Skip to main content

Stefna námsbrautar

NÁM Í SJÚKRAÞJÁLFUN VIÐ HÁSKÓLA ÍSLANDS
 

Stefna (mission statement)
Hlutverk Námsbrautar í sjúkraþjálfun er að mennta sjúkraþjálfara sem eru gagnrýnir í hugsun, byggja starf sitt á  gagnreyndri þekkingu, skila árangri, fylgja siðareglum og eru virkir í símenntun. Við útskrift hafa sjúkraþjálfarar víðtæka þekkingu, leikni og hæfni á sviði sjúkraþjálfunar. Þeir geta  starfað sjálfstætt við að vernda, efla og endurheimta færni, heilsufar og lífsgæði fólks og búa yfir hæfni sem nýtist í rannsóknarvinnu. Við útskrift geta sjúkraþjálfarar unnið út frá þörfum notenda/sjúklinga, eru færir um að taka þátt í þverfræðilegri teymisvinnu og hafa þróað með sér fagmennsku og samfélagslega ábyrgð.

Hvað er sjúkraþjálfun?
Sjúkraþjálfun er sú þjónusta, meðferð og heilsuvernd sem veitt er af sjúkraþjálfurum. Fagið byggir á fræðilegum og vísindalegum grunni þar sem lykilhugtök eru hreyfing (movement) og færni (functioning) frá vöggu til grafar. Sjúkraþjálfarar greina orsakir hreyfitruflana og færniskerðinga og veita meðferð sem byggir á greiningunni. Þar að auki fást sjúkraþjálfarar við að koma í veg fyrir eða draga úr neikvæðum afleiðingum áverka, álagseinkenna, sjúkdóma, öldrunar, lífsstíls og umhverfisþátta sem geta truflað hreyfingu og raskað lífi einstaklingsins. Markmið sjúkraþjálfunar er að efla og viðhalda líkamlegri og andlegri færni og heilsu og stuðla þannig að bættum lífsgæðum og virkri þátttöku í síbreytilegu samfélagi. Þeir sem nýta þjónustu sjúkraþjálfara geta verið afar veikburða eða hraustir og á hvaða aldri sem er. Starfsvettvangur sjúkraþjálfara er á sviði forvarna, heilsueflingar, meðferðar/íhlutunar, hæfingar og endurhæfingar.

Hugmyndafræðilegur rammi og meginþættir
Hugmyndafræði sjúkraþjálfunar endurspeglar lykilhugtök fræðigreinarinnar sem eru hreyfing (movement) og færni (functioning) frá vöggu til grafar. Við Námsbraut í sjúkraþjálfun er hugtakið hreyfing kynnt út frá samtímakenningum í hreyfivísindum (movement science) og færni er skilgreind út frá Alþjóðlegu flokkunarkerfi um færni, fötlun og heilsu (International Classification of Functioning, Disability and Health [ICF]).  Samkvæmt ICF er færni yfirhugtak fyrir líkamsstarfsemi, athafnir og þátttöku og ákvarðast af samspili heilsufars og aðstæðna. Við Námsbraut í sjúkraþjálfun er lögð áhersla á sex meginþætti: ICF, hreyfistjórn (motor control), meðferðarferli sjúkraþjálfunar (patient/client management), notandamiðaða  nálgun (patient/client centred practice), gagnreynda sjúkraþjálfun (evidenced –based practice)  og fagmennsku (professionalism).

Kennslufræðilegur rammi
Virkir nemendur (active learners). Gengið er út frá því að nemendur beri ábyrgð á sínu námi. Kennarar námsbrautar hvetja nemendur með spurningum, með því að ýta undir gagnrýna hugsun og veita eflandi endurgjöf. Nemendur eru hvattir til að hugsa og uppgötva í stað þess að leggja eingöngu á minnið. Nám sem nemendur eru virkir í er mikilvægur grunnur fyrir símenntun sem útskrifaðir sjúkraþjálfarar þurfa að stunda til að vera færir um að starfa í breytilegu heilbrigðiskerfi og samfélagi.

Fjölbreyttar kennsluaðferðir og námsmat. Kennarar nota fjölbreyttar aðferðir við kennslu og námsmat.

Meginþáttum komið til skila. Kennarar allra námskeiða hafa meginþætti námsins í huga og flétta þá inn í námsefnið og námsmat á viðeigandi máta: ICF, hreyfistjórn, meðferðarferli sjúkraþjálfunar, notandamiðuð nálgun, gagnreynd sjúkraþjálfun og fagmennska.  Þannig ber minna á meginþáttunum í grunnfögum námsins en þeir taka á sig skarpa mynd í allri sjúkraþjálfunarfræði og verða sýnilegri eftir því sem á námið líður.

Gildi (values)
Gildi námsbrautarinnar eru:

  • Gæði (excellence)
  • Fagmennska (professionalism)
  • Framþróun (progress)

Unnið á tímabilinu 2013-2014 fyrir hönd Námsbrautar í sjúkraþjálfun,
Þjóðbjörg Guðjónsdóttir og Sólveig Á. Árnadóttir