Skip to main content

Saga geðsjúkra á Íslandi

Sigurgeir Guðjónsson, doktorsnemi í sagnfræði

Sigurgeir Guðjónsson, doktorsnemi í sagnfræði, hefur rannsakað sögu geðsjúkra og geðheilbrigðismála á Íslandi frá 1834 til 1910. „Rannsóknir með svipuðu sviði hafa verið gerðar víða um heim,“ segir Sigurgeir, „en þetta er frumrannsókn á Íslandi þar sem almennt hefur verið lítið rannsakað á sviði heilbrigðissögu hér á landi.“

Tímabilið sem Sigurgeir skoðar tengist ákveðnum breytingum í samfélaginu. Fyrra ártalið, 1838, er miðað við setningu nýrrar fátækralöggjafar. Hann skoðar hvernig farið var með svokallaða niðursetninga og hvernig viðhorfið var gagnvart geðveiku fólki í sveitum. Seinna ártalið, 1910, var valið því þá voru þrjú ár liðin frá því að Kleppsspítali var stofnaður. Sigurgeir fjallar um fyrstu ár spítalans í rannsókninni sem skiptist í fjóra meginhluta. Í fyrsta hlutanum skoðar hann aðstæður geðveikra sem félagshóps og í því felst greining á eðli geðveikra einstaklinga, út frá hjúskap, kyni, aldri, heimilisaðstæðum og atvinnu.

Sigurgeir Guðjónsson

Sigurgeir hefur rannsakað sögu geðsjúkra og geðheilbrigðismála á Íslandi frá 1834 til 1910.

Sigurgeir Guðjónsson

Í næsta hluta skoðar hann viðhorf gagnvart geðveiki, bæði viðhorf lækna og almennings. „Mikilvægt er að athuga hvernig læknar brugðust við geðsjúkdómum áður en Kleppsspítali var stofnaður, og hvernig ófaglært fólk brást við geðveiki,“ segir Sigurgeir. Því næst fjallar hann um aðgerðir hins opinbera á tímabilinu. „Þær leiddu til þess að Kleppsspítali var stofnaður,“ segir Sigurgeir. „Milliþinganefnd skoðaði mál fátækra og ein af niðurstöðum vinnu hennar var stofnun Kleppsspítala.“

Í síðasta hlutanum fjallar Sigurgeir um fyrstu ár Kleppsspítala og breytingarnar sem urðu í þessum málaflokki við stofnun hans. „Þetta eru fyrstu skrefin í átt að uppbyggingu velferðarsamfélags á Íslandi, enda er Kleppsspítalinn fyrsti spítalinn sem íslenska ríkið stofnar,“ segir Sigurgeir. Hann vonar að rannsóknin muni varpa ljósi á þátt í þróun velferðarkerfisins á Íslandi.

Leiðbeinandi: Guðmundur Jónsson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild.