Skip to main content

Gjafmildi Vestur-Íslendinga eflir starf HÍ

Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands var stofnaður á árinu 1964 á 50 ára afmæli félagsins. Stofnfé sjóðsins var hlutabréfaeign Vestur-Íslendinga í félaginu og var sjóðurinn stofnaður til minningar um alla þá Vestur-Íslendinga sem áttu hlut að stofnun Eimskipafélags Íslands á árinu 1914.   

Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands er einn fjársterkasti sjóður Háskóla Íslands. Höfuðtilgangur hans er að stuðla að velgengni Háskóla Íslands og styrkja efnilega stúdenta til náms við þá stofnun.   

Frumkvæði að stofnun Háskólasjóðs H/f Eimskipafélags Íslands á árinu 1964 áttu bræðurnir Árni og Grettir Eggertssynir í Winnipeg en þeir, ásamt systkinum sínum og ekkju föður þeirra, Þóreyju Eggertsson, lögðu sjóðnum til töluvert stofnfé bæði í hlutafjáreign og peningum. Jafnframt hvöttu þeir aðra Vestur-Íslendinga til að láta af hendi bréf sín í félaginu sem framlag í sjóðinn og þeir sem það gerðu fyrir árslok 1966 töldust til stofnenda hans. Faðir þeirra bræðra, Árni Eggertsson eldri, hafði við stofnun Eimskipafélags Íslands lagt fram mikla vinnu við að safna hlutafé meðal Vestur-Íslendinga. Hann var fulltrúi  Vestur-Íslendinga í stjórn Eimskipafélagins frá 1916 en eftir fráfall hans árið 1942 tóku synir hans sæti í stjórninni. Einnig var hann umboðsmaður félagsins um allt er varðaði hluthafa vestanhafs.       

Árni Eggertsson eldri fluttist með foreldrum sínum til Vesturheims árið 1887, þá tólf ára gamall. Hann þótti ábyggilegur maður og með vinnusemi og elju komst hann í góð efni. Hann var athafnamaður og stundaði fasteignasölu jafnframt því sem hann tók þátt í stjórnmálum í bæjarstjórn Winnipeg um skeið. Í fyrri heimstyrjöldinni var hann viðskiptafulltrúi Íslands í Vesturheimi og sá um innkaup á vörum þaðan á meðan öll viðskipti við meginland Evrópu voru teppt. Átti hann þannig sinn þátt í að aðstoða Íslendinga í þeim vandræðum sem stríðið skapaði þeim vegna einangrunar og vöruskorts.   

Sögulegar skýringar liggja að baki þátttöku Vestur-Íslendinga í stofnun Eimskipafélagsins árið 1914. Íslendingar fluttu í stórum hópum til Vesturheims á síðasta fjórðungi 19. aldar en einnig nokkuð fram undir fyrri heimsstyrjöld og settust flestir að í Kanada. Er talið að um fjórðungur þjóðarinnar, fimmtán til tuttugu þúsund manns, hafi flutt vestur um haf. Við stofnun Eimskipafélagsins lögðu Vestur-Íslendingar til um fimmtung af stofnhlutafé þess. Líklegt má telja að þátttaka Vestur-Íslendinga hafi ráðið úrslitum um að félagið komst á legg, félag sem skipti máli í sjálfstæðisviðleitni Íslendinga. Þátttaka þeirra er ekki síst merkileg fyrir þær sakir að arðsvon af hinu nýja samgöngufyrirtæki var lítil í upphafi og ekki var ætlunin að skip félagsins þjónuðu byggðum Vestur- Íslendinga á nokkurn hátt.  

Í Lögbergi-Heimskringlu í desember 1964, þar sem sagt er frá stofnun sjóðsins, segir m.a.: „Þegar Vestur-Íslendingar lögðu sinn ríflega skerf til stofnunar Eimskipafélagsins fyrir hálfri öld síðan, vildu þeir sýna þjóðrækni sína og tryggð við Ísland með því að styðja eitt af mestu velferðarmálum íslenzku þjóðarinnar án þess að gera sér nokkrar vonir um hagnað. Það er af sömu óeigingirninni, sem afkomendur brautryðjenda í íslenzkum siglingum hafa nú ákveðið að styðja þá stofnun, sem um ókomin ár verður aðalstöð andlegrar og verklegrar menningar á Íslandi.“  

Samkvæmt núverandi skipulagsskrá sjóðsins er hann í vörslu Landsbankans. Í áranna rás hefur Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands lagt Háskóla Íslands til töluverðar fjárhæðir. Sjóðurinn hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 2005 en þá voru; fyrir tilstilli feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar, þáverandi eigenda Landsbankans og Eimskipafélags Íslands og með fulltingi Páls Skúlasonar þáverandi rektors Háskóla Íslands; gerðar veigamiklar breytingar á fyrirkomulagi hans í því skyni að veita stúdentum í rannsóknatengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands styrki. Frá þeim tíma (til og  með árinu 2015) hefur sjóðurinn styrkt rúmlega 100 nemendur skólans í doktorsnámi um tæplega 580 milljónir króna og eru styrkirnir til allt að þriggja ára. Að auki veitti sjóðurinn 500 milljóna króna styrk til uppbyggingar Háskólatorgs á árunum 2006-2007.   

Mynd af styrkþegum úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands vorið 2011

Mynd af styrkþegum úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands vorið 2011

Einnig er vert að nefna að á 50 ára afmæli sjóðsins árið 2014 ákvað stjórn hans að styðja verkefnið „Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi“ sem hefur það að markmiði að skrá íslensk handrit í opinberum söfnun og einkaeigu í Kanada og Bandaríkjunum í gagnagrunn á vefsíðunni www.handrit.is. Verkefnið er til þriggja ára, alls um 11 milljónir króna og lýtur stjórn Árnastofnunar.   

Með sanni má segja að með velvild sinni í garð Háskóla Íslands hafi Vestur-Íslendingar, og síðar einnig eigendur og stjórnendur Eimskipafélags Íslands og Landsbankans, lagt mikið af mörkum til að styðja við starfsemi háskólans og gert honum kleift að styrkja afburðanemendur skólans og vísindamenn framtíðarinnar með öflugum hætti. Um leið hafa þeir átt sinn þátt í að Háskóli Íslands hefur hin síðari ár skipað sér í hóp 300 bestu háskóla heims.   

Frekari upplýsingar um Styrktarsjóði Háskóla Íslands er að finna á sjóðavef háskólans.