Skip to main content

Reglur nr. 351-2017

Reglur um meistaranám við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, nr. 351/2017.

PDF-útgáfa

1. gr.  Nám og markmið.

Við deildir Hugvísindasviðs er unnt að leggja stund á meistaranám í þeim kennslugreinum sem tilgreindar eru í undirköflum XII. kafla reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands með seinni breytingum (greinum 109, 111, 113 og 115).

Meistaranám getur verið lokaprófgráða en einnig undanfari doktorsnáms. Hver deild setur hæfniviðmið fyrir þær kennslugreinar sem tilheyra henni.

Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands hefur umsjón með og fylgir eftir settum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands, sbr. 66. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009, sbr. einnig 69. reglnanna. Standa ber skil á upplýsingum og gögnum sem Miðstöð framhaldsnáms kallar eftir.

2. gr.  Inntökuskilyrði.

Umsækjendur um meistaranám þurfa að hafa lokið BA-prófi, sem veitir rétt til meistaranáms, í þeirri grein sem sótt er um eða sambærilegu prófi frá viðurkenndum  háskóla, með fyrstu einkunn (7,25) að lágmarki eða jafngildi hennar. Stúdent sem hyggst hefja meistaranám strax að loknu BA-prófi getur sótt um það áður en viðkomandi prófi er lokið. Meistaranám getur þó enginn hafið formlega fyrr en inntökuskilyrðum hefur verið fullnægt til hlítar. Aðgangskröfur í einstakar námsgreinar eru tilgreindar í kennsluskrá.

Ef nemandi sækir um meistaranám í annarri grein en þeirri sem hann hefur lokið BA-prófi í getur vantað mikilvægan undirbúning úr grunnnámi. Ákveður framhaldsnámsnefnd deildar, að tillögu námsbrautar, hvaða námskeiðum nemandinn þarf að ljúka áður en hann hefur meistaranám. Gera skal grein fyrir undanförum í námsáætlun.

3. gr.  Umsóknarfrestur.

Umsóknarfrestur um meistaranám við deildir sviðsins er hinn sami og Háskóli Íslands setur um framhaldsnám. Nemendur eru innritaðir bæði á haustmisseri og vormisseri.

4. gr.  Tímalengd náms og einingafjöldi.

Meistaranám að loknu BA-prófi er að jafnaði 120 einingar, þar af er lokaverkefni 30 eða 60 einingar. Í sumum námsgreinum er einnig boðið upp á 90 eininga meistaranám, þar af er lokaverkefni 30 einingar. Miðað skal við að 120 eininga nám taki tvö ár (fjögur misseri) en 90 eininga nám eitt og hálft ár (þrjú misseri). Meistaranemi sem skráður er í nám til 120 eininga skal hafa lokið prófi eigi síðar en þremur árum (sex misserum) eftir skráningu í námið en nemi sem skráður er í nám til 90 eininga skal hafa lokið prófi eigi síðar en tveimur og hálfu ári (fimm misserum) eftir skráningu í námið.

Hægt er að sækja um undanþágu frá tímamörkum sem nemur einu ári eða um námshlé til framhaldsnámsnefndar deildarinnar. Undanþágu má binda við það að meistaranemi undirgangist þær kröfur sem þá eru í gildi um meistaranám þótt hann hafi hafið námið meðan aðrar reglur giltu.

Meistaraneminn skal að lágmarki taka helming eininga í meistaranámi á vegum þeirrar deildar sem hann er skráður við.

Til þess að brautskrást frá deildum Hugvísindasviðs þarf stúdent að ná meðaleinkunninni 6,0.

5. gr.  Framhaldsnámsnefnd deildar.

Framhaldsnámsnefnd deildar er kosin á deildarfundi til tveggja ára í senn. Hún fer með málefni framhaldsnáms við deildina. Hún hefur faglega umsjón með gæðum meistaranáms, stýrir ferli umsókna og annast önnur verkefni sem deild kann að fela henni. Í framhaldsnámsnefnd deildar sitja 3–5 fulltrúar kennara, einn fulltrúi meistaranema og einn fulltrúi doktorsnema. Formaður hennar, sem er valinn af deildarforseta úr hópi kjörinna fulltrúa, situr í doktorsnámsnefnd sviðsins.

6. gr.  Meðferð umsókna.

Umsóknum skal skilað til nemendaskrár með rafrænum hætti á sérstöku eyðublaði sem aðgengilegt er á vef skólans. Verkefnastjóri deildar á skrifstofu Hugvísindasviðs fer yfir umsóknir og athugar hvort tilskilin gögn fylgi. Umsóknirnar skulu þá sendar til deildar, námsbrautar eða faggreinar, eftir því sem við á, sem fjallar efnislega um þær og gerir tillögu til framhaldsnámsnefndar deildar um afgreiðslu þeirra. Framhaldsnámsnefnd afgreiðir umsóknina í umboði deildar að höfðu samráði við námsbrautarformann eða deildarforseta eftir því sem við á.

Verkefnastjóri deildar á skrifstofu Hugvísindasviðs, sem jafnframt er ritari framhaldsnámsnefndar deildarinnar, svarar umsækjanda eftir að umsókn hefur verið afgreidd og tilkynnir um niðurstöðu nefndarinnar. Afgreiðsla deildar skal skráð í rafrænt kerfi nemendaskrár.

7. gr.  Umsjónarkennari og leiðbeinandi.

Sérhver meistaranemi skal frá upphafi náms hafa umsjónarkennara sem leiðbeinir nemandanum um skipulag námsins, val námskeiða og hvers konar atriði og reglur sem tengjast náminu. Umsjónarkennari skal ávallt vera akademískur starfsmaður í föstu starfi við viðkomandi deild. Leiðbeinandi í lokaverkefni kemur alla jafna úr hópi fastráðinna starfsmanna deildarinnar en deild getur þó heimilað nemanda að hafa utanaðkomandi leiðbeinanda sem skal a.m.k. hafa lokið meistaraprófi og vera viðurkenndur sérfræðingur á viðkomandi sviði.

8. gr.  Meistaraprófsnefnd.

Að jafnaði er ekki skipuð meistaraprófsnefnd ef lokaverkefni er 30 einingar. Þó er heimilt að skipa hana í því tilfelli, og skylt er að skipa hana ef umsjónarkennari og leiðbeinandi eru ekki sami maðurinn. Skulu þeir tveir þá eiga sæti í nefndinni. Eins er skylt að skipa meistaraprófsnefnd fyrir nemanda ef lokaverkefni er 60 einingar. Í nefndinni sitji þá minnst tveir sérfróðir fræðimenn og er annar þeirra leiðbeinandinn. Hlutverk meistaraprófsnefndar er að tryggja fagleg gæði rannsóknarinnar. Framhaldsnámsnefnd deildar skipar meistaraprófsnefnd.

9. gr.  Prófdómari.

Forseti fræðasviðs skipar prófdómara eftir tilnefningu framhaldsnámsnefndar deildar til að meta meistaraprófsritgerðir. Prófdómarar skulu alla jafna vera utan háskólans og hafa lokið a.m.k. meistaraprófi á því fræðasviði sem dæma skal og njóta viðurkenningar á starfssviði sínu. Prófdómari skal leggja mat á lokaverkefni meistaranema ásamt leiðbeinanda eða meistaraprófsnefnd, hafi hún verið skipuð. Prófdómari má ekki vera tengdur lokaverkefninu.

Ef ekki er völ á prófdómara hérlendis utan háskólans, sem uppfyllir hæfiskröfur, er sviðsforseta heimilt að skipa háskólakennara innan Háskóla Íslands sem prófdómara. Í undantekningartilfellum er honum heimilt að skipa prófdómara innan deildar.

10. gr.  Kröfur um námskeið.

Allir nemendur þurfa að hafa lokið að lágmarki 60 einingum í námskeiðum (þ.m.t. málstofum, lesnámskeiðum og einstaklingsverkefnum) til að útskrifast með meistaragráðu frá deildum Hugvísindasviðs. Framboð námskeiða og skipting þeirra í skyldu og val er ákveðið af viðkomandi kennslugrein með samþykki framhaldsnámsnefndar deildar og tilgreint í kennsluskrá. Hafi nemandi við innritun þegar lokið námi sem er sambærilegt tilteknu skyldunámskeiði getur framhaldsnámsnefnd samþykkt að valnámskeið sé tekið í þess stað. Námskeið skulu vera á framhaldsstigi við Háskóla Íslands (M- og F-námskeið) eða aðra viðurkennda rannsóknarháskóla.

Öllum námskeiðum skal ljúka með viðeigandi námsmati í samræmi við skilgreinda námsáætlun. Námskeiðum sem tekin eru við viðurkennda háskóla aðra en Háskóla Íslands skal ljúka í samræmi við kröfur þess skóla.

Almennt er ekki heimilt að nota námskeið úr grunnnámi (BA-námi) sem hluta meistaranáms (námskeið við HÍ sem merkt eru G). Þverfræðilegar rannsóknir geta þó leitt til þess að grunnnámskeið úr öðrum deildum teljist nauðsynlegur hluti námsins. Miðað er við að hámark 10 einingar af slíkum nauðsynlegum grunnnámskeiðum geti talist til meistaraprófs.

11. gr.  Námsmat og meistarapróf.

Leiðbeinandi (eða meistaraprófsnefnd, hafi hún verið skipuð) og prófdómari gefa sjálfstæðar einkunnir fyrir lokaverkefni og er vægi þeirra jafnt. Skulu þeir leitast við að komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Nemendur í 120 eininga meistaranámi skulu flytja kynningarfyrirlestur um lokaverkefnið á viðeigandi vettvangi innan deildar. Heimilt er að nýta þennan fyrirlestur við mat á meistaraverkefni og prófa nemanda að honum loknum. Skulu prófdómari og leiðbeinandi, eða meistaraprófsnefnd ef því er að skipta, meta verkefnið.

12. gr.  Kröfur til meistararitgerðar.

Meistararitgerð getur verið metin til 30 eða 60 eininga. Kröfur um einingafjölda vegna ritgerða eru birtar í kennsluskrá og á heimasíðu sviðsins undir viðkomandi námsleið.

Í meistararitgerð skal tekið til rannsóknar afmarkað og samstætt viðfangsefni og það kannað rækilega með fræðilegum aðferðum. Í upphafi skal gera grein fyrir viðfangsefninu, þeim spurningum sem bornar verða upp og rannsóknaraðferð.

Niðurstöður verður að setja fram skýrt og aðgengilega. Almenn krafa til meistararitgerða er að þar sé fylgt viðurkenndum fræðilegum rannsóknaraðferðum og að þær séu sjálfstætt framlag til þekkingarsköpunar á fræðasviðinu. Meistararitgerð skal að jafnaði vera skrifuð á íslensku eða því tungumáli sem kennsla fer almennt fram á í viðkomandi námsgrein. Í hverri ritgerð skal vera útdráttur á íslensku og ensku.

13. gr.  Skil og frágangur meistararitgerðar.

Meistararitgerð skal skilað á skrifstofu Hugvísindasviðs í rafrænu formi fyrir auglýstan skiladag í kennslualmanaki og kennsluskrá.

Meistararitgerð skal framfylgja sniðmáti sviðsins fyrir meistararitgerðir.

Kröfur um lengd og frágang meistararitgerða er að finna á heimasíðu sviðsins og í kennsluskrá undir viðkomandi námsleið. Forsíða verkefnis skal bera auðkenni Háskóla Íslands og þar skal tilgreint nafn leiðbeinanda, námsgreinar og hvenær verkinu var lokið. Ef um sameiginlega prófgráðu er að ræða með öðrum háskóla eða háskólum, samkvæmt sérstökum samningi, ber forsíða verkefnis auðkenni beggja eða allra háskóla sem hlut eiga að máli. Nemandi annast skil á rafrænu eintaki verkefnis í Skemmu, gagnasafn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Við frágang og meðferð heimilda skal nemandi fylgja viðmiðum þeirrar fræðigreinar sem hann brautskráist frá enda séu þau í samræmi við viðurkennd viðmið á viðkomandi fræðasviði.

14. gr.  Lærdómstitill.

Meistarapróf veitir rétt til lærdómstitilsins magistra artium eða magister artium og notkunar skammstöfunarinnar MA. Embættispróf í guðfræði veitir rétt til lærdómstitilsins magistra theologiae eða magister theologiae og notkunar skammstöfunarinnar mag. theol.

15. gr.  Gildistaka.

Reglur þessar eru settar af háskólaráði með heimild í 3. mgr. 18. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008, sbr. einnig 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar hafa verið samþykktar í stjórn Hugvísindasviðs að fenginni umsögn deilda og Miðstöðvar framhaldsnáms, sbr. 66. og 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar öðlast gildi 1. júlí 2017. Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr. 154/2011 um meistara- og doktorsnám við Hugvísindasvið Háskóla Íslands.

Háskóla Íslands, 7. apríl 2017.