Góður árangur Háskólans byggist á þeim auði sem fólginn er í starfsfólki og nemendum

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (4. desember):
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Góður árangur Háskóla Íslands byggist á þeim auði sem fólginn er í starfsfólki og nemendum. Fjórir starfsmenn Háskóla Íslands hlutu viðurkenningu í vikunni fyrir lofsvert framlag við skólann á sviði kennslu, rannsókna, jafnréttismála og annarra starfa. Viðurkenningarnar voru afhentar á upplýsingafundi rektors. Ég óska þeim Amalíu Björnsdóttur, Gavin Lucas, Irmu Erlingsdóttur og Helgu Steinunni Hauksdóttur innilega til hamingju með viðurkenningarnar.
Í dag fagnar Stúdentaráð Háskóla Íslands 100 ára afmæli sínu. Sökum aðstæðna verður afmælið í beinu streymi. Það gerir okkur öllum kleift að vera viðstödd og fagna með háskólastúdentum sem hafa haft mikil áhrif á íslenskt samfélag í heila öld. Afmælishátíðin fer fram í Hátíðasal og hefst hún kl. 18.
Nú er prófatíð í fullum gangi og allir hafa lagst á eitt við að láta fjarpróf og staðpróf ganga sem best fyrir sig við flóknar aðstæður. Ég vil þakka ykkur kæru nemendur fyrir hversu vel þið hafið gætt að einstaklingsbundnum sóttvörnum í staðprófunum. Afar mikilvægt er að við höldum árvekni okkar út allt prófatímabilið og að við forðumst að mynda hópa í tengslum við staðprófin. Einnig er brýnt að nemendur yfirgefi byggingar strax að loknu prófi. Góður undirbúningur skiptir miklu varðandi frammistöðu í prófum og ég vona innilega að ykkur gangi vel.
Aðventan er hafin og jólin eru í augsýn. Fátt er fallegra en ljós í myrkasta skammdeginu en ég vil minna ykkur öll á að fara varlega með jólaskreytingar og forðast að láta kerti loga í byggingum Háskólans.
Þau tíðindi bárust okkur í vikunni að nú hilli undir bóluefni gegn kórónaveirunni og bólusetningar geti mögulega hafist hér á fyrsta fjórðungi næsta árs. Þrátt fyrir þessi góðu fyrirheit megum við ekki slaka á vörnum og munum að þolinmæðin og seiglan skila miklu. Við reiknum með að starf skólans verði að mestu rafrænt á vormisseri en upplýst verður nánar um tilhögun kennslunnar eftir því sem fram vindur.
Kæru nemendur og samstarfsfólk. Margir verða í önnum um helgina vegna lokaprófa. Gleymum samt ekki að líta upp úr amstrinu og njóta aðventunnar sem best við megum. Förum varlega.
Jón Atli Benediktsson, rektor“
„Góður árangur Háskóla Íslands byggist á þeim auði sem fólginn er í starfsfólki og nemendum. Fjórir starfsmenn Háskóla Íslands hlutu viðurkenningu í vikunni fyrir lofsvert framlag við skólann á sviði kennslu, rannsókna, jafnréttismála og annarra starfa,“ segir Jón Atli Benediktsson rektor m.a. í vikulegri kveðju til nemenda og starfsfólks. MYND/Kristinn Ingvarsson