Skip to main content

Þórsteinssjóður - Stuðningur við blinda nemendur

Þórsteinssjóður var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2006 með peningagjöf frá stjórn Blindravinafélags Íslands. Sjóðurinn er stofnaður til minningar um Þórstein Bjarnason sem var stofnandi Blindravinafélagsins. Tilgangur Þórsteinssjóðs helgast af æviverki Þórsteins Bjarnasonar og tilgangi Blindravinafélags Íslands. Þórsteinn var fæddur aldamótaárið 1900 en hann lést árið 1986.   

Blindravinafélag Íslands var stofnað þann 24. janúar 1932 og var það fyrsti vísir að félagi til hjálpar fötluðum á Íslandi. Þórsteinn Bjarnason helgaði líf sitt til hjálpar blindum og sjónskertum á Íslandi á 20. öld án þess að taka nokkru sinni laun fyrir en lagði félaginu hins vegar til fé úr eigin vasa. Blindravinafélagið hafði að markmiði að hjálpa og hlynna að blindu fólki hér á landi, ungum og gömlum, vinna að útbreiðslu þekkingar á augnsjúkdómum meðal almennings og verndun sjónarinnar. Eignir félagsins voru leystar upp og hluti þeirra var lagður til Þórsteinssjóðs til þess að nafni Þórsteins og hugsjón yrði haldið á lofti ásamt kærleiksríku ævistarf hans í þágu blindra og sjónskertra.  

Þórsteinn Bjarnason var sonur Bjarna Jónssonar frá Vogi, skálds og alþingismanns, og fyrri eiginkonu hans, Guðrúnar Þorsteinsdóttur frá Haukagili í Vatnsdal. Þórsteinn var einn þriggja systkina og þegar hann var um fjögurra ára aldur skildu foreldrar hans. Þórsteinn var heilsuveill á barns- og unglingsárunum og fór móðir hans með hann til Kaupmannahafnar til lækninga og náms og vann þar fyrir þeim í nokkur ár. Dvöl Þórsteins í Kaupmannahöfn varð til þess að hann fékk áhuga á iðnvinnu fyrir blinda á Ísland.  

Þórsteinn Bjarnason

Þórsteinn Bjarnason

Fljótlega eftir heimkomu frá Kaupmannahöfn stofnaði Þórsteinn fyrirtæki sitt Körfugerðina og hafði þar af framfæri sitt eða þar til hann gaf Blindravinafélagi Íslands fyrirtæki sitt með öllu því sem því tilheyrði árið 1956. Körfugerðin fluttist þá í húsnæði Blindraiðnaðar en sjálfur fór Þórsteinn að vinna í Trésmiðjunni Víði.  

Þrátt fyrir heilsubrest var Þórsteinn brautryðjandi og var ætíð tilbúinn að gefa af sér til framdráttar góðum verkum. Hann tók þátt í að stofna Blindraiðn og Blindraskólann á tímum þegar fáir trúðu að öryrkjar væru til nokkurra starfa nýtir og ruddi leiðina fyrir það unga fólk sem síðar stofnaði sitt fyrirtæki og heitir Blindrafélagið. Sú bók- og starfsmenntun, sem ungmenni hlutu hjá Blindravinafélagi Íslands, gerði þeim kleift að gera sér grein fyrir getu sinni til sjálfsbjargar.   

Þórsteinn var í stjórn Blindravinafélags Íslands frá stofnun félagsins og formaður lengst af. Störf hans fyrir félagið voru ávallt launalaus og vann hann við stjórnun þess meðan heilsa og kraftar leyfðu og í raun lengur. Þegar nýtt sjáandi hjálparfólk var ráðið til starfa á vinnustofunni tók hann það ætíð fram að það væri þar ráðið vegna blindra svo þeir gætu haft eitthvað fyrir stafni og að þarfir blinda fólksins hefðu þar forgang.  

Fyrst af öllu er Þórsteinssjóði ætlað að styrkja blinda og sjónskerta til náms við Háskóla Íslands. Í öðru lagi er Þórsteinssjóði ætlað að efla rannsóknir á öllum fræðasviðum, sem aukið geta þekkingu á blindu og skertri sýn og afleiðingum hennar, og styðja við tækifæri blindra og sjónskertra til að auðga og efla líf sitt. Sérstök áhersla er lögð á styrki í félags- og hugvísindum er falla að tilgangi sjóðsins. Styrkir eru veittir til verkefna er falla að þessu markmiði, s.s. til rannsókna. Styrki má veita til stúdenta í rannsóknatengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands eða starfandi vísindamanna innan Háskóla Íslands.  

Margir sjónskertir nemendur við Háskóla Íslands hafa notið góðs af gjöf þessari en veitt hefur verið úr sjóðnum nær því árlega frá stofnun hans.