Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 10. nóvember 2016

11/2016

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2016, fimmtudaginn 10. nóvember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 12.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Borgar Þór Einarsson (varamaður fyrir Orra Hauksson), Eiríkur Rögnvaldsson, Erna Hauksdóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir (varamaður fyrir Guðrúnu Geirsdóttur), Ragna Árnadóttir, Ragna Sigurðardóttir, Stefán Hrafn Jónsson, Tómas Þorvaldsson. Þengill Björnsson kom inn á fundinn í upphafi dagskrárliðar 7. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver hefði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og lýsti Ingibjörg Gunnarsdóttir sig vanhæfa til að fjalla um lið 4a. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a)    Rekstraryfirlit Háskóla Íslands eftir fyrstu níu mánuði ársins 2016.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs. Fyrir fundinum lá rekstraryfirlit Háskóla Íslands eftir fyrstu níu mánuði ársins 2016 og gerðu þau Guðmundur og Jenný Bára grein fyrir því og svöruðu spurningum fulltrúa í háskólaráði.

Rektor reifaði erfiða fjárhagsstöðu háskólans og þá óvissu sem uppi er um rekstrarhorfur á næsta ári og til lengri tíma litið. Málið var rætt og að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð einróma svohljóðandi ályktun:

„Einn og hálfan milljarð króna vantar í rekstur Háskóla Íslands árið 2017

Háskólaráð Háskóla Íslands skorar á Alþingi að bregðast við þeim bráða fjárhagsvanda sem steðjar að starfi skólans.

Fyrir liggur að Háskóli Íslands hefur búið við skertar fjárveitingar árum saman um leið og nemendum hefur fjölgað mikið og kröfur til skólans aukist. Háskólinn hefur gætt ítrasta aðhalds í öllum rekstri, en lengra verður ekki gengið. Fyrir liggur að skólinn verður að óbreyttu rekinn með a.m.k. 300 m.kr. halla á þessu ári og er algjör óvissa um framhaldið.

Gæðum náms og kennslu við Háskóla Íslands er því stefnt í voða og stöðu og orðspori hans á alþjóðavettvangi ógnað.

Nauðsynlegt er að háskólar á Íslandi séu fjármagnaðir á sambærilegan hátt og háskólar í nágrannalöndunum, en langur vegur er frá því að svo sé skv. skýrslum OECD. Mikilvægt er að stíga strax ákveðin skref í þá átt að bæta fjármögnun háskólanna með auknum fjárveitingum. Til að gera allra brýnustu leiðréttingar á reikniflokkum ólíkra námsgreina þarf Háskóli Íslands um 1,5 milljarð króna árið 2017. Núverandi reikniflokkaverð Mennta- og menningarmálaráðuneytisins hamlar eðlilegum og nauðsynlegum kennsluháttum við skólann. Dregið hefur verið úr þjónustu við nemendur, álag á starfsfólk aukist til muna og þurft að fresta nauðsynlegri fjárfestingu í tækjum, búnaði og öðrum innviðum.

Stjórnendur Háskóla Íslands hafa í aðdraganda alþingiskosninga átt gagnlega fundi með öllum stjórnmálaflokkum og upplýst þá um þessa alvarlegu stöðu. Í þeim viðræðum kom fram ríkur skilningur fulltrúa stjórnmálaflokkanna á vandanum og skýr vilji til að bregðast við með auknum fjárveitingum til Háskóla Íslands.

Að óbreyttu getur Háskóli Íslands ekki staðið undir hlutverki sínu í íslensku samfélagi. Augljóst er að langvarandi undirfjármögnun háskólans mun hafa bein áhrif á grunnstoðir samfélagsins og draga jafnframt úr áhuga og möguleikum ungs fólks á að mennta sig og starfa á Íslandi.“

3.    Aurora University Network.
Rektor gerði grein fyrir málinu. Aurora University Network er samstarfsnet 9 öflugra evrópskra háskóla sem eiga það sameiginlegt að leggja í starfi sínu áherslu á hágæða rannsóknir, samfélagslega ábyrgð og að gera samfélögum betur kleift að takast á við áskoranir samtímans. Samstarfsnetið var formlega stofnað í Amsterdam 21. október 2016. Málið var rætt og svaraði rektor spurningum fulltrúa í háskólaráði.

4.    Innri endurskoðun.
a)    Afgreiðsla skýrslu innri endurskoðanda um meðferð erlendra styrkja innan Háskóla Íslands, sbr. fundi ráðsins 8. september og 12. október sl.
Ingibjörg Gunnarsdóttir vék af fundi undir dagskrárlið 4a. Fyrir fundinum lá skýrsla innri endurskoðanda um meðferð erlendra styrkja innan Háskóla Íslands, sbr. fundi ráðsins 8. september og 12. október sl. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt. Skýrslan fer til meðferðar hjá eftirfylgninefnd um ábendingar og tillögur innri endurskoðanda, sbr. síðasta fund.

b)    Ósk innri endurskoðanda eftir heimild háskólaráðs til að breyta endurskoðunaráætlun fyrir tímabilið 2016-2018 lítillega í ljósi umfangs verkefna, sbr. fund ráðsins 8. september sl.
Rektor greindi frá því að innri endurskoðandi óskar eftir að úttekt um framhaldsnám, sem átti að fara fram fyrir áramót 2016, verði frestað vegna umfangs annarra verkefna.
– Samþykkt.

5.    Frá innri endurskoðanda: Skýrsla um skjalastjórnun.
Inn á fundinn kom Ingunn Ólafsdóttir, innri endurskoðandi Háskóla Íslands, og gerði grein fyrir drögum að skýrslu sinni um skjalastjórnun við háskólann. Málið var rætt og svaraði Ingunn spurningum ráðsmanna.
– Samþykkt. Skýrslan fer til meðferðar hjá eftirfylgninefnd um ábendingar og tillögur innri endurskoðanda, sbr. síðasta fund.

6.    Skipulag miðlægrar stjórnsýslu.
Inn á fundinn kom Ómar H. Kristmundsson prófessor og gerði grein fyrir drögum að skýrslu um skipulag miðlægrar stjórnsýslu Háskóla Íslands sem hann og Ásta Möller, sviðsstjóri starfsmannasviðs, hafa unnið fyrir rektor. Skýrslan er liður í heildarúttekt á skipulagi og stjórnkerfi háskólans. Málið var rætt ítarlega og svaraði Ómar spurningum ráðsmanna. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.

7.    Vísindagarðar Háskóla Íslands ehf., sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn komu Hilmar Bragi Janusson, formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri félagsins og Hrólfur Jónsson, sviðsstjóri framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar, fulltrúi borgarinnar í stjórn Vísindagarða. Hilmar og Eiríkur gerðu grein fyrir starfsemi félagsins og áformum um frekari uppbyggingu vísindagarða í Vatnsmýrinni. Málið var rætt. Fram kom í umræðunni að mikilvægt sé að uppbygging Vísindagarða verði nýtt skipulega til að styðja við starfsemi Háskóla Íslands og efla tengsl við atvinnulíf eins og kveðið er á um í nýrri heildarstefnu háskólans. Jafnframt verði rannsóknir og kennsla virkur þáttur í starfseminni og áætlanir um starfsemi háskólans í Vísindagörðum verði hluti af framkvæmdaáætlun skólans.

8.    Bókfærð mál.
a)    Tillaga að breytingu á verklagsreglum um viðurkenningu Háskóla Íslands fyrir lofsverðan árangur í starfi.
– Samþykkt.

b)    Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs f.h. Sálfræðideildar að nýrri námsleið í meistaranámi, MS í hagnýtri sálfræði.
– Samþykkt.

c)    Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs f.h. Námsbrautar í sjúkraþjálfun í Læknadeild að breytingu á ákvæðum reglna er varða skil BS-náms og MS-náms.
– Samþykkt.

d)    Tillaga Heilbrigðisvísindasviðs f.h. Hjúkrunarfræðideildar um nýja námsleið til doktorsprófs í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild.
– Samþykkt.

e)    Tillaga rektors um að Eva Sóley Guðbjörnsdóttir taki sæti í stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., sbr. aukahluthafafund félagsins sem fram fer að loknum fundi háskólaráðs.
– Samþykkt.

9.    Mál til fróðleiks.
a)   Óháð ytri nefnd til að rannsaka Macchiarini-málið. Leyfi Persónuverndar, dags. 20. október 2016 og skipunarbréf rannsóknarnefndar Háskóla Íslands og Landspítalans, dags. 27. október 2016.
b)   Dagskrá háskólaþings 11. nóvember 2016.
c)   „Fjármögnun Háskóla Íslands“. Ritstjórnargrein Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, í Læknablaðinu, 11. tbl., 102. árg. 2016.
d)   „Nordic higher education in decline?“ Grein í Times Higher Education, 15. september 2016.
e)   Niðurstaða verkefnishóps um fagháskólanám. Tillaga til mennta- og menningarmálaráðherra, september 2016.
f)    Fréttabréf Félagsvísindasviðs, október 2016.
g)   Fréttabréf Menntavísindasviðs, október 2016.
h)   Siðmennt verðlaunar Háskóla unga fólksins.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 14.40.