Skip to main content

Dagbækur fyrri alda

Mikið er til af persónulegum heimildum í handritasöfnum, m.a. af Ströndum. Eitt af verkefnum Rannsóknasetursins er að rannsaka dagbækur af svæðinu frá fyrri tímum og gera þær aðgengilegar fyrir fræðimenn og almenning. Unnið er að nokkrum verkefnum í tengslum við dagbækurnar. Ef fólk veit um dagbækur Strandamanna á söfnum eða í einkaeigu erum við áfjáð í að fá vitneskju um þær (jonjonsson@hi.is). 

Yfirlit um dagbækur á söfnum 

Sumarið 2022 kom til framkvæmda verkefni sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Orri Jónsson þjóðfræðinemi vann þá að því á vegum Rannsóknasetursins að ná yfirsýn yfir hvað sé til af dagbókum frá því fyrir 1940 í handrita- og skjalasöfnum landsins. Mikill fróðleikur safnaðist, en eftir er að gera þessar upplýsingar aðgengilegar á vefkorti. Stefnt er að því að það komi til framkvæmda á næstu árum. 

Tilraunaverkefni: Að skrifa upp handrit

Frá 2017-2020 stóð Rannsóknasetrið fyrir tilraunaverkefni þar sem unnið var að því að skrifa upp handritaðar dagbækur sem tengjast Ströndum, og gera afraksturinn aðgengilegan. Verkefnið var samvinnuverkefni Rannsóknasetursins og Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns. Áhugi er fyrir að endurvekja þetta verkefni. 

Dagbækur frá 1918

Rannsóknasetur HÍ á Ströndum tók til sérstakrar skoðunar 3 dagbækur Strandamanna frá árinu 1918 í tengslum við verkefnið Strandir 1918 sem var samvinnuverkefni fjölda aðila á Ströndum í tengslum við 100 ára fullveldisafmæli Íslands. 

Hér má nálgast uppskrift á dagbók Þorsteins Guðbrandssonar á Kaldrananesi frá árinu 1918 (Lbs 3809 8vo), með nútímastafsetningu og formála eftir Jón Jónsson. Skjalið var fyrst birt af Rannsóknasetrinu á héraðsfréttavefnum strandir.is á Þorláksmessu 2018. Einnig má skoða dagbókina hér á vefnum: 

Þorsteinn Guðbrandsson á Kaldrananesi: Dagbók 1918

Hinar dagbækurnar sem unnið er með í verkefninu Strandir 1918 eru dagbók Níelsar Jónssonar á Grænhól á Gjögri í Árneshreppi og dagbók Kristjáns Helgasonar á Þambárvöllum í Bitru. Dagbók Þorsteins frá þessu ári var birt í bókinni Strandir 1918 og dagbók Níelsar að hluta. 

Sighvatur Borgfirðingur og dagbókin hans

Þegar hefur verið skrifaður upp hluti af dagbók Sighvatar Grímssonar Borgfirðings. Miðað er við árin 1869-1873, en þá bjó hann á Klúku í Bjarnarfirði á Ströndum. Þaðan flutti Sighvatur með fjölskyldu sína að Höfða í Dýrafirði og var þessi sískrifandi alþýðufræðimaður síðan kenndur við þann bæ. Skriftin hans Sighvatar er auðlæsileg miðað við 19. aldar skrift.  

Hér er tengill inn á google.doc skjal þar sem vinnan fór fram (hægt er að skoða uppskriftina þar): 

Hér eru tenglar inn á dagbókina hans á vefnum handrit.is.

Dagbók Jóns Jónssonar í Miðdalsgröf, Naustavík, Heiðarbæ, Fitjum og Ósi 

Jón Jónsson (1795-1879) hélt dagbók frá ársbyrjun 1846 þangað til þremur dögum áður en hann dó vorið 1879. Dagbókin er óvenjuleg að því leyti að hún lýsir fátækt í sveitasamfélaginu á 19. öld sérstaklega vel. Jón er fyrst bóndi í Miðdalsgröf, síðar húsmaður í Naustavík og á hálfgerðum hrakningi á köflum á gamals aldri. Unnið er að rannsókn á dagbókinni og útgáfa á sýnisbók fyrirhuguð. 

Tengill á dagbókina sjálfa á vefnum handrit.is er hér á eftir, en handritasafn Landsbókasafns Háskólabókasafns ljósmyndaði handritið sérstaklega fyrir þessa uppskriftarvinnu.