Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 12. janúar 2023

1/2023

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2023, fimmtudaginn 12. janúar var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Arnar Þór Másson, Brynhildur Ásgeirsdóttir, Davíð Þorláksson, Hólmfríður Garðarsdóttir, Katrín Atladóttir, Katrín Björk Kristjánsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson (á fjarfundi), Silja Bára R. Ómarsdóttir og Þorvaldur Ingvarsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson. Vilborg Einarsdóttir boðaði forföll.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og lýsti Silja Bára R. Ómarsdóttir því að hún tæki ekki þátt í afgreiðslu dagskrárliðar 7c.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a.    Fjárlög ársins 2023 og tillaga fjármálanefndar háskólaráðs að skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
Rektor, Guðmundur og Jenný Bára gerðu grein fyrir fjárveitingum til háskólastigsins almennt og Háskóla Íslands sérstaklega skv. fjárlögum ársins 2023 og tillögu fjármálanefndar háskólaráðs að skiptingu fjár innan Háskóla Íslands. Fjármálanefnd leggur m.a. til eftirtaldar aðgerðir vegna stöðunnar í fjármálum Háskóla Íslands:

•    Óskir um nýráðningar í störf í akademíu, stjórnsýslu og stoðþjónustu þarf að bera undir fjármálanefnd.
•    Almennt verði ekki ráðið í störf hjá fræðasviðum/einingum nema þær geti sýnt fram á að skila hallalausum fjárhagsáætlunum fyrir 2023. Undantekning er þegar um er að ræða tímabundnar ráðningar af sjálfsaflafé.
•    Fræðasvið í hallarekstri, sem ekki eiga afgang frá fyrri tíð, skulu koma með tillögur um hvernig dregið skuli úr magni kennslustunda árið 2023.
•    Endurskoða skal fastlaunasamninga í stjórnsýslu og stoðþjónustu ef tilefni er til.
•    Skoða skal sérstaklega aukna samnýtingu starfa í stjórnsýslu og stoðþjónustu þvert á fræðasvið og sameiginlega stjórnsýslu.
•    Tekjufæra skal á deildir laun starfsmanna sem innheimt (e. claim) eru af rannsóknastyrkjum. Gefa þarf aðlögunartíma sem fjármálanefnd gerir tillögu um til háskólaráðs.
•    Samþykkja þarf miðlægt öll óregluleg útgjöld, svo sem kaup á þjónustu utan HÍ, húsaleigu o.fl.
•    Aðhalds verði gætt varðandi kostnað vegna ferða starfsfólks.

Málið var rætt ítarlega.

– Tillaga fjármálanefndar samþykkt einróma.

Að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð svohljóðandi bókun:

„Á fundi háskólaráðs 12. janúar 2023 voru samþykktar tillögur fjármálanefndar ráðsins um skiptingu fjárveitinga árið 2023. Vegna niðurskurðar og erfiðs rekstrarumhverfis húsnæðismála er ljóst að Háskóli Íslands mun ekki að óbreyttu ná að skila hallalausum rekstraráætlunum árið 2023 heldur mun þurfa að nýta sér uppsafnaðan afgang af rekstri skólans.

Þessi niðurstaða er mikið áhyggjuefni og ekki síst vegna þess að fjárveitingar til Háskóla Íslands endurspegla ekki þá sýn stjórnvalda sem fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar, að stefna að sambærilegri fjármögnun háskóla á Íslandi og þekkist á hinum Norðurlöndunum, sbr. áætlanir Vísinda- og tækniráðs.

Háskólaráð hvetur stjórnvöld eindregið að hraða endurskoðun á reiknilíkani háskóla og vinna að þeirri framtíðarsýn sem er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um fjármögnun háskólastigsins á Íslandi. Háskóli Íslands er sem fyrr reiðubúinn til samstarfs um það.“

Í tengslum við afgreiðslu skiptingar fjárveitinga innan Háskóla Íslands og vegna þess að fjárveiting til Raunvísindastofnunar er nú hluti af fjárveitingarlið Háskóla Íslands bókaði háskólaráð eftirfarandi:

„Í fjárlögum ársins 2023 er fjárveiting til Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands, sem tilheyrir Verkfræði- og náttúruvísindasviði, færð undir fjárveitingarlið Háskóla Íslands sem hluti af fjárveitingu til Háskólans, sbr. fund háskólaráðs 8. september sl. Háskólaráð áréttar það sem fram kom á þeim fundi að með þessari ráðstöfun verða beinar fjárveitingar til Raunvísindastofnunar sérstaklega eyrnamerktar stofnuninni og þar með rannsóknum þeirra fagsviða sem stofnunin sinnir og komi þannig til viðbótar fjárveitingu Verkfræði- og náttúruvísindasviðs samkvæmt deililíkani.

Við Raunvísindastofnun Háskólans og deildirnar sem í hlut eiga eru stundaðar grunnrannsóknir í fremstu röð á alþjóðavísu og leggur Háskóli Íslands þunga áherslu á að viðhalda þeirri stöðu og sækja fram. Tryggt verður að starfsfólk haldi sömu kjörum og réttindum og áður.“

– Samþykkt samhljóða, en Hólmfríður Garðarsdóttir sat hjá.

b.    Rekstraráætlanir einstakra starfseininga á árinu 2023. Staða mála.
Jenný Bára gerði grein fyrir stöðu mála við gerð rekstraráætlana einstakra starfseininga fyrir árið 2023. Málið var rætt.

c.    Tillaga um framkvæmda- og viðhaldsáætlun fyrir árið 2023, ásamt drögum áætlunar fyrir næstu ár, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands, og fór ásamt Guðmundi yfir framlagða áætlun um framkvæmdir og viðhald bygginga og lóða Háskóla Íslands árið 2023 og drög að áætlun fyrir næstu ár. Málið var rætt og svöruðu Kristinn og Guðmundur spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Framkvæmda- og viðhaldsáætlun fyrir árið 2023 samþykkt einróma.

Guðmundur, Jenný Bára og Kristinn viku af fundi.

3.    Málefni heilbrigðisgreina.
Inn á fundinn komu Unnur Þorsteinsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, og Stefán Hrafn Jónsson, forseti Félagsvísindasviðs. Rektor gerði grein fyrir tilefni umræðu um málefni heilbrigðisgreina varðandi mögulegar leiðir til að fjölga nemendum í heilbrigðisgreinum til að mæta mönnunarvanda á heilbrigðisstofnunum, sbr. framlagt minnisblað. Fram kom að náið samráð er við Landspítalann, heilsugæsluna og e.a. aðrar heilbrigðisstofnanir. Unnur og Stefán Hrafn fóru yfir stöðu mála frá sjónarhóli fræðasviða sinna. Málið var rætt ítarlega.

Að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð einróma svohljóðandi bókun:

„Fyrir liggur að mögulegur fjöldi nýnema sem inn er tekinn í nám í heilbrigðisgreinum við Háskóla Íslands ár hvert ræðst einkum af aðstöðu og skilyrðum til að veita fullnægjandi kennslu og möguleikum til starfsþjálfunar sem tryggi að gæði náms séu ekki fyrir borð borin. Námið er bóklegt og verklegt (klínískt, starfsþjálfun) og krefst faglegra gæða, sérstakrar aðstöðu og samstarfs við aðra. Háskólinn á náið samráð um menntun heilbrigðisstarfsfólks við Landspítala og heilsugæsluna og eftir atvikum aðrar heilbrigðisstofnanir.

Fjölgun er nauðsynleg til að unnt megi vera að manna heilbrigðiskerfi landsins og starfrækja það með sóma, í senn til skemmri og lengri tíma. Ýmis gögn hafa verið tekin saman um þetta á undanförnum árum sem eiga það sammerkt að fyrirstaðan sé m.a. skortur á fjármunum og viðeigandi aðstöðu.

Háskóli Íslands og Landspítali eru að undirbúa sameiginlega áætlun um mögulegar leiðir til að fjölga nemendum sem teknir eru inn í nám í heilbrigðisgreinum og mótun skýrrar stefnu til lengri tíma um leiðir, skipulag, kostnað, aðstöðu o.fl.“

Unnur og Stefán Hrafn viku af fundi.

Kaffihlé.

4.    Framtíðarskipan samgöngu- og bílastæðamála á háskólasvæðinu, sbr. ályktun 30. háskólaþings 18. nóvember sl.
Kristinn Jóhannesson kom að nýju inn á fundinn og gerði grein fyrir stöðu mála og áformum um framtíðarskipan samgöngu- og bílastæðamála á háskólasvæðinu og í nágrenni, sbr. ályktun háskólaþings 18. nóvember 2022, þar sem fjallað var um málið og því beint til háskólaráðs að fylgja eftir hugmyndum um innleiðingu gjaldtöku fyrir bílastæði, bættar almenningssamgöngur og byggingu hjólaskýla. Málið var rætt.
– Samþykkt var að fela framkvæmda- og tæknisviði, skipulagsnefnd háskólaráðs og starfandi bílastæðahópi að vinna áfram að málinu á þeim nótum sem kynntar voru á fundinum. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.

Kristinn og Silja Bára viku af fundi.

5.    Starfsáætlun innri endurskoðunar fyrir árið 2023.
Inn á fundinn kom Sigurjón G. Geirsson, innri endurskoðandi, og gerði ásamt Ólafi Pétri Pálssyni, formanni endurskoðunarnefndar háskólaráðs, grein fyrir starfsáætlun innri endurskoðunar fyrir árið 2023. Málið var rætt.

Sigurjón vék af fundi.

– Starfsáætlun innri endurskoðunar fyrir árið 2023 samþykkt einróma.

6.    Stefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026, HÍ26 [Kynning og umræða. Kl. 15.30-16.00]
Inn á fundinn kom Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, og gerði grein fyrir stöðu mála varðandi innleiðingu Stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026, HÍ26. Málið var rætt og svaraði Steinunn spurningum ráðsfólks.

7.    Bókfærð mál.
a.    Frá Heilbrigðisvísindasviði:

Leiðrétting: Fjöldi nemenda sem teknir verða í nám í ljósmóðurfræði við Hjúkrunar-og ljósmóðurfræðideild 2023-2024 verði 14 en ekki 12 eins og misritaðist í tillögu sem afgreidd var á fundi ráðsins 8. desember sl. Þetta krefst ekki breytingar á reglum.

a1.    Tillaga að breytingu á reglum um val nemenda til náms í tannsmíði og tannlæknisfræði við Tannlæknadeild HÍ nr. 155/2011 (varðar val í tannlæknisfræði), ásamt breytingum á reglum nr. 153/2010, sbr. fyrirvara á síðasta fundi.
    – Samþykkt.

a2.    Tillaga um hækkun próftökugjalds í inntökupróf í læknisfræði, sjúkraþjálfun og tannlæknisfræði.
    – Samþykkt. Fulltrúar nemenda sátu hjá.

a3.    Tillaga að breytingu á 4. mgr. 6. gr. reglna nr. 972/2009 um meistaranám við Háskóla Íslands í talmeinafræði.
    – Samþykkt.

b.    Fyrirvarar við útgáfu kennsluskrár komandi háskólaárs 2023-2024.
– Samþykkt.

c.    Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Stjórnina skipa þau Víðir Smári Petersen, dósent við Lagadeild, formaður frá 1. febrúar 2023 (fráfarandi formaður, Eyvindur G. Gunnarsson, prófessor við Lagadeild, gegnir formannstörfum uns Víðir Smári tekur við), Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs Háskóla Íslands, og Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir, forstöðumaður Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands. Skipunartími stjórnar er til loka árs 2023. Silja Bára R. Ómarsdóttir tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

d.    Skipan siðanefndar Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Siðanefnd er þannig skipuð til 31. desember 2025: Þorgeir Örlygsson, fyrrv. hæstaréttardómari og áður prófessor við Lagadeild, formaður tilnefndur af rektor, Amalía Björnsdóttir, prófessor, skipuð af Félagi prófessora, og Ármann Höskuldsson, rannsóknarprófessor, skipaður af Félagi háskólakennara.

e.    Verklagsregla um fjarveru starfsfólks Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

f.    Nýtt heiti á deild innan kennslusviðs: Heiti náms- og starfsráðgjafar verði nemendaráðgjöf (NHÍ).
– Samþykkt.

g.    Tillaga um að fjölga nýjum nemendum í tannlæknisfræði um tvo (þeim fjölgi úr 8 í 10) á vormisseri 2023 vegna bilunar sem kom upp í prófakerfi.
– Samþykkt.

8.    Mál til fróðleiks.
a.    Uppfært dagatal Háskóla Íslands á vormisseri 2023.
b.    Uppfært yfirlit um nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að og fyrirséð er að skipa þurfi eða tilnefna á misserinu.
c.    Starfshópur um málefni emerita.
d.    Frá ESB um mat á rannsóknum.
e.    Árbók Háskóla Íslands 2014.

f.    Tveir prófessorar sæmdir heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu.
g.   Inga Þórsdóttir gerð heiðursfélagi í IUNS.
h.   Sjálfbærniskýrsla Háskóla Íslands 2021.
i.    Tímarit Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands.
j.    Miðbiksskýrsla Aurora samstarfsins.
k.   Úthlutun úr Samstarfi háskóla.
l.    Úthlutun styrkja úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands 2023.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.50.