Skip to main content

Rausnarleg gjöf nýtt til eflingar hollvinastarfs

Margrét Hjálmtýsdóttir snyrtifræðingur sýndi Háskóla Íslands sérstakan velvilja þegar hún á árinu 1996 færði skólanum gjafaafsal af íbúð sinni á Sléttuvegi 17 en áskilið var að hún hefði umráð yfir íbúðinni meðan hún óskaði. Síðar arfleiddi hún einnig skólann að þriðjungi eigna sinna eftir sinn dag. Margrét lést í júlí 2005. Íbúð Margrétar var seld og andvirði gjafar hennar hefur nú verið ráðstafað til að endurreisa hollvinastarf Háskóla Íslands, sem er mikilvægt og verðugt verkefni.   

Margrét Hjálmtýsdóttir var menntaður snyrtifræðingur, athafnakona og frumkvöðull á sínu sviði. Hún stofnaði fyrsta formlega snyrtiskólann á Íslandi og um árabil útskrifaði hún fjölda ungra kvenna sem fegrunarsérfræðinga eftir níu mánaða nám. Í frásögnum kemur fram að Margréti hafi alla tíð verið dáð af nemendum sínum.   

Margréti var lýst sem stórgreindri og glæsilegri konu; hún var einstaklega fáguð í framkomu og smekk og fylgdi henni höfðingsbragur. Hún var „gagnrýnin, víðlesin, stálminnug, hafði næmt auga fyrir hinu skoplega, kunni óhemju af ljóðum utan að og var vel ritfær“. Margrét ritaði greinar í blöð og tímarit, m.a. í Heima er bezt og Lesbók Morgunblaðsins. Eftir hana liggur skáldsagan Litla blómið, gefin út árið 2000, um líf ungrar konu á árunum milli heimsstyrjaldanna sem ruddi sér braut með dugnaði og hæfileikum.  

Margrét Hjálmtýsdóttir

Margrét Hjálmtýsdóttir

Háskóli Íslands er ekki einn um að njóta velvildar Margrétar. Í frásögn sem birtist í Morgunblaðinu 21. júní 1992 skrifar Kjartan Jónsson kristniboði um rausnarlega gjöf hennar í þágu barna í Pokot-héraði í Kenýa. Þar gaf hún heilan grunnskóla, sem samanstóð af átta skólastofum, 50 fermetra hver. Jafnframt stóð gjöf hennar undir lagningu vatnsleiðslu til skólans, tveggja og hálfs kílómetra leið. Í viðtali við blaðamann Morgunblaðsins af þessu tilefni sagði Margrét frá því að hún hefði erft fjarskyldan ættingja í Danmörku  sem hefði hvatt hana til nota peningana sér til skemmtunar í útlöndum. Hins vegar hefði grein sem birtist í Morgunblaðinu eftir Kjartan Jónsson kristniboða, um sára þörf fyrir skólahús þar sem hann starfaði, kveikt hjá henni áhuga að nýta arfinn í þess stað fyrir börn í fátækasta héraði Kenýa.  Það varð úr og í fyrrnefndri frásögn frá júní 1992 er lýst höfðinglegum móttökum og þakklæti sem Margréti var sýnd í Kenýa við vígslu skólans.    

Sambýlismaður Margrétar var Erlendur Haraldsson, prófessor emeritus, við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, en hann var prófessor í sálfræði við skólann 1974-1999. Háskóli Íslands hefur einnig notið velvildar Erlendar, en á árinu 2007 var stofnaður sjóður í hans nafni með það að markmiði að styrkja rannsóknir fræðimanna og nemenda í framhaldsnámi á fræðasviði Erlendar sem eru rannsóknir á dulrænum fyrirbærum og meintri dulrænni reynslu.