Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 2. mars 2017

 3/2017

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2017, fimmtudaginn 3. mars var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Eiríkur Rögnvaldsson, Erna Hauksdóttir, Guðrún Geirsdóttir, Orri Hauksson, Stefán Hrafn Jónsson, Svanhildur Konráðsdóttir (varmaður fyrir Ásthildi Margréti Otharsdóttur, Rögnu Árnadóttur og Tómas Þorvaldsson), Tryggvi Másson (varamaður fyrir Rögnu Sigurðardóttur) og Þengill Björnsson. Fundinn sat einnig Þórður Kristinsson sem ritaði fundargerð.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver hefði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Rektor benti á að í verklagsreglum vegna málefna fyrrverandi starfsmanna Háskóla Íslands á eftirlaunum (liður 6e undir „bókfærð mál“) mætti koma fram að þær tækju einnig til þeirra sem öðlast rétt til töku lífeyris fyrir 70 ára aldur. Ekki voru gerðar aðrar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a)    Rekstraryfirlit Háskóla Íslands fyrir árið 2016, drög ársreiknings, sbr. síðasta fund.
Fyrir fundinum lá ársreikningur Háskóla Íslands fyrir árið 2016. Jenný Bára gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Ítarlegri ársreikningur með skýringum verður lagður fram að lokinni endurskoðun Ríkisendurskoðunar.

b)    Staða fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2017.
Jenný og Guðmundur gerðu grein fyrir stöðu fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2017. Málið var rætt og svöruðu þau Guðmundur og Jenný spuringum ráðsmanna. Endurskoðuð áætlun er nú í jafnvægi.

c)    Greinargerðir forseta fræðasviða um það hvernig sviðin muni standa að því að draga úr fjölda kennslustunda árið 2017 og yfirfara allt námsframboð m.t.t. fækkunar og aukinnar samkennslu – og hver möguleg áhrif þessara aðgerða verða á gæði náms og kennslu, sbr. lið 3. í samþykkt háskólaráðs 12. janúar sl. um fjárhagsáætlun fyrir árið 2017.
Fyrir fundinum lágu greinargerðir forseta fræðasviða um viðbrögð sviðanna við lið 3 í samþykkt háskólaráðs 12. janúar sl. Rektor gerði grein fyrir þeim.

d)    Skipulag og tímaáætlun fjárhagsáætlunar Háskóla Íslands til lengri og skemmri tíma m.t.t. laga um opinber fjármál og samhæfingar við stefnu Háskóla Íslands, þ.m.t. samningur háskólans og mennta- og menningarmálaráðuneytis um kennslu og rannsóknir 2017-2021.
Fyrir fundinum lá minnisblað vegna fimm ára fjárhagsáætlunargerðar fyrir Háskóla Íslands. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Lagði rektor til að skipaður verði starfshópur til að vinna tillögur um hvernig staðið verður að gerð fjárhagsáætlana til fimm ára fyrir Háskóla Íslands. Hópurinn verði skipaður aðilum með þekkingu á rekstri háskóla sem og aðilum með almenna rekstrarþekkingu. Hópinn skipi þau Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar, formaður, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, formaður stjórnar Marel og fulltrúi í háskólaráði og Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs. Hópurinn skili tillögum til háskólaráðs í júní 2017.
– Samþykkt einróma.

3.    Innri endurskoðun. Tillaga eftirfylgninefndar ábendinga og tillagna innri endurskoðanda um nýráðningar akademískra starfsmanna, sbr. síðasta fund.
Fyrir fundinum lá tillaga eftirfylgninefndar ábendinga og tillagna innri endurskoðanda um nýráðningar akademískra starfsmanna, sbr. síðasta fund.
Guðmundur R. Jónsson, formaður nefndarinnar, gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt einróma.

4.    Gæðamál og úttektir: Önnur lota rammaáætlunar Gæðaráðs háskóla.
Inn á fundinn komu Áslaug Helgadóttir, gæðastjóri Háskólans og Sigurður Magnús Garðarsson, formaður gæðanefndar háskólaráðs. Gerðu þau grein fyrir annarri lotu rammaáætlunar Gæðaráðs háskóla sem hefst á árinu 2017 og felur m.a. í sér sjálfsmat deilda Háskóla Íslands og sjálfsmat og ytra mat á Háskóla Íslands í heild. Málið var rætt og svöruðu þau Sigurður og Áslaug spurningum ráðsmanna.

5.    Málefni fræðasviða Háskóla Íslands. Kynning á starfsemi og áherslumálum Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.
Inn á fundinn kom Hilmar B. Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og gerði grein fyrir starfsemi og áherslumálum sviðsins. Málið var rætt og svaraði Hilmar spurningum ráðsmanna.

6.    Bókfærð mál.
a)    Ráðgefandi nefnd Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands 2017-2020.
– Samþykkt. Ráðgefandi nefnd Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands er skipuð þannig 2017-2020: Jörundur Svavarsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, formaður, Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, Guðrún Á. Jónsdóttir, yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú, Sigurður Sigursveinsson, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands og Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum.

b)    Stjórn Eggertssjóðs 2017-2020.
– Samþykkt. Stjórnin er skipuð þannig 2017-2020: Bryndís Brandsdóttir, vísindamaður, Snæbjörn Pálsson, prófessor og Steinunn Thorlacius, líffræðingur PhD, verkefnisstjóri hjá Blóðbanka, Landspítala. Varamenn eru Árný E. Sveinbjörnsdóttir, vísindamaður, Guðmundur H. Guðmundsson, prófessor og Bjarni Þorbergsson, stjórnmálafræðingur. Stjórnin skiptir með sér verkum.

c)    Stjórn Menningar- og framfarasjóðs Ludvigs Storr 2017-2020.
– Samþykkt. Stjórnin er skipuð þannig 2017-2020: David Pitt, framkvæmdastjóri, Ebba Þóra Hvannberg, prófessor og fyrrverandi varaforseti háskólaráðs, Sigrún Nanna Karlsdóttir, dósent. Stjórnin kýs formann úr sínum hópi.

d)    Tilnefning varamanna fulltrúa háskólaráðs í fimm fastar dómnefndir Háskóla Íslands, sbr. 40. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
– Frestað.

e)    Verklagsreglur vegna málefna fyrrverandi starfsmanna Háskóla Íslands á eftirlaunum.
– Samþykkt.

f)    Stjórn Minningarsjóðs Aðalsteins Kristjánssonar.
– Samþykkt. Stjórnin er þannig skipuð 2017-2020: Aðalmenn Sigurður S. Snorrason, prófessor, Líf- og umhverfisvísindadeild, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, vísindamaður, Jarðvísindastofnun og Guðmundur G. Haraldsson, prófessor, Raunvísindadeild. Varamenn: Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor, Jarðvísindadeild, Snædís Huld Björnsdóttir, lektor, Líf- og umhverfisvísindadeild, Einar Örn Sveinbjörnsson, prófessor, Raunvísindadeild. Stjórnin kýs sér formann og ritara.

7.    Mál til fróðleiks.
a)    Svar háskólaráðs til umboðsmanns Alþingis, dags. 15. febrúar sl., sbr. síðasta fund.
b)    Dagskrá og glærur frá heimsókn mennta- og menningarmálaráðherra til Háskóla Íslands 7. febrúar sl.
c)    Ávarp rektors við brautskráningu kandídata í Háskólabíói 18. febrúar sl.
d)    Grein Jóns Atla Benediktssonar rektors og Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans, „Um óháða rannsókn á plastbarkamálinu“, Fréttablaðinu 21. febrúar 2017.
e)    Tímarit Háskóla Íslands, vor 2017
f)    Ársskýrsla Hugverkanefndar 2016.

Að lokinni formlegri dagskrá fóru fulltrúar í háskólaráði, ásamt öðrum stjórnendum Háskóla Íslands, í skoðunarferð um hús Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.05.