Skip to main content

Óbilandi áhugi á raunvísindum

Eggertssjóður var stofnaður af Háskóla Íslands árið 1995 og er hann meðal fjársterkustu sjóða háskólans. Sjóðurinn heyrir undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands og er tilgangur Eggertssjóðs að styrkja rannsóknir og tækjakaup vísindamanna á sviði jarðfræði og líffræði og hefur þeim styrkjum verið sérstaklega beint til ungra vísindamanna hjá Háskóla Íslands. Stofnfé sjóðsins er erfðafé sem Eggert Briem ánafnaði Háskóla Íslands en hann hafði í lifandi lífi styrkt skólann með margvíslegum hætti, bæði rannsóknaverkefni og tækjakaup á áhugasviði hans.   

Eggert Briem var um margt sérstæður maður og átti langt og óvenjulegt lífshlaup, en hann lést á 101. aldursári árið 1996. Eggert fæddist 18. ágúst 1895 að Goðdölum í Skagafirði en fluttist síðar með foreldrum sínum á Staðastað á Snæfellsnesi. Við fæðingu þótti hann ekki lífvænlegur, nærðist illa og hélt engu niðri, ekki einu sinni móðurmjólkinni. Þótti stefna í óefni. Honum vildi það hins vegar til lífs að hryssa kastaði um haustið og var þá tekið til bragðs að gefa barninu kaplamjólk og við það braggaðist hann svo, að hann náði 100 ára aldri.   

Eggert settist í Menntaskólann árið 1911, en m.a. vegna áhuga á vélfræði varð það að ráði að hann fluttist til Þýskalands árið 1913. Dvölin í Þýskalandi varð þó endaslepp því heimstyrjöld var yfirvofandi og flutti hann sig til Bandaríkjanna og stundaði þar nám í vélskóla 1914-1918. Við lok náms veiktist hann hastarlega af Spönsku veikinni og kom því heim til Íslands árið 1918.     

Í minningargrein Kristínar Bjarnadóttur, frænku Eggerts, segir hún frá því að hann hafi ferðast mikið um Ísland á árunum 1924-28, að mestu fótgangandi. Honum hafi þá orðið ljóst, hve flugsamgöngur myndu verða til mikilla bóta í strjálbýlinu hér á landi. Hann hélt því enn til útlanda til náms og lærði flugvirkjun og fékk atvinnuflugmannsréttindi í Bandaríkjunum 1930. Að námi loknu var kreppan mikla skollin á og litla atvinnu að hafa á þessu sviði þar vestra og því síður á Íslandi. Eggert dvaldist áfram í Bandaríkjunum, vann við sitt af hverju til þess að halda sér uppi, en stundaði annars sjálfsnám í eðlisfræði. Það gerði hann með því að sækja bókasöfn og að hans eigin sögn var það aðallega vegna opins aðgengis að góðum bókasöfnum sem hann ílentist vestra. Í seinni heimstyrjöldinni vann Eggert fyrir bandaríska herinn við smíði og viðgerðir á hergögnum. Eftir stríðið starfaði hann sem vélfræðingur í verksmiðjum og fékk þar einkaleyfi, m.a. varðandi íhluti í saumavélar. Þessi einkaleyfi gáfu honum töluverðar tekjur þegar fram liðu stundir.   

Eggert kvæntist bandarískri konu, Catharine Hall Multer en hún lést árið 1958. Skömmu síðar kom Eggert í heimsókn til Íslands og kynntist þar Þorbirni Sigurgeirssyni og starfi því sem þá var að hefjast á Eðlisfræðistofnun Háskólans. Stofnunin rak segulmælingastöð í Leirvogi og þar þurfti Þorbjörn reglulega að sinna tækjum. Hann átti engan bíl en tók sér far með áætlunarbíl og bar tækin á bakinu frá þjóðvegi að stöðinni og fékk svo far „á puttanum“ til baka. Eggert sá að þarna gæti hann bætt úr og sendi Þorbirni „Plymouth drossíu“ sína að vestan, sagði hana betur komna hjá Þorbirni. Kynni þeirra urðu til þess að hann fluttist síðar heim og hóf nýjan kafla í lífi sínu. Hann hafði alla tíð haft áhuga á eðlisfræði og lesið sér mikið til um þau efni. Á Eðlisfræðistofnuninni og seinna Raunvísindastofnun Háskólans kynntist hann mönnum, sem skildu hann og voru tilbúnir til þess að ræða skoðanir hans og sjónarhorn.    

Eggert sá fljótlega að fjárskortur hamlaði því, að unnt yrði að ráðast í ýmis verkefni og tilraunir, sem hann hafði áhuga á. Hann hafði ávaxtað tekjur sínar af einkaleyfum á verðbréfamörkuðum og lifði sparsömu lífi og var því aflögufær. Hann bauðst nú til þess að gefa tæki og kosta ýmsar rannsóknir. Hann hafði ómælda ánægju af því að sjá það fé sem honum hafði áskotnast um ævina verða Raunvísindastofnun Háskólans að gagni. Styrkir hans voru sérlega mikilvægir þar sem hér var oftast um tvísýn viðfangsefni að ræða, sem fáir vildu styðja fyrr en meira var vitað og árangur var tryggur. Styrkir hans brutu ísinn og ruddu þessum verkefnum greiða braut. Hann styrkti frumvinnu sem leiddi til smíði íssjár til að kortleggja landslag undir jöklum. Hann styrkti einnig fyrstu tilraunir með örtölvur og forritun þeirra. Sú reynsla varð undirstaða í þróun rafeindavoga sem síðan byltu hér starfsháttum í fiskvinnslu og lögðu grundvöll að fyrirtækinu Marel hf.

Eggert Vilhjálmur Briem

Mynd af Eggerti Briem

Í grein um Eggert Briem sem birtist í Jökli, tímariti Jöklarannsóknafélagsins og Jarðfræðafélags Íslands, að honum látnum, er fjallað um samskipti hans við fræðimenn og starfsfólk Raunvísindastofnunar. Þar segir m.a.   

„Eftir að Eggert flutti heim til Íslands, alkominn árið 1975, var hann í yfir tvo áratugi tíður gestur á Raunvísindastofnun. Þar sökkti hann sér niður í vísindarit og ræddi við menn um nýjungar í fræðunum, rannsóknaverkefnin og hugmyndir sínar í vísindunum. Hann var einnig vinsæll þátttakandi í samkomum og sumarferðum stofnunarinnar. Ferðabúnaður hans var um margt sérstakur. Tjaldið var lítið, varla mannlengd, hringlaga með einni súlu. Svefnpokinn var þó enn merkilegri, en hann höfðu systur hans gert árið 1921 úr æðardúni og lambsull frá prestsetrinu á Staðarstað. Sá poki fylgdi Eggerti einnig í öllum jöklaferðum hans. Þótti honum betra að sofa í jöklatjaldi á brún Grímsfjalls, en í margmenninu í skálanum.“   

Í sömu grein er Eggerti lýst svona: „Eggert hafði mikinn áhuga á framförum og yndi af fræðilegri íhugun. Hann hélt þrautseigju sinni og forvitni til hinstu stundar, var opinn fyrir nýjum hugmyndum en gagnrýninn og róttækur á þann hátt að hann vildi efast um viðteknar skoðanir . Hann var fáorðum í samræðum, oft glettinn og góðlátlega stríðinn, svaraði gjarnan með spurningum, brosti og glampa i auga. Hann var hæverskur en fastur fyrir þættist hann sannfærður. Hann var hafinn yfir kapphlaup um efnisleg gæði og með taóískri nægjusemi, hugarró og velvilja bætt hann mannlíf hvar sem hann fór.“  

Sjá einnig grein eftir Sveinbjörn Björnsson í tilefni af 100 ára afmæli Eggerts Briem.  

Frekari upplýsingar um Styrktarsjóði Háskóla Íslands er að finna á sjóðavef háskólans.