eigindlegar rannsóknaraðferðir I (FMÞ103F)
Markmið námskeiðsins er að nemendur kynnist fjölbreytileika og fræðilegum forsendum eigindlegrar rannsóknahefðar í félagsvísindum og öðlist reynslu í að beita eigindlegum aðferðum. Um hagnýtt námskeið er að ræða þar sem hver nemandi vinnur sjálfstætt rannsóknarverkefni sem felst í því að hanna og undirbúa rannsókn, afla gagna, greina þau og skrifa um helstu niðurstöður undir handleiðslu kennara. Í námskeiðinu verður farið ítarlega í undirbúning rannsókna, gerð rannsóknaráætlunar, gagnaöflun, greiningu og skrif.
Áfengis- og vímuefnamál I: Stefnumótun, þverfagleg nálgun og skilgreiningar (FRG119F)
Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu á félagslegum, sálfræðilegum og læknisfræðilegum þáttum áfengis- og vímuefnaneyslu og þróun vímuefnaröskunar. Fjallað verður um skimun og greiningarlíkön, einkenni vímuefnaröskunar og samanburður verður gerður á samfélagslegum og menningarlegum þáttum áfengis og vímuefnaneyslu. Gerð verður grein fyrir hlutverki stefnumótunar og löggjafar um mismunandi meðferðarúrræði og forvarnir í þverfaglegu samstarfi og hvernig áfengis- og vímuefnaröskun getur þróast á mismunandi hátt hjá ólíkum hópum.
Námskeiðið verður kennt í staðlotum. Skyldumæting er í lotur.
Kostnaðar- og nytjagreining (HAG101F)
Tilgangur kostnaðar-nytjagreiningar er að auðvelda töku ákvarðana sem snerta marga þjóðfélagsþegna með beinum eða óbeinum hætti. Markmið námskeiðsins í kostnaðar-nytjagreiningu er að kynna nemendum fræðilega undirstöður aðferðarinnar jafnt sem hagnýtingu hennar. Umfjöllunarefnin eru m.a.: Rekstrarhagfræðilegur grundvöllur kostnaðar-nytjagreiningar, mat á neytendaábata, framleiðendaábata og samfélagslegum ábata. Þjóðhagsleg og rekstrarhagfræðileg áhrif framkvæmda. Afvöxtun, ávöxtun og opinberir reiknivextir. Áhrif óvissu á mat á þjóðhagslegum áhrifum og verðmæti upplýsinga. Tilvistarvirði (existence value). Skilyrt verðmætamat. Verðmat á tíma, mannslífum, hávaða.
Almenn kynjafræði (KYN101F)
Í námskeiðinu er fjallað um helstu viðfangsefni kynjafræða í ljósi margbreytileika nútímasamfélaga. Kynjafræðilegu sjónarhorni er beitt til að gefa yfirlit yfir stöðu og aðstæður ólíkra hópa í samfélaginu. Fjallað er um upphaf og þróun kvennabaráttu og kynjafræða. Kynnt verða helstu hugtök kynjafræða svo sem kyn, kyngervi, eðlishyggja og mótunarhyggja. Skoðað er hvernig kyn er ávallt samtvinnað öðrum samfélagslegum áhrifabreytum.
Þróunarsamvinna: Stefnur og stofnanir (MAN018F)
Fjallað verður um ágreining um þróunarsamvinnu. Þá verða kynntar mismunandi leiðir til þróunaraðstoðar, styrk þeirra og veikleika. Til umfjöllunar verða fjölþjóðastofnanir, tvíhliða stofnanir, frjáls félagasamtök, nýir þróunaraðilar og viðskipti. Nálganir sem ræddar verða eru m.a. verkefnanálgun, geiranálgun, árangursmiðuð stjórnun, þátttökunálgun og samþætting. Einnig verður fjallað um auðlindir og umhverfismál. Loks verður rætt um þróunarsamvinnu í óstöðugum ríkjum og neyðraðstoð.
Hnattræn heilsa (MAN0A3F)
Í námskeiðinu verður farið yfir helstu forgangsverkefni á fræðasviði hnattrænnar heilsu (e. global health). Fjallað verður um mismunandi sjúkdómsbyrði landa, ójöfnuð og helstu félags- og efnahagslegu áhrifaþætti á líf og heilsu fólks í hnattvæddum heimi. Sérstök áhersla verður á heilsu mæðra, nýbura, barna og ungs fólks með áherslu á milli- og lágtekjulönd og uppbyggingu heilbrigðiskerfa til að veita góða og tímanlega þjónustu. Áskoranir í næringu þjóða og geðheilbrigði verður skoðað í hnattrænu ljósi og forvarnir og samfélagsleg þýðing sýkinga eins og malaríu, berkla, HIV/AIDS, kóler, Ebólu og COVID-19. Þá verður fjallað um áhrif umhverfis, ofbeldis, menningar, neyðarástands og starf alþjóðlegra stofnana og þróunarsamvinnu, nýju Heimsmarkmiðin og siðfræðileg álitamál.
Vinsamlega athugið að ef þörf krefur vegna þátttöku erlendra nemenda þá verður námskeiðið kennt á ensku.
R forritun (MAS102M)
Í námskeiðinu munu nemendur framkvæma hefðbundnar tölfræðiaðferðir á raunverulegum gagnasöfnum. Áhersla verður lögð á fjölbreytu aðhvarfsgreiningu (e. multiple linear regression). Nemendur beita fáguðum aðferðum við myndræna framsetningu sem og sjálfvirka skýrslugerð. Námsmat verður í formi raunhæfra verkefnia þar sem nemendur framkvæma ofangreind atriði á raunverulegum gagnasöfnum með það fyrir augum að svara rannsóknarspurningum.
R fyrir byrjendur (MAS103M)
Námskeiðið fjallar um tölfræðiúrvinnslu í forritinu R. Gert er ráð fyrir að nemendur hafi grunnþekkingu í tölfræði og munu nemendur læra að beita þeim tölfræðiaðferðum sem þeir þekkja í R. Farið verður í innlestur gagna, myndræna framsetningu, lýsandi tölfræði og hvernig algengustu tilgátupróf (t-próf, kí-kvaðratpróf o.s.frv) eru framkvæmd í R. Að auki verður nemendum kennt að nota knitr pakkann til að vinna skýrslur.
Námskeiðið er kennt á fimm vikum í þrjár kennslustundir á viku. Kennari heldur fyrirlestra og nemendur vinna verkefni.
Faraldsfræði næringar (NÆR701F)
Markmið námskeiðsins er að auka skilning nemenda á helstu rannsóknaraðferðum í faraldsfræði næringar og að efla skilning nemenda á notkun erfðafræði innan þessa sviðs.
Námskeiðið mun í byrjun fjalla um grunnatriði faraldsfræðinnar og svo verður farið ítarlega í rannsóknaraðferðir innan faraldsfræði næringar. Þar á eftir verða kynnt sérstök viðfangsefni innan þessa sviðs. Í lokin verður fjallað um notkun erfðafræði í faraldsfræði næringar (nutrigenomics).
Mannauðsstjórnun ríkis og sveitarfélaga (OSS102F)
Fjallað er um mannauðsstjórnun hjá hinu opinbera. Farið er yfir lög og reglur sem gilda um réttarsamband opinberra starfsmanna við vinnuveitendur, samskipti á vinnumarkaði og uppbyggingu launakerfis opinberra starfsmanna. Rætt er um helstu tæki og tól við mannauðsstjórnun svo sem mannauðskerfi, aðferðir við val á starfsmönnum, notkun starfs- og árangursmats, starfsmannasamtöl og mótun og eftirfylgni með starfsmannastefnum. Fjallað verður um sálfræðilega samninginn, ýmis vandamál sem upp geta komið á vinnustað og vinnuvernd og öryggismál.
Opinber stjórnsýsla (OSS111F)
Á þessu kynningar- og inngangsnámskeiði fá nemendur heildaryfirsýn yfir skipulag og þróun opinberrar stjórnsýslu. Fjallað er um megineinkenni opinberrar stjórnsýslu á Íslandi, þar á meðal grundvöll hennar og helstu mótunarþætti. Í námskeiðinu er farið yfir grundvallarhugtök stjórnsýslufræðanna. Kynntar eru helstu kenningar um skipulagsheildir, valddreifingu og ákvörðunartöku í opinberri stjórnsýslu og lýst þróun stjórnsýslufræðinnar sem fræðigreinar. Athyglinni er sérstaklega beint að tengslum milli opinberrar stjórnsýslu og stjórnmála og áhrifum þeirra tengsla á uppbyggingu, starfshætti og stefnumótun. Áhersla er lögð á greiningu og skilning á því hvað skilur að einkarekstur annars vegar og opinberan rekstur og þjónustu hins vegar.
Athugið að námskeiðið er aðeins kennt með fjarnámssniði.
2x40 mínútna fyrirlestrar sendir út á netinu og 1x40 mínútna fyrirspurnar- og umræðutími á netinu (Zoom-fundir) á viku.
Sjálfbær þróun, stefnumótun umhverfismála og stjórnun náttúruauðlinda (UAU101F)
Ýmsum aðferðum má beita til að hafa áhrif á lífsstíl fólks og hegðun til að draga úr óæskilegum áhrifum á umhverfið og stuðla að sjálfbærri þróun. Þetta námskeið fjallar um umhverfis og auðlindastjórnun sem hefur að markmiði sjálfbæra þróun. Námskeiðinu er skipt í þrjá hluta. Í þeim fyrsta er fjallað um sjálfbæra þróun og hugtakið skilgreint frá ýmsum sjónarhornum. Sérstaklega er rætt hvort hagvöxtur samrýmist sjálfbærri þróun, hvernig megi samræma hin mörgu markmið sem felast í sjálfbærri þróun, umhverfisvísar og framkvæmd markmiða sjálfbærrar þróunnar. Í öðrum hluta verður fjallað um aðferðir sem notaðar eru við ákvarðanatöku í umhverfis og auðlindastjórnun svo sem ákvarðanagreiningu, og kostnaðar-og ábatagreiningu sem og mat á virði nátturuauðs. Í síðasta hluta námskeiðsins verða ýmis stjórntæki sem notuð eru til umhverfis- og auðlindastjórnunar kynnt og krufin til mergjar í alþjóðlegu samhengi, bæði hvað varðar hugmyndafræðilegan grunn þeirra og þær aðferðir sem þau byggja á. Þau dæmi sem tekin eru breytast ár frá ári og byggja á áhuga þeirra nemenda sem taka námskeiðið hvert ár, svo sem kvótakerfi, skilagjöld, mengunarskattar og fjölmarkmiða stjórnun.
Hnattrænar loftslagsbreytingar (UAU107M)
Loftslagsbreytingar eru hnattrænt vandamál og eitt af mest krefjandi umhverfisvandamálum líðandi stundar og verður áfram í nánustu framtíð. Síðan 1992 hafa verið margir fundir og samkomulög á vegum Sameinuðu þjóðanna.
Í námskeiðinu verður farið yfir loftslagsbreytingar frá nokkrum sjónarhornum. Byrjað á að fara yfir helstu gögn og vísindi er tengjast loftslagsbreytingum og líkönum af framtíðar breytingum. Síðan verður fjallað um áhrif og varnarleysi (e. vulnerability) og viðleitni til að draga úr áhrifum og aðlagast loftslagsbreytingum. Einnig er fjallað um málefni eins og loftslags-flóttamenn, mismunandi áhrif eftir kyni og samningaviðræður.
Einkunnargjöf byggir á skriflegu verkefni, þátttöku í tímum og kynningum, auk stuttrar könnunar. Nemendur sem taka þetta námskeið hafa almennt mjög mismunandi bakgrunn og þú munt hafa tækifæri til að læra um loftslagsbreytingar frá mismunandi sjónarhornum.
Öldrunarfræði: Stefnumótun og þjónusta (ÖLD102F)
Markmið námskeiðsins er að kynna öldrunarfræði sem þverfaglega fræðigrein með aðaláherslu á félagslega öldrunarfræði. Hugmyndafræði fræðigreinarinnar, helstu rannsóknir og rannsóknaraðferðir verða kynntar. Fjallað verður um félagslega, sálræna og líffræðilega öldrun og áhrif þess að eldast á einstaklinga og umhverfi þeirra. Kynntar verða helstu kenningar öldrunarfræðinnar og fjallað um áhrif þeirra á stefnumótun í öldrunarþjónustu. Áhersla verður lögð á að dýpka þekkingu þátttakenda um málefni aldraðra með það að markmiði að gera þá hæfari til að vinna með öðrum starfsstéttum að velferðarmálum aldraðra.
Lotukennsla. Námskeiðið verður kennt í staðlotum. Skyldumæting er í staðlotur.
MS-ritgerð í hagnýtri sálfræði; Félagsleg sálfræði (SÁL093L)
MS-ritgerð í hagnýtri sálfræði; félagsleg sálfræði
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.