Skip to main content

Samþykkt fyrir Listasafn Háskóla Íslands

Samþykkt fyrir Listasafn Háskóla Íslands, nr. 914/2018.

PDF-útgáfa

1. gr.  Almennt.

Listasafn Háskóla Íslands er lista- og menningarstofnun starfrækt af Háskóla Íslands og heyrir undir háskólaráð. Safnið er ekki rekið í hagnaðarskyni. Til grundvallar liggur stofnskrá Listasafns Háskóla Íslands sem var samþykkt af háskólaráði og staðfest af forseta Íslands 9. apríl 1980. Safnið starfar samkvæmt ákvæðum safnalaga nr. 141/2011, sbr. einnig reglugerð nr. 900/2013, og er staðsett í rannsóknar- og kennsluumhverfi Háskóla Íslands. Lögð er áhersla á að tryggja aðgang þeirra sem leggja stund á rannsóknir í íslenskri listasögu að verkum safnsins.

2. gr.  Hlutverk og markmið.

Hlutverk Listasafns Háskóla Íslands er að varðveita stofngjöf safns og aðra safneign og miðla henni til almennings og jafnframt að annast um kaup á nútímalist, eftir því sem kostur er. Við safnið eru stundaðar rannsóknir, skráning, settar upp sýningar og tekið þátt í samstarfsverkefnum með öðrum söfnum eftir því sem við verður komið.

Safnið hefur sérstakar skyldur gagnvart miðlun og rannsóknum á verkum Þorvalds Skúlasonar (1906–1984) sem mynda Þorvaldssafn, stærsta og heildstæðasta safn verka Þorvalds í heiminum. Verkin spanna allan feril listamannsins, frá árinu 1921 til 1984 og telur safnið um 1.400 verk eftir Þorvald; olíumálverk, teikningar, vatnslitamyndir, blekmyndir og klippimyndir. Hvorki má selja né gefa þau verk sem mynda Þorvaldssafn.

Við safnið er starfræktur rannsóknarsjóður, Styrktarsjóður Listasafns Háskóla Íslands, sem stofnaður var árið 1999 og er ætlað að styrkja rannsóknir á sviði íslenskrar myndlistar, myndlistarsögu og forvörslu myndverka að fornu og nýju, svo og til birtingar á niðurstöðum slíkra rannsókna, samkvæmt ákvörðun stjórnar Listasafns Háskóla Íslands sem jafnframt er stjórn sjóðsins.

Safninu er heimilt að lána listaverk tímabundið til annarra safna, íslenskra eða erlendra, vegna sýninga.

Safnið hefur rétt til opinberra sýninga á listaverkum sem það á og varðveitir, einnig til eftirmyndunar eða annarrar eftirgerðar fyrir það sjálft til skrásetningar í tölvugagnagrunn og til kynningar á sýningum, vefsíðu og í sýningarskrám. Til annarrar eftirgerðar eða birtingar listaverka, s.s. til að gera af þeim myndir, eftirlíkingar og vörumerki, eða nota í auglýsingum, þarf samþykki höfundarréttarhafa í samræmi við höfundalög.

Upplýsingar um skráð listaverk og gripi skulu vera aðgengilegar almenningi og fræðafólki í samræmi við höfundalög.

3. gr.  Aðstaða.

Háskóli Íslands lætur Listasafninu í té starfsaðstöðu, húsnæði og búnað og tryggir því fjárhagsgrundvöll til að standa undir faglegri starfsemi og rekstri, sbr. 8. grein, svo sem kostur er. Stofnunin veitir starfsliði sínu aðstöðu og nauðsynlegan búnað til rannsókna eftir því sem unnt er.

4. gr.  Stjórn.

Háskólaráð skipar Listasafninu þriggja manna stjórn til fjögurra ára í senn og ákveður hver skuli vera formaður stjórnarinnar. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.

5. gr.  Stjórnarfundir.

Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi bréflega, eða í tölvupósti, og með hæfilegum fyrirvara. Fundarboð skal greina dagskrá fundar.

Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir stjórnarmenn þess. Sama gildir ef rektor ber fram slíka ósk og hefur þá hann, eða sá sem sækir fundinn í umboði hans, málfrelsi og tillögurétt á fundinum.

Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns eða þess sem gegnir formannsstörfum. Halda skal gerðabók stjórnar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana. Afrit fundargerða skulu send rektor. Forstöðumaður situr stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt, en án atkvæðisréttar.

6. gr.  Verkefni stjórnar.

Hlutverk stjórnar er að tryggja að Listasafnið starfi að lögum. Stjórnin markar safninu stefnu um starfsemi og rekstur innan þess ramma sem því er markaður og ber ábyrgð á starfsemi þess gagnvart yfirstjórn háskólans. Meðal verkefna stjórnar er að gera tillögur til rektors um ráðningu starfsliðs, samþykkja rekstraráætlanir, auk þess sem stjórnin tekur afstöðu til allra tillagna um kaup á listaverkum til safnsins. Stjórn safnsins er jafnframt stjórn Styrktarsjóðs Listasafns Háskóla Íslands, sbr. 2. gr.

7. gr.  Forstöðumaður og annað starfslið.

Rektor ræður forstöðumann Listasafnsins (safnstjóra) að fengnum tillögum stjórnar og setur honum erindisbréf. Safnstjóri skal vera sérfræðingur á sviði myndlistar og hafa hæfni til að stýra faglegri starfsemi og rekstri listasafns. Hann skal hafa meistarapróf á sviði listfræði eða í myndlist. Safnstjóri starfar í umboði stjórnar og vinnur í nánum tengslum við stjórn safnsins að listrænni stefnumótun. Hann hefur yfirumsjón með starfsemi safnsins, stjórnar daglegum rekstri þess, ber ábyrgð á rekstri gagnvart stjórn og hefur jafnframt sjálfstæði til þess að taka ákvarðanir fyrir safnið innan samþykkts fjárhagsramma. Hann gerir tillögur til stjórnar um ráðningu starfsliðs ef því er að skipta og sér um framkvæmd á þeim málum, sem stjórnin felur honum. Safnstjóri annast samninga um þátttöku í samstarfsverkefnum með öðrum söfnum og hefur umsjón með skráningu, uppsetningu sýninga og miðlun upplýsinga um safnið innan og utan háskólans.

Safnstjóri sér til þess að siðareglum Alþjóðaráðs safna, ICOM (International Council of Museums), sé fylgt í starfsemi safnsins.

Safnstjóri er í starfi sínu ábyrgur gagnvart stjórn og rektor.

8. gr.  Fjármál.

Listasafn Háskóla Íslands hefur sjálfstæðan fjárhag aðgreindann frá öðrum rekstri háskólans. Reikningshald safnsins er hluti af reikningshaldi háskólans og lýtur reglum þess og skal vera aðgreint í bókhaldi.

Tekjur Listasafnsins eru:

  1. Framlag samkvæmt ákvörðun háskólaráðs.
  2. Framlag sem nemur 1% þeirrar fjárhæðar sem varið er til nýbygginga á vegum háskólans ár hvert.
  3. Fjárveitingar og styrkir til einstakra verkefna.
  4. Gjafir, hvort sem er í formi listaverka eða fjármuna. Gjöfum skal fylgja gjafabréf.
  5. Aðrar tekjur eða gjafir.

Tekjum safnsins skal varið til reksturs og varðveislu þess, sem og til kaupa á listaverkum.

Árlega skal stjórn Listasafnsins leggja fyrir háskólaráð sjálfstætt og endurskoðað reikningsuppgjör þess og jafnframt senda safnaráði skýrslu um starfsemi safnsins og fjárhagslegt uppgjör.

9. gr.  Formlegt mat á rekstri og starfsemi.

Formlegt mat á rekstri og starfsemi Listasafns Háskóla Íslands skal fara fram með reglulegu millibili, samkvæmt nánari ákvörðun háskólaráðs.

10. gr.  Lok starfsemi og ráðstöfun eigna og safnkosts.

Ákvörðun um niðurlögn safnsins skal vera í samræmi við 12. gr. safnalaga. Telji háskólaráð óumflýjanlegt að leggja safnið niður skal það gert í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Skal þá ráðstafa safnkosti skv. ákvæði safnalaga um lok starfsemi og ráðstöfun eigna og safnkosts, í samráði við viðkomandi höfuðsafn.

Öðrum eignum safnsins skal ráðstafað að höfðu samráði við mennta- og menningarmálaráðuneyti.

11. gr.  Gildistaka.

Samþykkt þessi hefur verið staðfest af háskólaráði og öðlast gildi við staðfestingu safnaráðs,1 sbr. c. lið 2. mgr. 7. gr. safnalaga nr. 140/2011, sbr. einnig 26. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

1Listasafn Háskóla Íslands hefur hlotið viðurkenningu safnaráðs, sem staðfest hefur verið af mennta- og menningarmálaráðherra.

Háskóla Íslands, 27. september 2018.