Skip to main content

Verður þekkt sýklalyf grunnur að nýju lyfi gegn húðsjúkdómum?

Verður þekkt sýklalyf grunnur að nýju lyfi gegn húðsjúkdómum? - á vefsíðu Háskóla Íslands

Lyf eru gríðarlega mikilvæg við að takast á við sjúkdóma og þau veita í sumum tilvikum varanlega lausn frá þeim. Fyrir kemur að aukaverkun af lyfi reynist mjög gagnleg gegn allt öðrum vandamálum eða sjúkdómum en lyfið var upprunalega þróað fyrir. Aukaverkanir af svona toga eru einmitt til rannsóknar þessa dagana hjá Lífvísindasetri Háskóla Íslands en setrið er formlegur samstarfsvettvangur rannsóknahópa í sameinda- og lífvísindum.

Rannsóknin miðar að því að skoða hvernig og hvort breiðvirka sýklalyfið azitrómýcín geti hjálpað mörgum þeim sem glíma við alvarlega húðsjúkóma. Margir kannast við sýklalyfið azitrómýcín sem selt er í lyfjaverslunum eftir ávísun frá lækni en þau tilheyra flokki lyfja sem kölluð eru makrólíðar. Azitrómýcín kom fyrst á markað skömmu fyrir 1990 og þótti þá marka nokkur tímamót en lyfið hindrar vöxt baktería með því að stöðva próteinframleiðslu þeirra.

„Verkefnið okkar snýst um að rannsaka áhrif sýklalyfja af þessum flokki makrólíða á frumusérhæfingu húðþekjufruma. Þótt húðsjúkdómar séu sjaldan banvænir eru þeir mikil byrði öllum þeim sem af þeim þjást og sömuleiðis á heilbrigðiskerfið. Hátt hlutfall húðsjúkdóma sýnir veikingu í þekjuvefnum sem undirliggjandi orsök.“ 

Þetta segir Þórarinn Guðjónsson, prófessor og forseti Læknadeildar, sem leiðir rannsóknaverkefnið. Hann segir að sýnt hafi verið fram á að makrólíðar og þá sérstaklega lyfið azitrómýcín hafi þekjustyrkjandi og bólguhamlandi áhrif á vefi. 

„Við vinnum náið með íslenska lyfjafyrirtækinu EpiEndo Pharmaceuticals en fyrirtækið hefur þróað lyfjaafleiður af azitrómýcín þar sem búið er að fjarlægja sýkladrepandi áhrif þeirra.“

Það er sannarlega nýsköpunarflötur í þessu verkefni sem lýtur að mjög áhugaverðum prófunum á virkni nýrra lyfja. Ætlun Þórarins og félaga er að rannsaka áhrif þessara nýju efnasambanda sem vísindamennirnir nefna dermólíða á húðþekjufrumur í rækt. 

„Við erum að byrja þessa rannsókn og erum að byggja upp vefjaræktunarkerfi fyrir húð. Þess vegna er of snemmt að segja til um virkni þessar lyfja enn sem komið er en rannsóknunum er ætlað að skapa vettvang fyrir þróun dermólíða sem arðbæra vöru til notkunar gegn húðsjúkdómum.“

Höfum miklar væntingar varðandi þessa rannsókn

Þórarinn hefur allann sinn rannsóknaferil haft mikinn áhuga á þekjuvef í hinum ýmsum líffærum og þeim sjúkdómum sem verða í þekjunni. Áhugi hans hefur lengi legið í stofnfrumum í þekjuvef og hvernig þær byggja upp þekjuvefi og viðhalda byggingu þeirra en jafnframt hefur Þórarinn lagt kapp á að skilja hlutverk stofnfruma í þróun sjúkdóma á borð við krabbamein og ýmsa aðra lagvinna sjúkdóma.

„Ég hef lengst af stundað rannsóknir í tengslum við brjóstakrabbamein en einnig á sjúkdómum í lungum. Það voru einmitt rannsóknir í lungum sem tengdu mig inn í rannsóknir á sýklalyfum. Ég og samstarfsfélagar mínir sýndum árið 2006 að azitrómýcín styrkir lungnaþekjufrumur í rækt. Síðan leiddi eitt af öðru og árið 2014 var EpiEndo Pharmaceuticals stofnað af Friðriki Rúnari Garðarssyni lækni. EpiEndo smíðaði og fékk einkaleyfi á lyfjaafleiðum af azitrómýcíni þar sem búið var að fjarlægja sýkladrepandi áhrifin. Til að gera langa sögu stutta þá er ein af þessum lyfjaafleiðum komin í klínískar prófanir erlendis gegn langvinnri lungnateppu.“ 

Þórarinn segir að í ljósi þess árangurs sem rannsóknahópur hans hafði náð í samstarfi við Epiendo með rannsóknir og prófanir lyfja í lungum þá hafi legið beinast við að prófa sambærilegar lyfjaafleiður á aðrar þekjufrumur. Í því sambandi hafi húðþekjan þótt tilvalin þar sem hún verði fyrir miklu áreiti. „Við höfum miklar væntingar varðandi þessa rannsókn í ljósi fyrri rannsókna okkar í lungum.“

Aukin þekkingarsköpun á sér undanfara í rannsóknum og þekkingarsköpunin leiðir til framfara í betri heilsu og aukinni hagsæld. Svona rannsókn er liður í efla velsæld þjóðar, efla lífsgæði og ævilengd. Okkar þekking á frumu- og vefjaræktunum og samstarf við lyfjaþróunarfyrirtæki sýnir hvernig samstarf háskóla og atvinnulífs getur leitt til aukinar nýsköpunar,“ segir Þórarinn Guðjónsson. MYND/Kristinn Ingvarsson 

Þórarinn Guðjónsson

Gríðarleg samfélagsleg áhrif

Þegar horft er til áhrifa þessarar rannsóknar Lífvísindaseturs HÍ á samfélagið liggur fyrir að markmiðið er að þróa lyf og betri meðferðarúrræði gegn þungbærum sjúkdómum. Verkefnið á þannig beinlínis að stuðla að bættri lýðheilsu. Til viðbótar þessu er efling rannsókna í heilbrigðisvísindum og betri heilsa hluti af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem er mikilvægur hluti af heildarstefnu Háskóla Íslands HÍ26. 

„Við vitum að rannsóknir skipta mjög miklu máli,“ segir Þórarinn. „Aukin þekkingarsköpun á sér undanfara í rannsóknum og þekkingarsköpunin leiðir til framfara í betri heilsu og aukinni hagsæld. Svona rannsókn er liður í efla velsæld þjóðar, efla lífsgæði og ævilengd. Okkar þekking á frumu- og vefjaræktunum og samstarf við lyfjaþróunarfyrirtæki sýnir hvernig samstarf háskóla og atvinnulífs getur leitt til aukinar nýsköpunar. Í þessu samstarfi hefur aðgengi að innviðum Lífvísindaseturs Háskóla Íslands verið algjört lykilatriði.“