Skip to main content

16. háskólafundur 18. febrúar 2005

16. háskólafundur haldinn 18. febrúar 2005 í Hátíðasal Háskóla Íslands á 2. hæð í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 13.00-16.50

Dagskrá

Kl. 13.00 - 13.05  Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir framkomnum gögnum.
Kl. 13.05 - 13.20  Dagskrárliður 1. Rektor reifar stefnumál Háskóla Íslands.
Kl. 13.20 - 14.00  Dagskrárliður 2. Hugmyndir og tillögur frá fundi í Bláa lóninu um eflingu háskólafundar.
Kl. 14.00 - 14.40  Dagskrárliður 3. Drög að viðmiðum og kröfum um gæði meistara- og doktorsnáms við Háskóla Íslands.
Kl. 14.40 - 15.10  Dagskrárliður 4. Drög að stefnu Háskóla Íslands gegn mismunun. Framhald umræðu frá síðasta háskólafundi og ákvörðun um frekari málsmeðferð.
Kl. 15.10 - 15.30  Kaffihlé.
Kl. 15.30 - 16.00  Dagskrárliður 5. Hugmynd að stigamatskerfi fyrir kennslu. Framhald umræðu frá síðasta háskólafundi og ákvörðun um áframhaldandi málsmeðferð
Kl. 16.00 - 16.50  Dagskrárliður 6. Þverfaglegt nám og rannsóknir. Framsöguerindi og umræður.
Kl. 16.50  Rektor slítur fundi.

 

Kl. 13.00-13.05: Fundarsetning

Rektor setti 16. háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Þá fór rektor yfir dagskrá og tímaáætlun og gerði grein fyrir fyrirliggjandi gögnum. Fundarritarar voru Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri og Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir, starfsmannastjóri.

Þá bauð rektor frambjóðendur til rektorskjörs, þau Ágúst Einarsson, Einar Stefánsson, Jón Torfa Jónasson og Kristínu Ingólfsdóttur, velkomin á fundinn, en þeim hafði verið boðið að sitja fundinn án atkvæðisréttar.

 

Kl. 13.05 - 13.20 - Dagskrárliður 1: Rektor reifar stefnumál Háskóla Íslands

Rektor hóf mál sitt á því að lýsa þeirri skoðun sinni að það væri hlutverk væntanlegs nýs rektors Háskóla Íslands að leiða stefnumótun skólans til næstu ára. Stefna Háskólans lægi þó fyrir í meginatriðum, enda væru bæði rektorskandídatar og háskólafólk sammála um að það yrðu áfram mikilvægustu stefnumið Háskólans að halda áfram að byggja upp rannsóknir og framhaldsnám. Sérstaklega gerði rektor doktorsnámið að umtalsefni. Þótt doktorsnám við Háskólann hefði vaxið ört á örfáum árum og vel á annað hundrað doktorsnemar væru nú við skólann, væri engu að síður ljóst að námið stæði enn á frekar veikum fótum miðað við þá erlendu skóla sem Háskóli Íslands bæri sig saman við. Þá væru skiptar skoðanir um það hvort stefna ætti að því að byggja upp doktorsnám á öllum fræðasviðum skólans strax eða hvort fara ætti hægar í sakirnar og leggja áherslu á að þróa námið á völdum fræðasviðum fyrst í stað. Einnig væri mikilvægt að rækta samstarf um doktorsnám við erlenda háskóla. Benti rektor í þessu sambandi á að Háskólanum væri nú heimilt að veita sameiginlegar prófgráður með erlendum skólum.

Í tengslum við eflingu doktorsnámsins minntist rektor næst á þann gleðilega viðburð sem átt hefði sér stað í Hátíðasal fyrir skömmu þegar undirrituð var viljayfirlýsing um breytingu á Háskólasjóði Eimskipafélagsins, í þá veru að hlutabréfaeign Háskólans í sjóðnum verði seld á nokkrum árum og myndaður sjóður sem væntanlega verði í vörslu Landsbankans. Sjóðurinn verður mjög öflugur eða að núvirði um 2,2 milljarðar króna, og er áformað að nýta hann aðallega til þess að styrkja nemendur í rannsóknatengdu framhaldsnámi, einkum í doktorsnámi. Háskólaráð myndi á næstunni skipa úthlutunarnefnd sem hefði það hlutverk að úthluta styrkjum úr sjóðnum til efnilegra framhaldsnema. Þetta myndi gerbreyta allri aðstöðu fyrir framhaldsnema við Háskóla Íslands og í reynd yrði hún samkeppnishæf við það sem tíðkaðist við öfluga erlenda rannsóknaháskóla.

Ennfremur væri gert ráð fyrir því að allt að 500 milljónir króna af arði sjóðsins verði notaðar til að fjármagna byggingu Háskólatorgs. Búist væri við því að stjórnvöld veittu leyfi til framkvæmdarinnar fljótlega enda væri fjármögnun hennar tryggð. Háskólatorg muni gerbreyta allri aðstöðu á háskólasvæðinu, auka húsnæði til margskonar starfsemi og tengja saman ýmsar byggingar sem fyrir eru. Sagði rektor að hér væri um að ræða afar merkilegan viðburð í sögu Háskóla Íslands sem yrði frekari uppbyggingu hans til góðs.

Að lokum gerði rektor að umtalsefni hversu mikilvægt það væri fyrir háskólasamfélagið að líta endrum og sinnum upp úr amstri hversdagsins og gera sér dagamun, t.d. með því að efna til ýmis konar menningarviðburða. Því hefði hann boðið öllu starfsfólki Háskólans og mökum þess á tónleika í Háskólabíói síðustu tvö haust og á næstunni yrði efnt til þriggja djasstónleika í Stúdentakjallaranum í vikulok, háskólafólki að endurgjaldslausu. Þá minnti rektor á að hinn árlegi vorfagnaður starfsmanna og maka þeirra yrði að þessu sinni haldinn í Hátíðasal laugardaginn 30. apríl nk.

 

Kl. 13.25 - 14.00 - Dagskrárliður 2: Hugmyndir og tillögur frá fundi í Bláa lóninu um eflingu háskólafundar

Í upphafi þessa dagskrárliðar rifjaði rektor upp að á háskólafundi í Bláa lóninu í september sl., þar sem rætt var sérstaklega um það hvernig efla mætti háskólafund enn frekar, hefði verið ákveðið að Ingjaldur Hannibalsson, prófessor og formaður fjármálanefndar, myndi taka helstu atriði umræðunnar saman og leggja á grundvelli hennar fram hugmyndir og tillögur á þessum fundi. Ástæðan fyrir því að Ingjaldur hefði verið fenginn til þessa væri sú að hann hefði á undanförnum mánuðum heimsótt fjölmarga háskóla víða um heim og kynnt sér stjórnkerfi þeirra. Þá lýsti rektor þeirri skoðun sinni að háskólafundur hefði á síðstu árum gegnt þýðingarmiklu hlutverki við að samhæfa störf háskólafólks og móta stefnu í sameiginlegum málum. Vissulega mætti efla fundinn enn frekar og festa hann í sessi og myndi nýr rektor vonandi gefa þessu máli gaum og endurskoða starfshætti fundarins í samráði við deildarforseta, forstöðumenn stofnana og aðra fulltrúa á fundinum. Meðal þess sem huga þyrfti að væri hvort fundurinn væri ef til vill haldinn of sjaldan og hvort of mörg mál væru á dagskrá hverju sinni. Einnig þyrfti að gera háskólafund sýnilegri í háskólasamfélaginu og tryggja meiri samfellu í starfi hans, t.d. með því að færa einhverjar af starfsnefndum háskólaráðs undir hann. Þá brýndi rektor fyrir fulltrúum á fundinum að þeir gerðu sér far um að fræða starfsfólk í deildum, stofnunum og öðrum starfseiningum um það sem fram færi á háskólafundi. Háskólafundur væri í reynd háskólaþing og fulltrúalýðræðið í Háskólanum fælist ekki síst í virkri samræðu og samskiptum.

Rektor gaf Ingjaldi Hannibalssyni orðið. Hóf Ingjaldur framsögu sína á því að rifja upp hver væru helstu verkefni háskólafundar. Fundurinn væri í fyrsta lagi samráðsvettvangur háskólasamfélagsins, í öðru lagi vettvangur mótunar sameiginlegrar vísinda- og menntastefnu Háskólans, í þriðja lagi vettvangur stefnumótunar í einstökum málum og í fjórða lagi umsagnaraðili um reglur sem háskólaráð setur.

Þá taldi Ingjaldur upp nokkur dæmi um stefnumótun sem unnin hefði verið á vettvangi háskólafundar. Sagði Ingjaldur að þessi upptalning sýndi svo ekki verður um villst að háskólafundur hefði afkastað miklu á síðustu árum:
 

 • Vísinda- og menntastefna Háskóla Íslands
 • Áætlun um eflingu framhaldsnáms til ársins 2005
 • Áætlunin „Uppbygging Háskóla Íslands - Markmið og aðgerðir 2002-2005“
 • Starfsmannastefna Háskólans
 • Jafnréttisáætlun 2000-2004
 • Stefna í málefnum fatlaðra
 • Umhverfisstefna Háskólans
 • Stefna í alþjóðasamskiptum
 • Formlegt gæðakerfi Háskólans
 • Siðareglur Háskólans og starfsreglur siðanefndar
 • Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms
 • Málstefna Háskóla Íslands

Næst greindi Ingjaldur frá helstu sjónarmiðum sem fram hefðu komið á 14. háskólafundi í Bláa lóninu.
 

 • Efling háskólafundar. Sumir fundarmenn héldu fram því sjónarmiði að fundurinn ætti að fá aukið vald, en aðrir töldu þvert á móti að fundurinn ætti ekki að hafa formlegt ákvörðunarvald. Einnig kom fram sú hugmynd að háskólafundur ætti að fá reglugerðarvald, án þess þó að það skerti vald deilda.
 • Fjöldi og lengd funda. Ýmsir töldu æskilegt að fundað yrði oftar en í staðinn yrði hver fundur styttri.
 • Fjöldi fulltrúa. Sumir fulltrúar héldu því fram að háskólafundur væri of fjölmennur. Aðrir töldu það einmitt vera styrk fundarins að sem flestir aðilar í háskólasamfélaginu ættu fulltrúa á honum. Þá kom fram það sjónarmið að gagnlegt gæti verið að á háskólafundi sætu sömu aðilar og hefðu með höndum stefnumótun í deildum, t.d. formenn skora og/eða nefnda í deildum.
 • Starfsmenn. Því var varpað fram til umhugsunar að auka mætti skilvirkni fundarins ef hann hefði starfsmenn á sínum snærum sem sinntu verkefnum á milli funda.
 • Nefndir. Færð voru rök fyrir því að nefndir sem nú starfa undir háskólaráði og fjalla um akademísk málefni ættu frekar að starfa á vegum háskólafundar. Einnig kom fram hugmynd um að sett yrði á laggirnar ný þróunarnefnd á vegum fundarins.
 • Akademísk stjórn og framkvæmdastjórn. Bent var á að skynsamlegt gæti verið að greina skýrar á milli akademískrar stjórnar og framkvæmdastjórnar en nú er gert.
 • Stefnumótun. Fundarmenn voru sammála um að háskólafundur ætti áfram að vera vettvangur stefnumótunar og umræðna um grundvallarmálefni Háskólans.
 • Málefni deilda. Nokkrir fundarmenn töldu að meira mætti gera af því að deildir kynntu starf sitt á háskólafundi og að þar væru rædd sameiginleg málefni deildanna, s.s. samræmdar námsreglur.

Þá rifjaði Ingjaldur upp helstu atriði í lögum og reglum um háskólafund:
 

 • Rektor boðar háskólafund, er forseti hans og stýrir fundi.
 • Háskólafund skal halda að jafnaði einu sinni á misseri á tímabilinu frá september til júní. Æski 2/3 hlutar fulltrúa á háskólafundi fundar er rektor skylt að boða til hans.
 • Háskólafundur setur nánari reglur um skipan og fundarsköp háskólafundar. Í reglum skal m.a. kveða á um kosningu og setu fulltrúa.

Eftir að hafa gefið þetta yfirlit dró Ingjaldur nokkrar ályktanir og setti fram tillögur um hvert hlutverk háskólafundar gæti veri í framtíðinni:
 

 • Háskólafundur verði helsti vettvangur umræðu um akademísk málefni Háskóla Íslands.
 • Háskólafundur verði samráðsvettvangur háskóladeilda og háskólastofnana á sviði kennslu og rannsókna.
 • Háskólafundur vinni að þróun og eflingu Háskóla Íslands og móti og setji fram stefnu um akademísk málefni Háskólans.
 • Háskólafundur sé ráðgefandi um kennslu og rannsóknir gagnvart rektor og háskólaráði.
 • Háskólaráð og rektor geti leitað umsagnar háskólafundar um hvaðeina sem varðar kennslu og rannsóknir í Háskóla Íslands.
 • Háskólafundur sinni þeim verkefnum sem háskólaráð felur honum á hverjum tíma.
 • „Allsherjarnefnd“ rektors og deildarforseta hittist á milli funda og undirbúi starf fundarins.
 • Kennslumálanefnd, vísindanefnd, jafnréttisnefnd, þróunarnefnd, siðanefnd, gæðanefnd og e.t.v. fleiri nefndir starfi á vegum háskólafundar. Formenn nefnda og a.m.k. helmingur nefndarmanna komi úr röðum fulltrúa á háskólafundi.
 • Formenn kennslumálanefndar, vísindanefndar og jafnréttisnefndar gefi umsögn um allar tillögur um nýráðningar og framgang akademískra starfsmanna.

Sagði Ingjaldur að fyrstu þrjú atriðin væru óbreytt frá núverandi fyrirkomulagi, en hin væru byggð á lærdómi sem hann hefði dregið af starfsemi hliðstæðra stofnana í erlendum háskólum, einkum þeirrar stofnunar í bandarískum háskólum sem kallast „senat“.

Lagði Ingjaldur til að fulltrúar á fundinum yrðu um 39 að tölu og skipaðir sem hér segir:

 • Rektor sem verði formaður háskólafundar.
 • Forsetum háskóladeilda.
 • Forstöðumönnum eftirtalinna stofnana: Árnastofnunar, Endurmenntunarstofnunar, Landsbókasafns-Háskólabókasafns, Landspítala - háskólasjúkrahúss, Orðabókar Háskólans, Raunvísindastofnunar, Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
 • 8 fulltrúum kosnum úr hópi prófessora.
 • 8 fulltrúum kosnum úr hópi annarra akademískra starfsmanna.
 • Framkvæmdastjóra akademískrar stjórnsýslu.
 • Framkvæmdastjóra rekstrar og framkvæmda.
 • 2 nemendum í grunnnámi og 2 í framhaldsnámi.

Rektor þakkaði Ingjaldi fyrir framsöguna og gaf orðið laust.

Í umræðunni var þráðurinn tekinn upp þar sem frá var horfið á seinasta háskólafundi. Fögnuðu fundarmenn þessari umræðu og töldu hana gagnlega.

Á það var bent að umræðan mætti ekki takmarkast við háskólafund og framtíðarhlutverk hans, heldur þyrfti hún að taka mið af stjórnkerfi Háskólans í heild. Þannig væri vafasamt að taka afstöðu til einstakra tillagna, svo sem um fjölda funda, tilfærslu nefnda háskólaráðs undir háskólafund o.fl. nema huga jafnframt að hlutverki háskólaráðs, deildarforseta, skipan deilda og hugsanlegri fækkun þeirra og hugmyndum um skiptingu valds og ábyrgðar. Ekki væri hægt að segja til um hvort styrkja ætti háskólafund nema hafa þessa heildarmynd fyrir augum. Að svo stöddu væri hins vegar skynsamlegt að láta svo stórar ákvarðanir bíða nýs rektors og þeirrar heildarstefnumótunar sem hann myndi standa fyrir í haust.

Því var haldið fram að mikilvægt væri að halda áfram að þróa lýðræði í Háskólanum. Draga mætti í efa að hugmynd Ingjaldar um að fækka fulltrúum á fundinum í 39 þjónaði þessu markmiði. Mikilvægt væri að áfram myndu breytilegir fulltrúar sitja fundinn og að aðkoma hins almenna starfsmanns væri þannig tryggð. Þá myndi fækkun fulltrúanna í 39, a.m.k. miðað við núverandi stöðu mála, hafa í för með sér að háskólafundur væri nær eingöngu skipaður karlmönnum. Þá var tekið undir þá tillögu að nefndir, einkum jafnréttisnefnd, myndu veita umsagnir um nýráðningar og framgang akademískra starfsmanna.

Á það var bent að tillögur Ingjaldar væru ekki tæmandi og ýmsu mætti við þær bæta. Til dæmis hefðu fulltrúar á síðasta háskólafundi almennt verið sammála um að „háskólaþing" væri heppilegra heiti en háskólafundur og lýsti hlutverki hans betur. Þá þyrfti að hugleiða hvort heppilegt væri að rektor stýrði háskólafundi, þ.e. hvort sami aðili stýrði framkvæmdastjórn skólans og þinginu sem hefði með höndum mótun stefnu og framtíðarsýnar. Við þetta bættist að rektor væri yfirmaður hinnar sameiginlegu stjórnsýslu. Í öðrum löndum væri algengast að þrír ólíkir aðilar hefðu þessi hlutverk með höndum og í einkageiranum á Íslandi væri m.a.s. ólöglegt að sami aðili væri í senn framkvæmdastjóri og formaður stjórnar. Hliðstæð verkaskipting gilti fyrir Alþingi.

Í framhaldi af þessari umræðu var hnykkt á því sjónarmiði að mikilvægasta einstaka málið varðandi framtíð háskólafundar væri að skilgreina verkaskiptinguna á milli háskólaráðs og háskólafundar. Háskólafundur ætti að hafa reglusetningarvaldið, þ.e. ef fundurinn væri á annað borð hugsaður sem þing, og síðan væri það háskólaráðs að framkvæma hlutina í samræmi við settar reglur.

Loks var því sjónarmiði haldið fram að ef framangreindar hugmyndir ættu að ná fram að ganga væri það skilyrði að deildarforsetar yrðu ráðnir af rektor en ekki kjörnir í deildum eins og nú væri.

Í lok umræðunnar upplýsti rektor fundarmenn um að menntamálaráðherra hefði hug á að breyta núverandi stjórnarfyrirkomulagi opinberu háskólanna á Íslandi og hann hefði nýlega kallað saman rektora þeirra til að kynna fyrir þeim hugmyndir sínar um breytingar á stjórn skólanna. Tækju hugmyndir ráðherrans m.a. mið af þeim breytingum sem ýmist hefðu verið ákveðnar eða væru til umræðu á hinum Norðurlöndunum. Nánar tiltekið gengju hugmyndir ráðherrans í fyrsta lagi út á að styrkja háskólafund og koma honum á í hinum háskólunum einnig. Í þessu felist efling hins akademíska valds og þar með mörkun skýrari skila á milli akademískrar stjórnunar og rekstrarstjórnunar. Í öðru lagi vildi ráðherrann auka hlut utanaðkomandi aðila í háskólaráði. Allir rektorar á fundinum hefðu talið að ef þetta ætti að ganga eftir væri það skilyrði að þessir aðilar yrðu ekki pólitískt skipaðir heldur valdir af háskólunum sjálfum. Þessi mál væru þó enn í skoðun hjá ráherranum og kæmu líklega til kasta háskólafundar síðar meir.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Ingjalds Hannibalssonar, þau Rannveig Traustadóttir, Ólafur Þ. Harðarson, Gylfi Magnússon, Þorsteinn Loftsson, Hörður Filippusson, Matthías Imsland og Guðný Guðbjörnsdóttir.

 

Kl. 14.00 - 14.40 - Dagskrárliður 3: Drög að viðmiðum og kröfum um gæði meistara- og doktorsnáms

Rúnar Vilhjálmsson, prófessor og fulltrúi í gæðanefnd, gerði grein fyrir málinu. Byrjaði Rúnar á því að ítreka að fyrirliggjandi mál, drög að viðmiðum og kröfum um gæði meistara- og doktorsnáms, væri hluti af gæðakerfi Háskólans. Til að skýra þessi tengsl rifjaði Rúnar upp nokkur atriði varðandi gæðakerfið og framkvæmd þess:
 

 • Gæðakerfinu er ætlað að tryggja gæði og stuðla að úrbótum í starfsemi Háskóla Íslands og styrkja stöðu hans sem rannsóknarháskóla.
 • Helstu markmið gæðakerfisins eru:

- Að deildir sinni öflun, varðveislu og miðlun þekkingar.
- Að kennsla og rannsóknir standist alþjóðlegar kröfur.
- Að allt starfsfólk sé verkefnum sínum vaxið.
- Að kennarar og nemendur séu viðurkenndir og eftirsóttir.
- Að Háskólinn sé virkur þátttakandi í menningu og samfélagi.

Í tengslum við gæðakerfi Háskólans starfar gæðastjóri í sameiginlegri stjórnsýslu, auk ráðgjafarnefndar rektors um gæðamál (gæðanefndar), en deildarforsetar eru gæðastjórar sinna deilda. Fyrsta gæðanefnd Háskólans, sem skipuð var árið 2003 til eins árs, vann tillögur að viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms sem samþykktar voru á 13. háskólafundi 21. maí 2004. Síðastliðið haust tók svo til starfa ný gæðanefnd og hefur það verið eitt helsta verkefni hennar að semja framlögð drög að viðmiðunum og kröfum um gæði meistaranáms við Háskólann. Greindi Rúnar frá því að eftir nokkur heilabrot hefði það verið niðurstaða nefndarinnar að aðskilja ekki viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms annars vegar og meistaranáms hins vegar, heldur að setja hvort tveggja fram í einu plaggi, þótt innan þess væri gerður skýr greinarmunur á báðum námsstigum. Hér yrði þó einkum gerð grein fyrir þeim atriðum sem giltu sérstaklega um meistaranámið. Megin forsendur gæðanefndarinnar í þessu starfi voru sem hér segir:
 

 • Að taka skyldi mið af kröfum til gæða framhaldsnáms í alþjóðlegum rannsóknaháskólum.
 • Að ganga ætti út frá að allt meistaranám væri rannsóknartengt, t.d. lyki öllu meistaranámi með rannsóknarverkefni.
 • Að huga bæri sjálfstætt og með almennum hætti að því hverjar væru nauðsynlegar akademískar kröfur til kennara, nemenda og aðbúnaðar í meistaranámi.
 • Að ekki væri forsvaranlegt að skilgreina viðmiðanir sem einungis girtu undir allt sem kynni að vera gert innan Háskólans í nafni meistaranáms.
 • Að deildir eða skorir sem ekki uppfylltu eðlileg akademísk viðmið og kröfur yrðu að laga sig í áföngum að settum viðmiðum.

Fyrirliggjandi plagg skiptist í fjóra meginhluta, í fyrsta lagi almenn viðmið um gæði framhaldsnáms sem gilda hvort tveggja fyrir meistaranám og doktorsnám, í öðri lagi faglegar kröfur til leiðbeinenda í meistaranámi og meðlima meistaraprófsnefnda, í þriðja lagi efnislegar kröfur um aðbúnað og fleira og í fjórða lagi ákvæði um ábyrgð og eftirlit. Almennu kröfurnar væru þessar:

 • Markmið framhaldsnáms við Háskóla Íslands er að stúdentar geti stundað rannsóknastarf, aflað nýrrar þekkingar og gegnt störfum sem nýta vísindalega kunnáttu.
 • Námið skal standast kröfur erlendra samanburðarháskóla.
 • Námið skal fara fram í virku rannsóknaumhverfi viðurkenndra vísindamanna.
 • Námsáætlun skal liggja fyrir í upphafi. Aðhald tryggi námsframvindu.
 • Nemendur skulu fá að tileinka sér nýjungar og skiptast á þekkingu við aðra framhaldsnemendur og vísindamenn hérlendis og erlendis.
 • Doktorsritgerðir, og eftir atvikum einnig meistararitgerðir, skulu varðar opinberlega, kynntar og birtar.
 • Nemendum skal standa til boða kennsla og önnur akademísk verkefni á vegum deildar.

Faglegu kröfurnar eru þessar:

Leiðbeinandi skal að jafnaði

 • hafa lokið doktorsprófi eða hlotið dósentshæfi,
 • vera viðurkenndur sérfræðingur á viðkomandi fræðasviði,
 • hafa birt ritsmíðar, sem tengjast verkefni nemanda, á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur,
 • hafa ritvirkni sem nemur 10 stigum á ári sl. 5 ár,
 • hafa hlotið styrki úr viðurkenndum rannsóknasjóðum,
 • hafa reynslu af alþjóðlegu rannsóknasamstarfi.

Aðrir nefndarmenn í meistaraprófsnefndum skulu

 • Hafa lokið meistaraprófi hið minnsta.
 • Æskilegt er að þeir uppfylli flestar kröfur sem gerðar eru til leiðbeinenda.

Efnislegu kröfurnar eru þessar:

 • Nemum skal boðið upp á fullnægjandi rannsóknar- og vinnuaðstöðu.
 • Nemum skal tryggður reglulegur aðgangur að leiðbeinendum.
 • Leiðbeinandi skal ekki taka að sér fleiri framhaldsnema en svo að hann geti veitt þeim fullnægjandi leiðbeiningu.
 • Æskilegt er að meistaranám tengist erlendum háskóla.
 • Nemar skulu hvattir til þátttöku í vísindaráðstefnum.
 • Nemar skulu taka þátt í reglulegum málstofum og vettvangi fyrir skipulegar fræðilegar umræður.
 • A.m.k. 2/3 hlutar námskeiða skulu sérstaklega skipulagðir fyrir framhaldsnema.

Rektor þakkaði Rúnari fyrir framsöguna og gaf orðið laust.

Málið var rætt ítarlega. Almennt voru fundarmenn þeirrar skoðunar að mikil og ör fjölgun nemenda og námsframboðs í framhaldsnámi geri það nauðsynlegt að skilgreina skýr viðmið og kröfur um gæði námsins. Afar mikilvægt væri fyrir Háskóla Íslands að taka af skarið og skilgreina þessi viðmið og kröfur, þannig að þau geti jafnframt orðið leiðarljós fyrir stjórnvöld og aðrar háskólastofnanir í landinu.

Jafnframt greindi fundarmenn á um hvort það væri til bóta að setja fram viðmið og kröfur um gæði meistaranáms og doktorsnáms í einu plaggi og fella þar með allt framhaldsnám að vissu leyti undir einn hatt eða hvort skynsamlegra væri að setja gæðareglurnar fram með aðskildum hætti og undirstrika þannig muninn á meistaranámi annars vegar og doktorsnámi hins vegar. Færðu fulltrúar fyrrnefnda sjónarmiðsins fram þau rök að allt framhaldsnám ætti það sameiginlegt að vera rannsóknatengt og að ritun rannsóknaritgerðar ætti ævinlega að vera hluti af náminu, þótt vissulega væri vægi námskeiða og lokaritgerðar mjög mismikið eftir því hvort um meistaranám eða doktorsnám væri að ræða. Eina undantekningin frá þessari meginreglu væri svokallað starfstengt meistaranám, þ.e. MBA-nám og annað sambærilegt nám, enda flokkaðist það undir endurmenntun, væri alfarið byggt á námskeiðum og veitti ekki heimild til að leggja stund á doktorsnám. Fulltrúar síðarnefnda sjónarmiðsins héldu því aftur á móti fram að meistaranám og doktorsnám væru í eðli sínu ólík námsstig sem gera þyrfti skýran greinarmun á. Þetta kæmi t.d. skýrt fram í markmiðum Bologna-áætlunarinnar, einkum hinni svonefndu 3+2+3-reglu. Það væri úrelt hugsun að líta á meistaranám sem eins konar „doktorsnám hið minna“ og í reynd færi hlutverk meistararitgerða minnkandi á alþjóðlega vísu. Samfara þróun háskólamenntunar og hækkandi menntunarstigi væri meistaranám í auknum mæli að fá þá stöðu sem BA- eða BS-nám hefði haft áður og því væri doktorsnám hið eiginlega rannsóknarnám sem horfa ætti til.

Á það var bent að ef til vill endurspeglaði þessi skoðanamunur ákveðinn mun á stöðu framhaldsnámsins í einstökum deildum Háskólans. Í deildum sem hefðu, a.m.k. enn sem komið er, ekki burði til að koma upp metnaðarfullu doktorsnámi hefði meistaranámið hærri stöðu en í deildum þar sem doktorsnám væri komið vel á veg. Þá væri það einnig mismunandi á milli deilda og námsgreina hvort meistaranám væri rannsóknatengt eða starfstengt. Þannig greindi einn fundarmanna frá því að hann hefði sjálfur lokið tveimur meistaragráðum í viðskiptagreinum frá virtum bandarískum háskóla án þess að þurfa að skrifa eiginlega rannsóknaritgerð. Á móti var því haldið fram að ekki mætti horfa á meistaranámið eitt og sér heldur þyrfti einnig að hafa í huga að staða þess hjá hverri þjóð og í hverjum háskóla væri háð stöðu doktorsnámsins. Aðeins væri réttlætanlegt að draga úr rannsóknakröfum í meistaranámi ef viðkomandi háskóli byði upp á öflugt doktorsnám á mörgum sviðum. Við Háskóla Íslands - og á Íslandi yfirhöfuð - væri doktorsnám enn það skammt á veg komið að varasamt væri að minnka vægi rannsóknaþáttarins í meistaranáminu. Loks var þeirri spurningu varpað fram, hvort ef til vill væri meistaranám innan Háskóla Íslands orðið svo fjölbreytt og ólíkt innbyrðis að ástæða væri til að gera greinarmun á ólíkum tegundum meistaranáms og gera til þeirra ólíkar gæðakröfur.

Í umræðunni var ennfremur komið inn á ýmsa einstaka þætti málsins. Einn fundarmanna brýndi það fyrir fulltrúum á háskólafundi að gæta þess að blanda ekki saman í umræðunni grundvallarspurningum um eðli og inntak meistaranáms á annan bóginn og hagnýtum aðstæðum í tilteknum deildum á hinn bóginn. Þannig mættu t.d. þættir á borð við óhagstætt hlutfall á milli fjölda meistaranema og fastra kennara í einstökum deildum eða afkastahvetjandi fjármögnunarkerfi menntamálaráðuneytisins í sjálfu sér ekki verða til þess að fallið verði frá kröfunni um að skipa meistaranámsnefnd fyrir hvern meistaranema. Á móti var á það bent að skipun meistaranámsnefnda væri ekki markmið í sjálfu sér og í meistaranámi sem byggði alfarið á námskeiðum væri engin efnisleg ástæða til þess að skipa slíka nefndir. Einnig var rætt um það hvort gera ætti þá kröfu til leiðbeinenda, eins og framlögð gögn gerðu ráð fyrir, að þeir hefðu birt fræðilega viðurkenndar ritsmíðar á því sviði sem meistararitgerð fjallaði um. Þá var rætt um menntunar- og rannsóknakröfur til leiðbeinenda. Héldu sumir fundarmanna því fram að eðlilegt væri að gera ríkari kröfur til leiðbeinenda í framhaldsnámi en almennar hæfiskröfur við nýráðningar. Ekki væri sjálfgefið að allir kennarar væru hæfir til að leiðbeina í framhaldsnámi þótt þeir þyrftu vissulega að vera hæfir til að sinna kennslu í grunnnámi. Aðrir héldu því fram að einfaldara væri að hækka kröfurnar við nýráðningar þannig að enginn yrði ráðinn til kennslustarfa við Háskólann nema hann væri hæfur til að leiðbeina í framhaldsnámi. Núverandi lágmarkskröfur um meistaranám væru úreltar og með því að gera almenna kröfu um að nýráðnir kennarar hefðu doktorspróf væri vandinn úr sögunni. Þá var á það bent að í framlögðum drögum að viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms væri einkum tekið mið af einstökum kennurum og námsnefndum en ekki kveðið á um ákveðinn lágmarksfjölda kennara sem þyrfti að vera til staðar til þess að hægt væri að standa undir settum kröfum um gæði meistaranáms. Með öðrum orðum vantaði að skilgreina nauðsynlegan heildarstyrk skorar eða deildar sem stæði á bak við námið. Fulltrúi Landsbókasafns-háskólabókasafns vakti máls á því að í almennu viðmiðunum væri ekki gert ráð fyrir því að vísindalegt efni þurfi að vera keypt og gert aðgengilegt. Þetta væri nauðsynlegur þáttur í öllu framhaldsnámi og til að taka af öll tvímæli ætti að segja berum orðum að framhaldsnemar verði að hafa fullnægjandi aðgang að vísindaritum. Loks var rætt um hvort gera ætti kröfu um að fram fari opinber kynning og vörn meistararitgerða.

Að umræðu lokinni bar rektor upp þá tillögu að viðmiðum og kröfum um gæði meistaranáms annars vegar og doktorsnáms hins vegar yrðu haldið aðskildum. Gæðakröfur til doktorsnáms, sem þegar hefðu verið samþykktar á háskólafundi, yrðu því látnar standa óbreyttar en frekari meðferð gæðakrafna til meistaranámsins yrði falin gæðanefnd, deildarforsetum og rektor.

- Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Rúnars Vilhjálmssonar, þau Ólafur Þ. Harðarson, Sigrún Klara Hannesdóttir, Eiríkur Tómasson, Gylfi Magnússon, Guðný Guðbjörnsdóttir, Hörður Filippusson og Magnús Diðrik Baldursson.
 

Kl. 14.40 - 15.10 - Dagskrárliður 4: Drög að stefnu Háskóla Íslands gegn mismunun. Framhald umræðu frá síðasta háskólafundi og ákvörðun um áframhaldandi málsmeðferð

Hólmfríður Garðarsdóttir, dósent og formaður jafnréttisnefndar, gerði grein fyrir málinu. Byrjaði Hólmfríður á að rifja upp að drög að stefnu Háskóla Íslands gegn mismunun, sem samin voru að frumkvæði jafnréttisnefndar, hefðu fyrst verið kynnt og rædd á 15. háskólafundi. Á þeim fundi hefði verið ákveðið að senda drögin til umsagnar til deilda og stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi. Það hefði verið gert og nú væru ný drög lögð til grundvallar annarri umræðu. Alls hefðu borist tólf umsagnir frá þessum aðilum og að auki tvær umsagnir frá einstaklingum. Greindi Hólmfríður frá því að jafnréttisnefnd hefði fjallað um hverja umsögn sérstaklega. Flestar athugasemdir og ábendingar umsagnaraðila hefðu verið til bóta og hefði verið tekið mið af þeim, auk framkominna athugasemda á síðasta háskólafundi, við endurskoðun fyrri draga. Umsagnaraðilar hefðu almennt lýst ánægju sinni með að slík stefna væri komin fram og teldu að hún myndi styrkja ímynd og stöðu Háskóla Íslands sem stofnunar þar sem sjónarmið jafnréttis og réttlætis skipuðu háan sess.

Næst lýsti Hólmfríður helstu breytingum sem gerðar hefðu verið á plagginu frá seinasta fundi. Í fyrsta lagi hefði það verið einfaldað og stytt. Í öðru lagi hefði uppbyggingu þess verið snúið við frá því sem áður var, þannig að nú kæmi fyrst inngangur, síðan væri sett fram stefna og loks fylgdi greinargerð. Í þriðja lagi hefði ábyrgð á framkvæmd stefnunnar verið færð frá kennurum einum yfir á starfsmenn og stúdenta. Í fjórða lagi hefði orðalagi verið breytt á þann veg að dregið hefði verið úr boðhætti. Textinn hefði nú yfir sér meiri sáttatón án þess að dregið hefði verið úr markmiðum stefnunnar. Meiri áhersla væri nú lögð á að leysa hugsanleg ágreiningsmál á lægsta mögulega stjórnsýslustigi. Ef það myndi ekki reynast unnt væri gert ráð fyrir því að siðanefnd Háskólans væri úrskurðaraðili. Að lokum sagðist Hólmfríður vonast til þess að fundarmenn næðu samstöðu um málið og það yrði afgreitt á fundinum.

Rektor þakkaði Hólmfríði, jafnréttisnefnd og umsagnaraðilum fyrir gott starf. Ítrekaði hann að hér væri á ferðinni afar mikilvægt mál og að það væri Háskóla Íslands til sóma að vera í farabroddi og til fyrirmyndar í þessum efnum. Rektor gaf orðið laust.

Hófu rektorskandídatar umræðuna með því að taka einum rómi undir orð rektors um ágæti þess að Háskóli Íslands gengi fram fyrir aðrar stofnanir samfélagsins með því að marka skýra stefnu gegn mismunun og að mikilvægt væri að málið fengi góða afgreiðslu.

Málið var rætt ítarlega og létu fundarmenn almennt í ljós þá skoðun að plaggið hefði batnað í meðförum jafnréttisnefndar á milli háskólafunda. Í umræðunni var m.a. komið inn á tengingu stefnunnar við jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar, forvarnargildi stefnunnar og nauðsyn þess að ágreiningsmál yrðu leyst sem næst vettvangi.

Einnig var rætt um einstök atriði stefnunnar. Sigurður J. Grétarsson bar upp viðaukatillögu um að aftast í inngangskaflanum yrði bætt við svohljóðandi setningu: „Stefnu þessari má í engum tilvikum beita gegn akademísku frelsi eða málfrelsi í Háskólanum.“ Einnig lagði Sigurður til að ákvæði 7.5 um að upplýsingar á heimasíðum deilda yrðu einnig birtar á ensku yrði fellt niður. Til rökstuðnings síðari tillögunni minnti Sigurður á að háskólafundur hefði nýlega samþykkt málstefnu Háskólans sem tæki á þessu atriði og ætti það ekki heima í stefnu gegn mismunun. Fulltrúi stúdenta andmælti þessu og sagði mikilvægt að erlendum stúdentum yrði ekki mismunað fyrir að tala ekki íslensku. Lagði fulltrúinn til að ákvæðið yrði látið standa en tekið fram að „allar mikilvægar“ upplýsingar skyldu vera á ensku. Aðrir fundarmenn tóku undir með Sigurði og bentu t.d. á þá staðreynd að við Háskólann væru erlendir stúdentar af meira en 60 þjóðernum sem töluðu að sama skapi mörg tungumál, að ógleymdum þeim sem notuðu táknmál. Þá taldi einn fundarmanna að ákvæði 7.5 væri að því leyti gallað að það gengi í senn of langt og of stutt. Ákvæðið gengi að því leyti of stutt að það takmarkaðist við heimasíður og það gengi of langt vegna þess að ýmsar mikilvægar upplýsingar, s.s. um breytingar á námskeiðum sem ekki væru kennd á ensku, þyrfti alls ekki að tilkynna á ensku. Skárra væri því að segja: „Mikilvægar upplýsingar skulu, eftir því sem ástæða er til, liggja fyrir á ensku.“ Loks var á það bent að hugsanlega gæti þetta ákvæði opnað fyrir víðtækari kröfur, s.s. um að enska væri notuð sem kennslutungumál í ríkara mæli en nú gerðist. Fundarmenn tóku almennt undir fyrri tillögu Sigurðar. Til dæmis greindi fulltrúi félagsvísindadeildar frá því að á deildarfundi hefði verið lögð á það áhersla að mikilvægt væri að tryggja að stefna Háskólans gegn mismunun hefti ekki skoðana- og tjáningarfrelsi kennara og nemenda.

Fleiri tóku ekki til máls og tilkynnti rektor að gert yrði fundarhlé áður en málið yrði afgreitt.
 

15.20 - 15.35: Kaffihlé

Eftir kaffihlé setti rektor fundinn að nýju. Byrjaði hann á því að bera undir fundarmenn hvort þeir væru reiðubúnir til að ganga til atkvæða um stefnu Háskóla Íslands gegn mismunun eða hvort einhver vildi bera upp frestunartillögu. Engin frestunartillaga kom fram og bar rektor þá fyrst undir atkvæði fyrri breytingartillögu Sigurðar J. Grétarssonar um að bætt yrði við inngangskaflann svohljóðandi setningu: „Stefnu þessari má í engum tilvikum beita gegn akademísku frelsi eða málfrelsi í Háskólanum."

- Samþykkt með 19 atkvæðum, en 3 voru á móti.

Næst bar rektor upp síðari breytingartillögu Sigurðar um að síðasta setningin í kafla 7.5 yrði felld niður.

- Samþykkt með 21 atkvæði, en 4 sátu hjá.

Loks bar rektor tillöguna, svo breytta, í heild undir atkvæði. Þar sem endurskoðuð drög að stefnu Háskóla Íslands voru fyrst lögð fram á fundinum og fundarmenn höfðu því varla haft ráðrúm til að lesa þau í þaula lagði rektor jafnframt til að honum og jafnréttisnefnd yrði falið að gera orðalagsbreytingar á textanum eftir því sem ástæða væri til og í samræmi við þær ábendingar sem fram hefðu komið á fundinum.

- Samþykkt samhljóða.

Að lokum minnti Magnús Diðrik Baldursson fundarmenn á að samþykkt stefnu Háskóla Íslands gegn mismunun hefði áhrif á starfsmannastefnu skólans. Sú stefna var samþykkt í endurskoðaðri útgáfu á seinasta háskólafundi, með þeim fyrirvara að ef stefna gegn mismunun hlyti samþykki yrði hennar getið í jafnréttiskafla starfsmannastefnunnar.

Til máls tóku undir þessum dagskrárlið, auk rektors og Hólmfríðar Garðarsdóttur, þau Ágúst Einarsson, Einar Stefánsson, Jón Torfi Jónasson, Kristín Ingólfsdóttir, Sigurður J. Grétarsson, Anna Pála Sverrisdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Oddný G. Sverrisdóttir, Dagný Kristjánsdóttir, Ólafur Þ. Harðarson, Berglind Rós Magnúsdóttir, Rannveig Traustadóttir, Hörður Filippusson, Gylfi Magnússon, Eiríkur Tómasson og Pétur Ólafsson.
 

Kl. 15.30 - 16.00 - Dagskrárliður 5: Hugmynd að stigamatskerfi kennslu. Framhald umræðu frá seinasta háskólafundi og ákvörðun um frekari málsmeðferð

Sigurður J. Grétarsson, prófessor og formaður kennslumálanefndar, gerði grein fyrir málinu. Í upphafi greindi Sigurður frá því að háskólafólk um allan heim væri sammála því að kennsla væri einn þeirra þátta sem bæri uppi háskólastarf og þyrfti að sinna af metnaði og alúð. Ef kennsla í háskóla væri ekki góð gerði skólinn ekki skyldu sína, nemendur lærðu síður það sem þeir þyrftu að læra, prófgráður þeirra yrðu verðminni og þeim þætti síður vænt um skólann sinn. Slíkt orðspor endaði vanalega með því að nýir nemendur reyndu að sækja nám sitt annað. Í fjármögnunarumhverfi nútímans merkti þetta jafnframt að skóli með slaka kennslu þyrfti að horfa á eftir helstu tekjulind sinni.

En þótt það væri í raun enginn ágreiningur um að sinna bæri kennslu vel væri það víða svo að í háskólaumhverfi mætti kennsla afgangi andspænis rannsóknum. Vissulega væri enginn ágreiningur um það að öflugar rannsóknir væru lífæð vandaðs háskóla og frumskilyrði þess að hann dafnaði. Rannsóknir fengju því iðulega nokkurn forgang í háskólastarfi. Við þetta bættist að auðveldara væri að meta rannsóknir til stiga heldur en kennslu, því styrkupphæðir væri hægt að mæla í tölustöfum, einnig fjölda greina, fjölda tilvitnana og áhrifastuðla. Allt væri þetta hins vegar óljósara og erfiðara þegar kæmi að kennslu.

Skólar víðs vegar um heim hefðu brugðist við þessari slagsíðu með ýmsum hætti þar sem algengustu leiðir væru að verðlauna afburðagóða kennslu, koma á sérstökum kennslustöðum, stundum með launaauka fyrir frábæra kennara, skipuleggja styrkjakerfi til að ýta undir nýmæli í kennslu og flétta kennslustörf inn í framgangskerfi. Þótt allar þessar aðferðir hefðu eitthvað til síns ágætis væri engin þeirra óumdeild. Þar kæmi til að skoðanir væru skiptar á aðferðum og viðmiðum við mat á því hvað skuli teljast ágæt kennsla og svo væri eðlilega víða mikil tregða að láta kennslu eina sér nægja til framgangs og launaauka.

Í Háskóla Íslands, eins og annars staðar, væri kennsla viðurkenndur þáttur í starfinu og ekki vanræktur. Kennslustörf væru t.d. skilyrði fyrir framgangi háskólakennara, þó að matið á kennslunni væri fremur fábrotið og sjálfkrafa. En þó að kennslan væri ekki vanrækt væri það tilfinning margra í Háskóla Íslands að nauðsynlegt væri að gera nokkrar ráðstafanir í hennar þágu.

Til þess að gera kennslu hærra undir höfði og verðlauna sérstakan áhuga á henni hefði kennslumálanefnd unnið að stigamati fyrir kennslu sem kennarar gætu látið fylgja framtali sínu og mundi koma fram í mati á framgangsmöguleikum þeirra líkt og rannsóknir.

Næst rifjaði Sigurður upp að tillögur kennslumálanefndar hefðu verið til umræðu á síðasta háskólafundi í nóvember 2004. Á fundinum hefðu komu fram mikilvægar athugasemdir og spurningar, bæði um mælingar á kennslu og um notkun kerfis af þessum toga, t.d. hvar það myndi væntanlega byrja að verka, hvaða ár yrðu talin með og hver ekki. Í kjölfar fundarins hefðu tillögurnar verið sendar deildum til umsagnar og væru nú aftur til umfjöllunar.

Umsagnir hefðu borist kennslumálanefnd frá nær öllum deildum skólans og hefðu þær langflestar lýst ánægju með viðleitni af þessu tagi. Þó hefðu komið fram nokkrar athugasemdir við afmörkuð atriði, og lytu þær einkum að þrennu: Í fyrsta lagi hefði verið óskað eftir því að skýrar yrði kveðið á um hvað mætti teljast til nýsköpunar í kennslu, kennslurita og smárita. Í öðru lagi var bent á að einingamat þyrfti að vera samræmt, einkum við mat á lokaverkefnum. Í þriðja lagi hefði verið lagt til að metin yrðu atriði sem féllu ekki eða varla undir núverandi ákvæði, svo sem fjarkennslu, yfirvinnu, kennslu á öðrum skólastigum, stundakennslu, kennslu í stórum námskeiðum og fleira í þeim dúr.

Lýsti Sigurður því að kennslumálanefnd teldi almennt viðbrögð deilda gæfu ástæðu til að taka áframhaldandi skref með þessi drög. Nánar tiltekið teldi nefndin að skynsamlegt næsta skref væri að máta reglurnar við raunhæft umhverfi og gera eins konar prufuframtal í samvinnu við valda kennara úr sem flestum deildum Háskólans. Forprófun á 20-30 kennurum myndi gera kleift að sjá hvernig kvarðinn virkaði, hvað hann mældi vel og eftir atvikum að stilla kvarðann af þannig að hann hvorki of- né vanmæti kennara úr tilteknum deildum.

En þótt stigakerfið væri fullmótað væri málið ekki í höfn. Til viðbótar þyrfti að gera matið að raunverulegum hluta þess launa- og framgangskerfis sem notað væri við skólann. Þar væri auðvitað fyrsta þrep að fá samþykktir tiltekinna stjórnvaldsstofnana. Í því sambandi þyrfti að ákveða upphafsreit matsins og vert væri að útfæra jafnframt aðferðir og viðmið til þess að meta þá þætti reglnanna sem væru hvað huglægastir og erfiðastir viðfangs, s.s. hvað teldist til nýsköpunar í kennslu. Samhliða þessu mætti huga að því hvort unnt væri í vissum tilvikum að meta kennslustarf til langs tíma og bjóða áhugasömum kennurum að sinna nýsköpun í kennslu sérstaklega, flytja til starfsskyldur, til einhvers tíma án þess að það mundi skaða framgang þeirra. Slíkir kennarar gætu menn t.d. gerst ef þeir hefðu starfsreynslu fyrir og hefðu áhuga á að helga sig sérstakri nýsköpun í kennslu. Þetta merkti ekki að hægt væri að öðlast framgang fyrir kennslu einvörðungu og heldur ekki að einhverjir kennarar hættu að sinna rannsóknum og helguðu sig alfarið kennslu, heldur að áhugasamir og góðir kennarar gætu um skeið helgað sig verkefnum sem lúta að kennslu.

Rektor þakkaði Sigurði fyrir kynninguna og gaf orðið laust. Litlar umræður urðu um málið, enda hafði það verið rætt ítarlega á seinasta háskólafundi. Þó lýstu fulltrúar stúdenta ánægju sinni með að reynt væri að hvetja til gæða í kennslu og ekki aðeins rannsóknum.

Rektor lagði til að málinu yrði vísað til rektors og deildarforseta sem myndu ákveða næstu skref í samráði við kennslumálanefnd.

- Samþykkt samhljóða.
 

Kl. 16.00 - 16.50 - Dagskrárliður 6: Þverfaglegt nám og rannsóknir. Framsöguerindi og umræður.

Rektor bauð velkomna á fundinn þá Gunnar Harðarson dósent og Rögnvald Ólafsson dósent. Benti rektor á að þetta mál væri ekki á dagskrá til þess að taka um það ákvarðanir, heldur fyrir fróðleiks sakir og til að vekja umhugsun og umræður.

Fyrst flutti Gunnar framsögu sína sem bar yfirskriftina: „Þróunarbrautir og þvergirðingar. Um hindranir og hugtök í þverfræðilegu samstarfi.“

Byrjaði Gunnar á að vekja máls á því að það væri víða orðin viðtekin skoðun að mesta gróskan í rannsóknum væri á mörkum hefðbundinna fræðasviða, þar ætti sér stað mikilvæg þekkingarsköpun sem ekki væri möguleg með öðrum hætti. Þess vegna horfðu margir vonaraugum til eflingar þverfræðilegra rannsókna en teldu að núverandi skipulag Háskólans væri dragbítur á starfsemi af þessu tagi.

Að þessum orðum slepptum greindi Gunnar frá því að það væri ætlun sín að gera að umræðuefni þetta hindrunarhlaup sem þróun þverfræðilegs náms og rannsókna virtist vera, ræða fyrst um nokkrar grindur í veginum og freista þess síðan skýra fáein hugtök sem hugsanlega gætu gert auðveldara að kippa grindunum í burtu.

Þverfaglegir þröskuldar
Þegar talað væri um þverfræðilegt framhaldsnám og rannsóknir væri átt við fræðasvið eða viðfangsefni sem unnt væri að nálgast með aðferðum fleiri en einnar fræðigreinar eða kannski öllu heldur viðfangsefni sem væri þess eðlis að ekki væri unnt að gera því viðhlítandi skil eða öðlast heildarsýn yfir það nema með því að styðjast við tvær eða fleiri greinar; það væri yfirleitt þetta síðara atriði sem átt væri við þegar talað væri um þverfaglegar rannsóknir eða rannsóknir á mörkum hefðbundinna fræðasviða.

Sem dæmi um slíkt fræðasvið mætti nefna kvenna- og kynjafræði sem teygðu sig yfir mörk margra greina, svo sem félagsfræði, sagnfræði, bókmenntafræði og heimspeki. En sem dæmi um viðfangsefni, sem nálgast mætti þverfræðilega, væri hægt að nefna Passíusálma Hallgríms Péturssonar, sem skoða mætti frá sjónarhorni málfræðinnar, bókmenntafræðinnar og guðfræðinnar. Elsta þverfræðilega greinin í Háskólanum væri reyndar guðfræði, því hún styddist við aðferðir fjölda annarra greina (textafræði, sagnfræði, túlkunarfræði, heimspeki o.s.frv.), þótt hún væri tæpast fyrsta greinin sem kæmi upp í hugum fólks þegar þverfræðilegt nám og rannsóknir bæri á góma.

Það hefði lengi einkennt rannsóknir í hugvísindum að fræðimenn sæktu aðferðir eða kenningar til annarra greina, bókmenntafræðin t.d. til málvísinda, sálfræði og mannfræði. Eins og áður sagði virtist sú skoðun viðtekin að frjósemi og gróska ríkti þar sem þverfagleg fræði væru stunduð; en kannski væri þetta bara líkingamál úr sjávarútveginum: Þar sem hafstraumar mætast, þar væru góð fiskimið! En þverfræðilegt samstarf gæti vissulega haft í för með sér margskonar ávinning. Í samstarfi fræðimanna úr ólíkum greinum spryttu iðulega upp nýjar hugmyndir, gjarnan út frá nýjum sjónarhornum, ný verkefni yrðu til, nýjar rannsóknaráætlanir, ný störf og síðast en ekki síst nýjar styrkumsóknir!

Þessi afstaða væri ekki ný af nálinni. Til dæmis sagði George MacDonald Ross í frægri bók sinni um Leibniz (Oxford, 1984:113), sem var uppi 1646-1716:

„He deliberately ignored boundaries between disciplines, and lack of qualifications never deterred him from contributing fresh insights to established specialisms. Indeed, one of the reasons why he was so hostile to universities as institutions was because their faculty structure prevented the cross-fertilisation of ideas which he saw as essential to the advance of knowledge and of wisdom.“

Háskólar hefðu vissulega breyst frá því á 17. öld en samt stæðu enn ýmsar girðingar í veginum fyrir þróun þverfræðilegra námsgreina. Þær væru af margvíslegum toga, hélt Gunnar áfram, en í framsögu sinni vildi hann þó einkum staldra við þrenns konar hindranir: Huglægar, fræðilegar og skipulagslegar.

Huglægar mætti kalla þær hindranir sem réðust af afstöðu á borð við fordóma eða faghroka fræðimanna í einni grein eða á einu fræðasviði gagnvart annarri fræðigrein eða fræðasviði. Hindranir af þessum toga væru sjaldnast raunverulegt vandamál, nema þær væru sameiginlegar tiltölulega stórum hópi fræðimanna. Til dæmis mætti gera ráð fyrir því að fræðimenn á sviði raunvísinda sem hefðu nýlega lesið annað hvort Intellectual Impostures eða Fashionable Nonsense eftir Alan Sokal og Jean Bricmont væru ekki sérlega áfjáðir í að hefja samstarf við bókmenntafræðinga sem fylktu sér undir merki póstmódernismans. Aftur á móti væri alls ekki ólíklegt að sömu fræðimenn gætu vel hugsað sér samstarf við vísindaheimspekinga um eitthvert rannsóknarefni, án þess að gera sér grein fyrir því að hugmyndaheimur vísindaheimspekinganna gæti staðið býsna nærri hugmyndaheimi bókmenntafræðinganna í ýmsum atriðum.

Fræðilegar hindranir spryttu af eðli fræðigreinanna sjálfra, sem ættu sér ólík viðfangsefni, markmið og aðferðir. En hvað sem því liði væri ekki unnt að gefa sér fyrirfram að tvær eða fleiri fræðigreinar gætu ekki átt gefandi samstarf um ákveðið viðfangsefni, þótt ólíkar væru og með ólíka aðferðafræði. Lögfræðin og líffræðin virtust til dæmis við fyrstu sýn eiga fátt sameiginlegt. Lögfræðin teldist til félagsvísinda, en líffræðin til náttúruvísinda, lögfræðin væri hagnýt grein, líffræðin fræðileg, lögfræðin beitti rökræðum og réttarheimildum, líffræðin beitti háþróuðum, tæknilegum aðferðum. Þess vegna væri kannski vandséð hvers vegna lögfræðin og líffræðin ættu að bera saman bækur sínar. En eins og alkunna væri sköruðust þessar greinar, ásamt ýmsum öðrum greinum eins og til dæmis siðfræði, þegar kæmi að umfjöllun um gagnagrunna á heilbrigðissviði. Þarna væri því gott dæmi um að þverfræðileg nálgun gæti verið brýn nauðsyn til að öðlast heildarsýn yfir eitthvert tiltekið viðfangsefni. Það væri reyndar viðtekin regla í vísindum að viðfangsefnið réði aðferðinni, en ekki öfugt.
 
Hindranir í vegi þverfræðilegs samstarfs gætu líka verið skipulagslegar og ráðist af ýmsum þáttum í skipulagi, starfsvenjum og starfsumhverfi þeirra fræðastofnana sem í hlut ættu, ef ekki beinlínis í valdatogstreitu. Skiptingin í deildir og skorir væri meðal annars ætluð til þess að einfalda og auðvelda stjórnun Háskólans, en þessi skipting gæti orðið dragbítur á þróun greina eða fræðasviða sem féllu ekki auðveldlega að því skipulagi sem við lýði væri hverju sinni. Skorirnar vildu nefnilega ráða sér sjálfar og hefðu sýnt tilhneigingu til að vilja ekki sleppa hendinni af þeim fræðigreinum sem einu sinni væru lentar innan þeirra, en sæju sér kannski ekki heldur hag í því að efla þær. Ein stærsta hindrunin í þróun hugmyndarinnar um framhaldsnámsskóla (graduate school), hvort heldur almenns eða innan deildar, gæti því orðið sú að þegar til kastanna kæmi mættu ýmsar skorir eða deildir einfaldlega ekki til þess hugsa að missa yfirráðin yfir framhaldsnáminu í þeim greinum sem kenndar væru í viðkomandi deild eða skor.

Önnur hindrun af skipulagslegum toga væri sú að rannsóknarnám færi ekki fram beint á vegum stofnana, þó að oft væri þar saman komin mikil þekking á tilteknu fræðasviði og þar að auki gætu stofnanirnar verið utan deilda. Það væri deildanna að sjá um kennsluna og útskrifa nemendur. Þannig hafi til skamms tíma verið um Árnastofnun, eitt helsta flaggskip íslenskra fræða, að fræðimenn sem þar störfuðu máttu ekki kenna við þá deild sem nú nefndist hugvísindadeild. Afleiðingin væri sú að mikil hætta væri á því að þeirri þekkingu og kunnáttu sem fræðimenn stofnunarinnar byggju yfir yrði ekki miðlað til yngri kynslóðar. Annað dæmi mætti taka af þverfræðilegu meistaranámi. Einu sinni hefðu kennarar í heimspekiskor uppgötvað að hjá þeim hafi verið skráðir framhaldsnemendur sem kennararnir vissu engin deili á: Þeir reyndust þá vera meistaranemar í umhverfisfræðum. Nemendur sem vildu leggja stund á meistaranám í umhverfisfræðum urðu að vera innritaðir í tiltekna deild og vera á ábyrgð einhverrar skorar, enda þótt skorin hefði í sjálfu sér ekkert um þessa nemendur að segja. Sú spurning vaknaði eðlilega hvers vegna þeir væru ekki einfaldlega skráðir hjá stofnuninni og væru á ábyrgð hennar?

Í þessu sambandi mætti spyrja sig hvort ekki mætti gera greinarmun á því hver mætti standa fyrir kennslu á meistarastigi, hver ætti að ábyrgjast eða veita prófgráðuna og hver ætti að útskrifa nemendur. Þyrfti það að vera skorin eða deildin sem veitir prófgráðuna? Gæti það ekki verið skólinn? Á fræðasviðum þar sem þverfræðileg nálgun væri áberandi væri ekki sjálfgefið að tilteknar deildir ættu að ábyrgjast prófgráðuna og útskrifa nemandann; í sumum háskólum væru t.d. sérstakar nefndir sem sæju um að ábyrgjast eða veita prófgráður. Það væri spurning hvort leita ætti leiða til þess að auðvelda stofnunum af þeim toga sem hér hefðu verið nefndar aðkomu að kennslu á meistarastigi og útskrift með einhverjum slíkum hætti. En þetta þyrfti vitaskuld nánari athugunar við.

Hugtök og heiti
Með nokkrum rétti mætti halda því fram að þverfræðilegt framhaldsnám væri öðrum þræði birtingarmynd tíðarandans. Það væri hvort tveggja í senn: Hugmyndafræðileg tískusveifla og óbein afleiðing af markaðsvæðingu háskólastigsins. Það væri hugmyndafræðileg tískusveifla því að það endurspeglaði hugmyndir um að samfélagið ætti að vera fjölmenningarlegt og fræðin að grundvallast á fjölbreytilegum sjónarhornum og blómstra á mörkunum ef mörkin ættu þá ekki að leysast upp. Þverfræðilegt framhaldsnám væri einnig afleiðing af markaðsvæðingunni af því að með þverfaglegu framhaldsnámi væri verið að auka nýtingu og framleiðni háskólaverksmiðjunnar. Það væri sem sé útsmogin leið til þess að auka fjölbreytni í framhaldsnámi án þess að það hefði kostnaðarauka í för með sér.

Þar með væri að vísu ekki sagt að þverfræðilegar rannsóknir eða þverfræðlegt nám væri ekkert annað en tískusveifla og framleiðniaukning. Mörgum væri það mikið áhuga- og kappsmál að starfa að þverfræðilegum rannsóknum og framhaldsnámi og sjá ýmis sóknarfæri fyrir Háskólann í slíku námi og rannsóknum, ekki síst vegna þeirrar sérstöðu hans að vera eini alhliða háskólinn á landinu. Það væri því ekki úr vegi að gera einhverjar ráðstafanir til að auðvelda háskólakennurum að vinna saman og skapa áhugaverðar námsbrautir.

Hindranirnar fyrir þróun þverfræðilegs náms og rannsókna sem hér hefðu verið gerðar að umtalsefni virtust benda til þess að það væri í raun og veru skipulag Háskólans, skiptingin í deildir og skorir, sem væri ein helsta hindrunin í veginum fyrir því að fjölfaglegt og þverfræðilegt nám næði að blómstra. En hér væri ekki allt sem sýnist. Skipulagið væri að vísu línulegt og lóðrétt, það byggist á líkingunni af tré vísindanna, meiðinum sem skiptist í smærri greinar. Til þess að þverfræðilegt nám næði að dafna þyrfti hins vegar skipulag sem væri meira í ætt við net, þar sem lárétt flæði eða tengingar úr ýmsum áttum kæmu saman í einum punkti.

Hugtökin sem við réðum yfir til að nota um þessi mismunandi skipulagskerfi eru „stofnunin“ annar vegar (institute) og „miðstöðin“ hins vegar (centre). Þessi greinarmunur ætti sér að vísu ekki nægilega fastan sess, en þó sæjum við þessi orð stundum notuð með þessum hætti þegar talað væri annars vegar um rannsóknarstofnun og hins vegar um rannsóknarmiðstöð, kennslumiðstöð eða tungumálamiðstöð. Stofnunin sæi oftast nær um rannsóknir í tiltekinni grein eða skyldum greinum. Miðstöðin tengdi hins vegar saman óskyldar eða ólíkar greinar, gjarnan úr tveim eða fleiri deildum. Á erlendum málum kæmi fram skýr munur á þessu tvennu, en á íslensku væri sama heitið notað um hvort tveggja.

Þetta ætti sér hliðstæðu í því að við ættum í miklum vandræðum með að greina á milli ólíkra tegunda af háskólum af því að sama orðið væri notað yfir ólík alþjóðleg hugtök. Þannig væri Hugvísindastofnun t.d. kölluð á ensku Center for Research in the Humanities, sem þýddi að hún tengdi saman rannsóknir á hinum ýmsu sviðum hugvísinda, en t.d. Heimspekistofnun nefnist á hinn bóginn Institute of Philosophy, enda styddi hún eingöngu við rannsóknir í heimspeki. Stofa væri yfirleitt undirdeild í stofnun, en þó væri til dæmis Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum sjálfstæð stofnun sem tengdi saman mismunandi greinar á ákveðnu fræðasviði og væri því í eðli sínu ágætt dæmi um rannsóknarmiðstöð.

Annar greinarmunur sem gæti skipt máli í hugsun okkar um þverfræðilegt rannsóknarnám væri skiptingin í fræðigrein eða kennslugrein annars vegar (discipline) og hins vegar fræðasvið (field/area of study). Þetta sæist ágætlega í hugvísindadeild. Þar störfuðu kennarar í ólíkum greinum, einn til dæmis í bókmenntum, annar í heimspeki, þriðji í sagnfræði. Af þeim sökum ættu þeir aðild að ólíkum rannsóknarstofnunum, í þessu tilviki bókmenntafræðistofnun, heimspekistofnun og sagnfræðistofnun. En ef til væri miðstöð fyrir rannsóknir í hugmyndasögu kæmi kannski í ljós að þeir væru allir að stunda rannsóknir á því fræðasviði. Fræðasvið væru því ekki sjálfkrafa þau sömu og aðalgreinar til B.A./B.S.-prófs. Ef tekin yrði t.d. íslenska við Háskóla Íslands sem dæmi, þá væri námsgreinin íslenska kennd til B.A.-prófs, en þegar kæmi að M.A.-prófi skiptist námið í þrjú fræðasvið (íslenska málfræði, íslenskar bókmenntir og íslensk fræði).

Það mætti hugsa sér almenna útfærslu á þessu kerfi þar sem fræðasvið í framhaldsnámi væru óháð hefðbundinni skiptingu í greinar og skorir í grunnnámi. Að þessum fræðasviðum gætu komið kennarar og fræðimenn úr ólíkum greinum, skorum eða deildum. Hvert fræðasvið væri þá myndað af hópi fræðimanna sem hefðu áhuga á tilteknu rannsóknasviði og vilja til að sinna því. Hver kennari eða fræðimaður gæti átt aðild að fleiri en einu fræðasviði og hægt yrði að búa til ný fræðasvið samkvæmt almennum reglum. Fræðasvið gætu verið þverfræðileg og opin fyrir samvinnu milli deilda.

Með því að taka aftur skýringardæmi úr hugvísindadeild þá væru málvísindi kennd í öllum tungumálum í deildinni, sem skiptast á milli ýmissa skora, og þar væru fjölmargir fræðimenn sem stunduðu rannsóknir á sviði málvísinda. Hins vegar heyrði framhaldsnám í málvísindum undir eina skor. Ef málvísindi væru nú skilgreind sem fræðasvið í framhaldsnámsskóla, en ekki kennslugrein í skor, gætu allir þeir fræðimenn sem leggðu stund á rannsóknir í málvísindum átt aðild að fræðasviðinu í stað þess að vera gert erfitt um vik að koma að því með núverandi skipulagi.

Að lokum lét Gunnar í ljós þá skoðun sína að framangreindar huglægar og skipulagslegar hindranir í veginum fyrir því að þverfræðilegt framhaldsnám geti blómstrað við Háskóla Íslands væru vel yfirstíganlegar. Hins vegar væri samt ekki úr vegi að hugleiða hvort taka ætti upp markvissari hugtakanotkun til að lýsa skipulagsrammanum: Fræðigrein og stofnun, fræðasviði og miðstöð. Markviss hugtakanotkun gæti jafnframt auðveldað undirbúning að því að færa framhaldsnámið undir einn hatt.

Næstur flutti Rögnvaldur Ólafsson hugleiðingar sínar um þverfaglegar rannsóknir. Fjölluðu þær einkum um tvennt: Í fyrsta lagi þá möguleika sem Háskóli Íslands hefði til að stunda þverfaglegar rannsóknir með því að fylkja liði gegnum deildarmúra og ráðast í breið alhliða verkefni sem krefðust þekkingar á mörgum fræðasviðum. Slík verkefni væru þverfagleg í þeim skilningi að þau litu á vandamálin út frá mörgum sjónarhornum og djúpum fræðilegum skilningi á þeim öllum, í því skyni að fá sem fyllsta heildarmynd. Slík mynd fengist ekki ef aðeins væri litið á málin frá sjónarhóli einnar fræðigreinar. Lýsti Rögnvaldur þeirri skoðun sinni að í glímunni við slík verkefni bæri Háskóli Íslands höfuð og herðar yfir aðrar íslenskar stofnanir vegna þess að hann hefði öflugt starfslið á svo mörgum fræðasviðum.

Í öðru lagi hygðist hann fara nokkrum orðum um þau vandamál sem sér virtust skapast við það að innan deilda Háskólans væri oft lítið umburðarlyndi gagnvart öðrum fræðigreinum og öðru vinnulagi en tíðkaðist í viðkomandi deild. Taldi Rögnvaldur dæmi um slíkt t.d. að finna í hans eigin deild þar sem erfitt hefði reynst fyrir nýjar og þverfaglegar greinar að þroskast innan um hinar hefðbundnu greinar raunvísindanna.

Taldi Rögnvaldur að bæði þessi atriði ættu frekar við um rannsóknir en kennslu.

Hvað merkir „þverfaglegt“?
Næst vék Rögnvaldur stuttlega að sjálfu hugtakinu „þverfaglegt“. Taldi hann þetta orð oft lítt eða illa skilgreint og því væri jafnvel stundum slegið fram eins og tískuorði. Alltént væri varasamt að gefa sér að með því að rannsóknir væru þverfaglegar þýddi það að þær færu grynnra í efnið en þegar um hefðbundnar faglegar rannsóknir væri að ræða.

Þverfaglegar rannsóknir í háskólum
Hvað varðaði sjálft fyrirbærið, þverfaglegar rannsóknir, hefði þeirri skoðun vaxið mjög fylgi meðal vísindamanna á síðari árum að oft væri að finna sérlega áhugaverð viðfangsefni á mörkum hefðbundinna fræðigreina. Þessi nálgun hefði hins vegar lengi átt erfitt uppdráttar innan háskóla þar sem rík hefð væri fyrir skýrri verkaskiptingu á milli deilda og fræðigreina. Afleiðing þessa væri hins vegar sú að viðfangsefni sem í eðli sínu verða ekki leyst með aðferðum einstakra fræðigreina, yrðu vanrækt. Til að brjóta slíkt ástand upp gæti verið gagnlegt að líta á viðfangsefni sinnar eigin fræðigreinar með augum annarra greina og beita á hana annarri aðferðafræði en vanalega.

Verkefnin og vandamálin
Þar sem þetta hefði verið gert af metnaði og heilum hug hefði komið í ljós að leitin að fagþekkingu gengur ágætlega í slíku kerfi faggreina. Hins vegar kæmu einnig upp ýmis ný vandamál sem þyrfti að leysa og hefðu aðra eiginleika en hefðbundin fagleg vandamál. Til að mynda þyrftu þeir sem tækju þátt í þverfaglegum rannsóknum að búa yfir vissri lágmarksþekkingu á öðrum fræðigreinum, s.s. verkfræði, líffræði, félagsfræði og lögfræði. Slík verkefni væru þverfagleg í þeim skilningi að litið væri á verkefnin og vandamálin út frá mörgum sjónarhornum og með djúpum fræðilegum skilningi á þeim öllum. Með þessu fengist breið heildarmynd sem ekki fengist ef aðeins væri litið á málið frá sjónarhorni einnar fræðigreinar.

Skipulag
Jafnframt vöknuðu ýmsar spurningar. Til dæmis væri ekki sjálfgefið að þeir sem væru góðir rannsóknamenn á sínu fræðasviði væru jafn hæfir til að skipuleggja viðfangsefni sem næðu yfir mörg fræðasvið. Alltént væri mikil vinna fólgin í því að skipuleggja og reka stór og umfangsmikil þverfagleg rannsóknaverkefni. Hér væri að miklu leyti um að ræða sérhæfða, ófræðilega vinnu sem sérþjálfað starfsfólk þyrfti til að inna af hendi. Þverfagleg verkefni væru oft stór, skipulagning þeirra og rekstur umfangsmikill og fjármál jafnan flókin.

Þverfagleg verkefni
Á heildina litið hefði háskólum gengið misvel að koma á fót slíkum rannsóknaverkefnum. Öðru máli gegndi um þekkingarfyrirtæki þar sem öll umgjörð og nálgun væri önnur. Í slíkum fyrirtækjum væri það vanalega fyrsta skrefið að skilgreina vandamálið og síðan væri gengið í að reyna að leysa það með öllum tiltækum aðferðum. Næst væru jafnan settir upp hópar sem oftast störfuðu afmarkaðan tíma og yrðu að því búnu leystir af hólmi af nýjum hópum o.s.frv. Þessi vinnuaðferð hentaði hins vegar háskólaskipulaginu illa. Hún krefðist sterkrar verkefnisstjórnunar og skýrra valdaheimilda sem jafnan væri fyrir hendi í fyrirtækjum en ekki í háskólum.

National Academies (USA)
Næst sagði Rögnvaldur frá því að í Bandaríkjunum hafi nýlega verið gefin út fróðleg skýrsla um þverfaglegar rannsóknir (sjá http://books.nap.edu/openbook/0309094356/html/index.html). Mikið var lagt í skýrslugerðina og höfðu höfundar 40 milljónir dollara frá W.M. Keck Foundation til ráðstöfunar. Í skýrslunni væri sett fram svohljóðandi skilgreining á þverfaglegum rannsóknum:

„Interdisciplinary research (IDR) is a mode of research by teams or individuals that integrates information, data, techniques, tools, perspectives, concepts, and/or theories from two or more disciplines or bodies of specialized knowledge to advance fundamental understanding or to solve problems whose solutions are beyond the scope of a single discipline or area of research practice.“

Hverju þarf að breyta?
Til þess að þverfaglegar rannsóknir fengju að þrífast í háskólum þyrfti ýmsu að breyta. Í þessu sambandi nefndi Rögnvaldur í fyrsta lagi félagslegar aðstæður. Tryggja þyrfti að samgangur væri á milli fræðimanna af ólíkum sviðum, t.d. með sameiginlegum vinnustöðum. Þá þyrfti að auka þekkingu fræðimanna á öðrum greinum, vinna gegn fordómum, tryggja aðgengi að sérhæfðu starfsfólki, t.d. starfsfólki sem kynni að afla fjár og styrkja, og einnig þyrfti að vera fyrir hendi þekking á rekstri verkefna og verkefnastjórnun. Mikilvægt væri að koma á fót hvatakerfi sem tæki mið af kröfum þverfaglegra rannsókna, en núverandi hvatakerfi Háskóla Íslands miðaðist t.d. að mestu við hefðbundin fræðasvið og væri einstaklingsbundið og virkaði því ekki vel þegar margir færu að vinna saman. Sama máli gegndi um háskólakennslu, en hún félli betur að minni einstaklingsbundnum verkefnum en stórum víðfeðmum verkefnum. Ennfremur væri erfitt að fjármagna stór þverfagleg rannsóknaverkefni og þeir sem stjórnuðu úthlutunum úr rannsóknasjóðum vanmætu oft gildi og gagnsemi slíkra verkefna. Að endingu skipti miklu máli að fræðimennirnir þekktu fólkið sem starfaði í öðrum greinum.

Möguleikar Háskóla Íslands
Þótt yfirstíga þyrfti margar hindranir taldi Rögnvaldur að Háskóli Íslands ætti góða möguleika á að efla þverfaglegar rannsóknir til muna. Frumskilyrðinu væri nú þegar fullnægt, en það væri að hafa mikla fræðilega breidd. Við Háskóla Íslands væru stundaðar rannsóknir á fleiri sviðum en við nokkra aðra íslenska stofnun og í því lægi styrkur skólans. Til að nýta þennan styrk þyrfti hins vegar að vinna markvisst að því að auka samgang og samvinnu milli deilda og yfirstíga títtnefnda deildarmúra.

Nýjar fræðagreinar
Einnig væri mikilvægt að rækta og vernda nýjar fræðigreinar sem iðulega verða til í Háskólanum. Nýjar greinar væru vanalega ekki burðugar í fyrstu og oft gerði skipulag og viðhorf fræðasamfélagsins þeim örðugt um vik. Þótt til sanns vegar mætti færa að háskólar væru í eðli sínu íhaldssamar stofnanir væri ekki síður mikilvægt fyrir þá að fylgjast með tímanum.

Hvenær verður til fræðigrein?
Næst vitnaði Rögnvaldur í bók Páls Skúlasonar, Pælingar (bls. 138), en þar segir:

„...ný vísindagrein verður til þegar mönnum tekst að komast að niðurstöðu um það hvernig vega beri og meta sannleiksgildi kenninga um tiltekið svið eða kerfi fyrirbæra, en þetta felur í sér að þeim hafi tekist að móta aðferðir til að heimfæra kenningar að viðkomandi sviði. [...] Áður en hin nýja grein lítur dagsins ljós hafa menn orðið að fást við rannsóknir á þessu sviði um langt skeið og afla sér margvíslegra upplýsinga og vitneskju.“

Gróðurreitur eða hjarn?
Á meðan hin nýja grein væri að festa sig í sessi, hélt Rögnvaldur áfram, væri hún oft í horninu hjá viðurkenndri fræðigrein. Á meðan þetta millibilsástand varði væru hinar nýju greinar oft nefndar þverfaglegar. Algengt væri að þær nýttu sér aðferðafræði annarra greina og byggðu úr þeim sína eigin aðferðafræði. Því væri hins vegar ekki að neita að stundum ættu hinar nýju greinar erfitt uppdráttar. Dæmi um slíkt væri tölvunarfræði, sem framanaf var ekki komin með sína eigin aðferðafræði og hafði því ekki vísan samastað. Fyrst hafi henni verið komið fyrir í raunvísindadeild en síðan hafi hún verið færð yfir í verkfræðideild. Önnur dæmi væru næringarfræði sem teldist ný grein innan matvælafræðinnar, og landafræði sem nú væri fyrir komið innan raunvísindadeildar.

Nýjar greinar
Til að nýjar, þverfaglegar fræðigreinar fengju notið sín þyrfti að fara líkt að og við gróðursetningu: Sýna þyrfti nýjum sprotum alúð, þolinmæði, umburðarlyndi og gæta þess að þær fengju næga næringu.

Rektor þakkaði Gunnari og Rögnvaldi fyrir framsöguerindin og gaf orðið laust.

Málið var rætt. Lýstu fundarmenn ánægju sinni með framsöguerindin og töldu bæði þarft og tímabært að ræða þetta mikilvæga mál. Á það var bent að almennt væri vandinn minni í þverfaglegum rannsóknum en í þverfaglegu námi. Voru tilgreind ýmis dæmi þessu til staðfestingar. Til dæmis nefndi einn fundarmanna Félagsvísindastofnun sem væri samsett úr mörgum og ólíkum rannsóknastofum og þar væri skipulag mjög sveigjanlegt og margvíslegir hópar ynnu saman að verkefnum. Á hinn bóginn ættu þverfaglegar námsleiðir iðulega erfitt uppdráttar, s.s. kvennafræði, sem síðar fékk heitið kynjafræði, og fötlunarfræði. Einnig var vakin athygli á því að þverfaglegar námsleiðir ættu frekar heima á framhaldsnámsstigi en í grunnnámi. Því væri sérlega mikilvægt nú, þegar Háskólinn væri óðum að breytast í framhaldsnámsskóla, að ryðja úr vegi formlegum, skipulagslegum og fjárhagslegum hindrunum gegn því að framhaldsnámið fengi að dafna á sem fjölbreytilegastan hátt. Hvöttu nokkrir fundarmann til þess að sett yrðu upp sérstök tilraunaverkefni þar sem markvisst yrði unnið að því að fá margar deildir til að vinna saman.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, Gunnars Harðarsonar og Rögnvaldar Ólafssonar, þau Rannveig Traustadóttir, Ólafur Þ. Harðarson, Ingjaldur Hannibalsson, Guðný Guðbjörnsdóttir og Gylfi Magnússon.

Að lokum þakkaði rektor fundarmönnum fyrir góðan fund og málefnalegar umræður.

Fleira var ekki gert.

Rektor sleit fundi kl. 16.50.

Listi yfir gögn sem lögð voru fram á 16. háskólafundi 18. febrúar 2005:

    1. Dagskrá 16. háskólafundar 18. febrúar 2005.
    2. Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.
    3. Hugmyndir og tillögur um eflingu háskólafundar - glærur með framsögu Ingjaldar Hannibalssonar.
    4. Drög að viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands.
    5. Viðmið og kröfur um gæði meistaranáms við Háskóla Íslands - glærur með framsögu Rúnars Vilhjálmssonar.
    6. Drög að stefnu Háskóla Íslands gegn mismunun.
    7. Drög að stigamati fyrir kennslu.
    8. Þverfaglegar rannsóknir - glærur með framsögu Rögnvaldar Ólafssonar.