Háskólaráðsfundur 8. maí 2008 | Háskóli Íslands Skip to main content

Háskólaráðsfundur 8. maí 2008


HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR 6/2008

Ár 2008, fimmtudaginn 8. maí var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu: Kristín Ingólfsdóttir, Birna Arnbjörnsdóttir, Helgi Þorbergsson, Ólafur Þ. Harðarson, Reynir Jóhannesson (varamaður Ernu Kristínar Blöndal), Rúnar Vilhjálmsson, Valgerður Bjarnadóttir, Yngvi Eiríksson (varamaður Þóris Hrafns Gunnarssonar) og Þórdís Kristmundsdóttir. Eyjólfur Árni Rafnsson (varamaður Ingu Jónu Þórðardóttur) og Ólafur Proppé (áheyrnarfulltrúi frá KHÍ) boðuðu forföll. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Fundargerðir tveggja síðustu funda lagðar fram og samþykktar. 

1. Mál á dagskrá

1.1 Niðurstöður 25. háskólafundar 17. apríl sl.
Rektor gerði grein fyrir framlögðu yfirliti um niðurstöður 25. háskólafundar 17. apríl sl.

1.2 Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Stefna Háskóla Íslands í kennslumálum, sbr. háskólafund 17. apríl sl.
Rektor skýrði frá því að á 25. háskólafundi 17. apríl sl. hefði verið ákveðið að beina því til rektors og háskólaráðs að við framkvæmd stefnu Háskóla Íslands á sviði náms og kennslu verði fylgt þeim sjónarmiðum sem fram koma í tillögum kennslumálanefndar um þetta efni og kynntar voru á háskólafundinum. Málið var rætt. Lagði rektor til að kennslumálanefnd og gæðanefnd, í samvinnu við forseta fræðasviða, sem fyrirhugað er að ráða á næstunni, og sameiginlega stjórnsýslu, verði falið að undirbúa tillögur um innleiðingu og framkvæmd tillagna kennslumálanefndar.
- Samþykkt einróma.

1.3 Alþjóðamál Háskóla Íslands.
Rektor skýrði frá því að á undanförnum árum hafi alþjóðlegt samstarf Háskóla Íslands stóraukist og því þurfi að fara yfir alþjóðamál skólans í heild og gera áætlun um framkvæmd þeirra. Málið var rætt ítarlega og verður það áfram á dagskrá háskólaráðs.

1.4 Val og ráðning forseta fræðasviða.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Rektor gerði grein fyrir stöðu málsins og framlögðum drögum að auglýsingu um fimm ný störf forseta fræðasviða við Háskóla Íslands og drögum að starfsreglum valnefnda til að undirbúa ákvörðun háskólarektors um ráðningu þeirra. Málið var rætt ítarlega og svöruðu rektor og Þórður spurningum ráðsmanna. Fram komu tillögur um nokkrar breytingar á starfsregludrögunum og voru þau samþykkt svo breytt. Fulltrúi deilda félagsvísindasviðs og fulltrúi deilda heilbrigðisvísindasviðs óskuðu eftir heimild fundarins til að fá að víkja af fundi undir þessum dagskrárlið og var það samþykkt.

1.5 Lóðamál við Sturlugötu 10.
Rektor gerði grein fyrir forsögu málsins og helstu staðreyndum varðandi lóðina við Sturlugötu 10 sem er á svæði Háskóla Íslands. Málið var rætt ítarlega og svaraði rektor framkomnum spurningum og athugasemdum.
- Samþykkt einróma að fela rektor að vinna áfram að framgangi málsins.

2. Erindi til háskólaráðs

2.1 Erindi frá stjórn Háskólaútgáfunnar, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir stöðu málins og verður það áfram á dagskrá háskólaráðs.

2.2 Eftirfylgni við matsskýrslur sérfræðinganefnda vegna umsókna Háskólans um viðurkenningu fræðasviða heilbrigðisvísinda og félagsvísinda (sbr. liði 3.1 og 3.2) og staða mála við eftirfylgni skýrslna matshópa hugvísinda, náttúruvísinda og verk- og tæknivísinda (sbr. fund ráðsins 20. september sl.).
Rektor gerði grein fyrir málinu. Deildir á fræðasviðum hugvísinda, náttúruvísinda og verk- og tæknivísinda, sem hlutu formlega viðurkenningu menntamálaráðuneytisins í september sl., hafa þegar skilað inn tillögum um hvernig þær hyggjast bregðast við ábendingum og athugasemdum sem fram koma í matsskýrslum sérfræðinganefnda vegna viðurkenninganna. Tillögur deildanna verða kynntar í háskólaráði á næstunni. Jafnframt verður kallað eftir hliðstæðum tillögum frá deildum á fræðasviðum heilbrigðisvísinda og félagsvísinda sem hlutu formlega viðurkenningu í apríl sl.

2.3 Fyrirkomulag brautskráninga. Skipun starfshóps, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Rektor mun skipa starfshóp sem á að gera tillögur um framtíðarfyrirkomulag brautskráninga við Háskóla Íslands.

2.4 Framgangsreglur og reglur um ótímabundnar ráðningar akademískra starfsmanna. Skipan starfshóps.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Framlagt erindisbréf og skipun starfshóps um endurskoðun framgangskerfis og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna var samþykkt einróma. Starfshópinn skipa þau Jón Atli Benediktsson, formaður gæðanefndar, formaður, Arnar Gíslason, jafnréttisfulltrúi, Gísli Sigurðsson, formaður Félags háskólakennara, Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir, starfsmannastjóri, Ingibjörg Harðardóttir, prófessor í læknadeild, Jóhannes Rúnar Sveinsson, prófessor í verkfræðideild, Ólafur Þ. Harðarson, prófessor og varaforseti háskólaráðs og Ólafur Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands. Með hópnum starfa Baldvin Zarioh, verkefnisstjóri, Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs, Magnús Diðrik Baldursson, gæðastjóri og Þórunn Sigurðardóttir, lögfræðingur.

2.5 Auðkenning ritverka með nafni Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir framlagðri tillögu vísindasviðs um auðkenningu birtinga í nafni Háskóla Íslands og var hún samþykkt einróma.

3. Mál til fróðleiks

3.1 Skýrslur sérfræðingahópa vegna umsókna Háskóla Íslands um viðurkenningu á fræðasviðum heilbrigðisvísinda og félagsvísinda.

3.2 Bréf menntamálaráðherra, dags. 22. apríl sl., þar sem ráðherra staðfestir að Háskóli Íslands uppfylli þau skilyrði sem sett eru fram í lögum um háskóla nr. 63/2006 og reglum um viðurkenningu háskóla nr. 1067/2006 og tilkynnir að Háskólinn öðlist viðurkenningu á fræðasviðum heilbrigðisvísinda og félagsvísinda.

3.3 Aldarafmæli Háskóla Íslands 2011. Fulltrúar tilnefndir af Alþingi og menntamálaráðuneyti í aldarafmælisnefnd.

3.4 Umsögn Háskóla Íslands um frumvarp til laga um opinbera háskóla, þingskjal 847 - 546. mál.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.10.