Skip to main content

1. háskólafundur 4. og 5. nóvember 1999

1. háskólafundur haldinn 4. og 5. nóvember 1999 í Hátíðasal Háskóla Íslands á 2. hæð í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 13.00-17.00, fimmtudag 4. nóvember og kl. 8.30-17.00, föstudag 5. nóvember

Fimmtudagur 4. nóvember
Kl. 13:00 - Fundarsetning

Rektor setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna til fundarstarfa. Hann greindi frá því að fundurinn starfar samkvæmt lögum um Háskóla Íslands og reglum til bráðabirgða sem settar voru í apríl sl. af fyrra háskólaráði. Þá greindi rektor frá því hverjir sitja fundinn með atkvæðisrétti og hverjir eru boðnir af rektor sem gestir fundarins með tillögurétti en án  atkvæðisréttar. Rektor skipaði háskólaritara ritara fundarins og framkvæmdastjóra kennslusviðs til aðstoðar.

Rektor fór yfir dagskrá og tímaáætlun fundarins og gerði grein fyrir framkomnum tillögum sem bárust innan tilskilins frests og öðrum fundargögnum sem fundarmenn hafa fengið.

Kl. 13:45 - 1. dagskrárliður

Rektor ræddi og kynnti sameiginlega vísinda og menntastefnu Háskóla Íslands og reifaði helstu forsendur fyrir heildarstefnumörkun. Helsta forsendan er að sem flestir innan háskólasamfélagsins séu virkir við stefnumótunina, en ennfremur er mikilvægt að finna góðar fyrirmyndir samanber framlagt fylgiskjal 7 „Hugsjón Háskólans í Basel“. Þá ræddi hann hvernig heildarstefna Háskóla Íslands tengist stefnu og starfi einstakra deilda og stofnana. Rektor vakti athygli fundarmanna á fylgiskjali 6 „Stefnumál Háskóla Íslands“ og fylgiskjali 8 „Helstu mál í starfi Háskóla Íslands“ og ræddi hvernig lög um Háskóla Íslands og samningur milli menntamálaráðuneytisins og Háskóla Íslands um kennslu marka Háskóla Íslands stefnu.
Fram kom að rektor telur að meginmarkmið með heildarstefnu Háskóla Íslands eigi að vera:
-    háskóli sem stenst samanburð við alþjóðlega viðurkennda rannsóknarháskóla.
-    háskóli þar sem kennsla er mjög góð og meginreglan sú að kennslan hvíli á rannsóknum.
-    háskóli sem veitir þjóðinni, almenningi, víðtæka fræðslu af öllu tagi - háskólamenning sem smitar út í samfélagið.
-    háskóli sem veitir ýmsum einstökum aðilum í þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar og rannsókna.
Þá vakti rektor athygli á því að þeir fjórir vinnuhópar um stefnumörkun sem starfa eiga á háskólafundinum eiga að fást hver um sig við eitt af meginstefnumálunum.

Að loknum inngangsorðum rektors var heildarstefna Háskóla Íslands rædd í samhengi við orð rektors. (Sjá útdrátt úr umræðunni í lok fundargerðarinnar.)

Kl. 14:15 hófst starf í fjórum vinnuhópum um stefnumörkun.
Kl. 14:45 Kaffihlé.
Kl. 15:00 voru fundarmenn myndaðir á tröppunum fyrir framan Aðalbyggingu.

Kl. 15:05 - 2. dagskrárliður

Fyrir fundinum lágu drög að reglum um skipan og fundarsköp háskólafundar, dags. 2.10.1999. Þórður Kristinsson, framkvæmdastjóri kennslusviðs gerði grein fyrir og skýrði reglurnar. Reglurnar voru ræddar og komu fram athugasemdir og ábendingar við einstakar greinar.  Endurskoðaðar reglur þar sem tillit er tekið til ábendinga fundarins verða lagðar fram síðari fundardaginn.

Kl. 16:00-17:00 framhald á starfi vinnuhópa.

Föstudagur 5. nóvember

Kl. 8:30 - 8:45 Rektor bauð fundarmenn velkomna aftur til starfa og fór yfir viðfangsefni dagsins.

Kl. 8:45 - 9:45 Fram var haldið starfi vinnuhópanna fjögurra.

Kaffihlé

Kl. 10:15 - 1. dagskrárliður framhald

Rektor kynnti að hópstjórar vinnuhópanna muni gera grein fyrir niðurstöðum af starfi hópanna að stefnumótun. (Útdráttur úr niðurstöðum hópanna fylgir fundargerðinni).

I. Rannsóknahópur

Jón Atli Benediktsson, prófessor, gerði grein fyrir niðurstöðunum.

II. Kennsluhópur

Kristín Ingólfsdóttir, prófessor, gerði grein fyrir niðurstöðunum.

III. Fræðsluhópur

Gunnar Karlsson, prófessor, gerði grein fyrir niðurstöðunum.

IV. Þjónustuhópur

Guðrún Kristjánsdóttir, dósent, og Sigmundur Guðbjarnason, prófessor, gerðu grein fyrir niðurstöðunum.

Að hverri framsögu lokinni var orðið gefið frjálst til fyrirspurna, athugasemda og viðbóta við erindi hópstjóra. Að framsögu hópstjóra lokinni dró rektor saman nokkur meginatriði úr niðurstöðum vinnuhópa og gaf orðið laust til frekari umræðu. Margir þættir í stefnumörkun Háskóla Íslands voru ræddir og meðal annar tengsl milli rannsókna, kennslu og þjónustu.

Rektor lauk þessum fyrsta dagskrárlið um stefnumörkun með því að geta þess að niðurstöður hópanna verða teknar saman á blað og hóparnir síðan kallaðir saman í desember eða janúar n.k. til að fara yfir þær. Hann mun funda með hópstjórunum og stefnir að því að leggja fram stefnudrög á næsta háskólafundi í apríl á næsta ári. Rektor þakkaði hópstjórum og öllum sem tóku þátt í hópstarfinu. Þá óskaði hann eftir skriflegum ábendingum um hópastarfið.

Kl. 12.15     Hádegisverður í Skrúði.

Kl. 13.40 - 3. dagskrárliður

Tillögur að ályktunum háskólafundar um einstök málefni, sem fyrir liggja frá öðrum fulltrúum.

3.1    Tillaga til ályktunar frá Sigurði Líndal, prófessor:

„Háskólafundur haldinn dagana 4. og 5. nóvember 1999 harmar þá ákvörðun að loka Reykjavíkurapóteki. Fundurinn felur rektor að beita sér fyrir því að apótekið verði opnað aftur og bendir á eftirfarandi leiðir til að ná því markmiði:

1. Að leita samstarfs við forystumenn í lyfjaiðnaði og lyfjaverslun á Íslandi
2. Að leita samstarfs við Reykjavíkurborg.
3. Að leita samstarfs við samtök kvenna í atvinnulífinu.
4. Að bjóða þeim sem vilja ljá þessu máli lið allar eignir apóteksins endurgjaldslaust til eignar, svo sem skjöl, innréttingar og aðra lausafjármuni.“

Tillögunni fylgdi greinargerð og yfirlýsing sem rektor las upp í fjárveru Sigurðar. Ingjaldur Hannibalsson, formaður stjórnar Lyfjabúðar Háskóla Íslands greindi frá aðdraganda þess að rekstri lyfjabúðarinnar var hætt og húseignin Austurstræti 16 seld. Þá rakti Guðmundur Magnússon, fyrrverandi rektor sögu málsins, en í hans tíð var Reykjavíkurapótek keypt og Lyfjabúð Háskóla Íslands stofnuð. Tillagan var rædd ítarlega. Fram kom tillaga um að ályktuninni yrði vísað frá með rökstuðningi sem Guðmundi Hálfdanarsyni, formanni alþjóðasamskiptanefndar, var falið að semja. Rektor las upp svohljóðandi frávísunartillögu:

„Um leið og háskólafundur tekur undir þau sjónarmið um þróun miðbæjarins sem fram koma í yfirlýsingu Sigurðar Líndals er þó sýnt að hvorki var grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri Reykjavíkurapóteks né verður aftur snúið með sölu hússins. Á það skal bent að Háskólinn hyggst varðveita eftir fremsta megni sögu og muni Reykjavíkurapóteks og gera þá aðgengilega almenningi. Því er lagt til að tillögu Sigurðar Líndals um að Reykjavíkurapótek verði opnað aftur verði vísað frá.“

- Frávísunartillagan var samþykkt samhljóða.

3.2    Tillögur til ályktunar frá Röskvustúdentum. Tillögurnar í heild fylgja fundargerðinni. Finnur Beck, fulltrúi Röskvu mælti fyrir tillögu Röskvu um að mótuð verði skýr stefna um kennslu og lesaðstöðu stúdenta. Ályktunartillagan var samþykkt samhljóða. Katrín Jakobsdóttir, fulltrúi Röskvu mælti fyrir tillögu  um að gerður verði rekstrarsamningur um rannsóknir við Háskóla Íslands, sambærilegur þeim sem gerður hefur verið um kennslu.

- Ályktunartillagan var samþykkt samljóða.

Kl. 14:10 - 2. dagskrárlið framhaldið

Fram voru lögð endurskoðuð drög að reglum um skipan og fundarsköp háskólafundar. Snjólfur Ólafsson, prófessor, lagði fram tillögu að breytingu á 9. gr. Valdimar K. Jónsson, forseti verkfræðideildar, lagði til að fella 9. grein brott. Málið var rætt. Felld var með einu atkvæði (13:12) tillaga Valdimars um að 9. gr. falli brott. Felld var tillaga Snjólfs um að í upptalningu stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi skv. 9. gr. falli brott Orðabók háskólans og Íslensk málstöð, en samþykkt samhljóða tillaga hans um að í upptalningu stofnana bætist við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Samþykkt var samhljóða tillaga frá Magnúsi Guðmundssyni um breytingu á 5. gr. reglnanna.

- Þá voru reglurnar samþykktar einróma með ofangreindum breytingum.

Kl. 14.35 - 4. dagskrárliður

4.1    Umsögn um tillögu háskólaráðs að reglum um kosningarétt og kjörgengi, vægi atkvæða, undirbúning og framkvæmd kosninga kennara og stúdenta í háskólaráð, sbr. 6. mgr. 4. gr. laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999. Tillagan lá fyrir fundinum.

Páll Sigurðsson, varaforseti lagadeildar, og Hjalti Hugason, forseti guðfræðideildar, mæltu fyrir tillögu sinni að breytingu á 3. gr. framlagðra draga að reglum. Við 3. gr. bætist 2. mgr. svohljóðandi: „Við kosningu fulltrúa fyrir þau fræðasvið, sem tiltekin eru í 1. mgr. og þar sem deildir og námsbrautir innan sviðs eru eigi fleiri en þrjár, skal gæta þess að á sex ára tímabili hafi allar þær háskóladeildir, sem undir hvert fræðasvið heyra, fengið aðalfulltrúa í háskólaráð í eitt kjörtímabil að minnst kosti. Þar sem fleiri en þrjár deildir eða námsbrautir eru á fræðasviði skal miðað við, að sama regla gildi miðaða við tíu ára tímabil.“ Tillagan ásamt breytingatillögu voru ræddar ítarlega.

- Að lokinni umræðu var samþykkt frávísunartillaga við breytingartillöguna frá Valdimar K. Jónsson, forseta verkfræðideildar og samþykkt samhljóða að mæla með því við háskólaráð að það samþykki óbreyttar þær reglur sem lágu fyrir fundinum.

Kl. 15.10    Kaffihlé

Kl. 15.30 - 4. dagskrárliður framhald

4.2    Umsögn um tillögu háskólaráðs að reglum um hvernig staðið skuli að kosningu, tilnefningu, og embættisgengi rektors, sbr. 3. mgr. 6.gr. laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999 (fskj.).

Rektor greindi frá framkominni breytingartillögu frá Rannveigu Traustadóttur, dósent um að auk prófessora verði dósentar kjörgengir í embætti rektors. Rannveig skýrði tillöguna.

Fram var lögð skrifleg tillaga frá fulltrúum starfsfólks í stjórnsýslu, Jörundi Guðmundssyni og Brynhildi Brynjólfsdóttur að breytingu á 5. og 6. grein reglnanna. Ólafur Þ. Harðarson, dósent, lagði til breytingu á 5. gr. og Guðvarður Már Gunnlaugsson, fulltrúi félags háskólakennara lagði til breytingu á 7. gr. Breytingatillögurnar voru ræddar.

- Samþykkt var með 23 atkvæðum gegn 7 breytingartillaga Rannveigar um að auk prófessora verði dósentar kjörgengir í rektorskjöri.

- Breytingartillaga Jörundar og Brynhildar var felld með 15 atkvæðum gegn 11. Ennfremur var felld breytingartillaga Ólafs Þ. Harðarsonar með 29 atkvæðum gegn 2.

- Breytingartillaga Guðvarðar um að 1. mgr. 7. gr. hefjist svo: „Rektorskjör skal fara fram 6 vikum eftir að umsóknarfrestur rennur út“, var samþykkt samhljóða. Fundurinn samþykkti síðan einróma að leggja til við háskólaráð að það samþykki þannig breyttar reglur um rektorskjör.

Þá reifaði rektor nokkur mál sem mikilvægt er fyrir Háskóli Íslands að lokið verði við eða mótuð stefna um á næstunni.

1. Endurskoðum á reglum Háskóla Íslands
2. Gerð samnings um rannsóknir
3. Nýjar námsgreinar, arkitektúr, fornleifafræði.
4. Mæta húsnæðisþörfum háskólans og nýta til þess nýjar fjáröflunarleiðir. Ljúka Náttúrufræðahúsi og skipuleggja og byggja Háskólatorgið eftir nýjum fjáröflunarleiðum.

Í lok fundarins þakkaði rektor þeim sem unnið hafa að undirbúningi háskólafundarins og lýsti yfir mikilli ánægju með það hvernig til hefði tekist bæði í starfi vinnuhópanna og á fundinum sjálfum. Þá þakkaði hann fundarmönnum og gestum fyrir komuna, bauð þeim að þiggja léttar veitingar og sleit fundi. Í lok fundarins voru drög að fundargerð lesin upp.

Listi yfir gögn sem lögð voru fram á háskólafundinum 4. og 5. nóvember 1999:

1.
2.
3.
4.
5.
6. „Stefnumál Háskóla Íslands“
7. „Hugsjón Háskólans í Basel“. (Tengsl á vefsíðu).
8. „Helstu mál í starfi Háskóla Íslands“