Skip to main content

Heilsusamlegt fæðuumhverfi í mótun – Informas á Ísland

Heilsusamlegt fæðuumhverfi í mótun – Informas á Ísland - á vefsíðu Háskóla Íslands

Mataræði er einn sá þáttur sem helst er talin geta komið í veg fyrir snemmbær dauðsföll og glötuð góð æviár á Íslandi eins og í nágrannalöndunum. Sjá nánar í grein í fræðiritinu Lancet (á ensku).

Fæðuval og næringarástand einstaklinga einkennist að miklu leyti af fæðuumhverfi þeirra en það mótast af öllum þeim utanaðkomandi þáttum sem hafa áhrif á fæðuval. Meðal lykilþátta eru aðgengi og sýnileiki matvara innan matvöruverslana og stefnur og aðgerðir stjórnvalda. Þróaðar hafa verið aðferðir til að leggja mat á hvoru tveggja hér á Íslandi. 

Sumarið 2021 var unnið að því að leggja mat á aðgengi og sýnileika matvara í matvöruverslunum. Sú aðferð kallast “Food availability in Supermarkets” eða aðgengi matvara í stórmörkuðum

Verkefnið snýr að notkun einfaldra mæliaðferða sem leggja mat á aðgengi og sýnileika sjö fæðuhópa, nánar tiltekið grænmetis, ávaxta, gos – og orkudrykkja, snakks, kex og sælgætis. Þessir tilteknu fæðuhópar eru valdir því þeir sýna sambærilegar niðurstöður og þegar allir fæðuhópar innan verslunar eru mældir. Aðferðirnar byggja á mælingum á aðgengi og sýnileika fæðuhópanna, bæði umfangi (heildarflatarmáli hvers fæðuhóps, cm2) og staðsetningu. 

Sumarið 2020 var unnið að því að leggja mat stefnumótun stjórnvalda hvað varðar matvæli, næringu og fæðuumhverfi. Sá aðferðarkvarði hefur hlotið nafnið „The healthy food environment policy index“ (FOOD-EPI) eða stefnumótunarkvarði fyrir heilsusamlegt fæðuumhverfi (STEF)

Verkefnið snýr að því að máta næringartengda stefnumótun á Íslandi við alþjóðlega staðla sem rannsóknir hafa sýnt að geta verið grunnur að heilsusamlegu fæðuumhverfi. Hópur sérfræðinga í hverju samfélagi fyrir sig er síðan beðin um að gefa stjórnvöldum einkunn fyrir frammistöðuna og raða þáttunum í mikilvægisröð. Á þann hátt er haft samráð við fjölmarga aðila og getur slík vinna skilað sér í skýrari aðgerðum sem sátt er um. Um er að ræða 13 umlykjandi þætti og undir þeim samtals 47 næringarvísar en þremur umhverfisvísum hefur verið bætt við í íslensku útgáfunni.

Nánari upplýsingar um verkefnin og uppruna þeirra má sjá á www.informas.org. Fjölmörg lönd um allan heim hafa þegar mátað sig við kvarðana, svo sem Bretland, Kanada og Ástralía. Í kjölfar þessarar vinnu hafa sprottið mörg nýskapandi verkefni sem hafa reynst næringarrík og gefandi fyrir samfélögin, einkum þegar kemur að styðja við og efla fæðuval neytenda, fæðuöryggi og sjálfbærni.
Verkefnin á Íslandi hlutu styrki sumrin 2020 og 2021 frá Nýsköpunarsjóði námsmanna, RANNIS. Ábyrgðarmenn þeirra eru Bryndís Eva Birgisdóttir prófessor (beb@hi.is) og Birna Þórisdóttir nýdoktor og sérfræðingur (bith@hi.is).