Skip to main content

Maður margra heima

Á afmælisdegi Ingjalds Hannibalssonar prófessors 17. nóvember 2015 var stofnaður sjóður við Háskóla Íslands í nafni hans, en Ingjaldur lést langt um aldur fram, 62 ára gamall, í október 2014.   

Tilgangur Háskóla Íslands var Ingjaldi Hannibalssyni alla tíð mjög hugleikinn og átti Háskólinn hug hans allan. Ingjaldur arfleiddi Háskóla Íslands að öllum eigum sínum með ákvæði um að sjóður yrði stofnaður við skólann fyrir andvirðið. Sjóðurinn er fjárhagslega öflugur og í samræmi við fyrirmæli sem sett voru fram í erfðaskrá Ingjalds mun hann styrkja efnilega nemendur Háskóla Íslands til framhaldsnáms erlendis í rekstrarstjórnun, alþjóðlegum viðskiptum eða nemendur í tónlist.   

Ingjaldur átti fjölbreyttan starfsferil í atvinnulífinu og í akademíunni og var honum einstaklega lagið að leiða þessa tvo heima saman. Að loknu doktorsnámi í iðnaðarverkfræði frá Ohio State University tók hann að sér umfangsmikil störf í íslensku atvinnulífi samhliða stundakennslu við Háskóla Íslands. Akademían dró hann æ meira til sín og árið 1993 kom hann í fullt starf sem dósent í Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og varð prófessor við skólann árið 1997.   

Það var mikill fengur fyrir Háskóla Íslands að fá Ingjald til starfa og þar var hann ekki einhamur. Auk kennslu og rannsókna tók hann að sér margvísleg verkefni við stjórnun og stjórnsýslu skólans og leiddi mörg flókin verkefni fyrir hönd hans.   

Ingjaldur hafði mikinn metnað fyrir hönd skólans og bar ætíð hag hans fyrir brjósti. Hann vann öflugt starf í tengslum við nýbyggingar Háskólans, m.a. byggingu Háskólatorgs og Gimlis, og átti sæti í byggingarnefnd vegna nýbyggingar fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Hann hafði mikinn áhuga á byggingar- og skipulagsmálum skólans og var í essinu sínu á þeim vettvangi. Hann setti sig inn í fjármál og samninga þeim tengd af mikilli nákvæmni og velti fyrir sér hverju smáatriði í teikningum og útfærslum varðandi innréttingar. Ingjaldur átti, að öðrum ólöstuðum, mestan þátt í að framsýn hugmynd Páls Skúlasonar, fyrrverandi rektors, um Háskólatorg sem hjarta háskólasamfélagsins varð að veruleika og í dag þykir háskólalífið óhugsandi án Háskólatorgs.   

Ingjaldur Hannibalsson

Ingjaldur Hannibalsson

Ingjaldur var einstakur, en hann var líka sérstakur í góðum skilningi þess orðs. Einn samstarfsmaður hans lýsti honum svo: „Hann var hlýr og góður maður en samt ávallt einn með sjálfum sér.“ Hann var jafnframt mikil félagsvera og hafði gaman af að vera meðal fólks og rökræða hlutina. Hann var bóngóður og ávallt til reiðu til að veita samstarfsfólki og nemendum hollráð og aðstoð.  

Ingjaldur setti mikinn svip á skólann. Iðulega mátti sjá hann á ferð, kvikan í hreyfingum, með hæglátt bros á vör, blik í augum og úfinn makka. Oft sást líka til hans í fjörugum umræðum, svo sem á göngum Háskólans eða á Háskólatorgi, þar sem hann gaf sér tíma fyrir alla þá er vildu.   

Ingjaldur átti sín stóru áhugamál utan skólans, sem voru ferðalög og tónlist. Oft sameinaði hann þessi hugðarefni sín og sótti tónlistarviðburði erlendis. Ingjaldur var víðförull með afbrigðum. Þegar hann lést var hann nýbúinn að leggja heiminn að fótum sér, með heimsókn til allra 193 aðildarlanda Sameinuðu þjóðanna. Hann var ákaflega stoltur af því afreki. Heimskort, merkt þeim löndum sem Ingjaldur heimsótti, hangir nú uppi í stofu 101 á Háskólatorgi og er stofan nefnd eftir honum, Ingjaldsstofa.   

Ingjaldur snerti líf margra samferðamanna sinna og var þeim mikill harmdauði. Með stofnun Ingjaldssjóðs vill Háskóli Íslands heiðra minningu Ingjalds Hannibalssonar prófessors og halda nafni hans á lofti. Í samræmi við vilja hans verður sjóðurinn nýttur til að styrkja nemendur til náms á sviðum sem voru honum sérstaklega hugleikin.   

Ingjaldssjóður  

Um stofnun Ingjaldssjóðs