Skip to main content

Dregur tæknin úr kynjaskiptingu á vinnumarkaði?

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild 

„Markmið rannsóknarinnar er að greina hvernig tiltekin tækni hefur áhrif á vinnufyrirkomulag og líðan ólíkra starfshópa. Fólk ver gjarnan miklum tíma í launavinnu og líðan á vinnustað því afar mikilvæg,“ segir Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði, sem rannsakar samspil fjölskyldu- og atvinnulífs og greinir ríkjandi orðræðu um að tækni auðveldi launavinnu kvenna. Hún skoðar jafnframt leiðir til að draga úr kynjaskiptingu á vinnumarkaði.

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir

„Markmið rannsóknarinnar er að greina hvernig tiltekin tækni hefur áhrif á vinnufyrirkomulag og líðan ólíkra starfshópa. Fólk ver gjarnan miklum tíma í launavinnu og líðan á vinnustað því afar mikilvæg.“

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir

Guðbjörg Linda segir rannsóknina tvíþætta. „Annars vegar skoðum við fyrirtæki sem stefnir að því, með aðstoð hátækni, að breyta hefðbundnum karlastörfum í störf sem henta báðum kynjum. Fyrirtækið er kjörinn vettvangur til að rannsaka goðsagnir eða veruleika um tækni og kynjuð störf,“ segir Guðbjörg Linda. Hins vegar snúi rannsóknin að því hvort og þá hvernig upplýsinga- og samskiptatæknin nýtist við samspil fjölskyldu- og atvinnulífs og hvort sú tækni stuðli að auknu kynjajafnrétti.

Guðbjörg Linda hefur lengi haft áhuga á að skoða samspil tækni og samfélags; á hvern hátt tæknin mótar daglegt líf fólks og hvernig daglegt líf mótar tæknina. Hún greip því tækifærið þegar erlendir félagsfræðingar, sem litu á Ísland sem kjörinn vettvang fyrir þess konar rannsóknir, bönkuðu upp á og óskuðu eftir samstarfi.

Guðbjörg Linda segir niðurstöður sýna að gjá sé á milli stefnumótunar um áhrif tækninnar á aukið kynjajafnrétti og raunveruleikans sem við blasir. „Því þarf að skoða hvort stefnumótunin sé röng, hvort það hafi mistekist að innleiða tæknina eða hvort starfsmenn og stjórnendur sætti sig við þessa gjá. Einnig sjáum við að sveigjanlegur vinnutími, sem upplýsinga- og samskiptatæknin hefur í för með sér, hefur tilhneigingu til að viðhalda verkaskiptingu kynjanna á heimilum sem er þannig enn í dag að konur, óháð því hvaða stöðu þær gegna á vinnumarkaði, verja mun meiri tíma í rútínubundin heimilisstörf og umönnun fjölskyldunnar en karlar.“

Að sögn Guðbjargar Lindu liggur samfélagslegt gildi rannsóknarinnar í aukinni þekkingu á stöðu tækninnar í samfélaginu, þróun kenninga um kynjaskiptan vinnumarkað og jafna stöðu karla og kvenna í atvinnulífinu.