Skip to main content

Félagsleg sálfræði

Félagsleg sálfræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Kjörsviðið fellur undir námsleiðina Hagnýt sálfræði. Kjörsviðið veitir nemendum þekkingu á kenningum og rannsóknaraðferðum félagslegrar sálfræði. Sérstök áhersla verður lögð á tvær hagnýtar undirgreinar félagssálfræði; umhverfis- og heilsusálfræði. Fjallað verður um samfélagsleg áhrif á hegðun, hugsun, heilsu og líðan fólks og því verða nemendur hvattir til þess að hugsa á gagnrýninn hátt um félagsleg og pólitísk málefni samtímans. Mörg aðkallandi viðfangsefni nútímans verða krufin út frá félagssálfræðilegum kenningum, svo sem umhverfismál, lífsstílssjúkdómar, fjölmenning, ójöfnuður og loftslagsbreytingar. Nemendur munu fá þjálfun í beitingu sálfræðiþekkingar til þess að hafa áhrif á hegðun fólks til góðs og til að knýja fram samfélagsbreytingar. Áhersla verður lögð á að mennta fagfólk sem getur unnið við ráðgjöf og rannsóknir í stjórnsýslu, svo sem í ráðuneytum, sveitarfélögum og í opinberum stofnunum þar sem mikil þörf er fyrir fólk með þekkingu á félagssálfræði. Nemendum stendur til boða að sækja starfsþjálfun hjá slíkum stofnunum. Kjörsviðið veitir einnig sterkan grunn undir doktorsnám.

Námskeið

Nemendur taka skyldunámskeið sem veita góðan undirbúning undir hverskyns rannsóknarvinnu. Námskeið bundin kjörsviðinu fjalla um hvernig nýta má kenningar og niðurstöður rannsókna úr félagssálfræði og undirgreinum hennar til að skilja og leysa raunveruleg samfélagsvandamál og viðfangsefni. 

Meðal annars er fjallað um:

  • Áhrif umhverfis, samfélags og skipulags á líðan, hegðun og hugsun fólks
  • Áhrif mannsins og samfélagsgerðar á heilsu og líðan fólks, loftslagið og umhverfið
  • Ákvarðanatöku, hugsanaskekkjur og hvernig má hafa áhrif á hegðun til góðs

Áhersla er lögð á að mennta fagfólk sem getur unnið við ráðgjöf og rannsóknir í stjórnsýslu, í ráðuneytum, sveitarfélögum og í opinberum stofnunum þar sem þörf er fyrir fólk með þekkingu á þessum sviðum. Slík ráðgjöf gæti verið á sviði umhverfismála, velferðarmála, lýðheilsumála eða menntamála.

Mikil áhersla er á að nemendur afli sér þverfaglegrar þekkingar og sæki valnámskeið utan Sálfræðideildar, til dæmis í þverfaglegu námsbrautirnar í lýðheilsufræðum og í umhverfis- og auðlindafræðum, auk annarra deilda háskólans.

Starfsþjálfun

Nemendum mun standa til boða að ljúka starfsþjálfun í átaksverkefnum og rannsóknarverkefnum. 

Lokaverkefni

Nemendur ljúka 30 eininga MS-verkefni. Lokaverkefni eru ýmist á formi hefðbundinnar grunnrannsóknar eða greiningarskýrslu þar sem nemendur þjálfa færni í að finna lausn á samfélagslegu vandamáli með rækilega rökstuddri vísan í kenningar og rannsóknarniðurstöður. Slík lokaverkefni mega vera unnin í tengslum við verkefni sem nemendur hafa unnið að í starfsþjálfun sinni.

Að námi loknu

Að loknu námi skulu nemendur geta nýtt þekkingu sína á vinnumarkaði en séu einnig vel búnir undir doktorsnám á sínu sviði. Nemandi skal hafa tileinkað sér sjálfstæða og gagnrýna hugsun sem nýtist í samfélagsumræðu, námi og starfi. 

Í öllu náminu er lögð áhersla á að nemendur:

  • geti gert sig skiljanlega í umfjöllun um hagnýtingu rannsóknarniðurstaðna
  • öðlist nauðsynlega námshæfni til að geta sjálfir viðhaldið þekkingu sinni og bætt við hana með öflun og lestri viðeigandi gagna og
  • geti unnið sjálfstætt að því að afla upplýsinga um rannsóknir og kenningar sem nýta má við lausn samfélagslegra vandamála/viðfangsefna 

Sjá nánari upplýsingar um kjörsviðið Félagsleg sálfræði og inntökuskilyrði í Kennsluskrá HÍ

Sjá einnig upplýsingar um nauðsynleg fylgigögn með umsókn og umsókn um framhaldsnám við HÍ. 

Tengt efni
Félagsleg sálfræði