Skip to main content

Um doktorsnám í næringarfræði

Um doktorsnám í næringarfræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Matvæla- og næringarfræðideild býður upp á mjög öflugt doktorsnám. Rannsóknavirkni deildarinnar er ein sú mesta í Háskólanum og gott samstarf er á milli kennara og stofnana og fyrirtækja innanlands.

Doktorsnám í næringarfræði felur í sér 180 eininga vísindaleg og tæknileg rannsóknarverkefni sem leiða til nýrrar þekkingar og nýsköpunar. Námið byggir á að nemendur ljúki sem samsvarar þriggja ára námi við rannsóknaverkefni og námskeiðum á fagsviðinu eftir þörfum og er áætlunin unnin í samvinni við kennara og aðra leiðbeinendur.

Öllum nemendum í rannsóknar- og framhaldsnámi stendur til boða að taka hluta af námi sínu erlendis í samvinnu við leiðbeinendur. Rík áhersla er lögð á að rannsóknaniðurstöður séu birtar á ritrýndum alþjóðlega viðurkenndum vettvangi.

Rannsóknaverkefni

Matvæla- og næringarfræðideild á mikið samstarf við Rannsóknastofu í næringarfræði sem heyrir undir Háskóla Íslands og Landspítala. Öflugt samstarf er einnig á milli kennara deildarinnar og stofnana og fyrirtækja innanlands, t.d. margra deilda Landspítala, Lýðheilsustöðvar, Miðstöðvar heilsuverndar barna, Matís ohf og fyrirtækja í iðnaði. Nemendur fá tækifæri til að tengjast atvinnulífi og öðlast reynslu í samskiptum við innlenda og erlenda aðila í náminu, sem er ómetanleg reynsla sem nemendur búa að eftir að námi lýkur. Kennarar í næringarfræði eru í virku samstarfi við fjölda rannsóknarhópa við erlenda háskóla og stofnanir, auk tengsla við fjölmarga fleiri erlenda aðila. 

Kennarar í næringarfræði og nemendur í rannsóknarnámi hafa starfsaðstöðu á Rannsóknarstofu í næringarfræði.

Rannsóknaáherslur við deildina falla innan eftirtalinna fagsviða:

  • Næring viðkvæmra hópa
  • Lýðheilsunæringarfræði
  • Klínísk næringarfræði
  • Næringarefnafræði
  • Íþróttanæringarfræði
  • Næring þróunarlanda
  • Vöruþróun og neytendafræði

Tækifæri í rannsóknum á sviði næringarfræði hérlendis eru gríðarlega mikil. Áhugi almennings eða neytandans á góðri næringu er einnig alþjóðlegur og kallar á næringarfræðinga til margra starfa. Nánar um rannsóknir við deildina.

Doktorsnám með alþjóðlega gæðavottun

Doktorsnám við Heilbrigðisvísindasvið hefur hlotið alþjóðlega gæðavottun frá ORPHEUS (Organisation for PhD Education in Biomedicine and Health Sciences in the European System). Háskóli Íslands er fimmti háskólinn í Evrópu til þess að hljóta vottunina. ORPHEUS eru alþjóðleg samtök sem meta gæði doktorsnáms í líf- og heilbrigðisvísindum við evrópska háskóla.