Skip to main content

Háskólaráðsfundur 5. maí 2008

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR 5/2008

Ár 2008, mánudaginn 5. maí var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 12.00.

Fundinn sátu: Kristín Ingólfsdóttir, Arnfríður Guðmundsdóttir (varamaður Birnu Arnbjörnsdóttur), Eyjólfur Árni Rafnsson (varamaður Ingu Jónu Þórðardóttur), Helgi Þorbergsson, Ólafur Þ. Harðarson, Ólafur Proppé (áheyrnarfulltrúi frá KHÍ), Rúnar Vilhjálmsson, Valgerður Bjarnadóttir og Þórdís Kristmundsdóttir. Erna Kristín Blöndal og Þórir Hrafn Gunnarsson boðuðu forföll. Magnús Diðrik Baldursson ritaði fundargerð.

1. Mál á dagskrá

1.1 Umsögn Háskóla Íslands um frumvarp til laga um opinbera háskóla, þingskjal 847 - 546. mál.
Rektor greindi frá tildrögum fundarins. Á háskólafundi 17. apríl sl. var rætt um frumvarp til laga um opinbera háskóla, sem nú er til meðferðar á Alþingi, og var ákveðið að fela rektor og háskólaráði að ganga frá umsögn Háskóla Íslands um frumvarpið á grundvelli fyrri samþykkta háskólafundar og háskólaráðs og með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram komu á fundinum. Öllum fulltrúum á háskólafundi var gefinn kostur á að senda inn ábendingar innan tveggja vikna. Á háskólafundinum var jafnframt ákveðið að efna til umræðu um fjármögnun opinberra háskóla á komandi hausti. Fyrir fundinum lágu drög að umsögn Háskólans og yfirlit um ábendingar frá fulltrúum á háskólafundi sem borist höfðu. Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs og gerði ásamt rektor grein fyrir umsagnardrögunum. Málið var rætt ítarlega og framlögð drög samþykkt með nokkrum breytingum.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 13.25.