Skip to main content

Lífið að handan

Erlendur Haraldsson, sálfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands frá 1974-1999 og síðar prófessor emeritus við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, hefur um langt árabil stundað rannsóknir á dulrænum fyrirbærum og meintri dulrænni reynslu m.a. á sýnum/ofsjónum fólks á dánarbeði, á reynslu fólks af látnum og starfi miðla en einnig meintum minningum barna um fyrra líf og á umdeildum kraftaverkamönnum og hafa öll þessi umfjöllunarefni vakið áhuga og forvitni Íslendinga í aldanna rás.   

Á árinu 2007 varð ástríða Erlendar fyrir því yfirnáttúrulega kveikjan að því að hann stofnaði styrktarsjóð í eigin nafni, Styrktarsjóð Erlendar Haraldssonar, til að styrkja rannsóknir í anda þeirra viðfangsefna sem hann sinnti á starfsferli sínum. Sjóðnum er einnig heimilt að styrkja rannsóknir í heilsusálfræði, trúarlífssálfræði og skyldum greinum og verðlauna nemendur fyrir sérlega athyglisverð fullunnin verkefni á þessum sviðum. Styrkþegar geta verið kennarar við Háskóla Íslands, fræðimenn innan og utan Háskóla Íslands jafnt sem nemendur í meistara- eða doktorsnámi við skólann. Sjóðurinn heyrir undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands.  

Erlendur er fæddur árið 1931 og uppalinn á Seltjarnarnesi. Eftir stúdentspróf frá MR nam hann heimspeki og sálfræði beggja vegna Atlantsála og stundaði blaðamennsku á tímabili. Vakti Erlendur mikla athygli hér heima fyrir kynni sín af Kúrdum á sjöunda áratugnum en hann studdi einarðlega frelsisbaráttu þeirra í Írak. Hann dvaldi um skeið meðal þeirra og ritaði m.a. bókina Með uppreisnarmönnum í Kúrdistan árið 1964 sem var m.a. gefin út á þýsku. Erlendur lauk doktorsgráðu í sálfræði frá Háskólanum í Freiburg í Þýskalandi.   

Erlendur kenndi lengstum námskeið um tilraunasálfræði, sálfræðileg próf og aðferðafræði og var hann afkastamikill fræðimaður. Liggur eftir hann fjöldi fræðigreina og bóka. Þar má m.a. nefna bókina At the Hour of Death, sem hann gaf út ásamt Karlis Osis árið 1977(Sýnir á dánarbeði, stytt og endurbætt útgáfa 1979); Látnir í heimi lifenda (2005), en hún er byggð á niðurstöðum rannsóknar Erlendar um reynslu Íslendinga af látnu fólki, og á árinu 2013 kom út bókin Modern Miracles – Sathya Sai Baba – The Story of a Modern Day Prophet, en Sai Baba var indverskur trúarleiðtogi sem fékk orð á sig fyrir kraftaverk. Bókin byggist m.a. á samtölum við hann, fylgismenn hans og gagnrýnendur og varð Erlendur vitni að mörgu sem Sai Baba gerði og var af yfirnáttúrulegum toga. Í maí 2015 kemur út bók eftir Erlend um Indriða Indriðason miðil Indridi Indridason – The Icelandic Physical Medium, en meðhöfundur bókarinnar er Loftur R. Gissurarson.   

Erlendur Haraldsson

Erlendur Haraldsson

Þótt Erlendur sé kominn yfir áttrætt flytur hann enn fyrirlestra víða um lönd um rannsóknir sínar, sem margar sýna niðurstöður sem eru harla framandi mörgum. Árið 2012 kom svo út ævisaga Erlendar, Á vit hins ókunna, sem jafnframt er saga rannsókna hans og starfa. Óhætt er segja að hann hafi lifað óvenjulegu og viðburðaríku lífi. Sambýliskona Erlendar um þriggja áratuga skeið var Margrét Hjálmtýsdóttir en hún er einnig velgjörðamaður Háskóla Íslands og ánafnaði háskólanum húseign sína, auk þriðjungs annarra eigna sinna eftir sinn dag. Hún lést í júlí 2005.   Frekari upplýsingar um Styrktarsjóði Háskóla Íslands er að finna á sjóðavef háskólans.  
Viðtal við Erlend Haraldsson

Erlendur Haraldsson