Skip to main content

Reglur nr. 570-2009

Reglur um Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni, nr. 570/2009

PDF-útgáfa

1. gr.  Almennt

Stofnun Ármanns Snævarr er vísindaleg rannsóknastofnun sem er starfrækt af Háskóla Íslands.

Stofnunin heyrir undir Lagadeild og er vettvangur lögfræðirannsókna- og þróunarstarfs í málefnum fjölskyldna og barna í þverfaglegu samstarfi við önnur fræðasvið og rannsóknastofnanir sem fjalla um fjölskyldumálefni.

2.  gr.  Hlutverk

Hlutverk stofnunarinnar er einkum:

  1. að efla lögfræðirannsóknir á sviði fjölskylduréttar, svo sem sifjaréttar, hjúskapar- og sambúðarréttar, barnaréttar og barnaverndarréttar,
  2. að skapa vettvang fyrir þverfaglegar rannsóknir á sviði lögfræði og annarra fræðasviða þar sem fjallað er um hjúskapar- og sambúðarmál og málefni fjölskyldna og barna í sem víðustu samhengi, m.a. frá sjónarhóli allra þátta félagsvísinda, heilbrigðisvísinda menntavísinda, heimspeki og siðfræði,
  3. að stuðla að samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknaraðila,
  4. að eiga frumkvæði að og taka þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum á sviði fjölskylduréttar og í þverfaglegum rannsóknum um fjölskyldumálefni,
  5. að efla tengsl rannsókna og kennslu á háskólastigi um fjölskyldumálefni,
  6. að stuðla að samstarfi við félög og stofnanir sem fara með málefni tengd fjölskyldunni,
  7. að sinna þjónustuverkefnum fyrir stofnanir eða aðra aðila sem fjalla um fjölskyldumálefni,
  8. að skapa vettvang fyrir meistaranema og doktorsnema í lögfræði eða öðrum námsgreinum sem tengjast fjölskyldumálefnum til að vinna að einstaka rannsóknaverkefnum, veita þeim aðstöðu til rannsóknastarfa eftir því sem aðstæður leyfa og þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum,
  9. að gefa út og kynna niðurstöður rannsókna um fjölskyldumálefni og gangast fyrir faglegum námskeiðum, fyrirlestrum og ráðstefnum um efnið.

3. gr.  Aðstaða

Háskóli Íslands lætur stofnuninni í té starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað eftir því sem kostur er.

Stofnunin veitir starfsliði sínu skv. 7. gr. og gestum aðstöðu og nauðsynlegan búnað til rannsókna eftir því sem unnt er.

4. gr.  Skipulag

Stofnunin starfar í einni rannsóknastofu. Starfsmaður hennar annast skrifstofuhald hennar að því marki sem honum er falið, en að öðrum kosti annast skrifstofa Lagadeildar skrifstofuhald hennar.

5. gr.  Stjórn

Háskólaráð skipar stofnuninni fimm manna stjórn til þriggja ára í senn að fengnum tilnefningum frá Lagadeild og skal sá jafnframt vera formaður, Félagsráðgjafardeild, Hugvísindasviði, Menntavísindasviði og Heilbrigðisvísindasviði.

Stjórnin kýs varaformann úr sínum hópi og skiptir að öðru leyti með sér verkum.

Stjórninni er heimilt að fela starfsmanni stofnunarinnar að annast daglegan rekstur hennar. Að öðrum kosti kemur stjórnarformaður fram fyrir hönd stofnunarinnar og annast daglegan rekstur hennar.

6. gr.  Stjórnarfundir

Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi bréflega, eða í tölvupósti, með þriggja daga fyrirvara. Fundarboð skal greina dagskrá fundar.

Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Sama gildir ef forseti Lagadeildar eða rektor ber fram slíka ósk og hafa þeir þá málfrelsi og tillögurétt á fundinum, en ekki atkvæðisrétt.

Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns eða þess sem gegnir formannsstörfum. Rita skal fundagerðir og skulu afrit þeirra send forseta lagadeildar.

7. gr.  Verkefni stjórnar

Stjórnin tekur allar stefnumarkandi ákvarðanir fyrir stofnunina og setur henni starfsreglur.

Stjórnin sker úr í vafaatriðum sem upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofnunarinnar.

Stjórnin ber ábyrgð á fjármálum hennar gagnvart Lagadeild og Félagsvísindasviði, samþykkir rekstrar- og fjárhagsáætlun og gerir tillögu til forseta deildar og fræðasviðs um fjárveitingar og skiptingu þeirra ásamt skiptingu annarra tekna.

Stjórnin gerir tillögu að samþykktum um þjónusturannsóknir sem háskólaráð staðfestir. 

8. gr.  Ráðning starfsmanna

Stjórnin gerir tillögu til forseta Félagasvísindasviðs um ráðningu forstöðumanns stofnunarinnar. Forstöðumaður skal hafa meistarapróf eða sambærilegt háskólapróf hið minnsta. Forseti sviðsins setur forstöðumanni erindisbréf þar sem nánar er kveðið á um verkefni og starfssvið.

Um ráðningu forstöðumanns eða annarra starfsmanna fer að öðru leyti eftir reglum Háskóla Íslands. Sé um að ræða ráðningu í starf og ekki er gert ráð fyrir því starfsheiti í reglunum fer formaður stjórnar eða stjórn stofnunarinnar í umboði hans með ráðningarmálið. 

9. gr.  Fjármál

Tekjur stofnunarinnar eru eftirfarandi:

  1. framlag frá Lagadeild og Félagsvísindasviði,
  2. styrkir til einstakra verkefna,
  3. greiðslur fyrir þjónustustarfsemi,
  4. tekjur af útgáfustarfsemi,
  5. aðrar tekjur, t.d. gjafir og framlög úr ríkissjóði eftir því sem kveðið kann að vera á um í fjárlögum.

Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi háskólans. Fjárhagsáætlun skal borin undir forseta félagsvísindasviðs og lögð fram til samþykktar á deildarfundi.

Sé um að ræða útselda þjónustu, sem veitt er í samkeppni við einkaaðila, skal sú starfsemi fjárhagslega afmörkuð frá öðrum rekstri stofnunarinnar og þess gætt að sá rekstur sé ekki niðurgreiddur með öðrum tekjum, í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.

Um stjórnunar- og aðstöðugjald af sértekjum fer eftir ákvæðum reglna fyrir Háskóla Íslands. 

10. gr.  Gildistaka

Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli heimildar í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla öðlast þegar gildi.

Háskóla Íslands, 16. júní 2009