Skip to main content

Eigin lífsreynsla hvati að stofnun styrktasjóðs

Á árinu 2003 stofnaði Sigríður Lárusdóttir styrktarsjóð við Háskóla Íslands í eigin nafni af miklum stórhug. Hún ánafnaði eigur sínar til sjóðsins eftir sinn dag, en hún lést árið 2006.  

Sjóður Sigríðar Lárusdóttur heyrir undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands og var stofnaður til minningar um þá sem hafa átt um sárt að binda vegna meðfæddra sjúkdóma í mjöðm. Sjóðnum er fyrst og fremst ætlað að efla rannsóknir á sviði bæklunarlækninga barna með sérstakri áherslu á rannsóknir á meðfæddum göllum í mjaðmalið.   

Sigríður Lárusdóttir fæddist 1918 og var fimmta barn foreldra sinna.  Móðir hennar lést örfáum mánuðum eftir fæðingu hennar og fluttist hún fjögurra mánaða gömul til móðursystur sinnar og hennar manns og þar ólst hún upp sem ein barna þeirra.    

Hvatinn að stofnun sjóðsins var eigin lífsreynsla Sigríðar en hún fæddist með galla í mjaðmaliðum, sem uppgötvaðist ekki fyrr en hún byrjaði að ganga en þá var orðið of seint að lækna meinið. Hún bjó því við mikla hreyfihömlun alla tíð.   

Það aftraði henni þó ekki frá því að verða sjálfstæð og sýndi hún mikið hugrekki og kjark við að afla sér menntunar, stofna sitt eigið fyrirtæki og stunda milliríkjaviðskipti á tímum hafta og skömmtunar. Hún lærði hattasaum og stofnaði tískuverslunina Hrund á Laugavegi 27 sem hún rak um árabil.  Hún átti farsælt líf, tók virkan þátt í skátastarfi, hafði unun af að ferðast og hafði óbilandi áhuga á ættfræði. Skrifaði hún m.a. bók um ætt móður sinnar, Dalaættina, og gaf hana út árið 2000. Hún var komin á veg með að skrifa ættfræðibók um ætt föður síns þegar hún féll frá. Þá var hún ættrækin og lagði áherslu á að þekkja ættfólk sitt og hafa forgöngu um að halda ættarmót til að það kynntist innbyrðis.     

Sigríður Lárusdóttir

Sigríður Lárusdóttir

Sigríður átti ekki afkomendur og vildi hún nota veraldlegar eigur sínar til að stofna styrktarsjóð til að börn, borin og óborin, gætu notið góðs af rannsóknum fyrir tilstilli sjóðsins. Hún vildi leggja af mörkum til að forða börnum frá þeim raunum sem hún sjálf hafði mátt þola. Í tengslum við stofnun styrktarsjóðsins gafst Sigríði kostur á að heimsækja Barnaspítala Hringsins til að kynnast þeim framförum sem orðið hafa í bæklunarsjúkdómum  barna. Það varð henni sérstakt ánægjuefni að komast að því að í dag er nær alveg hægt að fyrirbyggja með einföldum hætti þá fötlun sem hún þurfti að bera alla ævi.   

Sjóðurinn er einn af um 60 styrkarsjóðum sem er í vörslu skólans. Hann hefur á undanförnum árum getað styrkt rannsóknir fræðimanna á sviði bæklunarlækninga og með því heiðrað vilja og minningu Sigríðar. Hann er því gott dæmi um hvernig góður hugur til skólans hefur skilað sér í eflingu vísinda í tiltekinni fræðigrein.   Frekari upplýsingar um Styrktarsjóði Háskóla Íslands er að finna á sjóðavef háskólans.