Skip to main content

Hver á að gæta barnanna?

„Tilgangurinn með rannsókninni er að skoða hvernig hið opinbera getur ráðstafað framlögum til barnafjölskyldna á skilvirkari og áhrifaríkari hátt en nú er gert. Við fáum aðgang að gögnum um það hvernig fjölskyldur ráðstafa tekjum til ákveðinna neysluþátta. Við framkvæmum svo hagrannsóknir út frá þessum gögnum og drögum almennar ályktanir út frá niðurstöðunum,“ segir Helga Kristjánsdóttir, sérfræðingur í alþjóðahagfræði. „Við þessa vinnu höfum við sambærilegar erlendar rannsóknir til hliðsjónar.“

Feðraorlofið gaf barnafólki hér tilefni til að breyta ráðstöfun tíma og tekna innan heimilisins og það gerir Helgu og rannsóknarteymi hennar kleift að skoða hvaða áhrif það hafði á barnafjölskyldur. „Þegar niðurstöður okkar eru ljósar gefa þær ef til vill vísbendingu um skilvirkni annarra framlaga hins opinbera til barnafjölskyldna, svo sem barnabóta,“ segir Helga. „Vonandi getur þetta nýst hinu opinbera við forgangsröðun framlaga eða tilfærslna á fé.“

Helga Kristjánsdóttir, sérfræðingur við Hagfræðideild

„Mér þætti áhugavert að athuga hvort upptaka fæðingarorlofs karla hér á landi hafi að einhverju leyti haft hliðstæð áhrif og tekjuhækkun kvenna gerði í öðrum löndum.“

Helga Kristjánsdóttir

Helga segir að kannað sé hvort upptaka feðraorlofs á tímabilinu hafi leitt til breytinga á því hvernig fjölskyldur ráðstafi tekjum sínum til einstaklinga á heimilinu. „Mér þætti áhugavert að athuga hvort upptaka fæðingarorlofs karla hér á landi hafi að einhverju leyti haft hliðstæð áhrif og tekjuhækkun kvenna gerði í öðrum löndum.“ Helga bendir á að það sé sífellt verið að kalla á hagræðingu hjá hinu opinbera og ekki síst við núverandi aðstæður. „Því er þessi rannsókn sérstaklega mikilvæg nú þegar stjórnvöld verða að huga að því hvernig best sé að haga fjárúthlutun til fjölskyldna. Það skiptir miklu máli hvernig þessum tilfærslum er úthlutað, því það getur haft áhrif á neyslutilhögun fjölskyldunnar.“

„Í dag er augljóst að skilvirkni tilfærslna hins opinbera, t.d. í formi barnabóta og fæðingarorlofs, er mjög mikilvæg. Í rannsókninni notum við hugtakið skilvirkni, sem gengur út á það hvort eitthvað sé til bóta fyrir samfélagið, í okkar tilviki hvort ríkið bæti hag fjölskyldna með breytingu á tilfærslum hins opinbera. Hið opinbera nær misvel til einstaklinga innan fjölskyldunnar með aðgerðum sínum og það erum við að leitast við að kortleggja,“ segir Helga.