Skip to main content

Mikilvægt að greina einkenni krabbameinsæxla

Jórunn Erla Eyfjörð, prófessor við Læknadeild

„Brjósta- og blöðruhálskrabbamein eru algeng hér og alvarlegt heilbrigðisvandamál. Þrátt fyrir að árangur krabbameinsmeðferðar hafi batnað mjög á síðustu árum eru enn undirhópar sem hafa slæmar horfur, þar á meðal krabbamein tengd svokölluðum BRCA-genum. Því er aðkallandi að rannsaka þessi mein nánar,“ segir Jórunn Erla Eyfjörð, prófessor við Læknadeild.

Jórunn Erla Eyfjörð

„Þrátt fyrir að árangur krabbameinsmeðferðar hafi batnað mjög á síðustu árum eru enn undirhópar sem hafa slæmar horfur, þar á meðal krabbamein tengd svokölluðum BRCA-genum.“

Jórunn Erla Eyfjörð

Hún hefur í mörg ár sinnt rannsóknum á BRCA-genum, öðru nafni brjóstakrabbameinsgenum. Afurðir BRCA1- og BRCA2-gena gegna mikilvægu hlutverki við að viðhalda stöðugleika erfðaefnisins og gera við skemmdir á erfðaefni. Jórunn beinir nú sjónum sínum að arfgengum stökkbreytingum í þessum genum sem tengjast ættlægu brjóstakrabbameini og einnig aukinni áhættu á fleir krabbameinum, svo sem í eggjastokkum, blöðruhálskirtli og brisi. „Rannsóknin beinist að því að skilgreina krabbamein sem myndast í arfberum BRCA-stökkbreytinga, greina þá ferla sem hafa farið úrskeiðis og í framhaldi af því kanna mögulegt sértækt lyfjanæmi,“ útskýrir Jórunn. Þannig megi hugsanlega velja lyf til krabbameinsmeðferðar sem hafi áhrif á æxlisfrumurnar en ekki, eða síður, eðlilegar líkamsfrumur.

Jórunn bendir á að örflögugreining á brjóstaæxlissýnum hafi sýnt að flokka megi æxlin í undirflokka með tilliti til erfðamynsturs. Ólík mynstur tengist mismunandi sjúkdómsframvindu. Rannsóknir Jórunnar og samstarfsmanna sýna m.a. að æxlismynstur sem svipar til BRCA-stökkbreytinga greinast í mun stærri hópi sjúklinga en þeim sem erft hafa stökkbreytingar í BRCA1- og BRCA2-genum. „Þetta hefur mikla þýðingu vegna þess að nýlega hafa komið fram sértæk lyf sem beinast gegn göllum í BRCA-tengdum ferlum. Þessi nýju lyf gætu því einnig gagnast þessum hópi sjúklinga,“ segir Jórunn.

Jórunn kynntist Elizabeth Blackburn, Nóbelsverðlaunahafa í læknisfræði, á ráðstefnu vorið 2010 og taldi hana á að heimsækja Háskóla Íslands á aldarafmælisári skólans og halda fyrirlestur um rannsóknir sínar. Rannsóknasvið Blackburn og Jórunnar skarast og því stefna þær á rannsóknasamstarf sem, að sögn Jórunnar, verður mjög spennandi.