Skip to main content

Stefna námsbrautar

NÁM Í SJÚKRAÞJÁLFUN VIÐ HÁSKÓLA ÍSLANDS
 

Stefna (mission statement)

Hlutverk Námsbrautar í sjúkraþjálfun er að mennta sjúkraþjálfara sem eru gagnrýnir í hugsun, byggja starf sitt á  gagnreyndri þekkingu, skila árangri, fylgja siðareglum og eru virkir í símenntun. Við útskrift hafa sjúkraþjálfarar víðtæka þekkingu, leikni og hæfni á sviði sjúkraþjálfunar. Þeir geta  starfað sjálfstætt við að vernda, efla og endurheimta færni, heilsufar og lífsgæði fólks og búa yfir hæfni sem nýtist í rannsóknarvinnu. Við útskrift geta sjúkraþjálfarar unnið út frá þörfum notenda/sjúklinga, eru færir um að taka þátt í þverfræðilegri teymisvinnu og hafa þróað með sér fagmennsku og samfélagslega ábyrgð þar sem Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna eru höfð í huga. Nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar eru með breiðan þekkingargrunn sem gerir þeim kleift að fara í sérfræðinám innan sjúkraþjálfunar eða rannsóknartengt framhaldsnám. 

Framtíðarsýn (vision statement)

Að brautskrá breiðan hóp einstaklinga sem með gagnreyndum aðferðum sjúkraþjálfunar hafi jákvæð áhrif á heilsu og færni, og starfi þverfaglega við að þjóna fjölbreyttum hópum fólks í síbreytilegu samfélagi. 

Hvað er sjúkraþjálfun?

Sjúkraþjálfun er  notendamiðuð þjónusta, meðferð og heilsuvernd sem veitt er af sjúkraþjálfurum. Starfsvettvangur sjúkraþjálfara er á sviði forvarna, heilsueflingar, meðferðar/íhlutunar, hæfingar og endurhæfingar. Fagið byggir á fræðilegum og vísindalegum grunni þar sem lykilhugtök eru hreyfing (movement) og færni (functioning) frá vöggu til grafar. Sjúkraþjálfarar greina orsakir hreyfitruflana og færniskerðinga og veita meðferð sem byggir á greiningunni. Sjúkraþjálfarar styðja einstaklinga í  að fyrirbyggja eða draga úr neikvæðum afleiðingum áverka, álagseinkenna, sjúkdóma, öldrunar, lífsstíls og umhverfisþátta.  Markmið sjúkraþjálfunar er að efla heilsu, færni og lífsgæði, og stuðla þannig að virkri þátttöku í síbreytilegu samfélagi. Þeir sem nýta þjónustu sjúkraþjálfara geta verið afar veikburða eða hraustir og á hvaða aldri sem er.

Hugmyndafræðilegur rammi og meginþættir

Sjúkraþjálfun er fag sem er í stöðugri þróun til að mæta síbreytilegum þörfum samfélagsins.

Hugmyndafræði sjúkraþjálfunar endurspeglar lykilhugtök fræðigreinarinnar sem eru hreyfing (movement) og færni (functioning) frá vöggu til grafar. Við Námsbraut í sjúkraþjálfun er hugtakið hreyfing kynnt út frá samtímakenningum í hreyfivísindum (movement science) og færni er skilgreind út frá Alþjóðlegu flokkunarkerfi um færni, fötlun og heilsu (International Classification of Functioning, Disability and Health [ICF]).  Samkvæmt ICF er færni yfirhugtak fyrir líkamsstarfsemi, athafnir og þátttöku og ákvarðast af samspili heilsufars og aðstæðna. Við Námsbraut í sjúkraþjálfun er lögð áhersla á sex meginþætti: ICF1, hreyfistjórn (motor control)2, meðferðarferli sjúkraþjálfunar (patient/client management)3, notandamiðaða  nálgun (patient/client centred practice)4, gagnreynda sjúkraþjálfun (evidenced –based practice)5  og fagmennsku (professionalism)6.

Kennslufræðilegur rammi

Virkir nemendur (active learners). Gengið er út frá því að nemendur beri ábyrgð á sínu námi. Kennarar námsbrautar hvetja nemendur með spurningum, með því að ýta undir gagnrýna hugsun og veita eflandi endurgjöf. Nemendur eru hvattir til að hugsa og uppgötva í stað þess að leggja eingöngu á minnið. Nám sem nemendur eru virkir í er mikilvægur grunnur fyrir símenntun sem útskrifaðir sjúkraþjálfarar þurfa að stunda til að vera færir um að starfa í breytilegu heilbrigðiskerfi og samfélagi.

Fjölbreyttar kennsluaðferðir og námsmat. Kennarar nota fjölbreyttar aðferðir við kennslu og námsmat og þróa kennsluhætti sína í takt við nýjungar í kennslufræðum. Nemendur læra að samþætta bóklega þekkingu og verklega leikni og byggja þannig upp hæfni á sviði sjúkraþjálfunar og rannsókna. Meginþáttum komið til skila. Kennarar allra námskeiða hafa meginþætti námsins í huga og flétta þá inn í námsefnið og námsmat á viðeigandi máta: ICF, hreyfistjórn, meðferðarferli sjúkraþjálfunar, notandamiðuð nálgun, gagnreynd sjúkraþjálfun og fagmennska.  Þannig ber minna á meginþáttunum í grunnfögum námsins en þeir taka á sig skarpa mynd í allri sjúkraþjálfunarfræði og verða sýnilegri eftir því sem á námið líður.

Gildi (values)

Gildi námsbrautarinnar eru:

  • Gæði (excellence)
  • Fagmennska (professionalism)
  • Framþróun (progress)

Heimildir

  1. WHO. Alþjóðlegt flokkunarkerfi um færni, fötlun og heilsu.

  2. Woollacott A. og Shumway-Cook MH. Motor control: Issues and theory. Vol 5. Philadelphia: Wolters Kluver; 2017

  3. O‘Sullivan SB. Clinical decision making. In: O‘Sullivan SB., Schmitz TJ., og Fulk, GD., eds. Physical rehabilitation. Vol 6. Philadelphia: F.A. Davis Company 2014:1-23

  4. Trede F. og Haynes, A. Developing person-centred relationships with clients and families. In: Higgs J., Smith MG., Webb M. og Skinner A., Croker, A, ed. In Contexts of physiotherapy practice. Vol 19. Sydney, Australia Elsevier; 2009:246-259

  5. Aveyard H. og Sharp PA. Beginner’s guide to evidence-based practice Vol 2. Maidenhead, Berkshire: Open University Press; 2013

  6. MacDonald C., Houghton PE., Cox PD. og Bartlett DJ. Consensus on physical therapy professional behaviors. Physiotherapy Canada 2001(53):212-218

Unnið 2013-2014 fyrir hönd Námsbrautar í sjúkraþjálfun, Þjóðbjörg Guðjónsdóttir og Sólveig Á. Árnadóttir, Endurskoðað vorið 2023 af föstum starfsmönnum Námsbrautar í sjúkraþjálfun.