Skip to main content
31. júlí 2020

Hertar takmarkanir í samkomubanni

Aðalbygging HÍ

Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur því miður orðið bakslag í baráttunni við COVID-19 og hafa því stjórnvöld hert takmarkanir á samkomum fólks. Nýjar ráðstafanir gilda í tvær vikur eða til 13. ágúst nk. Þetta hefur í för með sér að fjöldi fólks sem kemur saman miðast nú við 100 fullorðna og þá hefur aftur verið innleidd sú regla að hafa a.m.k. tvo metra (2M) á milli einstaklinga og bera andlitsgrímu ef þess er ekki kostur, s.s. í flugvélum og ferjum.

Háskóli Íslands mun að sjálfsögðu fylgja þessum reglum í hvívetna og tryggja að aldrei verði fleiri en 100 einstaklingar í sama rými innan skólans. Jafnframt verða aldrei fleiri en svo í minni rýmum að ekki verði unnt að fylgja 2M reglunni.

Aðgengi að byggingum Háskóla Íslands

  • Almennt eru byggingar Háskóla Íslands opnar nemendum og starfsfólki eins og fram kemur á vefsíðu skólans.
  • Á Háskólatorgi, í lesrýmum og í tölvuveri verður fjöldi sæta við borð takmarkaður samkvæmt 2M reglunni.
  • Hámarksfjöldi í einstökum rýmum verður einnig takmarkaður við 100 manns, sbr. auglýsingu stjórnvalda.
  • Sama fyrirkomulag gildir í öðrum byggingum Háskólans.

Vinnufyrirkomlag

Frá og með hádegi í dag (31. júlí) gildir sú meginregla að starfsfólk mæti á vinnustað nema í sérstökum tilvikum:

  • Starfsfólk með eigin skrifstofur mæti til vinnu samkvæmt venju.
  • Starfsfólk sem deilir skrifstofum mæti til vinnu skv. samráði við yfirmann, en gert er ráð fyrir að sem flestir geti sinnt vinnu með hefðbundnum hætti. Í opnum rýmum skulu vera a.m.k. 2 metrar (2M) á milli starfsstöðva.
  • Starfsfólki með undirliggjandi sjúkdóma, s.s. æða- og hjartasjúkdóma, sykursýki, lungnasjúkdóma, ónæmisbældum einstaklingum og þunguðum konum, er heimilt að vinna heima. Þeir sem eru með eigin skrifstofur og kjósa frekar að mæta til vinnu þurfa að gæta að heilsu sinni og virða 2M regluna.
  • Við mælingar og aðrar ferðir utanbæjar skal fylgja reglum um vettvangsferðir við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Ég vil einnig vekja athygli á leiðbeiningum til þeirra sem koma erlendis frá til náms eða starfa við Háskóla Íslands á meðan takmarkanir eru í gildi vegna COVID-19.

Nánari upplýsingar um fyrirkomulag kennslu á komandi haustmisseri verða sendar út á næstunni, en fylgst er náið með fyrirmælum yfirvalda og áhrifum þeirra. Að öðru leyti er vísað í tilkynningu frá 19. júní sl.

Ég vona innilega að þið hafið sem flest notið sumarsins en mörg okkar hafa uppgötvað þau undur sem felast í íslenskri náttúru og kynnst því fjölbreytta mannlífi sem einkennir byggðir landsins. Þrátt fyrir þetta bakslag nú skulum við halda áfram að njóta alls þess sem við höfum og huga hvert að öðru.

Gleymum ekki að fara með gát í amstri dagsins og fylgjum reglum sem okkur eru settar af stjórnvöldum til að draga úr smithættu. Munum að við erum öll almannavarnir og berum mikla ábyrgð hvert og eitt.

Gangi ykkur vel kæru nemendur og samstarfsfólk.

Með kærri kveðju,

Jón Atli Benediktsson, rektor

Aðalbygging Hí