Skip to main content

Háskólaráðsfundur 10. apríl 2008

4/2008

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2008, fimmtudaginn 10. apríl var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu: Kristín Ingólfsdóttir, Allyson Macdonald (áheyrnarfulltrúi frá KHÍ), Birna Arnbjörnsdóttir, Erna Kristín Blöndal, Eyjólfur Árni Rafnsson (varamaður Ingu Jónu Þórðardóttur), Helgi Þorbergsson, Ólafur Þ. Harðarson, Ólafur Proppé (áheyrnarfulltrúi frá KHÍ), Rúnar Vilhjálmsson, Valgerður Bjarnadóttir og Þórir Hrafn Gunnarsson. Þórdís Kristmundsdóttir, fulltrúi deilda heilbrigðisvísindasviðs, boðaði forföll og báðir varafulltrúar einnig. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Fundargerðir síðustu tveggja funda voru lagðar fram og þær samþykktar.

Áður en gengið var til dagskrár bauð rektor velkominn á fundinn Eyjólf Árna Rafnsson, framkvæmdastjóra VGK Hönnunar og varafulltrúa Ingu Jónu Þórðardóttur í háskólaráði. Einnig reifaði rektor stuttlega nokkra atburði í starfi Háskóla Íslands um þessar mundir, s.s. fyrirlestur Al Gore, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, sem haldinn var í boði embættis forseta Íslands, Glitnis og Háskóla Íslands í Háskólabíói 8. apríl sl., heimsókn stjórnenda Caltech-háskóla í Bandaríkjunum og afhendingu styrkja til þriggja nemenda Háskóla Íslands til dvalar við Caltech, móttöku rektors fyrir starfsmenn og fulltrúa stúdenta Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands í Háskólatorgi 18. apríl nk. og formlega opnun Konfúsíusarstofnunar við Háskóla Íslands 16. maí nk.

Þá gerði rektor grein fyrir afgreiðslu máls sem hófst með kæru Auðar Laxness á hendur Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni til siðanefndar Háskóla Íslands árið 2004. Nokkrir ráðsmenn tóku til máls og lýstu ánægju með meðferð og lyktir málsins af hálfu rektors.

1. Mál á dagskrá

1.1 Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Endurskoðað skipulag og stjórnkerfi Háskóla Íslands.
a) Yfirlit heita í nýju skipulagi Háskóla Íslands á íslensku og ensku.
Fyrir fundinum lá yfirlit íslenskra og enskra heita í nýju skipulagi Háskóla Íslands. Tvær breytingartillögur varðandi ensk heiti deilda höfðu borist frá hugvísindasviði: Deild erlendra tungumála, bókmennta og málsvísinda heiti Faculty of Foreign Languages, Literature and Linguistics og íslensku- og menningardeild heiti Faculty of Icelandic and Comparative Cultural Studies.
- Framlagt yfirlit íslenskra og enskra heita í nýju skipulagi Háskóla Íslands samþykkt einróma svo breytt.
b) Staða mála og næstu skref.
Rektor fór yfir stöðu mála og næstu skref við innleiðingu nýs skipulags og stjórnkerfis Háskóla Íslands. Málið var rætt.
c) Umbun til akademískra stjórnenda, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, formaður fjármálanefndar og sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og gerði grein fyrir framlagðri tillögu nefndarinnar um umbun fyrir akademíska stjórnendur í deildum og undireiningum þeirra. Í máli Guðmundar kom m.a. fram að með „umbun" væri átt við tímabundna lækkun á kennsluskyldu og með „akademískum stjórnendum" væri átt við forseta deilda og akademíska stjórnendur undireininga deilda þar sem það á við. Tillagan byggir á sömu reiknireglu og notuð hefur verið til að reikna út kennsluafslátt skorarformanna vegna stjórnunar. Þá tekur tillagan mið af nýju skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands sem gerir m.a. ráð fyrir verulegri eflingu stoðþjónustu við akademíska stjórnendur fræðasviða og deilda ásamt tilfærslu stjórnunarverkefna frá deildum til fræðasviða. Málið var rætt ítarlega og svaraði Guðmundur framkomnum spurningum og athugasemdum.
- Framlögð tillaga fjármálanefndar um umbun til forseta deilda og, eftir því sem við á, annarra akademískra stjórnenda deilda, samþykkt einróma. Reiknireglan verður tekin til endurskoðunar að einu ári liðnu í ljósi reynslunnar af nýju skipulagi og stjórnkerfi.

1.2 Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.
a) Helstu tíðindi af sameiningarmálum.
Magnús Diðrik Baldursson, fulltrúi í verkefnisstjórn sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands, gerði grein fyrir framlögðu minnisblaði um stöðu mála varðandi sameiningu skólanna. Málið var rætt ítarlega. Að umræðu lokinni þakkaði rektor Ólafi Proppé, rektor KHÍ, fyrir einstaka framgöngu hans í sameiningarvinnunni til að tryggja að sett markmið sameiningar háskólanna tveggja næðu fram að ganga.
b) Jafnréttisáætlun og stefna sameinaðs háskóla gegn mismunun.
Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi gerð nýrrar jafnréttisáætlunar fyrir sameinaðan Háskóla og endurskoðun stefnu Háskóla Íslands gegn mismunun. Málið var rætt.

- Háskólaráð felur jafnréttisnefnd HÍ að gera tillögu að endurskoðaðri jafnréttisstefnu HÍ. Vegna sameiningar KHÍ og HÍ 1. júlí nk. verði sérstaklega rætt við fulltrúa KHÍ um þeirra sjónarmið við gerð slíkrar áætlunar. Ennfremur er jafnréttisnefnd falið að yfirfara stefnu HÍ gegn mismunun og gera tillögu um breytingar sem nauðsynlegar kunna að vera. Í þessari vinnu starfi fulltrúi KHÍ með jafnréttisnefnd HÍ. Nefndin skili tillögum sínum fyrir 1. júlí nk.

1.3 Stuðningur við afburðanemendur. Drög að tillögu um Afrekssjóð stúdenta við Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs, og gerði grein fyrir framlögðum endurskoðuðum tillögum um Afrekssjóð stúdenta við Háskóla Íslands. Tillögurnar voru unnar af starfshópi háskólaráðs sem í sátu, auk Halldórs, þau Björg Björnsdóttir, verkefnisstjóri samstarfsverkefna, Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs, Þórdís Kristmundsdóttir, prófessor og fulltrúi deilda heilbrigðisvísindasviðs og Þórir Hrafn Gunnarsson, fulltrúi stúdenta. Málið var rætt ítarlega og svaraði Halldór spurningum ráðsmanna. Í umræðunni var sérstaklega fjallað um fjárhæð og fjölda styrkjanna.
- Framlagðar tillögur um Afrekssjóð stúdenta við Háskóla Íslands samþykktar einróma, en því beint til sviðsstjóra vísindasviðs að hugað verði nánar að upphæð styrkjanna. Einnig samþykkt að stjórn sjóðsins verði skipuð þeim Þórdísi Kristmundsdóttur, sem verði formaður, Björgu Björnsdóttur og Sigurði Júlíusi Grétarssyni, prófessor og formanni kennslumálanefndar háskólaráðs. Halldór Jónsson boðar til fyrsta fundar.

1.4 Aldarafmæli Háskóla Íslands 2011. Skipun afmælisnefndar.
Rektor gerði grein fyrir málinu. Miðað er við að nefndin verði skipuð fimm fulltrúum Háskóla Íslands, einum fulltrúa tilnefndum af Alþingi og einum fulltrúa tilnefndum af menntamálaráðherra.
- Samþykkt einróma að eftirtaldir skipi afmælisnefnd Háskóla Íslands: Guðrún Nordal, prófessor við hugvísindadeild, formaður, Sigurður R. Gíslason, vísindamaður á Raunvísindastofnun Háskólans, Jórunn Erla Eyfjörð, prófessor við læknadeild, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, lektor við viðskipta- og hagfræðideild og Börkur Hansen, prófessor við Kennaraháskóla Íslands. Fulltrúar Alþingis og menntamálaráðherra verða skipaðir síðar. Rektor falið að ganga frá erindisbréfi nefndarinnar og boða til fyrsta fundar.

1.5 Störf háskólakennara utan Háskólans. Áfangaskýrsla starfshóps sem skipaður var 29. nóvember sl.
Rúnar Vilhjálmsson, fulltrúi Félags prófessora og Félags háskólakennara, gerði grein fyrir framlagðri greinargerð starfshóps háskólaráðs um störf háskólafólks utan Háskólans. Starfshópinn skipa, auk Rúnars, þau Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir, sviðsstjóri starfsmannasviðs, Ólafur Þ. Harðarson, fulltrúi deilda félagsvísindasviðs og varaforseti háskólaráðs og Sigurður J. Grétarsson, prófessor við félagsvísindadeild og formaður kennslumálanefndar. Málið var rætt.
- Samþykkt einróma að fela starfshópnum að vinna málið áfram og undirbúa afgreiðslu þess fyrir 1. júlí nk.

1.6 Frumvarp til laga um opinbera háskóla.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Málið verður aftur á dagskrá háskólaráðs þegar frumvarpið hefur borist Háskólanum til umsagnar.

2. Erindi til háskólaráðs

2.1 Erindi frá stjórn Háskólaútgáfunnar vegna umsagna starfsnefnda háskólaráðs um beiðni Háskólaútgáfunnar að ráða ritstjóra til útgáfunnar, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir málinu.
- Samþykkt einróma að fela þeim Ólafi Þ. Harðarsyni og Rúnari Vilhjálmssyni að fara yfir málið í samráði við formann fjármálanefndar háskólaráðs og undirbúa afgreiðslu þess.

2.2 Stjórnir, nefndir og ráð:
a) Stjórn Rannsóknaþjónustu Háskólans.

Samþykkt samhljóða að stjórn Rannsóknaþjónustu Háskólans 2008-2010 verði skipuð sem hér segir:
Tilnefnd af samtökum atvinnulífsins: Bragi Bergsveinsson, tæknifræðingur frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Inga Sigrún Þórarinsdóttir, starfsmannastjóri Vodafone og Júlíus B. Kristinsson, fjármálastjóri ORF-Líftækni.
Tilnefnd af rektor Háskóla Íslands:
Ebba Þóra Hvannberg, prófessor og forseti verkfræðideildar, Þorsteinn Ingi Sigfússon, prófessor og forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs.
Fulltrúi deilda raunvísindasviðs sat hjá við afgreiðslu málsins.
b) Fulltrúar Háskóla Íslands og varamenn í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands hf. (RHnet)
Samþykkt samhljóða að eftirtaldir verði fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands hf. (RHnet) fyrir árið 2008.
Aðalmenn: Ebba Þóra Hvannberg, prófessor og forseti verkfræðideildar, Sæþór L. Jónsson, forstöðumaður Reiknistofnunar Háskóla Íslands og Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Varamenn: Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor við verkfræðideild, Fjóla Jónsdóttir, dósent við verkfræðideild og Jón Torfi Jónasson, prófessor við félagsvísindadeild.
Fulltrúi deilda raunvísindasviðs sat hjá.
c) Stjórn styrktarsjóða Háskóla Íslands.
Samþykkt einróma að stjórn styrktarsjóða Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2008-2011 verði skipuð þeim Ásu Ólafsdóttur, hrl. og lektor við lagadeild, Gylfa Magnússyni, dósent við viðskipta- og hagfræðideild og Jóhanni Ómarssyni, forstöðumanni einkabankaþjónustu Glitnis.

2.3 Tillögur að breytingum á reglum og að nýjum reglum.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs og gerði grein fyrir framlögðum tillögum að breytingum á reglum og að nýjum reglum.
a) Tillaga frá viðskipta- og hagfræðideild um doktorsnám í viðskiptafræði samhliða starfi.
- Frestað.
b) Tillögur frá nokkrum deildum um breytt inntökuskilyrði.
- Samþykkt samhljóða. Fulltrúi Félags prófessora og Félags háskólakennara sat hjá.

2.4 Fyrirkomulag brautskráninga. Skipun starfshóps, sbr. síðasta fund.
- Frestað.

2.5 Safnafræðinám á meistarastigi í félagsvísindadeild, sbr. fund háskólaráðs 28. júní sl.
Ólafur Þ. Harðarson gerði grein fyrir málinu. Málið var rætt ítarlega og svaraði Ólafur spurningum ráðsmanna og athugasemdum sem fram komu um faglegar forsendur námsins. Félagsvísindadeild leggur til að í upptalningu námsleiða í 114. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000 verði bætt við diplómanámi í safnafræði (15e) að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi og meistaranámi í safnafræði (60e) að loknu BA-prófi eða sambærilegu háskólaprófi. Ákvörðun um fjölda nemenda og reglur um val þeirra er frestað, þar sem ekki er stefnt að því að námið hefjist fyrr en á árinu 2009.
- Samþykkt samhljóða, en þrír sátu hjá.

3. Mál til fróðleiks

3.1 Háskóli Íslands - Traust til stofnana. Viðhorfsrannsókn Capacent-Gallup, febrúar 2008.

3.2 Dagskrá 25. háskólafundar 17. apríl nk.

3.3 Fréttatilkynning frá Háskóla Íslands, dags. 3. apríl sl.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.10.