Háskólaráðsfundur 29. maí 2008 | Háskóli Íslands Skip to main content

Háskólaráðsfundur 29. maí 2008

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR 7/2008

Ár 2008, fimmtudaginn 29. maí var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu: Kristín Ingólfsdóttir, Arnfríður Guðmundsdóttir (varamaður Birnu Arnbjörnsdóttur), Árelía Eydís Guðmundsdóttir (varamaður Ólafs Þ. Harðarsonar), Erna Kristín Blöndal, Helgi Þorbergsson, Rúnar Vilhjálmsson, Valgerður Bjarnadóttir, Þórdís Kristmundsdóttir og Þórir Hrafn Gunnarsson. Eyjólfur Árni Rafnsson (varamaður Ingu Jónu Þórðardóttur) og Ólafur Proppé (áheyrnarfulltrúi frá KHÍ) boðuðu forföll. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1. Mál á dagskrá

1.1 Frumvarp til laga um opinbera háskóla. Staða mála.

Rektor greindi frá því að frumvarp til laga um opinbera háskóla lægi fyrir yfirstandandi fundi Alþingis til annarrar umræðu. Ef frumvarpið verður óbreytt að lögum mun núverandi háskólaráð starfa áfram til 1. október nk. Lagði rektor til að umboð starfsnefnda háskólaráðs verði þá einnig framlengt til 1. október nk. Magnús Diðrik Baldursson fór yfir framlagt minnisblað um verkefni í kjölfar gildistöku laganna. Málið var rætt ítarlega og svaraði rektor spurningum ráðsmanna. Tveir fulltrúar í háskólaráði lýstu vonbrigðum sínum með að ekki hafi verið komið til móts við athugasemdir í umsögn Háskóla Íslands um ákvæði frumvarpsins um samsetningu og val háskólaráðs.
- Tillaga rektors um framlengingu umboðs starfsnefnda háskólaráðs til 1. október nk. samþykkt einróma með fyrirvara um að frumvarp til laga um opinbera háskóla verði að lögum.

1.2 Tillaga frá stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. um frágang samninga vegna bygginga á lóð Vísindagarða.
Inn á fundinn kom Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. og gerði ítarlega grein fyrir framlagðri tillögu stjórnar félagsins um að óska eftir heimild háskólaráðs til að gera samning við Dulsa ehf. um sölu á byggingarrétti að Sturlugötu 2 fyrir 10.000 fermetra byggingu undir starfsemi Línuhönnunar hf. Málið var rætt og svaraði Eiríkur framkomnum spurningum og athugasemdum ráðsmanna.
- Samþykkt einróma.

1.3 Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Stuðningur við öfluga rannsóknahópa.
Inn á fundinn kom Róbert H. Haraldsson, prófessor og fulltrúi í starfshópi um ráðstöfun viðbótarfjár vegna samnings Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytisins, og gerði grein fyrir framlagðri tillögu gæðanefndar og starfshópsins um sérstakan stuðning við öfluga rannsóknahópa við Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Róbert spurningum ráðsmanna sem lýstu ánægju með tillöguna.
- Samþykkt einróma.

1.4 Erindi frá stjórn Háskólaútgáfunnar, sbr. síðasta fund.
Rúnar Vilhjálmsson, fulltrúi Félags prófessora og Félags háskólakennara, gerði grein fyrir framlagðri tillögu hans og Ólafs Þ. Harðarsonar, fulltrúa deilda félagsvísindasviðs, að stofnun sjóðs til að styrkja fræðilega útgáfu höfunda úr hópi starfsmanna Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Rúnar spurningum ráðsmanna.
- Samþykkt einróma.

2. Erindi til háskólaráðs

2.1 Erindi frá tannlæknadeild, dags. 22. maí sl., þar sem óskað er eftir stuðningi rektors og háskólaráðs við að deildin bjóði upp á BS-nám í tannsmíði.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir framlögðu erindi frá tannlæknadeild.
- Samþykkt einróma, með því skilyrði að fjármögnun námsins verði tryggð.

2.2 Þverfræðilegt meistaranám í talmeinafræði, sbr. fund ráðsins 13. desember sl.
Inn á fundinn kom Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs, og gerði grein fyrir minnisblaði um undirbúning þverfræðilegs meistaranáms í talmeinafræði við Háskóla Íslands. Málið var rætt ítarlega og svaraði Halldór spurningum ráðsmanna.
- Samþykkt einróma að fela deildarforsetum aðildardeildanna, félagsvísindadeild, hugvísindadeild og læknadeild, ásamt rektor Kennaraháskóla Íslands, að undirbúa tillögu um hvort bjóða beri upp á þverfræðilegt meistaranám í talmeinafræði haustið 2009. Hópurinn hafi samráð við Sigríði Magnúsdóttur, fulltrúa Félags talkennara og talmeinafræðinga. Hópurinn hraði vinnu sinni eins og kostur er. Halldór Jónsson kallar hópinn saman til fyrsta fundar.

2.3 Kæra til háskólaráðs frá nemanda í hjúkrunarfræðideild, dags. 19. maí sl.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir framlagðri kæru.
- Samþykkt einróma að fela þeim Helga Þorbergssyni, fulltrúa deilda raunvísindasviðs, Þórdísi Kristmundsdóttur, fulltrúa deilda heilbrigðisvísindasviðs og Þóri Hrafni Gunnarssyni, fulltrúa stúdenta, að undirbúa afgreiðslu málsins af hálfu háskólaráðs á milli funda.

2.4 Erindi frá viðskipta- og hagfræðideild, dags. 26. maí sl.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Samþykkt einróma að vísa málinu til umsagnar gæðanefndar, kennslumálanefndar og vísindanefndar. Einnig verður óskað eftir fjárhagsáætlun frá viðskipta- og hagfræðideild.

2.5 Móttaka erlendra nemenda og kennara.
Fyrir fundinum lá bréf sviðsstjóra kennslusviðs til deildarforseta, skrifstofustjóra deilda og skorarformanna um aðstoð við móttöku erlendra nemenda og kennara, m.a. samskipti við Útlendingastofnun. Rektor gerði grein fyrir málinu.

2.6 Kjör fulltrúa Háskóla Íslands í stjórn Flugkerfa hf.
Fyrir fundinum lá ársskýrsla Flugkerfa hf. fyrir árið 2007. Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu. Rektor bar upp tillögu um að Ebba Þóra Hvannberg, prófessor og forseti verkfræðideildar, verði fulltrúi Háskóla Íslands í stjórn Flugkerfa hf. og að Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs, verði varamaður. Helgi Þorbergsson, fulltrúi deilda raunvísindasviðs, sat hjá við afgreiðslu málsins.

3. Mál til fróðleiks

3.1 Bréf menntamálaráðherra, dags. 15. maí sl., þar sem ráðherra veitir Háskóla Íslands heimild til að bjóða doktorsnám á fræðasviðum hugvísinda, náttúruvísinda og verk- og tæknivísinda, sbr. erindi HÍ vegna þessara fræðasviða, dags. 22. október sl.

3.2 Verklokaskýrsla kennslumálanefndar háskólaráðs til rektors og háskólaráðs, maí 2008.

3.3 Viðburðir framundan.

3.4 Ársfundur Stofnunar fræðasetra á landsbyggðinni 21. maí sl.
Rektor gerði grein fyrir framlögðum gögnum um Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands á landsbyggðinni. Málið var rætt og luku fulltrúar í háskólaráði miklu lofsorði á blómlega starfsemi fræðasetranna.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.30.