Skip to main content

Verðmætt safn um heilbrigði og velferð þjóðarinnar

Á árinu 1982 ánafnaði Jón Steffensen, prófessor í lífeðlisfræði við Háskóla Íslands, háskólanum bókasafn sitt á sviði heilbrigðismála eftir sinn dag, í sínu nafni og látinnar eiginkonu sinnar, Kristínar Björnsdóttur Steffensen, sem lést 1972. Með gjöfinni fylgdi húseign þeirra að Aragötu 3 og skyldi andvirði hennar varið til frekari bókakaupa og til að tryggja aðstöðu þeirra sem vilja stunda rannsóknir á sviði heilbrigðismála. Jón Steffensen lést um mitt ár 1991 á 87. aldursári.   

Jón Steffensen lauk embættisprófi í læknisfræði við Háskóla Íslands og stundaði síðar framhaldsnám og rannsóknir erlendis. Hann var prófessor í líffærafræði og lífeðlisfræði við læknadeild Háskóla Íslands frá 1937-1957 en kenndi síðan eingöngu líffærafræði til ársins 1979. Hann var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Læknadeild Háskóla Íslands 1971 fyrir embættisstörf og vísindarannsóknir. Þess má geta að Jón Steffensen stofnaði rannsóknastofu í líffærafræði innan Háskóla Íslands á árinu 1938 og er hún elsta rannsóknastofa háskólans sem enn er starfandi.   

Jón Steffensen var fjölmenntaður maður og sinnti viðfangsefnum á sviði mannfræði, fornleifafræði og sagnfræði auk læknisfræði. Hann hafði mikinn áhuga á náttúrufræði en einnig á menningarsögulegum efnum, sérstaklega á upphafi Íslendinga og íslenskrar menningar og stundaði rannsóknir á þeim sviðum, einkum þær sem tengdust heilbrigði og velferð þjóðarinnar. Hann gerði viðamiklar rannsóknir á mannabeinum sem komu upp við fornleifarannsóknir á Íslandi. Rannsóknir hans leiddu til merkra vísbendinga um uppruna íslensku þjóðarinnar en einnig fjallaði hann um menningu þjóðarinnar á fyrstu öldum Íslandssögunnar. Hann safnaði bókum um sögu læknisfræðinnar og heilbrigðismála á Íslandi en einnig um náttúrufræði og sögu Íslands. Þessar bækur eru uppistaðan í gjöf þeirra hjóna til háskólans. Alls eru í safninu um 5.500 bindi bóka og tímarita og auk þess fjöldi smárita. Mörg markverð og fágæt rit eru í safninu. Þess má geta að Kristín, kona Jóns, batt fagurlega inn mörg ritanna þar eð hún fékkst við bókband í frístundum.   

Jón Steffensen og kona hans Kristín Björnsdóttir Steffensen

Jón Steffensen og kona hans Kristín Björnsdóttir Steffensen

Bókasafn þeirra hjóna er varðveitt í einu af sérsöfnum Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns undir nafni Jóns Steffensen en af andvirði annarra eigna sem þau hjón ánöfnuðu háskólanum var stofnaður sérstakur sjóður sem er varið til bókakaupa til að styrkja safnið.   

Þess má jafnframt geta að Jón Steffensen safnaði lækningaáhöldum sem urðu grunnur að minjasafni um læknisfræði og sögu heilbrigðismála á Íslandi í tengslum við Nesstofu á Seltjarnarnesi.   

Gjöf þeirra er skýr vitnisburður um hug gefendanna til vísindaiðkana í landinu og mun um langa framtíð tryggja þeim sem leggja vilja stund á sögu íslenskra heilbrigðismála og skyld efni hina bestu aðstöðu.  

Jón Steffensen