Skip to main content

Fundargerð háskólaþings 10. maí 2016

17. háskólaþing Háskóla Íslands

haldið 10. maí 2016 í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 13.00-16.00

Dagskrá
Kl. 13.00-13.05    Rektor setur háskólaþing, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir fundargögnum.
Kl. 13.05-13.15    Dagskrárliður 1. Rektor reifar mál sem eru efst á baugi í Háskóla Íslands.
Kl. 13.15-13.30    Dagskrárliður 2. Tillaga að breytingu á reglum nr. 984/2008 um skipan og fundarsköp háskólaþings.
Kl. 13.30-14.25    Dagskrárliður 3. Úttekt á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands.
Kl. 14.25-14.40    Dagskrárliður 4. Tilnefning þriggja fulltrúa og þriggja varafulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð Háskóla Íslands fyrir tímabilið 1.7.2016-30.6.2018.
Kl. 14.40-14.55    Kaffihlé.
Kl. 14.55-15.00    Dagskrárliður 4 (frh.). Niðurstaða kjörs þriggja fulltrúa og þriggja varafulltrúa í háskólaráð.
Kl. 15.00-16.00    Dagskrárliður 5. Drög að endurskoðaðri málstefnu Háskóla Íslands.
Kl. 16.00    Rektor slítur háskólaþingi.

Kl. 13.00-13.05
Fundarsetning

Rektor setti háskólaþing Háskóla Íslands og bauð þingfulltrúa velkomna til starfa. Háskólaþing er haldið í samræmi við lög um opinbera háskóla nr. 85/2008 sem tóku gildi 1. júlí 2008 og var þetta 17. háskólaþing Háskóla Íslands. Sérstaklega bauð rektor velkomna þá fulltrúa sem mættir voru í fyrsta sinn á þingið, fulltrúa frá samstarfsstofnunum og formann Stúdentaráðs.

Fundargerð síðasta háskólaþings var send fulltrúum fyrir þingið og bárust engar athugasemdir við hana. Þá gerði rektor grein fyrir tímaáætlun og gögnum fundarins og fól Magnúsi Diðriki Baldurssyni, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu og gæðastjóra Háskólans, að vera fundarritari.

Kl. 13.05-13.15
Dagskrárliður 1
Rektor reifar mál sem eru efst á baugi í Háskóla Íslands

1. Fjármál
•    Ríkisstjórnin hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2017-2021
•    Byggir á lögum nr. 123/2015 um opinber fjármál
•    Gert er ráð fyrir 20,6% aukningu ríkisútgjalda á tímabilinu, úr 733 milljörðum kr. 2017 í 885 milljarða kr. 2021
•    Útgjöld sem tengjast háskólastiginu eru langt undir heildarhækkun áætlunarinnar
•    Áætlunin skiptist í 34 útgjaldaramma og varða 3 þeirra háskólastigið:

    2017    2018    2019    2020    2021    Breyting
Nýsköpun, rannsóknir og markaðsmál    12.658    12.934    12.849    12.946    13.044    3,0%
Framhaldsskólastig    28.677    29.322    29.975    30.630    31.288    9,1%
Háskólastig    39.258    40.583    41.811    41.843    41.779    6,4%

•    Helstu atriði varðandi nýsköpun, rannsóknir og markaðsmál:
–    Gert er ráð fyrir eflingu samkeppnissjóða, en ekki minnst á fjárhæðir í því sambandi
•    Helstu atriði varðandi framhaldsskóla sem tengjast háskólum:
–    Gert er ráð fyrir 15% fækkun nemenda fram til ársins 2020
–    Áætlað er að hlutfall framhaldsskólanema sem ljúka námi á tilsettum tíma hækki verulega
•    Nokkur atriði varðandi háskólastigið:
–    Vísað er til stefnu Vísinda- og tækniráðs um fjármögnun háskólastigsins sem felur í sér að opinber framlög pr. nemanda muni ná meðaltali framlaga í OECD-ríkjunum árið 2016 og meðalframlögum á Norðurlöndunum árið 2020
–    Áhersla er lögð á gæði í stað magns og gert ráð fyrir auknum framlögum á hvern ársnema í stað fjölgunar nemenda
–    Ekki settar fram tillögur um aðgangstakmarkanir en nýtt reiknilíkan boðað án þess að tölur séu nefndar
–    Áhersla er lögð á samstarf háskóla og e.t.v. sameiningar
–    Samstarfsnefnd háskólastigsins hefur mótmælt því að áætlunin gerir ráð fyrir óverulegri hækkun framlaga til háskólanna á fimm ára gildistíma áætlunarinnar
–    Stúdentar hafa sett af stað átak með greinaskrifum gegn áætluninni
–    Málið verður rætt á fundi háskólaráðs 19. maí nk.
–    Barátta framundan!

2. NERU – Samstarfsnet valinna evrópskra háskóla
•    Háskóla Íslands boðið að taka þátt – staðfesting á árangri og heiður fyrir skólann
•    Markmið: Gera aðildarháskólana sýnilegri í Evrópu og á heimsvísu
•    Forsendur vals á háskólum: Sterkir rannsóknaháskólar sem eru með háan áhrifastuðul en eru ekki mjög sýnilegir. Einn háskóli frá hverju landi
•    Þátttakendur í byrjun: Vrije Universiteit Amsterdam (Holland), University of East Anglia (England), University of Aberdeen (Skotland), Université Grenoble Alpes (Frakkland), Universitetet i Bergen (Noregur), Háskóli Íslands (Ísland)
•    Fleiri munu bætast við
•    Áhersla á virka þátttöku rektora, forseta fræðasviða, starfsfólks og stúdenta
•    Áhersla á fjölbreytt og gagnkvæmt kynningarstarf
•    Hagsmunagæsla í Brüssel
•    Mikil tækifæri fyrir Háskóla Íslands
•    Formlegur stofnfundur í október nk.

3. Málefni fyrrverandi starfsmanna Háskóla Íslands á eftirlaunum
•    Margir starfsmenn Háskóla Íslands sem láta af störfum fyrir aldurs sakir eru í fullu fjöri og við góða heilsu
•    Mikilvægt að nýta þekkingu og reynslu þessa hóps
•    Tillögur starfshóps um málefni fyrrverandi starfsmanna verða kynntar á fundi háskólaráðs 19. maí nk.

4. Önnur mál
•    Ný stefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021
–    Samþykkt á háskólaþingi 3. mars sl. og í háskólaráði 17. mars sl.
–    Kynnt á opnum upplýsingafundi 12. apríl sl.
–    Vinna stendur yfir við útfærslu og áætlun um innleiðingu
•    Stefnumótun um alþjóðlegt samstarf
–    Drög að stefnu Háskóla Íslands í alþjóðamálum er í umsagnarferli
–    Lokadrög verða lögð fyrir háskólaþing í haust
•    Endurskoðun deililíkans
–    Nefnd hefur verið skipuð
•    Úttekt á matskerfi opinberra háskóla
–    Sjálfsmatsskýrsla væntanleg í haust
–    Heimsókn erlends sérfræðingahóps og ytri matsskýrsla vorið 2017
–    Málefni Laugarvatns
–    Grunnnám í íþrótta- og heilsufræði flutt til Reykjavíkur í áföngum 2016-2017
–    Viljayfirlýsing um takmarkaða áframhaldandi nýtingu aðstöðu á Laugarvatni undirrituð 28. apríl sl.
–    Aðstaða fyrir nám, kennslu, rannsóknir og þróunarstarf
–    Rannsóknasetur Háskóla Íslands að Laugarvatni
–    Samstarf við Háskólafélag Suðurlands um námskeiðahald
–    Fyrirvari um fjármögnun

5. Framundan
•    Vorfagnaður starfsfólks 20. maí nk.
•    Ársfundur Háskóla Íslands 15. júní nk.
•    Brautskráning kandídata í Laugardalshöll 25. júní nk.

Kl. 13.15-13.30
Dagskrárliður 2
Tillaga að breytingu á reglum nr. 984/2008 um skipan og fundarsköp háskólaþings

Rektor gerði grein fyrir málinu. Fyrir háskólaþingi lá tillaga um eftirfarandi breytingar á reglum nr. 984/2008 um skipan og fundarsköp háskólaþings:

2. gr.    Tillaga: Stúdentaráð Háskóla Íslands leggur til að auk rektors, forseta fræðasviða og deildarforseta verði formaður Stúdentaráðs fastur fulltrúi á háskólaþingi með atkvæðisrétt og að varaformaður Stúdentaráðs verði varamaður hans.
Skýring: Formaður Stúdentaráðs hefur um árabil setið háskólaþing sem áheyrnarfulltrúi í boði rektors án atkvæðisréttar og felur tillagan í sér að hann fái stöðu fasts fulltrúa.

4. gr.    Tillaga: Fulltrúar samtaka nemenda á háskólaþingi verði tilnefndir af Stúdentaráði í stað þess að vera kjörnir í almennri kosningu meðal nemenda. 5. tölul. 5. gr. breytist til samræmis.
Skýring: Fulltrúar nemenda á háskólaþingi hafa hingað til verið kjörnir í almennri kosningu samhliða kosningu til Stúdentaráðs. Eftir að skipulagi Stúdentaráðs var breytt fyrir fáeinum árum og m.a. innleidd svonefnd sviðsráð á hverju fræðasviði er heildarfjöldi fulltrúa í Stúdentaráði og í starfsnefndum þess ríflega 70. Felur tillagan í sér að auglýst verði meðal þessa hóps eftir fulltrúum nemenda á háskólaþingi og að fulltrúarnir verði tilnefndir af Stúdentaráði. Gætt verður að jöfnu kynjahlutfalli og stærðar hreyfinga nemenda sem mynda Stúdentaráð.

5. gr.    Tillaga: Lagt er til að í upptalningu stofnana sem tilnefna fulltrúa og varamenn á háskólaþingi í 4. tölul. bætist við Þjóðminjasafn Íslands.
Skýring: Að baki tillögunni liggja jafnræðissjónarmið, en Þjóðminjasafn Íslands er meðal helstu samstarfsstofnana Háskóla Íslands og var samstarfssamningur milli stofnananna endurnýjaður fyrir skömmu.

Rektor gaf orðið laust. Enginn tók til máls.

– Framlögð tillaga að breytingu á reglum nr. 984/2008 um skipan og fundarsköp háskólaþings samþykkt einróma.

Kl. 13.30-14.25
Dagskrárliður 3
Úttekt á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands

Rektor greindi frá yfirstandandi úttekt á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands sem unnin er af Ómari H. Kristmundssyni, prófessor og Ástu Möller, sérfræðingi á rektorsskrifstofu. Bauð rektor Ómari að gera grein fyrir málinu.

Áfangaskýrsla 1: Liður í heildarskoðun á stjórnsýslu og stjórnskipulagi Háskóla Íslands
•    Tilefni:
–    Nýtt stjórnskipulag 2008
–    Skv. reglum skólans
–    Nýr stjórnandi – ný stefna
•    Skýrsla um rannsóknarstofnanir háskólans (skilað í maí 2015)
•    Skýrsla um Félagsvísindasvið vormisseri (skilað í október 2015)
•    Skýrsla um skrifstofu rektors og æðstu stjórnendur (skilað í mars 2016)
•    Skýrsla um sameiginlega stjórnsýslu Háskóla Íslands (áformuð skil haustið 2016)
•    Útgáfa heildarrits (áformuð skil vorið 2017)

Viðfangsefni, markmið og gagnasöfnun
•    Skýrsla unnin að frumkvæði rektors
•    Lýsing og greining á skipulagi æðstu stjórnar skólans: Áhersla á skrifstofu rektors
•    Skoða hvernig efla megi starf rektorsskrifstofu
•    Gagnasöfnun:
–    Skoðun og greining á skriflegum gögnum, m.a. starfslýsingum, lýsingu á starfsemi, skýrslum, erlendum faggreinum um skipulag háskóla o.fl.
–    Greining á skipulagi háskóla í nágrannalöndunum
–    Viðtalskannanir

Efnisyfirlit áfangaskýrslu 1
•    Inngangur
•    Fyrirkomulag æðstu stjórnar háskóla: Samantekt
•    Skipulag yfirstjórnar Háskóla Íslands
–    Stjórn háskólans
–    Æðstu stjórnendur og stjórnsýsla
–    Samráðsvettvangur
•    Skipulag yfirstjórnar í nágrannalöndunum
•    Ábendingar og tillögur:
–    Ráðning aðstoðarrektors/aðstoðarrektora
–    Staða framkvæmdastjóra stjórnsýslu
–    Skrifstofa rektors
–    Skjalasafn
•    Viðaukar:
–    Skipulag yfirstjórnar norrænna og bandarískra háskóla
–    Útfærsla á tillögum um starf aðstoðarrektors/aðstoðarrektora
–    Töflur: Verkaskipting á rektorsskrifstofu og skjalasafni. Háskólaráð, háskólaþing og fastanefndir háskólaráðs

Forsendur við mat á valkostum
•    Skilið er á milli stjórnunar kennslu og rannsókna annars vegar og fjármála og rekstrar hins vegar við sameiginlega stjórnun skólans
•    Skilið er á milli vinnu við mótun akademískra stefnumála og umsjónar með framkvæmd þeirra
•    Tryggð bein eða óbein aðkoma akademískra starfsmanna að öllum meiriháttar ákvörðunum innan skólans. Með því er undirstrikað að jafningjastjórnun ríkir innan skólans
•    Skýr verkaskipting og samhæfð stjórnsýsla

Tillögur um breytingar
•    Ráðning aðstoðarrektors/aðstoðarrektora
•    Framkvæmdastjóri yfir miðlægri stjórnsýslu
•    Breytingar á hlutverki vísindanefndar og kennslumálanefndar
•    Breytingar á rektorsskrifstofu

Ráðning aðstoðarrektors – markmið
•    Að létta undir með rektor í störfum hans og gefa honum aukið svigrúm að sinna betur forgangsverkefnum og frumkvæðismálum, m.a. til að fylgja eftir samþykktri stefnu skólans í samvinnu við starfsfólk stjórnsýslu
•    Að efla stefnumótun á sviði kennslumála og vísinda fyrir skólann í heild og samhæfa daglega stjórnsýslu málaflokkanna
•    Að tryggja áhrif rektors á stefnumótandi ákvarðanir á sviði vísinda og kennslu
•    Að auka áhrif akademískra starfsmanna á sameiginlega starfsemi skólans
•    Að ráða sérstakan staðgengil rektors

Reglur um Háskóla Íslands nr 569/2009 5.gr. 3.mgr.
•    Háskólaráð getur heimilað að rektor ráði aðstoðarrektor, einn eða fleiri og skal rektor þá setja honum erindisbréf þar sem umboð hans er afmarkað

Ráðning aðstoðarrektors
•    Valkostur 1 – aðstoðarrektor (-ar) skv. norræna módelinu
–    Aðstoðarrektor starfi á skrifstofu rektors, verði í stjórnunarteymi hans en fari ekki með mannaforráð
–    Tveir aðstoðarrektorar, aðstoðarrektor kennslumála og aðstoðarrektor vísinda og nýsköpunar, verði í hlutastarfi (með rannsóknaskyldu)
•    Hafi stefnumótandi hlutverk og fylgi eftir stefnu háskólans í samvinnu við stjórnsýslu viðkomandi málaflokks
•    Verði formenn kennslumálanefndar og vísindanefndar sem hafi fyrst og fremst stefnumótandi hlutverk. Kallar á breytingu á hlutverki og starfi nefndanna
•    Sviðsstjórar kennslusviðs og vísinda- og nýsköpunarsviðs verði ritarar nefnda sem bera ábyrgð á framkvæmd stefnumála
•    Staðgengill rektors og vinnur að öðrum verkefnum sem rektor felur henni/honum

Dæmi um háskóla á öðrum Norðurlöndum
    Fjöldi    Staðgengill    Mannaforráð
Háskólinn í Osló    2    Já    Nei
Háskólinn í Bergen    4    Já    Nei
Háskólinn í Helsinki    3    Já    Nei
Háskólinn í Árósum    1    Já    Nei
Háskólinn í Kaupmannahöfn    2    Já    Nei
Háskólinn í Lundi    3    Já    (Nei)
Háskólinn í Uppsölum    4    Já    (Nei)

Ráðning aðstoðarrektors – aðrir kostir
•    Valkostur 2 – aðstoðarrektor skv. bandaríska módelinu
–    Aðstoðarrektor yrði yfirmaður kennslumála og vísinda. Hefur stjórnsýsluhlutverk og verkstjórnarvald (mannaforráð) gagnvart starfsmönnum stjórnsýslunnar sem falla undir þessa málaflokka.  
–    Einn aðstoðarrektor í fullu starfi. Yrði hluti af stjórnunarteymi rektors og staðgengill rektors.
–    Sinnti bæði stefnumótun og framkvæmd hennar.
–    Gera þyrfti hæfniskröfur m.a. um stjórnunarlega reynslu, auk akademísks hæfis
•    Valkostur 3 – Aðstoðarrektor ekki ráðinn
–    Markmið um að efla stefnumótun á sviði kennslu og vísinda fyrir skólann í heild og tengingu við rektor nást ekki með jafn öflugum hætti og með ráðningu aðstoðarrektors
–    Ráðgjafar ráðnir til að létta undir með rektor og vinna að forgangsverkefnum og frumkvæðismálum
–    Hægt að gera starf formanna vísinda- og kennslumálanefnda viðameira
–    Staðgengill?

Staða framkvæmdastjóra stjórnsýslu: Þrír valkostir
•    Valkostur 1: Framkvæmdastjóri skv. norræna líkaninu
–    Framkvæmdastjóri yrði yfirmaður allrar sameiginlegrar stjórnsýslu skólans þ.á m. stjórnunareininga sem hafa heyrt undir aðstoðarrektor frá 2009
–    Öll stjórnsýsla undir einum hatti sem skapar forsendur fyrir samhæfðri stjórnsýslu
•    Valkostur 2: Framkvæmdastjóri skv. bandaríska líkaninu
–    Framkvæmdastjóri yrði áfram yfir fjármálum og rekstri, en aðstoðarrektor stjórnunarlegur yfirmaður vísinda og kennslumála
•    Valkostur 3: Framkvæmdastjórar yrðu þrír (fjármála- og reksturs, kennslu, vísinda og nýsköpunar)
–    Í stjórnunarteymi rektors yrðu 1-2 aðstoðarrektorar, þrír framkvæmdastjórar
–    Stjórnunarspönn rektors eykst
–    Ekki fordæmi fyrir þessu skipulagi
•    Óháð valkostum: Forysta í fjármálanefnd verði í höndum rektors – framkvæmdastjóri ritari

Breytt hlutverk vísindanefndar og kennslumálanefndar
•    Vísinda- og kennslumálanefndum verði skipt upp í stefnumótandi nefndir annars vegar sem starfa undir stjórn aðstoðarrektors vísinda og nýsköpunar og aðstoðarrektors kennslumála og hins vegar stjórnir sjóða (vísindasjóður og kennslumálasjóður). Sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs og sviðsstjóri kennslusviðs verði ritarar vísindanefndar og kennslumálanefndar.

Hlutverk og stjórnun skrifstofu
•    Hlutverk
–    Staðsetning stjórnunarteymis rektors
–    Aðstoð vegna daglegra starfa rektors
–    Umsjón með störfum háskólaráðs og háskólaþings
–    Lögfræðiráðgjöf
–    Tímabundin áhersluverkefni rektors
•    Skýra verkaskiptingu starfsmanna í starfslýsingum og verkferla

Í hnotskurn: Mögulegt fyrirkomulag skv. norræna líkaninu
•    Tveir aðstoðarrektorar:
–    Aðstoðarrektor kennslumála og aðstoðarrektor vísinda og nýsköpunar í hlutastarfi (með rannsóknaskyldu)
–    Með stefnumótandi hlutverk – fylgja eftir stefnu skólans í samvinnu við stjórnsýslu viðkomandi málaflokks, þ.m.t. formenn vísindanefndar og kennslumálanefndar.
–    Ekki með mannaforráð
•    Framkvæmdastjóri háskólans: Yfirmaður sameiginlegrar stjórnsýslu skólans, þar á meðal allra sviðsstjóra hennar

Rektor þakkaði þeim Ómari og Ástu fyrir framsöguna og gaf orðið laust.

Kjörinn fulltrúi Menntavísindasviðs varpaði fram þeirri spurningu, hver skilgreiningin væri á yfirstjórn/æðstu stjórn og stjórnendum við Háskóla Íslands.

Ómar Kristmundsson tók undir að þetta væri ekki augljóst og taldi mikilvægt að skilgreina þetta með skýrum hætti.

Deildarforseti Sálfræðideildar spurði hver myndi greiða fyrir 40% rannsóknaskyldu þeirra sem veldust til að gegna starfi aðstoðarrektora.

Rektor svaraði því til að tryggt yrði að engin deild myndi líða fyrir það að akademískur starfsmaður kæmi frá henni.

Formaður kennslumálanefndar háskólaráðs lýsti ánægju sinni með skýrsluna og sagði hana vera í senn greinandi og yfirgripsmikla. Sagði formaðurinn það vera reynslu sína sem formaður kennslumálanefndar að um væri að ræða næstum fullt starf. Kennslu- og rannsóknastarfsemin væru afar stórir málaflokkar og það væri nánast sjálfgefið að ráðnir yrðu aðstoðarrektorar yfir þeim. Leist honum vel á tillögur skýrslunnar um þetta efni.

Deildarforseti Félags- og mannvísindadeildar sagði miklu máli skipta að ráðast í úttekt sem þessa og mikilvægt að Háskóli Íslands hefði á að skipa öflugri yfirstjórn. Einnig lýsti hann þeirri skoðun sinni að aðstoðarrektorar kæmu úr hópi akademískra starfsmanna háskólans en ekki utanfrá. Þá taldi hann eftirsóknarvert að í framhaldinu yrði gerð sambærileg greining á fræðasviðum háskólans og stjórnsýslu þeirra – og á því hver árangurinn hefði verið af skipan skólans í fræðasvið árið 2008.

Ómar Kristmundsson brást við ábendingu deildarforseta Félags- og mannvísindadeildar og benti á að gerð hefði verið úttekt á Félagsvísindasviði þar sem komið hefði verið inn á þau mál sem deildarforsetinn hefði gert að umtalsefni. Skipulagið í heild sinni yrði hins vegar skoðað í haust.

Ásta Möller bætti því við að skýrsluhöfundar teldu sjálfgefið að aðstoðarrektor/aðstoðarrektorar kæmi/kæmu úr akademíunni.

Forseti Heilbrigðisvísindasviðs þakkaði skýrsluhöfundum fyrir góða vinnu. Gerði hún að umtalsefni kostnaðinn vegna tillagnanna og spurði hvort til greina kæmi að einhver viðfangsefni færðust frá miðlægri stjórnsýslu til stjórnsýslu fræðasviða. Þá benti hún á að mikilvægt væri að gæta að hagkvæmni stoðþjónustu og að hún yrði ekki endurtekin á mörgum stöðum.

Deildarforseti Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda sló á létta strengi og sagði að í skýrslunni væri að finna lýsingu á norræna og bandaríska háskólamódelinu en þar vantaði umfjöllun um það kínverska þar sem rektor væri fulltrúi flokksins! Að öllu gamni slepptu spurði deildarforsetinn hvort störf aðstoðarrektora yrðu auglýst.

Deildarforseti Læknadeildar spurði hver hugmyndin væri að staðið yrði að skipun vísindanefndar.

Forseti Hugvísindasviðs spurði til hversu langs tíma aðstoðarrektor eða aðstoðarrektorar yrðu ráðnir – sem næmi ráðningartíma rektors eða lengur?

Rektor svaraði því til að ekki væri gert ráð fyrir að störf aðstoðarrektora yrðu auglýst heldur yrðu þeir ráðnir úr hópi akademískra starfsmanna. Gert væri ráð fyrir að háskólaráð heimilaði rektor að ráða aðstoðarrektor(a). Ráðningartíminn yrði samkomulagsatriði, en hann yrði þó aldrei lengri en sem næmi kjörtímabili rektors.

Ómar Kristmundsson sagði um verkaskiptinguna á milli miðlægrar stjórnsýslu og stjórnsýslu fræðasviða að við innleiðingu nýs stjórnkerfis og skipulags árið 2008 hefði ekki verið gengið frá þessu til fulls. Við skýrslugerðina hefði verið farið ofan í saumana á helstu verkferlum og í kjölfarið yrðu lagðar fram tillögur um verkefni, samstarf og verkaskiptingu á milli miðlægrar stjórnsýslu og stjórnsýslu fræðasviða. Í samtölum við starfsfólk hefði komið fram að það hefði þörf fyrir að vita með skýrum hætti hvernig hlutirnir yrðu unnir miðlægt og til hvers væri ætlast af fræðasviðunum. Varðandi spurningu deildarforseta Læknadeildar um skipun vísindanefndar sagði Ómar að gert væri ráð fyrir því að nefndin yrði skipuð fulltrúum fræðasviðanna og að þeir yrðu skipaðir á grundvelli þekkingar og reynslu. Þetta gætu t.d. verið formenn vísindanefnda fræðasviðanna.

Rektor bætti því við að til viðbótar þyrfti væntanlega að skipa sérstaka stjórn Rannsóknasjóðs.

Að lokinni umræðu bar rektor upp svohljóðandi tillögu að bókun:

„Háskólaþing lýsir ánægju með fyrirliggjandi úttekt á stjórnskipulagi og stjórnsýslu Háskóla Íslands sem er gerð skv. 8. gr. reglna um Háskóla Íslands nr. 569/2009 er kveður á um að þess háttar úttekt á starfsemi stjórnsýslu Háskólans fari fram með reglulegu millibili. Háskólaþing telur rétt að ráðast nú í endurskoðun á skipulagi Háskóla Íslands á grundvelli úttektarinnar til að tryggja sem best framgang nýrrar stefnu skólans fyrir tímabilið 2016-2021.“

– Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, Ómars H. Kristmundssonar og Ástu Möller, þau Börkur Hansen, Geir Sigurðsson, Guðmundur Hálfdánarson, Helgi Gunnlaugsson, Inga Þórsdóttir, Magnús Karl Magnússon, Ragna B. Garðarsdóttir, Sigurður Konráðsson,

Kl. 14.25-14.40
Dagskrárliður 4
Tilnefning þriggja fulltrúa og þriggja varafulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð Háskóla Íslands fyrir tímabilið 1.7.2016-30.6.2018

Rektor bar upp tillögu um að Ebbu Þóru Hvannberg, varaforseta háskólaráðs, yrði falið að hafa umsjón með kosningunni og að Steinunn Gestsdóttir prófessor og Magnús Diðrik Baldursson yrðu henni til aðstoðar.
– Samþykkt einróma.
Ebba Þóra fór yfir framkvæmd kosningarinnar.

Í 6. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 er kveðið á um skipan háskólaráðs í háskóla þar sem eru fleiri en 5.000 nemendur. Þar kemur fram að auk rektors eigi sæti í ráðinu tíu fulltrúar, tilnefndir til tveggja ára í senn. Þetta eru:

1. Þrír fulltrúar háskólasamfélagsins tilnefndir af háskólafundi [háskólaþingi í HÍ].
2. Tveir fulltrúar tilnefndir af heildarsamtökum nemenda við háskólann.
3. Tveir fulltrúar tilnefndir af mennta- og menningarmálaráðherra.
4. Þrír fulltrúar tilnefndir af þeim fulltrúum sem fyrir eru í háskólaráði.

Í 3. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 er mælt fyrir um hvernig staðið skuli að tilnefningu og kjöri fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð. Tilnefning fulltrúanna þriggja og þriggja varamanna fyrir tímabilið 1. júlí 2016 til 30. júní 2018 fer fram á þessu háskólaþingi.
Í samræmi við reglurnar var auglýst eftir ábendingum og framboðum um fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð þremur vikum fyrir þingið eða 19. apríl sl.
Alls bárust 6 framboð. Allir frambjóðendur uppfylla skilyrði 3. gr. reglnanna um að vera akademískir starfsmenn Háskóla Íslands í fullu starfi (í a.m.k. 75% starfshlutfalli), en þó hvorki forseti fræðasviðs, deildarforseti eða varadeildarforseti. Gögn um starfsvettvang frambjóðenda og stutt lýsing á starfsferli þeirra voru send út með fundarboði og gert er ráð fyrir að þingfulltrúar hafi kynnt sér þau.
Í framboði eru:
1. Amalía Björnsdóttir, dósent við Kennaradeild á Menntavísindasviði
2. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði
3. Guðrún Geirsdóttir, dósent við Kennaradeild á Menntavísindasviði og deildarstjóri Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands
4. Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði
5. Rúnar Unnþórsson, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði
6. Stefán Hrafn Jónsson, prófessor við Félags- og mannvísindadeild á Félagsvísindasviði

Kosningin fer þannig fram að: Dreift verður kjörseðlum til þeirra sem hafa atkvæðisrétt. Á kjörseðlinum eru nöfn þeirra sem kosið er um í stafrófsröð. Hver atkvæðisbær fulltrúi greiðir skriflega atkvæði sitt með þremur (og aðeins þremur) frambjóðendum (að öðrum kosti er atkvæðaseðillinn ógildur).

Atkvæðisbærir eru:
Rektor (1)
Forsetar fræðasviða eða eftir atvikum staðgenglar þeirra (5)
Deildarforsetar eða eftir atvikum varadeildarforsetar (25)
Fulltrúar kjörnir af fræðasviðum (15)
Fulltrúar samtaka háskólakennara (2)
Fulltrúar starfsmanna við stjórnsýslu (2)
Fulltrúar tilnefndir af stofnunum, einn fyrir hverja stofnun:
Endurmenntun Háskóla Íslands (1)
Landsbókasafn-háskólabókasafn (1)
Landspítali (1)
Raunvísindastofnun Háskólans (1)
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (1)
Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum (1)

Stúdentar hafa ekki atkvæðisrétt í þessari kosningu, þar sem þeir kjósa sérstaklega sína tvo fulltrúa í háskólaráði.

Með atkvæðisrétt fara því samtals 56 fulltrúar.

Þegar atkvæði hafa verið talin skal sá sem flest atkvæði hlýtur í kjörinu tilnefndur sem fulltrúi háskólasamfélagsins í háskólaráð. Jafnframt skal sá tilnefndur sem hlýtur næstflest atkvæði og er áskilið að hann sé starfandi á öðru fræðasviði en sá sem flest atkvæði hlýtur. Þriðji fulltrúi skal vera sá sem flest atkvæði hlýtur á háskólaþingi að hinum tveimur frátöldum og er jafnframt starfandi á öðru fræðasviði en þeir. Varamenn fulltrúanna þriggja eru þeir þrír sem hlotið hafa flest atkvæði að tilnefndu fulltrúunum frátöldum. Sá varamaður sem flest atkvæði hlýtur er varamaður þess tilnefnds fulltrúa sem flest atkvæði fékk, annar er varamaður annars aðalmanns og þriðji er varamaður þriðja aðalmanns. Ef atkvæði eru jöfn í vali á milli manna skal hlutkesti ráða. Tilnefning er bindandi og er viðkomandi skylt að taka tilnefningu til setu í háskólaráði til tveggja ára.

Að lokinni kosningu og talningu atkvæða (eftir kaffihlé) verður lesin upp röð frambjóðenda eftir atkvæðafjölda.

Að endingu spurði Ebba Þóra hvort einhver hefði athugasemdir við það verklag á kosningunni sem lýst hefði verið. Engin athugasemd var gerð og því gengið til kosningar. Atkvæðaseðlum var dreift og á borði við dyrnar að Hátíðasal var kjörkassi fyrir útfyllta kjörseðla.
 
Kl. 14.40-14.55
Kaffihlé

Kl. 14.55-15.00
Dagskrárliður 4 (frh.)
Niðurstaða kjörs þriggja fulltrúa og þriggja varafulltrúa í háskólaráð

Að loknu kaffihléi og talningu atkvæða kynnti Ebba Þóra niðurstöðu kosningarinnar.

1.    Guðrún Geirsdóttir
2.    Stefán Hrafn Jónsson
3.    Eiríkur Rögnvaldsson
4.    Ingibjörg Gunnarsdóttir
5.    Rúnar Unnþórsson
6.    Amalía Björnsdóttir

Greindi Ebba Þóra frá því að Stefán Hrafn Jónsson og Eiríkur Rögnvaldsson hefðu hlotið jafnmörg atkvæði og því hefði þurft að varpa hlutkesti um röð þeirra. Loks lýsti Ebba Þóra loknu kjöri fulltrúa og varafulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð Háskóla Íslands fyrir tímabilið 1. júlí 2016 til 30. júní 2018.

Kl. 15.00-16.00
Dagskrárliður 5
Drög að endurskoðaðri málstefnu Háskóla Íslands

Eiríkur Rögnvaldsson, formaður starfshóps rektors um endurskoðun málstefnu Háskóla Íslands, gerði grein fyrir málinu.

Málstefna Háskóla Íslands, 2004
•    Háskóli Íslands er íslensk vísinda- og menntastofnun og hluti af hinu alþjóðlega fræðasamfélagi. Málstefna Háskólans tekur mið af þessu tvíþætta hlutverki hans. Málstefnan hefur að leiðarljósi að talmál og ritmál Háskólans er íslenska, jafnt í kennslu, rannsóknum sem stjórnsýslu. Þetta felur m.a. í sér að kennsla og próf til fyrstu háskólagráðu fara að mestu fram á íslensku. Víkja má frá þessari meginreglu ef sérstök ástæða er til, svo sem við kennslu í erlendum málum, ef kennari er erlendur eða kennsla er einnig ætluð útlendingum. Rannsóknum og framhaldsnámi fylgja erlend samskipti og fleiri mál en íslenska eru notuð í því starfi, einkum enska. Meginkennslumál í framhaldsnámi er þó íslenska, eftir því sem við verður komið. Háskólinn vill stuðla að því að gera kennurum, sérfræðingum og nemendum kleift að tala og skrifa um öll vísindi á íslensku og gera þau jafnframt aðgengileg almenningi eins og kostur er. Málnotkun í Háskóla Íslands skal vera til fyrirmyndar.

Breyttar aðstæður – úr erindisbréfi
•    Á þeim rúma áratug sem liðinn er frá gildistöku málstefnunnar hefur Háskóli Íslands breyst mikið og í vaxandi mæli orðið alþjóðlegur rannsóknaháskóli. Fátt bendir til annars en að sú þróun muni halda áfram um ókomna framtíð. Svo dæmi séu tekin stunda sífellt fleiri erlendir nemendur nám við háskólann í skemmri eða lengri tíma, erlendum doktorsnemum við skólann hefur fjölgað mikið, mun fleiri námskeið á grunn- og framhaldsstigi eru kennd á ensku, fjöldi birtinga á alþjóðlegum vettvangi hefur margfaldast, alþjóðlegt (rannsókna)samstarf hefur stóraukist og erlendu starfsfólki við skólann fjölgar jafnt og þétt. Samhliða þessari þróun gegnir Háskóli Íslands áfram hlutverki þjóðskóla Íslendinga. Hann er enn sem fyrr mikilvægasta mennta-, rannsókna- og almenningsfræðslustofnun landsins og leikur stórt hlutverk á sviði rannsókna og kennslu í íslensku, þ. á m. í íðorðastarfi.

Breytt lagalegt umhverfi
•    Íslensk málstefna, samþykkt á Alþingi 12. mars 2009
–    Íslenska sé opinbert mál allra háskóla á Íslandi og kennsla fari þar að jafnaði fram á íslensku.
•    Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, 61/2011
–    Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi.
–    Þjóðtungan er sameiginlegt mál landsmanna. Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.
–    Íslenska er mál [...] skóla á öllum skólastigum [...].

Starfshópur skipaður af rektor 3.11. 2015
•    Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði, formaður
•    Hafliði Pétur Gíslason, prófessor (Verkfræði- og náttúruvísindasviði)
•    Jóhanna Gunnlaugsdóttir, prófessor (Félagsvísindasviði)
•    Jórunn Erla Eyfjörð, prófessor (Heilbrigðisvísindasviði)
•    Kristján Jóhann Jónsson, dósent (Menntavísindasviði)
•    Ragnheiður Kristjánsdóttir, dósent (Hugvísindasviði)
•    Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri og gæðastjóri

Meginverkefni samkvæmt erindisbréfi
•    Að leggja fram tillögu að nýrri málstefnu Háskóla Íslands sem byggist annars vegar á virkum stuðningi við notkun íslenskrar tungu innan og utan skólans, og hins vegar á því að ekki séu lagðar óeðlilegar hömlur á þátttöku skólans í alþjóðlegu akademísku starfi, þ. á m. kennara- og stúdentaskiptum.

Gögn sem tekið var mið af
•    Starfshópurinn hóf störf í nóvember og hélt alls sex fundi
–    skýrsla hópsins send til rektors 14. janúar og rædd í háskólaráði 21. janúar
•    Skýrslan var síðan send til umsagnar
–    fræðasviða, fastanefnda háskólaráðs, stúdentaráðs o.fl.
•    Umsagnir bárust frá 15 aðilum, alls 37 blaðsíður
–    starfshópurinn fór yfir þær og endurskoðaði tillögur sínar
•    Endanlegar tillögur fara hér á eftir

Stefna
•    Háskóli Íslands er helsta vísinda- og menntastofnun íslensku þjóðarinnar og skal m.a. vinna að „miðlun þekkingar og færni til nemenda og samfélagsins alls“ samkvæmt lögum um háskóla nr. 63/2006. Skólanum ber því rík skylda til að stuðla að viðgangi íslenskrar tungu og sjá til þess að hún sé nothæf – og notuð – á öllum fræðasviðum.
•    Jafnframt er skólinn hluti af hinu alþjóðlega fræðasamfélagi og virkur þátttakandi í margs kyns alþjóðlegu samstarfi á sviði kennslu, rannsókna og stjórnunar. Málstefna Háskólans mótast af þessu tvíþætta hlutverki hans, enda segir í stefnu skólans 2016-2021 að málstefnan skuli „styðja bæði við íslensku og alþjóðlegt starf skólans“.
•    Grundvallaratriði málstefnunnar er að talmál og ritmál Háskólans er íslenska, jafnt í kennslu, rannsóknum og stjórnsýslu. Íslenska er því sjálfgefið tungumál í öllu starfi Háskólans og notuð nema sérstakar ástæður séu til annars.
•    Þetta er í samræmi við þingsályktun um íslenska málstefnu frá 2009 og lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011. Samkvæmt þeim lögum er íslenskt táknmál fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta, og nýtur því einnig sérstakra réttinda innan Háskólans.
•    Enska er einnig mjög mikilvæg í starfi Háskólans, vegna erlendra kennara og stúdenta, vegna þjálfunar stúdenta til þátttöku í alþjóðlegu akademísku starfi, og vegna þátttöku skólans í margs kyns alþjóðlegu samstarfi.
•    Því er lögð áhersla á að sem víðtækastar og ítarlegastar upplýsingar um skólann og starfsemi hans séu aðgengilegar á ensku á ytri vef skólans og í Uglu. Skólinn hvetur einnig til þess að stúdentar og kennarar nýti önnur erlend mál en ensku í starfi sínu ef þess er kostur.

Útfærsla og framkvæmd
•    Meðferð íslensks máls í ræðu og riti innan Háskóla Íslands verði til fyrirmyndar, bæði hjá stúdentum og starfsfólki. Ritver Háskólans verði efld og þeim gert kleift að þjóna stúdentum á öllum sviðum skólans. Kennarar eigi kost á málfarsráðgjöf og annarri sérhæfðri leiðsögn við að koma námsefni á framfæri á íslensku. Slíkri ráðgjöf mætti til dæmis koma fyrir hjá Kennslumiðstöð eða ritverum.
•    Kennslutungumál námsleiða og einstakra námskeiða verði tilgreind í kennsluskrá þannig að alltaf sé ljóst fyrirfram hvenær vikið er í kennslu frá þeirri meginreglu að íslenska sé tungumál Háskólans. Fái erlendir stúdentar heimild til að sækja námskeið sem kennt er á íslensku samkvæmt kennsluskrá leitist kennarar við að koma til móts við þá án þess þó að skipta um kennslutungumál.
•    Íslenska sé sjálfgefið kennslumál í grunnnámi, nema í tungumálakennslu. Kennsla á ensku verði bundin við námsleiðir sem sérstök ástæða er til að kenndar séu á ensku; námskeið kennara sem ekki hafa íslensku að móðurmáli; og námskeið sem verður að kenna á ensku vegna alþjóðlegs samstarfs skólans. Skyldunámskeið í grunnnámi, nema í tungumálakennslu og námsleiðum á ensku, verði að jafnaði kennd á íslensku.
•    Íslenska sé sjálfgefið kennslumál í framhaldsnámi, nema í tungumálakennslu, en deildir geti þó ákveðið að framhaldsnám þeirra verði á ensku að einhverju eða öllu leyti. Ef kennari er íslenskumælandi og engir erlendir stúdentar eru í nemendahópnum geti deild heimilað að kennsla fari fram á íslensku þótt í kennsluskrá sé tilgreint að námskeiðið sé kennt á ensku.
•    Námsmat fari fram á sama tungumáli og kennsla. Í námskeiðum (öðrum en tungumálanámskeiðum) kenndum á ensku af íslenskumælandi kennara geti deild heimilað stúdentum að skila verkefnum og taka próf á íslensku. Í námskeiðum kenndum á íslensku geti deild heimilað stúdentum með annað móðurmál að skila verkefnum og taka próf á öðru tungumáli.
•    Doktorsritgerðir verði skrifaðar á íslensku ef doktorsnemi óskar, reglur deildar heimila og aðstæður leyfa. Viðkomandi deild (framhaldsnámsnefnd eða deildarráð) og Miðstöð framhaldsnáms meti í hverju tilviki hvort óháðir íslenskumælandi sérfræðingar með nægilega sérþekkingu séu tiltækir þannig að örugglega verði unnt að fá hæfa andmælendur sé ritgerð skrifuð á íslensku.
•    Fastir kennarar og stjórnendur með annað móðurmál en íslensku sinni starfi sínu á íslensku eftir eðlilegan aðlögunartíma. Færni til að kenna og sinna stjórnunarstörfum á íslensku vegi þungt við ótímabundna ráðningu. Vísað verði til málstefnu Háskólans í starfsauglýsingum. Skólinn bjóði upp á ókeypis íslenskunámskeið ætluð erlendum kennurum sem geti sótt um kennsluafslátt vegna þátttöku í þeim.
•    Kennurum og stúdentum með íslensku að móðurmáli verði auðveldað að taka þátt í háskólastarfi á ensku. Námskeið í akademískri ensku fyrir kennara og stúdenta verði efld og gerð skylda í doktorsnámi þar sem við á. Komið verði á sérstakri stoðþjónustu í ensku fyrir stúdenta, til dæmis hjá ritverum eða Tungumálamiðstöð, til að auðvelda þeim nám og ritgerðaskrif á ensku.
•    Stúdentum með annað móðurmál en íslensku verði auðveldað að taka þátt í námi og öðru starfi á íslensku innan Háskólans. Erlendir stúdentar sem hefja nám kennt á íslensku gangist undir leiðbeinandi stöðupróf í málinu. Þeir eigi kost á íslenskunámskeiðum til að auðvelda þeim að fylgjast með kennslu á íslensku. Skiptistúdentar eigi kost á sérstökum íslenskunámskeiðum og öðrum stuðningi eftir því sem við á.
•    Í námsleiðum og námskeiðum kenndum á ensku verði gerðar ákveðnar lágmarkskröfur um enskukunnáttu til stúdenta. Erlendum stúdentum með annað móðurmál en ensku sem sækja um inngöngu í nám kennt á ensku verði gert að sýna fram á lágmarkseinkunn á viðurkenndu alþjóðlegu enskuprófi fyrir útlendinga. Deildir skilgreini lágmarkskröfur um enskukunnáttu skiptistúdenta.
•    Komið verði til móts við þarfir táknmálstalandi stúdenta og starfsfólks eins og kostur er þannig að notendur íslenska táknmálsins geti nýtt táknmálið til jafns við íslensku við nám og störf í Háskólanum. Stefnt verði að því að táknmálstúlkar séu tiltækir þegar þeirra er þörf, bæði í kennslustundum og öðrum samskiptum kennara og stúdenta, svo og á fundum og fyrirlestrum ef við á.
•    Kennarar verði hvattir til að miðla fræðum sínum á íslensku til stúdenta og almennings í bókum, greinum, kennsluefni og á annan hátt. Fræðibækur og fræðigreinar á íslensku geti gefið þjónustustig til viðbótar rannsóknastigum. Einnig verði unnt að veita þjónustustig fyrir aðra miðlun fræðilegs efnis á íslensku, svo sem samningu kennsluefnis, ráðgjöf til stjórnvalda og almennings og þátttöku í samfélagsumræðum.
•    Kennarar verði hvattir til að sinna íðorðasmíð í fræðigrein sinni og miðla íðorðum til stúdenta og almennings. Einstakar kennslu- og fræðigreinar beiti sér fyrir skipulegri íðorðasmíð og íðorðasöfnun, hver á sínu sviði. Kennarar verði einnig hvattir til að sinna þýðingum fræðirita, kennsluefnis og bókmennta á íslensku. Unnt verði að veita kennurum umbun innan matskerfis Háskólans fyrir störf á þessu sviði.
•    Allir fundir og önnur starfsemi námsbrauta, deilda og sviða Háskólans, svo og nefnda í stjórnsýslu skólans, fari fram á íslensku ef þess er kostur. Deildarforsetar og formenn nefnda sjái til þess að kennarar og aðrir starfsmenn sem ekki skilja íslensku fylgist með málum og geti tekið þátt í fundarstörfum og öðrum stjórnunarstörfum eftir því sem nauðsyn krefur.
•    Skrifleg gögn í stjórnsýslu Háskólans, svo og opinberar upplýsingar sem skólinn eða einingar hans senda frá sér, s.s. fundarboð, fundargerðir, boð á fyrirlestra, tilkynning-ar um viðburði og svo framvegis, séu ævinlega á íslensku, en enskur texti fylgi með þar sem við á. Einstök fundargögn geti þó verið á erlendu máli ef sérstakar ástæður eru til.
•    Máltækni verði nýtt til að aðstoða stúdenta og starfsfólk við meðferð málsins og leiðbeina um málnotkun. Stúdentar, kennarar og annað starfsfólk eigi kost á að nýta sér allan tiltækan máltæknibúnað fyrir íslensku, s.s. leiðréttingarforrit, talgervla, talgreina og þýðingarforrit. Sérstök áhersla verði lögð á máltæknibúnað sem nýtist fötluðu fólki í námi og daglegu lífi.
•    Tölvuumhverfi í Háskólanum sé á íslensku eftir því sem kostur er. Sjálfgefið notendaviðmót alls algengs hugbúnaðar sem starfsfólk og stúdentar nota innan skólans verði á íslensku. Reiknistofnun Háskólans beiti sér fyrir íslenskum þýðingum á hugbúnaði sem hún dreifir innan skólans. Kennarar og stúdentar verði hvattir til þátttöku í þýðingum á opnum hugbúnaði.
•    Innan Háskólans starfi föst málnefnd sem heyri undir rektor, skipuð fulltrúum allra fræðasviða, miðlægrar stjórnsýslu og stúdenta. Hún verði stjórnendum og öðrum starfsmönnum skólans til ráðuneytis um málefni íslenskrar tungu, geri tillögur um framkvæmd málstefnunnar og fylgist með hvernig henni sé framfylgt, og standi fyrir kynningu stefnunnar og endurskoðun eftir þörfum.

Umsjón og ábyrgð
•    Nánari útfærsla og framkvæmd málstefnu Háskóla Íslands er falin miðlægri stjórnsýslu skólans og einstökum fræðasviðum, deildum og stofnunum eftir því sem við á. Rektor ber ábyrgð á stefnunni og getur heimilað tímabundin frávik frá einstökum ákvæðum hennar ef nauðsyn krefur.

Rektor þakkaði Eiríki fyrir framsöguna og gaf orðið laust.

Deildarforseti Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar þakkaði fyrir góða kynningu. Benti hún á að í 11. lið málstefnudraganna væri talað um að koma ætti til móts við þá sem tala táknmál „eins og kostur er“, en þetta væri lögbundið og því vaknaði sú spurning hvers vegna skrefið væri ekki tekið til fulls og kveðið fastar að orði?

Eiríkur Rögnvaldsson svaraði og sagði að um einstök atriði málstefnunnar væru skiptar skoðanir og þetta væri dæmi um slíkt. Í umsagnarferlinu hefði t.d. komið athugasemd frá fjármálanefnd háskólaráðs sem hefði lýst áhyggjum af þeim kostnaði sem af þessu gæti hlotist. Niðurstaðan hefði því verið sú að herða ögn á orðalaginu, en hafa þó þennan fyrirvara.

Formaður vísindanefndar háskólaráðs gerði að umtalsefni ákvæði stefnudraganna um doktorsritgerðir. Benti hún á að þar væru gerðir fyrirvarar varðandi ritun doktorsritgerða á íslensku en það þó heimilað. Það væri hins vegar skoðun fulltrúa í vísindanefnd að það ætti að vera almenn regla að doktorsritgerðir væru ritaðar á ensku og ritun á íslensku aðeins heimiluð í rökstuddum undantekningartilvikum.

Kjörinn fulltrúi Menntavísindasviðs lagði orð í belg um tungumál doktorsritgerða og lýsti þeirri skoðun að meta ætti í hverju tilviki fyrir sig hvort leyfilegt væri að rita doktorsritgerðir á íslensku og að slíkt mat þyrfti að fara fram fyrirfram en ekki eftirá. Í 5. lið málstefnudraganna væri sagt að deild þyrfti að heimila það að ritgerð yrði skilað á ensku, dönsku o.s.frv., en ekki kæmi fram hvort þetta ætti að vera á valdi viðkomandi deildar eða hvort einstakir kennarar ættu að ráða þessu.

Eiríkur Rögnvaldsson brást við og sagði það vera persónulega skoðun sína að doktorsritgerðir ættu að vera skrifaðar á ensku, en það væri þó staðreynd að í sumum deildum væri heimilað að skrifa doktorsritgerðir á íslensku. Sagðist hann taka undir með fyrri ræðumanni um að nauðsynlegt væri að þetta væri ákveðið fyrirfram en ekki eftir á. Varðandi spurningu kjörins fulltrúa Menntavísindasviðs um það hvort þetta ætti að vera komið undir deild eða einstökum kennurum sagði Eiríkur að við samningu stefnudraganna hefði komið fram ábendingar um að ekki væri alltaf skýrt hver geti heimilað þetta. Hugmyndin væri þó að deildir ættu að ákveða þetta í því fælist að þær gætu framselt ákvörðunarvald sitt til einstakra kennara.

Forstöðumaður skrifstofu alþjóðasamskipta lýsti ánægju með stefnudrögin og sagði að vel hefði tekist að brúa bilið á milli hlutverks Háskóla Íslands sem þjóðskóla og stöðu hans sem alþjóðlegs rannsóknaháskóla. Benti hún á að á Íslandi byggi orðið býsna fjölþjóðlegt samfélag og um 10% íbúa landsins væru af erlendum uppruna. Til marks um afleiðingar þessa mætti nefna að dæmi væru um Íslendinga af erlendum uppruna sem hefðu of lítil tök á íslensku til að geta stundað háskólanám hér á landi. Lagði forstöðumaðurinn áherslu á að til að háskólinn gæti mætt áskorunum samtímans þyrfti hann að geta boðið starfsmönnum og stúdentum stuðning við notkun ensku, þjálfun í notkun íslensku fyrir nýbúa og gera þá kröfu til erlendra stúdenta að þeir stæðust stöðupróf í ensku.

Varaforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar og formaður gæðanefndar háskólaráðs þakkaði starfshópi rektors fyrir málstefnudrögin. Vék hann tali sínu að 18. gr. þar sem kveðið væri á um að sett yrði á laggirnar sérstök málnefnd til að fylgja stefnunni eftir. Taldi varadeildarforsetinn óþarft að stofna slíka nefnd og taldi réttast 18. gr. yrði felld niður og málið þess í stað falið kennslumálanefnd og vísindanefnd. Rétt væri að einfalda skipulagið og auka ekki flækjustigið. Einnig benti varaforsetinn á að í vinnslu væri stefna um alþjóðasamskipti og væri mikilvægt að lesa hana saman við málstefnuna.

Forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands greindi frá því að hún ætti sæti í starfshópi um fjölmenningarmál innan háskólans. Þar hefði mikið verið rætt um stöðu fólks með annað móðurmál en íslensku við deildir Háskólans og virtist misjafnt hvernig tekið væri á móti því og mikilvægt að vanda til verka.

Kjörinn fulltrúi stúdenta sagðist vera ánægður með fyrirliggjandi drög að málstefnu og að tekið hefði verið tillit til ábendinga og athugasemda stúdenta í umsagnarferlinu. Um ákvæði stefnudraganna um íðorð sagði stúdentafulltrúinn að nokkuð vantaði upp á notkun þeirra væri samræmd og læra þyrfti ólík orð um mismunandi hugsmíðar. Einnig benti hann á að íðorðasmíð skapaði aukið álag á kennara og gera þyrfti ráð fyrir tíma til þess, til viðbótar við önnur störf.

Deildarforseti Sagnfræði- og heimspekideildar sagðist ánægður með stefnudrögin og að þau væru hófsöm og raunsæ. Um 8 gr. sagði hann að það væri spurning hvort það ætti ekki að vera forsenda að erlendir kennarar kynnu íslensku eða e.a. ensku þegar þeir kæmu hingað til lands frekar en að leggja mikið púður í aðstoð eftirá á kostnað Háskólans.

Eiríkur Rögnvaldsson brást við ábendingu varadeildarforseta Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar um að óþarft væri að setja á laggirnar sérstaka málnefnd. Sagðist Eiríkur vera ósammála þessu sjónarmiði og benti í því sambandi á að í tilviki ýmissa sérstefna háskólans væru sérstakar nefndir til að fylgjast með framkvæmd þeirra, gera tillögu um aðlögun og endurskoðun o.s.frv. Um ábendingu forstöðumanns Skrifstofu alþjóðasamskipta sagðist Eiríkur hafa lesið fyrirliggjandi drög að stefnu Háskóla Íslands um alþjóðleg samskipti og hann gæti ekki betur séð en að hún ætti að samræmast málstefnunni. Um ábendingu fulltrúa stúdenta um íðorðasmíð sagði Eiríkur að í málstefnudrögunum væri kveðið á um að faglegar greinar skyldu beita sér fyrir íðorðasmíð og að sínum dómi fælist í því að samræma hugtök og notkun þeirra. Varðandi athugasemd deildarforseta Sagnfræði- og heimspekideildar um að gera ætti kröfu til erlendra kennara um að þeir kynnu íslensku eða eftir atvikum ensku þegar þeir tækju að sér starf við háskólann sagðist Eiríkur vera sammála því og að þessi hópur lægi óbættur hjá garði skv. stefnunni, nema varðandi ákvæði 8. gr.

Deildarforseti Uppeldis- og menntunarfræðideildar sagðist vera ánægður með fyrirliggjandi drög að málstefnu Háskóla Íslands og fagnaði því að í umsagnarferlinu hefði verið tekið tillit til athugasemda deildarinnar. Tók hann undir með athugasemd deildarforseta Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar um að ekki væri nóg að í 11. gr. væri sagt að koma skyldi til móts við táknmálstalandi fólk eins og kostur er. Réttara væri að sleppa orðunum „eins og kostur er“ og að þetta væri afdráttarlaust stefnumarkmið, óháð því hvort háskólanum væri unnt að fylgja því fullkomlega eftir eða ekki. Einnig tók deildarforsetinn undir með ábendingu deildarforseta Sagnfræði- og heimspekideildar og forstöðumanni Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands um að í stefnunni væri gert ráð fyrir að Íslendingar tali íslensku, þótt fyrir lægi að töluverður hópur Íslendinga, t.d. af erlendum uppruna, hefði hvorki íslensku né ensku að móðurmáli.

Annar fulltrúi stúdenta tók til máls og sagðist fagna því að Háskóli Íslands setti sér málstefnu. Um 7. gr. stefnudraganna, sem fjallar um stjórnendur og aðra starfsmenn sem ekki hafa íslensku að móðurmáli, sagði stúdentafulltrúinn að skilgreina þyrfti hvað teldist „eðlilegur aðlögunartími“, þ.e. hvað hann væri langur og hvernig ætti að meta hann?

Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs þakkaði starfshópi rektors fyrir málstefnudrögin. Sagði hann að Verkfræði- og náttúruvísindasvið hefði á að skipa mörgum erlendum starfsmönnum og stúdentum og væri sviðið því nokkuð öðruvísi sett en önnur fræðasvið. Lagði fræðasviðsforsetinn til að felld yrði niður orðin „vega þungt“ í tengslum kröfu um íslenskukunnáttu þegar kæmi að ótímabundinni ráðningu erlendra starfsmanna, enda væri ekki sjálfgefið að íslenskir starfsmenn uppfylltu þessa kröfu! Þá minnti fræðasviðsforsetinn á að í Háskólinn væri að verða sífellt alþjóðlegri og því ætti gildistími stefnunnar að vera stuttur og hún endurskoðuð með skömmu millibili í takt við síbreytilegan veruleika.

Kjörinn fulltrúi Menntavísindasviðs sagði stefnudrögin vera góð og að vel hefði verið að verki staðið. Það eina sem setja mætti út á drögin væri það að þau væru helst til hógvær. Andstætt því sem varadeildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar hefði haldið fram taldi fulltrúinn mjög mikilvægt að starfrækja sérstaka málnefnd eins og lagt væri til í drögunum og að sú málnefnd gæti einnig gegnt hlutverki íðorðanefndar, þ.e. að finna upp, skilgreina og afmarka íðorð. Þá taldi fulltrúinn ekki nóg að taka tillit til Íslendinga sem hefðu ekki íslensku að móðurmáli heldur einnig þeirra sem eiga t.d. við lesblindu eða ritblindu að stríða.

Forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum þakkaði starfshópi rektors fyrir góða vinnu, enda væri það síður en svo auðvelt að marka stefnu um þennan málaflokk. Sagði forstöðumaðurinn að málstefna Háskóla Íslands væri í raun gæðamál. Svo dæmi væri tekið væru ekki allir kennarar þess megnugir að kenna á ensku eða fara yfir verkefni á ensku. Einnig væri mikilvægt að gefa erlendum nemendum og starfsmönnum strax kleift að læra íslensku og bjóða þeim þann stuðning sem þyrfti. Loks sagðist forstöðumaðurinn ánægð með að í drögunum væri opnað á að veita megi þjónustustig fyrir vinnu í þágu íslenskrar tungu.

Deildarforseti Sálfræðideildar sagði að allt nám við deildina færi fram á íslensku. Deildin hefur engan gildan samstarfssamning um skiptinám við erlenda háskóla því deildin hefði framfylgt málstefnu Háskólans og hefði ekki fjárhagslega burði til að kenna á ensku með öllu sem því tilheyrði.

Formaður Stúdentaráðs tók undir málflutning deildarforseta Uppeldis- og menntunarfræðideildar og Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar um táknmál. Sagði formaðurinn mikilvægt að háskólinn setti markið hátt varðandi þetta atriði segði skýrt hvert hann vildi fara – óháð því hvort hann hefði getu til að fylgja því öllu eftir þegar í stað. Stefnan væri leiðarljós og því þyrfti að setja markmið hátt og rétt.

Eiríkur Rögnvaldsson svaraði stuttlega nokkrum framkomnum spurningum og athugasemdum og sagði m.a. að ekki væri talað sérstaklega um „Íslendinga“ heldur aðeins þá sem hefðu íslensku að móðurmáli. Um eðlilegan aðlögunartíma fyrir erlenda kennara til að læra íslensku sagði Eiríkur að auðvitað mætti velta því fyrir sér hvað væri eðlilegt í því sambandi, en hann liti á ákvæðið sem yfirlýsingu um það að skólinn líti á það sem æskilegan hlut að þetta gerðist – frekar en að negla niður ákveðinn tíma í því sambandi. Um orðalagið „vegi þungt við ótímabundna ráðningu“ sagði Eiríkur að starfshópurinn hefði skilað af sér og lokið störfum og því væri það ákvörðun háskólaráðs að ákveða um þetta. Um tíða endurskoðun málstefnunnar sagði Eiríkur að það yrði einmitt eitt af hlutverkum málnefndar að vinna að slíkri endurskoðun.

Rektor þakkaði fyrir góða umræðu og bar upp svohljóðandi tillögu að bókun:

„Háskólaþing fjallaði í dag um lokadrög að málstefnu Háskóla Íslands sem undirbúin hafa verið af starfshópi rektors, að fengnum umsögnum víðsvegar að úr háskólasamfélaginu. Á þinginu komu fram gagnlegar athugasemdir og ábendingar um stefnudrögin sem starfshópurinn mun taka mið af við frágang málstefnunnar áður en hún kemur til háskólaráðs.“

– Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Eiríks Rögnvaldssonar, þau Ástríður Stefánsdóttir, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Friðrika Harðardóttir, Sigurður Magnús Garðarsson, Sæunn Stefánsdóttir, Svavar Hrafn Svavarsson, Ólafur Páll Jónsson, Eydís Blöndal, Hilmar Bragi Janusson, Sigurður Konráðsson, Guðrún Nordal, Ragna B. Garðarsdóttir, Aron Ólafsson,

Útsend gögn og gögn sem lögð voru fram á 17. háskólaþingi 3. mars 2016:

  1. Fundargerð 16. háskólaþings 3. mars 2016.
  2. Dagskrá og tímaáætlun 17. háskólaþings 10. maí 2016.
  3. Listi yfir fulltrúa á háskólaþingi.
  4. Tillaga um breytingu á reglum um skipan og fundarsköp háskólaþings Háskóla Íslands nr. 984/2008.
  5. Minnisblað um heildarúttekt á stjórnsýslu og stjórnskipun Háskóla Íslands og skýrslan Stjórnskipulag og stjórnsýsla Háskóla Íslands: Áfangaskýrsla 1 – rektorsskrifstofa.
  6. Listi yfir þá sem eru í framboði sem fulltrúar háskólasamfélagsins í háskólaráði fyrir tímabilið 1.7.2016-30.6.2018 og stuttar ferilskrár þeirra.
  7. Lokadrög að endurskoðaðri málstefnu Háskóla Íslands.