Skip to main content

Fjarvinnslustöð - skráning og miðlun menningararfs

Haustið 2018 var sótt um styrk til Byggðaáætlunar (liður B8) til að koma á laggirnar fjarvinnslustöð á sviði þjóðfræði við margvíslega söfnun, skráningu og miðlun menningararfs á Hólmavík í tengslum við Rannsóknasetur HÍ á Ströndum. Verkefnið bar titilinn Þjóðfræðistofa - fjarvinnslustöð á sviði þjóðfræði á Ströndum. Jákvætt svar barst í lok ársins um styrk að upphæð samtals 18 milljónir til þriggja ára og var úthlutunin í tengslum við Byggðaáætlun 2018-2024. Byggðastofnun er tengiliður ríkisins vegna verkefnisins og náði stuðningurinn til áranna 2019-2021.

Aftur fékkst styrkur úr sama potti Byggðaáætlunar í rúmlega eitt og hálft ár frá 1. júní 2022 og út árið 2023 og nú rúmar 10 milljónir. Það verkefni hafði yfirskriftina: Persónulegar heimildir - Myndir og minningar. Þessir styrkir eru ómetanlegir við að efla starfsemi Rannsóknasetursins og styðja við atvinnulíf og byggð á Ströndum. 

Eiríkur Valdimarsson þjóðfræðingur var ráðinn starfsmaður í fullt starf við Rannsóknasetrið til að sinna þessu verkefni árið 2019 og hefur starfað samfleytt við verkefnið síðan. Guðlaug G.I. Bergsveinsdóttir þjóðfræðingur hefur einnig verið í hálfu starfi með hléum frá 2020. Auk þess hafa fleiri einstaklingar verið ráðin í sumarstörf og hlutastörf við einstaka verkþætti. 

Samstarf er við þjóðmenningarstofnanir á landsvísu og söfn í héraðinu og hafa margvísleg verkefni verið unnin eða sett af stað. Af samstarfsaðilum er helst að nefna Árnastofnun, Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni, Handritadeild Landsbókasafnsins og Sauðfjársetur á Ströndum. Nú síðast var svo samið við ASÍ um stórt verkefni við skönnun og skráningu ljósmynda, áður en myndasafn þeirra fer á Þjóðminjasafn. Sá samningur eflir verkefnið og styður við draumana um varanlega fjarvinnslustöð á Hólmavík. 

Innan vébanda verkefnisins er unnið að skráningu á menningararfi og verkefnum sem snúast um að koma honum á rafrænt og aðgengilegt form. Verkefnin eru flest á landsvísu, en leitast er við að hafa einnig í gangi verkefni sem snúa sérstaklega að Ströndum. Meðal annars hefur verið unnið að skráningu á ljósmyndum í Sarp og viðtölum á vefinn Ismus.is, uppskriftum á dagbókum og söfnun og skráningu á margvíslegu öðru efni. Bæði er um að ræða þátttöku í viðamiklum skráningarverkefnum sem þegar voru í gangi og ný verkefni. Miðlun fróðleiksins í ræðu og riti, með útgáfu, fyrirlestrum, sýningahaldi og öðrum hætti hefur alltaf verið hluti af verkefninu. 

Rannsóknasetrið er svo sannarlega til í að ræða samvinnu um ólík verkefni á þessu sviði við einstaklinga, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir. 

Eiríkur Valdimarsson flytur erindi