Skip to main content

Viðurkenning til afburðanemenda

Í ársbyrjun 2000 var stofnaður Verðlaunasjóður Guðmundar P. Bjarnasonar frá Sýruparti á Akranesi og skyldi sjóðurinn notaður til að verðlauna efnilega útskriftarnemendur í eðlis- og efnafræði við Háskóla Íslands. Stofnfé sjóðsins var um 35 milljónir króna og er það með veglegri gjöfum sem hafa borist Háskóla Íslands frá einstaklingi. Fjármunirnir voru uppsafnaður sparnaður Guðmundar á um fjörutíu ára tímabili.

Guðmundur P. Bjarnason átti þess ekki kost að stunda háskólanám en starfaði sem netagerðarmaður og fiskmatsmaður á Akranesi, auk þess sem hann gerði út bátinn Bjarna Jóhannesson í félagi við bróður sinn. Hann var einn af stofnendum knattspyrnufélagsins Kára árið 1922 og Taflfélags Akraness 1933. Guðmundur stofnaði einnig sjóði til stuðnings efnilegum nemendum úr Brekkubæjarskóla, Grundarskóla og Fjölbrautaskóla Vesturlands. Enn fremur gaf hann Byggðasafninu að Görðum æskuheimili sitt, Neðri-Sýrupart, 1989.

Í frétt í Morgunblaðinu, sem birtist í tilefni af gjöf Guðmundar til háskólans, kom fram að tilefni gjafarinnar hafi verið umfjöllun um útskrift kandídata frá Háskóla Íslands og hve fáir nemendur útskrifuðust úr eðlisfræði og efnafræði. Vildi hann gera það sem hann gæti til að stuðla að því að nemendum úr þessum greinum fjölgaði. Guðmundur lést á 97 ára afmælisdegi sínum 23. febrúar 2006. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Guðmundur P. Bjarnason

Guðmundur P. Bjarnason

Fyrst var úthlutað úr sjóðnum á árinu 2000 og frá upphafi til ársins 2015 hafa yfir 40 afburðanemendur hlotið verðlaun fyrir árangur í efnafræði og eðlisfræði og hefur verðlaunaupphæðin verið á bilinu 200 þúsund til ein milljón króna. Einn af sex verðlaunahöfum ársins 2013 var María Lind Sigurðardóttir, sem var þá að ljúka BS-námi í lífefnafræði. María Lind útskrifaðist sem dúx frá Kvennaskólanum árið 2009 með einkunnina 9,61 og í viðtali af því tilefni sagði hún „að draumastarfið feli í sér að vinna að einhvers konar rannsóknum“. Eins og með marga afburðanemendur er hún ekki einhöm því að samhliða námi stundaði hún píanónám við Tónlistarskólann í Hafnarfirði og stefndi á að ljúka burtfararprófi ári síðar og æfði auk þess körfubolta með Haukum fimm sinnum í viku.

Maríu Lind þótti mikið til verðlaunanna koma og fannst þau viðurkenning á að hún hefði staðið sig vel. Verðlaunaféð notaði hún til að fara í margra mánaða ferðalag um heiminn til að víkka sjóndeildarhringinn. Sumarið 2015 kemur hún til með að starfa við Lífvísindasetur Háskóla Íslands við rannsóknavinnu og stefnir hún að frekara námi til að geta sinnt draumastarfinu – sem er enn rannsóknir!    Upplýsingar um Styrktarsjóði Háskóla Íslands má finna á sjóðavef háskólans.

Verðlaunahafar árið 2013 ásamt stjórn Verðlaunasjóðs Guðmundar P. Bjarnasonar frá Sýruparti á Akranesi.