Skip to main content

9. háskólaþing 16. nóvember 2012

9. háskólaþing Háskóla Íslands haldið 16. nóvember 2012 í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 13.00-16.00

Dagskrá

Kl. 13.00 – 13.05 Rektor setur háskólaþing, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir fundargögnum.

Kl. 13.05 – 13.20 Dagskrárliður 1. Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands.

Kl. 13.20 – 14.40 Dagskrárliður 2. Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Aukin tengsl Háskóla Íslands við atvinnulíf.

Kl. 14.40 – 15.00 Fundarhlé.

Kl. 15.00 – 16.00 Dagskrárliður 3. Skýrsla jafnréttisnefndar háskólaráðs, Staða og þróun jafnréttismála við Háskóla Íslands 2008-2011.

Kl. 16.00 Rektor slítur háskólaþingi.


Kl. 13.00-13.05: Fundarsetning

Rektor setti háskólaþing Háskóla Íslands og bauð þingfulltrúa velkomna til starfa á Degi íslenskrar tungu. Háskólaþing er haldið í samræmi við lög um opinbera háskóla nr. 85/2008 sem tóku gildi 1. júlí 2008 og var þetta 9. háskólaþing (sem áður hét háskólafundur) Háskóla Íslands. Sérstaklega bauð rektor velkomna þá fulltrúa sem mættir voru í fyrsta sinn á þingið. Jafnframt gesti frá öðrum stofnunum, þau Björn Zoëga, forstjóra Landspítala, Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur landsbókavörð, Sigurð Ingvarsson, forstöðumann Rannsóknastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Guðrúnu Kvaran, fulltrúa Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Bryndísi Hrafnkelsdóttur, forstjóra Happdrættis Háskóla Íslands, Ernu G. Agnarsdóttur, fulltrúa Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands og Söru Sigurðardóttur, formann Stúdentaráðs.

Fundargerð síðasta háskólaþings var send fulltrúum fyrir þingið og bárust engar athugasemdir við hana. Þá gerði rektor grein fyrir tímaáætlun og gögnum fundarins og fól Magnúsi Diðriki Baldurssyni, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu og gæðastjóra háskólans, að vera fundarritari.


Kl. 13.05-13.20 - Dagskrárliður 1: Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands

Rektor fór yfir helstu verkefni umliðins vetrar og stærstu mál framundan í starfi Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands – nokkrar stærðir og staðreyndir

Stúdentar

Heildarfjöldi stúdenta við Háskóla Íslands er nú um 14.000 og eru þar af um 9.600 í grunnnámi, um 4.000 í meistaranámi og um 400 í doktorsnámi. Erlendir stúdentar við við háskólann eru um 900 talsins.

Starfsmenn

Starfsmenn Háskóla Íslands eru um 1.300 að tölu, auk um 2.000 stundakennara. Heildarfjöldi ársverka er um 1.500. Akademískir starfsmenn skiptast í 252 prófessora (26% konur), 149 dósenta (37% konur), 163 lektora (56% konur) og 77 aðjunkta (63% konur). Fastráðnir kennarar með erlent ríkisfang eru 24. Akademískir gestakennarar eru um 40 og koma ýmist úr atvinnulífi, erlendum háskólum eða stofnunum. Akademískir nafnbótarhafar eru 145 og starfa flestir þeirra við Landspítalann.

Tekjur

Heildartekjur Háskóla Íslands á árinu eru um 14 milljarðar króna og skiptast í 2/3 ríkisframlag og 1/3 sértekjur.

Nýir forsetar fræðasviða

Tveir nýir forsetar fræðasviða hafa komið til starfa að undanförnu, Inga Þórsdóttir tók við af Sigurði Guðmundssyni sem forseti Heilbrigðisvísindasviðs og Hilmar Bragi Janusson tók við af Kristínu Völu Ragnarsdóttur sem forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.

Nýtt háskólaráð

Nýtt háskólaráð tók til starfa 1. júlí sl. og er það skipað þeim Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands sem er forseti ráðsins, Berki Hansen prófessor sem er varaforseti, Ebbu Þóru Hvannberg prófessor og Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur dósent (fulltrúar háskólasamfélagsins), Guðrúnu Hallgrímsdóttur matvælaverkfræðingi og Þorfinni Skúlasyni, vefþróunarstjóra Nova (fulltrúar mennta- og menningarmálaráðherra), Jakobi Ó. Sigurðssyni, forstjóra Promens, Kristni Andersen, rannsóknastjóra Marel, og Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði (fulltrúar tilnefndir af háskólaráði), og Maríu Rut Kristinsdóttur sálfræðinema og Önnu Rut Kristjánsdóttur laganema (fulltrúar stúdenta).

Deildarforsetar 2012-2013

Deildarforsetar við fræðasvið Háskóla Íslands eru sem hér segir:

Félagsvísindasvið

• Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Félags- og mannvísindadeild

• Steinunn Hrafnsdóttir, Félagsráðgjafardeild

• Tór Einarsson, Hagfræðideild

• Róbert R. Spanó, Lagadeild

• Ómar H. Kristmundsson, Stjórnmálafræðideild

• Ingjaldur Hannibalsson, Viðskiptafræðideild

Heilbrigðisvísindasvið

• Guðrún Kristjánsdóttir, Hjúkrunarfræðideild

• Már Másson, Lyfjafræðideild

• Guðmundur Þorgeirsson, Læknadeild

• Þórhallur Ingi Halldórsson, Matvæla- og næringarfræðideild

• Sigurður J. Grétarsson, Sálfræðideild

• Teitur Jónsson, Tannlæknadeild

Hugvísindasvið

• Hólmfríður Garðarsdóttir, Deild erlendra tungumála, málvísinda og bókmennta

• Sólveig Anna Bóasdóttir, Guðfræði- og trúarbragðafræðideild

• Guðni Elísson, Íslensku- og menningardeild

• Svavar Hrafn Svavarsson, Sagnfræði- og heimspekideild

Menntavísindasvið

• Ástríður Stefánsdóttir, Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild

• Anna Kristín Sigurðardóttir, Kennaradeild

• Hanna Ragnarsdóttir, Uppeldis- og menntunarfræðideild

Verkfræði- og náttúruvísindasvið

• Ólafur Pétur Pálsson, Iðnaðar-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild

• Magnús Tumi Guðmundsson, Jarðvísindadeild

• Eva Benediktsdóttir, Líf- og umhverfisvísindadeild

• Jóhannes Rúnar Sveinsson, Rafmagns- og tölvuverkfræðideild

• Hafliði Pétur Gíslason, Raunvísindadeild

• Sigurður M. Garðarsson, Umhverfis- og byggingarverkfræðideild

Starfsáætlun fyrir háskólaárið 2012-2013

Starfsáætlun Háskóla Íslands fyrir háskólaárið 2012-2013 var samþykkt af háskólaráði 4. október sl. Áætlunin tekur einkum mið af Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016 og framkvæmdaáætlun, fjárhagsstöðu skólans og sérstökum áhersluverkefnum.

Sérstök áhersluverkefni starfsáætlunarinnar:

• Þróunar- og samstarfsverkefni

• Nýsköpun/verðmætasköpun á öllum fræðasviðum

• Nýting nýrrar tækni og framboðs á vefnámskeiðum erlendra háskóla

• Nýting og menntun mannauðs í fjölmenningarsamfélagi

Rannsóknir og nýsköpun:

• Á öllum sviðum

Aukið samstarf:

• Við rannsóknastofnanir

• háskóla

• fyrirtæki

• menningarstofnanir

Þróunar- og samstarfsverkefni við atvinnulíf:

• Landspítali, Matís, Hafrannsóknastofnun, DeCode, Hjartavernd, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum o.fl.

• Þjóðminjasafn Íslands og önnur söfn í landinu

• Skólastarf í landinu

• Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Reykjavíkurborg o.fl.

• Íþróttahreyfingin

• Alþingi, stjórnvöld, hagsmunasamtök, opinber stjórnsýsla

• Almannavarnir

• Vettvangur starfsmenntagreina

• Samtök atvinnulífsins

• Samstarfsnet opinberu háskólanna

Styrking og samhæfing innan Háskóla Íslands:

(Fræðasvið, deildir, greinar, rannsóknasetur Háskóla Íslands á landsbyggðinni)

• Endurnýjanleg orka

- Verkfræði, jarðfræði, líffræði, hagfræði, umhverfis- og auðlindafræði o.fl.

• Sjávarútvegur

- Líffræði, matvælafræði, hagfræði, tölfræði, lögfræði, næringarfræði, verkfræði, umhverfis- og auðlindafræði o.fl.

• Ferðaþjónusta

- Samfélagsvísindi, náttúruvísindi, viðskiptafræði o.fl.

• Miðaldafræði

- Íslensk fræði,  bókmenntafræði, sagnfræði, guðfræði o.fl.

• Norðurslóðir

- Loftslagsbreytingar, landfræði, lögfræði, líffræði, vistfræði, stjórnun fiskveiða, stjórnmálafræði, stjarneðlisfræði (norðurljós o.fl.), hagfræði, lýðheilsa o.fl.

- Sameiginlegt meistaranám (Ísland, Færeyjar, Grænland, Noregur): High North Management & Development

• Lífvísindi

- Sameindalíffræði, læknisfræði, líffræði, lyfjafræði, örverufræði o.fl.

• Fjarkönnun

- Rafmagns- og tölvuverkfræði, landfræði, jarðvísindi (eldfjallafræði, jöklafræði), sjávarlíffræði, landfræðileg upplýsingakerfi, umhverfis- og byggingaverkfræði (landmæling) o.fl.

Ný fyrirlestraröð: Fyrirtæki verður til

Fyrir skömmu var hleypt af stokkunum nýrri fyrirlestraröð undir heitinu „Fyrirtæki verður til“. Fyrsti fyrirlesturinn fjallar um Marel og ber heitið „Sköpunarsaga Marel – Úr háskólaverkefni í forystu á alþjóðamarkaði“.

Iceland Innovation Unconference 2012

Fyrir skömmu var haldin ráðstefna við Háskóla Íslands í samvinnu við Landsbankann og Mass TLC. Viðfangsefni ráðstefnunnar var nýsköpun og hagnýting rannsókna og var form hennar með sérstöku sniði.

Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands

Í gær, 15. nóvember 2012, voru Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands veitt í 14. sinn á alþjóðlegu athafnavikunni. Aldrei hafa fleiri tillögur borist í keppnina, en með henni vill háskólinn stuðla að nýsköpun og frumkvöðlastarfi innan skólans og verðlauna þær tillögur sem skara fram úr. Fyrstu verðlaun hlaut leiðréttingarforritið Skrambi, önnur verðlaun voru veitt fyrir tóngreini til tónbilaæfinga á smátækjum og þriðju verðlaun hlaut verkefnið stöðgun próteina með kító-fásykrum.

Samstarf við Karolinska Institutet

Háskóli Íslands og Landspítali hafa gert samkomulag við frumkvöðlaskrifstofu Karolinska stofnunarinnar (Karolinska Institutet – Innovationkontoret) í Svíþjóð um hagnýtingu hugverka annars vegar og á niðurstöðum rannsókna hins vegar. Rektor Háskóla Íslands og forstjóri Landspítala undirrituðu samkomulag þessa efnis ásamt Bo-Ragnar Tolf, forstjóra frumkvöðlaskrifstofu Karolinska.

Sprotafyrirtæki vísindamanna og stúdenta

Mikil gróska er á sviði nýsköpunar og sprotafyrirtækja meðal vísindamanna og stúdenta Háskóla Íslands. Lauslega áætlað skapa slík fyrirtæki um 150 störf og 1.000 m.kr. veltu.

Nám og kennsla

Fjölmörg verkefni eru í vinnslu á sviði sviði þróunar og gæða náms og kennslu.

· Endurskoðun stefnu um inntökukröfur og námsástundun. Vinna stendur yfir – aðgangsprófi beitt í fyrsta skipti í Hagfræðideild vorið 2012

· Mótun kennslustefnu hjá fræðasviðum og deildum (móttaka stúdenta, hæfniviðmið, kennsluhættir, námskeið fyrir kennara, gæðaferlar o.fl.)

· Endurskoðun kennslukönnunar í grunn- og framhaldsnámi

· Samræming vinnuframlags og námseiningamats

· Upplýsingatækni og vefstudd kennsla / fjarkennsla í samvinnu við erlenda háskóla

· Viðhorfskannanir meðal núverandi og fyrrverandi nemenda. Fylgst verði reglubundið með afdrifum brautskráðra nemenda.

· Námskeið og ráðgjöf fyrir kennara á vegum Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands

· Aukið samstarf við erlenda háskóla

Fjármál

Fjárlagafrumvarp 2013

Sérstakar breytingar Upphæð (m.kr.)
Aldarafmælissjóður (úr 250 í 400 m. kr.) 150,0
Hús Vigdísar Finnbogadóttur (úr 50 í 75 m. kr.) 25,0
Framlag til kennslu (vegna umframnemenda) 124,4
Hagræðingarkrafa (1% niðurskurður) -108,0
Breyting frá fyrra ári 191,4

Önnur umræða um frumvarpið fer fram 22. nóvember nk. Unnið er að því að framlagið verði aukið vegna:

- Nemenda sem ekki er greitt með

- Hækkunar á einingarverði reikniflokka

- Kjarabóta

Nýkynnt fjárfestingaáætlun stjórnvalda 2013-2015:

- Bygging Húss íslenskra fræða árið 2013-2015

- Flutningur Menntavísindasviðs frá Stakkahlíð á háskólasvæðið árið 2015

Nýtt fjármagn til háskólastarfs:

- Aukning í samkeppnissjóði 750 m.kr.

- Framlag vegna samstarfsnets opinberu háskólanna 150 m.kr.

Úthlutun úr Aldarafmælissjóði 2012-2014:

· Til ráðstöfunar 2012-2014: 1.050 m.kr. (350 m.kr. á ári)

· Skipting fjármuna á ári hverju 2012-2014 er skv. ákvörðun háskólaráðs að fenginni tillögu undirbúningshóps:

- Beint til fræðasviða (40% eða 140 m.kr.). Verður ráðstafað skv. ákvörðun fræðasviða

- Nýliðunarsjóður (35% eða 122,5 m.kr.). Verður ráðstafað í ný lektors- og nýdoktorastörf

- Innviðir (15% eða 52,5 m.kr.). Verður ráðstafað í eflingu stoðkerfis, efni, rekstur rannsókna, tæki, hugbúnað o.fl.

- Sameiginleg verkefni (10% eða 35 m.kr.). Verður ráðstafað í stuðning við sjóðasókn erlendis, Kennslumálasjóð, rafræna fjarkennslu, nýsköpun og hagnýtingu hugverka, Afreks- og hvatningarsjóð o.fl.

Erlendir styrkir

· Tekjur Háskóla Íslands úr erlendum sjóðum (gjaldeyristekjur) námu rúmlega 1.100 m.kr. árið 2011

· Ársverk í rannsóknum nemenda á meistara og doktorsstigi voru um 750 árið 2011

FutureVolc – styrkur úr 7. rammaáætlun Evrópusambandsins

· Meginmarkmið er að hanna samhæft vöktunarkerfi fyrir eldfjöll og samstarfsnet fyrir eldfjallarannsóknir

· Freysteinn Sigmundsson, sérfræðingur á Jarðvísindastofnun, ásamt fleiri vísindamönnum og starfsfólki Háskóla Íslands, Veðurstofu, Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, Samsýn og Miracle í samstarfi við evrópska háskóla og rannsóknastofnanir

· Heildarfjárhæð styrksins er 6 milljónir evra, þar af fer andvirði um 354 m.kr. til Íslands

SENATOR – styrkur úr 7. rammaáætlun Evrópusambandsins

· Meginmarkmið er að þróa og prófa hugbúnað sem aðstoðar lækna við val á lyfjum sem hæfa öldruðum

· Anna Birna Almarsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild, ásamt fleiri vísindamönnum og starfsfólki Háskóla Íslands og Landspítala í samstarfi við evrópska háskóla og rannsóknastofnanir

· Heildarfjárhæð styrksins er 6 milljónir evra, þar af fer andvirði um 110 m.kr. til Íslands

Úthlutun úr Styrktarsjóðum Háskóla Íslands til nemenda og kennara

• Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur

- Þrír doktorsnemar í hjúkrunarfræði

• Sjóður Selmu og Kay Langvad

- Prófessor í menntunarfræðum við Háskólann í Árósum

• Námsstyrkur Godtfreds Vestergaard og Elínar Brynjólfsdóttur

- Vélaverkfræðinemandi á leið til framhaldsnáms

• Afreks- og hvatningarsjóður nýnema júní 2012 – samtals 26 styrkir

• Háskólasjóður Eimskipafélagsins og Rannsóknasjóður Háskóla Íslands

- 24 styrkir til doktorsnema

• Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar

- Tveir doktorsnemar í lyfjafræði

• Minningarsjóður Bjargar Magnúsdóttur og Magnúsar Jónassonar

- Tveir doktorsnemar í ljósmóðurfræðum 

• Styrktarsjóður Watanabe

- Fjórir styrkir til lektors við læknadeild og þriggja nemenda (bæði íslenskra og japanskra)

• Styrktarsjóður Margaretar og Bents Scheving Thorsteinssonar

- Doktorsnemi í félagsfræði og meistaranemi í mannfræði

Önnur nýleg framlög

• Öryrkjabandalag Íslands

- Um kennslu og rannsóknir á sviði fötlunarfræði – 5 m.kr.

• ISAVIA

- 25 m.kr. í sjóð til að styrkja stúdenta sem vinna að lokaverkefnum í doktors- og meistaranámi sem tengjast flugi og flugtengdri starfsemi

• Göngum saman

- Styrktarfélagið hélt upp á 5 ára afmæli sitt og úthlutaði 10 m.kr. til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini

• Gjafir

- Áslaug Hafliðadóttir – Húseign að Bjarkargötu 12 og peningasjóður til eflingar íslenskri tungu

Húsnæðismál og framkvæmdir

Vatnsmýrin:

- Endurheimt votlendis í friðlandi austan Sæmundargötu

- Minningarreitur um fórnarlömb hryðjuverkanna í Ósló og Útey

Hús Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum:

- 3000 m2 bygging

- Niðurstaða dómnefndar í hönnunarsamkeppni var kynnt í maí sl.

Hús íslenskra fræða:

- 6000 m2 bygging (hlutur Háskóla Íslands verður 2000 m2)

- Hönnun lokið, gert ráð fyrir framkvæmdum 2013 í fjárfestingaáætlun stjórnvalda

Nýbygging fyrir Heilbrigðisvísindasvið við Læknagarð:

- 9000 m2 bygging

- Forhönnun lokið, vinna við deiliskipulag stendur yfir

Stækkun á 1. og 2. hæð Háskólatorgs

- 750 m2 bygging

- Framkvæmdir hafnar og standa til 2013. Framkvæmd á vegum Félagsstofnunar stúdenta

Nýbygging fyrir Menntavísindasvið

- Deiliskipulag samþykkt. Endurskoðun þarfagreiningar. Á fjárfestingaáætlun stjórnvalda 2015

Verkfræði- og náttúruvísindasvið

- Brýnn húsnæðisvandi sem þarfnast úrlausnar

Times Higher Education World University Rankings 2012-2013

• Háskóli Íslands í 271. sæti 2012-2013 (hækkun um fimm sæti frá síðustu mælingu)

• Gögn sem lögð eru til grundvallar:

- Frá Thomson Reuters (ISI), greinar í vísindatímaritum og tilvitnanir

- Viðhorfskönnun meðal vísindamanna um allan heim

- Upplýsingar frá háskólunum

- Röðunin er byggð á fimm meginþáttum:

- Kennsla, námsumhverfi (30% vægi)

- Rannsóknir, magn, sértekjur og orðspor (30%)

- Tilvitnanir, áhrif rannsóknanna (30%)

- Tekjur frá atvinnulífi, nýsköpun (2,5%)

- Alþjóðlegur prófíll, stúdentar, starfsfólk, meðhöfundar (7,5%)

- Þessir fimm matsþættir skiptast í undirflokka

Ýmsir viðburðir

· Rannsóknaverkefnið Ofurstöð í eldfjallafræði kynnt í Hátíðasal

· Haraldur Bernharðsson, dósent í miðaldafræðum við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs, hlaut í nóvember verðlaun Dags Strömbäcks fyrir framúrskarandi rannsóknir á íslenskri og gotneskri málsögu og norrænum miðaldahandritum

· Haldið var upp á 30 ára samstarfsafmæli Háskóla Íslands og Minnesota-háskóla í október sl. Við það tækifæri var samstarfssamningur skólanna endurnýjaður og lögð drög að frekara rannsóknasamstarfi

· Í október sl. heimsótti Sigurð í Jákupsstovu, rektor Fróðskaparseturs Færeyja, Háskóla Íslands

· Háskóli Íslands tók sem fyrr virkan þátt í árlegri Vísindavöku Rannís

· Árshátíð starfsfólks Háskóla Íslands 2012 var haldin 9. nóvember sl. í Hörpu

Viðurkenningar til starfsmanna Háskóla Íslands

Fyrir skömmu var þremur starfsmönnum Háskóla Íslands veitt viðurkenning fyrir lofsverðan árangur í starfi:

· Ivan Shelykh, prófessor við Raunvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til vísinda

· Brynhildur Davíðsdóttir, dósent við Hagfræðideild á Félagsvísindasviði og Líf- og umhverfisvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til kennslu

· Grettir Sigurjónsson, verkefnisstjóri hjá Kennslumiðstöð Háskóla Íslands, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til stoðþjónustu við kennslu

Dagur íslenskrar tungu

• Íslenskuþorpið þróað á vegum Háskóla Íslands í samstarfi við Listaháskólann, Syddansk Universitet í Danmörku og Interactive Institute í Svíþjóð

- Leið fyrir fólk til að læra íslensku sem annað mál

- Íslenskuþorpið er að finna innan nokkurra fyrirtækja á háskólasvæðinu og víðar í Reykjavík: á kaffihúsum, bókasafni, veitingastað, í bókabúð, bakaríi og sundlaug

- Sérstakt námsefni undirbúið

- Starfsfólk á þessum stöðum þjálfað

Kl. 13.20-14.40 - Dagskrárliður 2: Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Aukin tengsl Háskóla Íslands við atvinnulíf

Daði Már Kristófersson, dósent við Hagfræðideild og forstöðumaður þróunar- og samstarfsverkefna á rektorsskrifstofu, gerði grein fyrir málinu.

Yfirlit

• Hvað er „atvinnulíf”?

• Tengsl háskóla og atvinnulífs

• Gagnsemi samstarfs og samvinnu

• Hættur

• Hvernig hvetjum við til aukins samstarfs?

• Eitt lítið dæmi

Hvað er „atvinnulíf”?

• Öll sú atvinnustarfsemi sem stunduð er á Íslandi:

- Iðnaður og framleiðsla

- Verslun og þjónusta

- Heilbrigðiskerfið

- Menntakerfið

- Rannsóknir

Háskóli og atvinnulíf

• Háskólar gegna lykilhlutverki gagnvart atvinnulífinu

- Til skamms tíma

- Mennta starfsfólk

- Uppspretta nýsköpunar, frjórrar hugsunar og rannsókna

- Til langs tíma

- Grunnrannsóknir

- Varðveiting þekkingar

- Aðhald við samfélagið

Háskóli Íslands – lang stærsti skóli atvinnulífsins

• >70% háskólanema (um 95% doktorsnema) – sem verða þátttakendur í atvinnulífinu

• Rannsóknir og nýsköpun

- Iðnþróun, Marel, Matís, orkuiðnaður (GEORG), heilbrigðiskerfið, menntakerfið, stjórnsýsla

• Mikill fjöldi nemendaverkefna í samstarfi við atvinnulífið

• Stundakennarar – fólk úr öllum geirum atvinnulífsins

Gagnsemi samstarfs

• Fyrir háskólann

- Betri menntun

- Viðfangsefni rannsókna

- Ólík sýn á viðfangsefni

- Nýjar hugmyndir

• Fyrir atvinnulífið

- Betur menntað starfsfólk

- Aðgengi að sérfræðingum

- Gagnlegri rannsóknir

- Ólík sýn á viðfangsefni

- Nýjar hugmyndir

Hættur samfara samstarfi

• Siðferðileg álitamál

- Fjárhagsleg tengsl geta orkað tvímælis

- Mikilvægt að gera skýrar kröfur um sjálfstæði og að halda fullu gegnsæi

• Skammtímaáherslur – langtímaáherslur

- Rannsóknir í þágu atvinnulífs vs. grunnrannsóknir

- Tryggja rúm fyrir langtímahugsun

Hvað getum við gert til að efla samstarf?

Úr Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016:

• „Háskólinn leggur áherslu á að efla tengsl við atvinnulíf í landinu svo að nám og rannsóknir taki mið af aðstæðum í samfélaginu hverju sinni. Þannig stuðlar háskólinn að kröftugu atvinnulífi um leið og hann veitir nemendum sínum brautargengi í krefjandi framtíðarstörfum.”

• „Fjölgað verði tækifærum nemenda til að vinna að sjálfstæðum rannsóknaverkefnum sem tengjast atvinnu- og þjóðlífi.”

• „Fræðasvið og deildir komi á samráðsvettvangi með fulltrúum atvinnu- og þjóðlífs, m.a. til að fjalla um menntunarþarfir og gengi brautskráðra nemenda.”

• „Með þátttöku utanaðkomandi stundakennara hleypir Háskóli Íslands nýjum straumum inn í starf skólans og eflir tengsl við atvinnu- og þjóðlíf.”

Aðgerðir

• Gera samstarf sýnilegra

- Minnir okkur og samfélagið á hlutverkið

- Sýna tækifærin sem felast í samstarfi

• Auðvelda samstarf

- Skýrir rammar um samstarf

- Sérstakur vettvangur samstarfs

• Hvetja til samstarfs

- Hvatning starfsmanna

- Launahvatar

Hvað getur Háskóli Íslands boðið?

• Breiða fagþekkingu og reynslu

• Hugmyndaauðgi

• Sérfræðiþekkingu í rannsóknum

• Fjölbreytt námsframboð

- Menntun, sí- og endurmenntun

• Samvinnu um nemendaverkefni

- Á bakkalár-, meistara- og doktorsstigi

Grunnur velmegunar liggur í mannauðinum

• Framtíðin byggir á þekkingu

Rektor þakkaði Daða Má fyrir kynninguna og gaf orðið laust. Byrjuðu forsetar fræðasviðanna fimm á að gera stuttlega grein fyrir atvinnulífstengslum á þeirra vettvangi.

Fyrstur tók til máls forseti Hugvísindasviðs. Sagði hann tengsl fræðasviðsins við íslenskt athafnalíf utan skólans vera margvísleg og nefndi hann nokkur dæmi þar um. Í fyrsta lagi væri Guðfræði- og trúarbragðafræðideild í samstarfi við þjóðkirkjuna um starfsmenntanám presta og djákna, auk þess sem deildin tengdist á ýmsan hátt starfsemi annarra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga í landinu. Í öðru lagi hefðu margir kennarar landsins hlotið stóran hluta menntunar sinnar hjá Hugvísindasviði, enda væru þar boðnar námsleiðir sem sérstaklega væru ætlaðar framhaldsskólakennurum, s.s. nám í íslensku og í erlendum tungumálum. Tungumálanám á Hugvísindasviði hefði mikið hagnýtt gildi og tengist m.a. útlöndum með ýmsum hætti, bæði beint og óbeint, t.d. með aðkomu erlendra sendiráða hér á landi. Einnig mætti nefna greinar á borð við þýðingarfræði, hagnýtar þýðingar og ráðstefnutúlkun sem allar væru beinlínis tengdar atvinnulífi. Þá væri boðið nám í máltækni og stundaðar hagnýtar rannsóknir á tölvuvæðingu tungumálsins, m.a. í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Skýr vitnisburður um árangur af hagnýtingu slíkra rannsókna væri leiðréttingarforritið Skrambi, sem nýlega hefði hlotið hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands. Um væri að ræða samstarfsverkefni sérfræðinga hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og tölvunarfræðinga við Háskóla Íslands. Stefnt væri að því að forritið færi á markað árið 2013. Ennfremur væru ýmsar stofnanir á Hugvísindasviði í miklum tengslum við samfélag og atvinnulíf, s.s. Siðfræðistofnun, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum (RIKK), sem er þverfræðileg rannsóknastofnun hýst á Hugvísindasviði og hefur löngum sinnt atvinnulífstengdum verkefnum, m.a. í samstarfi við Reykjavíkurborg. Þá hefði EDDA – öndvegissetur verið í miklu sambandi við þrjú ráðuneyti og aðra opinbera stjórnsýslu og stefndi að auknu samstarfi við einkageirann. Á vettvangi Hugvísindasviðs væri einnig starfræktur Jafnréttisskólinn GEST sem er samstarfsverkefni með utanríkisráðuneytinu, með aðkomu ýmissa fyrirtækja og stofnana bæði hér á landi og erlendis, og stór liður í framlagi Íslands til alþjóðlegrar þróunaraðstoðar. Einnig mætti nefna samstarf við stofnanir á sviði mennta- og menningarmála og reyndar við mestallan menningargeirann á Íslandi. MA-nám í hagnýtri menningarmiðlun hefði blómstrað á liðnum árum og eflt tengsl háskólans við söfn og önnur menningarsetur út um allt land. Tengdist þetta einnig menningartengdri ferðaþjónustu og væru á því sviði margvísleg sóknarfæri sem huga þyrfti að á næstu árum, m.a. í tengslum við sagnfræði. Þá væri Hugvísindasvið í virku samstarfi við Þjóðskjalasafn Íslands, Þjóðminjasafn Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Ýmislegt væri framundan varðandi tengsl Háskóla Íslands við þessar stofnanir og ætti Hugvísindasvið þar ríkan hlut að máli. Loks væri vert að geta um tvær nýlegar námsgreinar, þ.e. hagnýta ritstjórn og útgáfu annars vegar og ritlist hins vegar, en þær hefðu nú þegar orðið til að efla mjög tengsl skólans við útgáfufyrirtæki og samfélag rithöfunda á Íslandi. Að endingu sagði forseti Hugvísindasviðs að mikill áhugi væri innan fræðasviðsins fyrir enn frekara samstarfi við skapandi greinar í landinu, s.s. við Kvikmyndaskóla Íslands. 

Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs sagði þetta vera fyrsta háskólaþing sem hann sæti sem fræðasviðsforseti og væri vel við hæfi að fá að byrja á að tjá sig um tengsl háskólans við atvinnulífið. Byrjaði forsetinn á að lýsa þeirri skoðun sinni að Háskóli Íslands væri órjúfanlegur hluti af atvinnulífi íslensks samfélags. Skólinn væri uppspretta hugvits og nýsköpunar sem væri nauðsynleg ef Ísland vildi komast yfir að vera öðru fremur auðlindadrifið hagkerfi. Því kysi hann að tala um hlutverk Háskóla Íslands í atvinnulífinu fremur en tengsl skólans við atvinnulífið. Þá sagði forsetinn mikilvægt að hugsa um þessi mál til lengri tíma og að hafa metnaðarfulla og skýra framtíðarsýn. Á sumum sviðum ætti samstarf háskólans við fyrirtækin sér áratuga langa sögu og sumstaðar væri það jafnvel svo sjálfsagt að oft gleymdist að nefna það. Nægði þar að nefna áratuga samstarf við stórfyrirtæki eins og Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjun, Össur, Actavis, Marel o.fl. Þátttaka og hlutverk starfsfólks Háskóla Íslands bæði við stofnun og uppbyggingu nýrra fyrirtækja hefði verið ómetanlegt og væri vel til fallið að minna á það með fyrirlestraröðinni „Fyrirtæki verður til” sem á næstunni verður hleypt af stokkunum við skólann. Til að glöggva sig á umfangi þessara atvinnulífstengsla mætti einnig nefna að í rannsóknatengdu framhaldsnámi, meistara- og doktorsnámi, við háskólann væru fólgin um 400-500 ársverk sem væri sambærilegt við að heilt álver væri starfrækt í Vatnsmýrinni. Þá sagði forsetinn að hlutverk Verkfræði- og náttúruvísindasviðs í atvinnulífinu væri margþætt og samofið faglegri framþróun atvinnulífsins. Helstu væntingar sem atvinnulífið gerði til háskólans væru um frumleika, nýsköpun og framtíðarsýn. Einnig væri hlutverk fræðasviðsins í  atvinnulífinu á mörgum stigum, þ.e. það getur verið við heildarsamtök á vettvangi atvinnulífsins, einstaka stjórnendur og eigendur eða einstakar einingar, auk þess sem fjöldi vísindamanna háskólans ættu faglegt samstarf við einstaka starfsmenn fjölda fyrirtækja. Yfirleitt væri hlutverk vísindamann það sama, þ.e. að hjálpa til við að móta framtíðarsýn til lengri tíma og að auðvelda skilning á vandamálum eða virkni einstakra þátta í starfsemi fyrirtækjanna. Á heildina litið væru væntingar til nýsköpunar af tvennu tagi, þ.a. annarsvegar að skapa nýja og arðbæra atvinnustarfsemi sem standi undir góðum lífskjörum og hins vegar að nýsköpunin leiði til skilvirkni í opinberri starfsemi sem væri nauðsynleg vegna fámennis hér á landi. Þeir tímar væru liðnir að nýsköpun fælist mestmegnis í einfaldri tækniyfirfærslu og það væri mikið lán að Háskóli Íslands byggi nú að fjárfestingu á sviðum þar sem möguleikar til nýsköpunar blöstu við. Loks nefndi forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs nokkrar aðgerðir og markmið fræðasviðsins á þessum vettvangi: Í fyrsta lagi mun fræðasviðið hafa frumkvæði að samhæfingu og forystu á þeim sviðum þar sem stundaðar eru rannsóknir í verkfræði og vísindum meðal fyrirtækja og stofnana. Í öðru lagi mun sviðið taka að sér forystuhlutverk varðandi samhæfingu nýsköpunarstarfsemi innan háskólans í því skyni að laða að fjármagn og efla samstarf fyrirtækja í tengdri starfsemi. Í þriðja lagi mun Verkfræði- og náttúruvísindasvið hafa forystu um að skapa farveg fyrir nýsköpunartækifæri innan sviðsins og í samvinnu við önnur fræðasvið háskólans. Í fjórða lagi eru uppi áform um skipulegt samstarf við Félagsvísindasvið um að samþáttun kennslu og þjálfunar í nýsköpun verði fléttuð við faglegt nám á framhaldsstigi með skipulegum, faglegum og raunhæfum aðferðum. Í fimmta lagi mun fræðasviðið beita sér fyrir innleiðingu atvinnulífstengds doktorsnáms sem lýkur með brautskráningu svokallaðra „iðnaðardoktora“. Í slíku námi felst m.a. formfesting á þeirri þekkingu sem þegar er til innan fyrirtækjanna, í gegnum nám og birtingar. Ennfremur sagði forsetinn það vera eftirsóknarvert fyrir innlenda atvinnustarfsemi að eiga að í Háskóla Íslands fólk sem hefur getu og svigrúm til að meta áhrif aðgerða, framkvæmda og ákvarðana til langs tíma. Í gegnum tíðina hefði fjöldi starfsfólks tekið að sér slíkt hlutverk í stjórnum fyrirtækja og félaga með formlegri og óformlegri ráðgjöf. Þróunin á undanförnum árum hefði hins vegar orðið sú að hag- og rekstrarstjórnun væri hugsuð til sífellt skemmri tíma og því væri fagleg sérþekking og færni til að setja fram framtíðarsýn sífellt vaxandi hluti af verðmætasköpun háskólans, ekki síst sökum þess að skólinn byggði í þessum efnum á langri hefð og reynslu. Þessum verðmætum þurfi Háskóli Íslands að koma til skila með skipulegum hætti og með virkri þátttöku í atvinnustarfsemi á öllum sviðum og öllum stigum, þ. á m. með birtingu rannsóknaniðurstaðna í ræðu og riti. Að síðustu gerði forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs að umtalsefni þá umræðu sem fram hefði farið um „fyrirtækjavæðingu“ háskóla og menntunar. Héldu sumir gagnrýnendur þeirrar þróunar því fram að háskólar líktust æ meir skyndibitakeðjum á borð við McDonalds og að færa þyrfti stjórn, skipulag og hlutverk þeirra aftur til upprunalegs horfs. Benti forsetinn í því sambandi á að máltíðir frá McDonalds hefðu sjálfsagt þótt fyrirtak á þeim tíma þegar háskólar urðu til. Þá þyrfti Háskóli Íslands ekki að óttast samlíkinguna við matvæli því sú menntun, rannsóknir og nýsköpun sem í skólanum væri stunduð væri bæði staðgóð og holl. Að öllu gamni slepptu væri engin ástæða til að óttast að háskólar væru að breytast í fyrirtæki, því þau gildi sem háskólastarfið hvíldi á væri í kjarna sínum, líkt og lögmál mannlegrar breytni, nokkurn veginn þau sömu og verið hefði alla tíð. Fyrirtæki væru ekki háskólar og háskólar væru ekki fyrirtæki því væntingar stjórnenda og eigenda væru gerólíkar.

Forseti Heilbrigðisvísindasviðs greindi frá því að deildir fræðasviðsins menntuðu yfir 95% allra heilbrigðisstarfsmanna á Íslandi. Líkt og forveri hennar á mælendaskrá sagði hún villandi að tala um tengsl háskólans við atvinnulífið því starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs væri heilbrigðisþjónusta – atvinnulíf sem fælist í kennslu, rannsóknum og nýsköpun. Til dæmis væri ekki unnt að kenna sjúkraþjálfun nema leiðbeina nemendum við æfingar. Á sama hátt væri ekki mögulegt að kenna ljósmóðurfræði án þess að sýna handbrögð og leiðbeina nemendum þegar þeir tækju á móti börnum og ekki væri hægt að kenna læknanemum að skoða sjúklinga án raunverulegra æfinga í klínísku umhverfi. Innan Heilbrigðisvísindasviðs starfaði fólk sem þjónustaði almenning þegar mest á reyndi á í lífinu, þegar börn fæddust, slys bæru að höndum eða veikindi steðjuðu að. Flestar þær faggreinar sem nú störfuðu saman í sex deildum á Heilbrigðisvísindasviði hefðu verið kenndar við Háskóla Íslands í marga áratugi og hefðu allan þann tíma verið í nánum tengslum við starfsemi utan háskólans, s.s. við Landspítala, Hjartavernd og Heilsugæsluna. Augljósasta dæmið um þetta væri starfsnám allra nemenda allra deilda Heilbrigðisvísindasviðs sem stuðlar að miklum tengslum við atvinnulífið utan háskólans. Sagði forsetinn að vinna með sérfræðiþekkingu að leiðarljósi væri í sjálfu sér atvinnulíf, t.d. í margvíslegum störfum á vettvangi heilsugæslunnar eða spítalans, með eftirliti með öryggi matvæla og mælingum á eiturefnum eða bakteríum, með því að veita aðgang að lyfjum og ráðleggja um lyfjatöku, með því að lækna og hjúkra o.s.frv. Aukin þekking á sviði heilbrigðisvísinda leiddi til aukinna lífsgæða. Gríðarlegar framfarir hefðu stuðlað að auknum kröfum um þekkingu heilbrigðisstarfsfólks og sérhæfingu.  Heilbrigðisvísindasvið ætti einnig mikið samstarf við fyrirtæki og mætti þar sérstaklega nefna rannsóknarfyrirtækin DeCode og Hjartavernd, framleiðslufyrirtæki í matvæla- og lyfjaiðnaði, auk heilsufyrirtækja margs konar. Allt hefði þetta mikla þýðingu og ætti t.d. matvæla- og lyfjaiðnaður stóran hlut í útflutningi og þjóðartekjum Íslendinga. Þannig væri t.d. lyfjaiðnaðurinn stærri hluti af íslensku hagkerfi en almennt tíðkaðist í öðrum löndum og skilaði lyfjaútflutningur um 3-4% af útflutningstekjum Íslands og hlutfall lyfjafræðinga sem starfaði hér í iðnaði væri með því hæsta sem þekktist. Ennfremur hefðu ýmis sprotafyrirtæki þróast og orðið til innan Heilbrigðisvísindasviðs, einkum á sviði læknisfræði, lyfjafræði og sjúkraþjálfunar.  Heilbrigðisvísindasvið væri það fræðasvið Háskóla Íslands sem tengdist flestum sprotafyrirtækjum og allnokkur einkaleyfi hefðu verið skráð þar. Raunar hefði fyrsta einkaleyfið í eigu Háskóla Íslands sem selt var til fyrirtækis tengst Lyfjafræðideild á Heilbrigðisvísindasviði. Á heildina litið væri óhætt að fullyrða að samstarf deilda og rannsóknarstofa við fyrirtæki hefði ekki verið á kostnað vísindalegra gæða heldur hefði samstarfið þvert á móti örvað akademískt rannsóknastarf og stuðlað að eflingu þeirra. Að endingu lagði forseti Heilbrigðisvísindasviðs áherslu á að hlúð yrði að innra starfi fræðasviðsins til að það gæti staðið sterkt að vígi í samstarfi við atvinnulífið – öflugir innviðir væru nauðsynleg forsenda þess að góð verkefni héldu áfram að þróast undir stjórn starfsmanna Háskóla Íslands.

Forseti Menntavísindasviðs sagði það vera fagnaðarefni að tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf væru á dagskrá háskólaþings. Þótt þessi tengsl væru bæði mikil og fjölbreytt væri gagnlegt að ræða þau á breiðum grundvelli og gaumgæfa hvernig feta mætti sífellt nýjar leiðir til að styrkja þau enn frekar. Sagði forsetinn að þegar horft væri til tengsla Menntavísindasviðs við atvinnulíf væri eðliegt að beina einkum sjónum að starfsvettvangi fræðasviðsins. Þegar talað væri um starfsnám væri vanalega einkum vísað til náms íþróttafræðinga, íþróttakennara, kennara, skólastjórnenda, tómstunda- og félagsmálafræðinga og þroskaþjálfa. Í þessu sambandi mætti geta þess að starfrækt væri sérstök stofnun, Símenntun, ráðgjöf og rannsóknir (SRR), sem senn yrði færð undir Menntavísindastofnun og myndi leggja áherslu á ráðgjöf og starfsþróun á vettvangi. Þá væri á Menntavísindasviði starfandi sérstakt vettvangsráð sem hefði með höndum fjölmörg verkefni tengd vettvangi, þ. á m. útgáfu Netlu sem er rafrænt veftímarit um skólamál, umfjöllun um skipulags- og launamál, s.s. umfjöllun um regluverk sem lýtur að greiðslum fyrir ráðgjöf og annað starf á vettvangi sem fer í gegnum háskólann, og vinnumat í tengslum við samstarfi við vettvang. Sjálft námið á Menntavísindasviði tengdist einnig vettvangi með ýmsum hætti, s.s. í formi starfsnáms á vettvangi, nemendaverkefna (yfirgnæfandi fjöldi lokaverkefna eru tengd starfi á vettvangi auk þess sem meiri hluti þeirra sem ljúka meistaranámi starfa á vettvangi) og stakra einingabærra námskeiða fyrir þá sem starfa á vettvangi. Þá hefur Menntavísindasvið margvíslegt samráð við aðila á vettvangi, s.s. um símenntun og starfsþróun kennara, við Kennarasamband Íslands, Þroskaþjálfafélagið, Þroskahjálp og Fjölmennt. Ýmsir samningar eru í gildi við aðila á vettvangi og er verið að undirbúa nýja samninga við Íþróttasamband Íslands um margvíslegt samstarf og við skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. Ennfremur veitir starfsfólk Menntavísindasviðs aðilum á vettvangi margvíslega faglega ráðgjöf og starfræktar eru fjölmargar rannsóknastofur sem byggja m.a. á samningum við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Þá er á Menntavísindasviði starfrækt Menntamiðja og nýtur hún m.a. styrkja frá jöfnunarsjóði sveitarfélaganna, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Reykjavíkurborg, t.d. um svonefnt Tungumálatorg fyrir grunnskólabörn með annað móðurmál en íslensku. Nefna má fleiri slík torg sem ætlað er að tengja saman fræði og hagnýtan vettvang, s.s. Náttúrufræðitorg, Sérkennslutorg og Upplýsingatæknitorg, auk þess sem fleiri torg sem sameina rafræna miðlun og persónulega ráðgjöf eru í burðarliðnum. Á Menntavísindasviði er einnig starfandi Símenntun sem starfar með skólaskrifstofum ýmissa sveitarfélaga, einstökum skólum og stendur fyrir námskeiðum og fyrirlestrum fyrir fagfólk á vettvangi. Loks nefndi forseti Menntavísindasviðs að á hverju ári eru haldnar ráðstefnur sem tengjast starfsvettvangi og með þátttöku fagfólks í atvinnulífi.

Forseti Félagsvísindasviðs sagði Háskóla Íslands hafa tvö meginmarkið: Í fyrra lagi að stunda rannsóknir og kennslu á sem flestum sviðum vísinda, sem standast alþjóðlegar gæðakröfur og fela í sér framlag til vísindasamfélags veraldarinnar. Í seinna lagi að sinna sérstaklega þörfum íslensks samfélags sem kostar starfsemi skólans. Markmiðin tvö tvinnuðust oft saman, en ekki alltaf. Fyrra markmiðið væri nauðsynleg forsenda þjóðar sem vildi búa við upplýst nútímasamfélag. Síðara markmiðið legði háskólanum á herðar margvísleg verkefni sem ekki væru almennt framlag til hins alþjóðlega vísindasamfélags. Tengsl háskóla og atvinnulífs gætu tengst báðum meginmarkmiðum háskólans en venjulega tengdust þau þó frekar síðara markmiðinu, þ.e. að sinna sérstökum þörfum íslensks samfélags. Félagsvísindasvið og deildir þess hefðu lengi verið tengd íslensku samfélagi órjúfandi böndum. Um sum slík tengsl hefði ríkt almenn sátt, en önnur væru umdeilanlegri. Nefndi forseti Félagsvísindasviðs nokkur dæmi um tengsl fræðasviðs og atvinnulífs: Í fyrsta lagi hefði stór og vaxandi hluti mannauðsins í upplýsingasamfélagi nútímans á Íslandi hlotið menntun sína í deildum Félagsvísindasviðs. Þetta ætti ekki síst við um forystustörf, bæði í einkageiranum og í opinbera geiranum. Í öðru lagi væru grunnrannsóknir kennara á íslensku samfélagi, t.d. lagakerfi, hagkerfi, stjórnmálakerfi og félagskerfi, ómissandi grundvöllur skynsamlegrar stefnumótunar og farsæls lífs í landinu. Í þriðja lagi hefðu kennarar og rannsóknastofnanir Félagsvísindasviðs sinnt margvíslegum undirbúningi löggjafar fyrir Alþingi og ríkisstjórn. Kennarar sviðsins hefðu verið eftirsóttir til starfa að margvíslegum úttektum. Nefna mætti af handahófi skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og fall íslensku bankanna 2008, nýlega úttekt á Orkuveitunni, yfirstandandi skýrslu Breiðavíkurnefndar og rannsókn á falli sparisjóðanna. Í fjórða lagi hefðu rannsóknarstofnanir á Félagsvísindasviði unnið margvísleg önnur þjónustutengd verkefni, bæði fyrir einkaaðila og hið opinbera. Dæmi um slíkar stofnanir væru Hagfræðistofnun, Lagastofnun, Viðskiptafræðistofnun, Rannsóknarstofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni, Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, Alþjóðamálastofnun og rannsóknasetur um smáríki,  MARK – Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála, auk Félagsvísindastofnunar og rannsóknasetra hennar, þ.e. Mannfræðistofnunar, Rannsóknarseturs í fötlunarfræðum, Rannsóknarstofu í vinnuvernd, Rannsóknarseturs um fólksflutninga og fjölmenningu, Sérfræðiseturs í ævilangri náms- og starfsráðgjöf, Rannsóknaseturs um fjölmiðlun og boðskipti, Rannsóknarstofu í afbrotafræði, Rannsóknaseturs í safnafræðum, Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd (RBF), Fræðaseturs þriðja geirans, Þjóðmálastofnunar, Miðstöðvar rannsóknarblaðamennsku á Íslandi, Rannsóknamiðstöðvar í þjóðfræði, Rannsóknarstofu í vinnuvernd, Rannsóknasetursins Lífshættir barna og ungmenna og Rannsóknaseturs í skatta- og velferðarmálum. Heiti þessara stofnana og setra gæfi glögga vísbendingu um fjölbreytileika verkefnanna og tengslin við flest svið mannlífsins í landinu. Í fimmta lagi hefði Félagsvísindasvið gert allmarga samninga um kostaðar stöður vegna rannsókna og kennslu. Dæmi um samstarfsaðila á þessu sviði á liðnum árum væru Öryrkjabandalag Íslands, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Rauði krossinn og Þróunarsamvinnustofnun. Í sjötta lagi hefði starfsfólk Félagsvísindasviðs tekið þátt í margvíslegum nýjungum í þverfræðilegu samstarfi við stofnanir, fyrirtæki og hagsmunasamtök. Dæmi um þetta væri nýlegur sjávarútvegsklasi. Sagði forseti Félagsvísindasviðs þessi dæmi sýna hversu blómlegt samstarf væri milli Félagsvísindasviðs og atvinnulífsins í landinu, bæði hið opinbera og einkageirann. Sumir teldu að einhver ofangreindra verkefna ættu ekki heima í háskóla því rannsóknaháskóli ætti einungis að sinna grunnrannsóknum, kennslu og vera gagnrýnin rödd í samfélaginu. Það væri vissulega virðingarvert sjónarmið og kannski eftirsóknarvert markmið í fullkomnum heimi. En í fámennu landi á borð við Ísland myndi slík stefna hins vegar þýða að flestir þeir einstaklingar sem hæfastir væru til að sinna brýnum samfélagsverkefnum gætu ekki komið að þeim – verkefnin yrðu ýmist óunnin eða unnin af miklum vanefnum. Það væri ekki góður kostur fyrir íslenskt samfélag. Bætti forsetinn því við að öflugur rannsóknaháskóli á Íslandi yrði bæði að sinna vönduðum grunnrannsóknum í félagsvísindum og á íslensku samfélagi – og jafnframt að axla margvíslegar skyldur við íslenskt þjóðfélag og atvinnulíf. Rétt jafnvægi þar á milli gæti verið vandfundið og einstigið vandratað. Hlutverk hins óháða vísindamanns og upplýsta gagnrýnanda gæti stangast á við önnur þjónustuhlutverk við samfélagið. Félagsvísindasvið vildi hins vegar áfram gera sitt besta til að sinna báðum meginmarkmiðum Háskóla Íslands: að efla vísindin almennt og íslenskt samfélag sérstaklega.

Deildarforseti Lyfjafræðideildar þakkaði fyrir góðar framsögur og sagðist taka undir margt af því sem fram hefði komið í umræðunni. Þó saknaði hann þess að lítt hefði verið fjallað um aðstöðu til rannsókna sem væri ein mikilvægasta forsenda þess að háskólinn gæti átt virk og gagnleg tengsl við atvinnulífið í landinu. Fyrirtæki sæktust eftir samstarfi við góða háskóla af því að þeir réðu yfir aðstöðu sem ekki væri til annarstaðar. Ef háskólinn hefði ekki yfir góðri aðstöðu að ráða væri mikilvæg forsenda samstarfs við fyrirtæki ekki fyrir hendi.

Deildarforseti Stjórnmálafræðideildar sagði það vera óumdeilt að Háskóli Íslands væri háskóli atvinnulífsins. Spurningin væri hins vegar, hvernig háskólinn gæti eflt þetta hlutverk enn frekar og hvatt starfsfólk til enn frekari dáða. Vitað væri að mikil eftirspurn væri eftir starfsfólki háskólans til margvíslegrar þátttöku í atvinnulífi, t.d. við þróunarstarf, ráðgjöf og sérfræðivinnu. Vandinn væri hins vegar sá að ekki væri nægileg hvatning fyrir starfsfólk til að sinna störfum af þessu tagi, t.d. í vinnumatskerfi skólans. Raunin væri sú að eftir því sem meiri áhersla væri lögð á að starfsmenn sinntu grunnrannsóknum og birtu niðurstöður þeirra ykist hættan á að atvinnulífstengslin yrðu aukastarf sem háskólafólk gæti aðeins sinnt í frítíma sínum.

Aðstoðarrektor vísinda og kennslu gerði að umtalsefni röðun háskóla skv. alþjóðlegum matslistum, s.s. lista Times Higher Education. Sagði hann að einn af fimm þáttum að baki mati Times Higher Education væri einmitt tengsl við atvinnulíf. Í nýjasta matslista tímaritsins hefði Háskóli Íslands fengið 74 af 100 mögulegum stigum fyrir atvinnulífstengsl sem væri mjög hátt. Sérstaklega kæmi háskólinn vel út í verkfræði- og tæknigreinum, s.s. tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði. Sagði aðstoðarrektor innlent samstarf, t.d. við Landspítalann, einnig skipta miklu máli í þessu sambandi því tekið væri tillit til þess við mat á háskólanum og það hefði verið afar mikilvægur þáttur í því að Háskóli Íslands hefði náð þeim árangri sem raun bæri vitni, auk þess sem slíkt samstarf gæfi tækifæri fyrir viðkomandi stofnanir til að sækja sameiginlegar um rannsóknastyrki.

Kjörinn fulltrúi Heilbrigðisvísindasviðs þakkaði fyrir góða kynningu og umræður. Benti hann á að um leið og Háskóli Íslands legði áherslu á að auka tengsl sín við atvinnulífið þyrfti skólinn að gera meira af því að kynna þessi tengsl og gera grein fyrir þeim í ræðu og riti. Af hálfu erlendra vísindatímarita væri iðulega krafist þess að niðurstöður rannsókna yrðu kynntar og slíkt væri einnig til þess fallið að auka traust og gegnsæi og draga úr efasemdum um óæskileg hagsmunatengsl í samstarfi háskóla og fyrirtækja.

Kjörinn fulltrúi stúdenta sagði að mikilvægur þáttur í eflingu tengsla háskóla og atvinnulífs væri að flétta saman nýsköpun og faglegt nám bæði á grunn- og framhaldsnámsstigi. Til að styðja við frumkvöðlahugsun þyrftu nemendur að fá tækifæri til að kynnast henni með skipulegum hætti frá upphafi náms. Þannig yrðu til lengri tíma litið til ný störf sem aftur renndi stoðum undir öflugri tengsl háskóla og atvinnulífs. Ekki væri lengur unnt að ganga að störfum vísum heldur þyrftu stúdentar að læra snemma að búa til sín eigin tækifæri og ný störf. Framtíðarþarfirnar væru það sem máli skipti – ekki aðeins fyrir tæknigreinar. Verkefni okkar væri að skapa nýtt atvinnulíf og ekki láta stjórnast af núverandi þörfum atvinnulífsins. Háskóli Íslands þyrfti að sinna þessu verkefni og þar reyndi ekki síst á forystu forseta fræðasviða. Háskóli Íslands ætti fyrst að vera háskóli stúdenta og síðan háskóli atvinnulífsins.

Deildarforseti Læknadeildar ræddi um hagnýtingu rannsóknaniðurstaðna í þágu betra mannlífs. Sagði hann að á vettvangi krabbameinsrannsókna hefði um alllangt skeið verið mikið rætt og ritað um þetta undir heitinu „translational research”. Með því væri átt við hvernig koma mætti rannsóknarþekkingu alla leið að rúmstokki sjúklingsins. Þessi hagnýtingaráhersla einskorðaðist þó ekki við krabbameinsrannsóknir heldur ætti hún erindi við rannsóknir á öllum sjúkdómum og væri vel til þess fallin að tengja saman ólík fræðasvið, s.s. heilbrigðis- og félagsvísindi.

Deildarforseti Lagadeildar þakkaði fyrir tímabæra og þarfa umræðu. Tók hann upp þráðinn frá deildarforseta Stjórnmálafræðideildar og sagði umræðuna um samstarf háskóla og atvinnulífs tengjast tiltekinni togstreitu í háskólastarfinu. Háskólastarf snérist um kennslu og rannsóknir og þar væri gerð krafa í fyrsta lagi um helgun í starfi og í öðru lagi um hlutlægni. Mikilvægt væri að hafa hugfast að þegar reynt væri að verða við þessum kröfum gæti skapast spenna. Þannig væri t.d. starfsfólk Lagadeildar í hverri viku beðið um að vinna verkefni fyrir hið opinbera. Þegar kennari yrði við slíkri beiðni vaknaði sú spurning hvernig það nýttist honum í matskerfi opinberu háskólanna. Svarið við spurningunni væri því miður ekki uppörvandi því ljóst væri að störf fyrir atvinnu- og þjóðlíf væru lítils metin í rannsóknamatskerfinu. Sagðist deildarforseti Lagadeildar t.d. sjálfur hafa tekið að sér að gegna formennsku í svonefndri Breiðavíkurnefnd og hefði starfið varað í fimm ár, en ein grein í vísindariti hefði skilað honum meiru í vinnumatskerfinu. Slík þjónustustörf væru því aukastörf í þeim skilningi að þau væru lítils metin. Að endingu vék deildarforsetinn að öðru og sagði að eftir fall íslensku bankanna væri ríkjandi í þjóðfélaginu viss efi varðandi tengsl háskóla og atvinnulífs. Ef þetta ætti ekki að verða til þess að draga úr þátttöku háskólans í atvinnu- og þjóðlífi væri mikilvægt að háskólinn hvetti fólk til að sinna slíkri þjónustu og setti jafnframt skýrar reglur um gegnsæi til að draga úr tortryggni.

Fulltrúi Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands vék að hlutverki sí- og endurmenntunar í sambandi við tengsl háskóla og atvinnulífs. Sagði hún að Endurmenntunarstofnun væri öflugur farvegur fyrir samstarf þessara aðila og hefði stofnunin m.a. gert tugi samstarfssamninga við atvinnulífið og byggi því yfir mikilli þekkingu og reynslu. Endurmenntun þjónustaði um 6-7.000 nemendur á ári og hefði samstarf við flest atvinnufyrirtæki og fagfélög í landinu. Því væru miklir möguleikar fólgnir í auknu samstarfi háskóladeildanna við Endurmenntun. Mikilvægt væri að deildir háskólans gerðu sér grein fyrir þessu og færðu sér í nyt til hins ítrasta samstarf við stofnunina. Í því sambandi væru hins vegar fyrir hendi ákveðnar formlegar hindranir sem ryðja þyrfti úr vegi.

Daði Már þakkaði fyrir góða umræðu og margar gagnlegar ábendingar. Sagði hann að tengsl Háskóla Íslands við atvinnulíf væri málefni sem varðaði okkur mikils og halda þyrfti umræðunni áfram eftir háskólaþing. Atvinnulífstengsl væru eitt af mikilvægustu hlutverkum háskólans og huga þyrfti alvarlega að því hvernig skólinn gæti rækt það sem best. Að lokum minnti Daði Már á að hann gegndi hálfu starfi sem forstöðumaður þróunar- og samstarfsverkefna á rektorsskrifstofu og hvatti hann þingfulltrúa til að koma að máli við sig ef óskað væri ráðgjafar eða stuðnings.

Rektor þakkaði fyrir góðar umræður og sagði að þau sjónarmið sem fram hefðu komið á háskólaþinginu yrðu nýttar til að vinna skipulega áfram að áherslum í Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016 um aukin tengsl við atvinnulíf á öllum sviðum.

Til máls tóku undir þessum dagskrárlið, auk rektors og Daða Más Kristóferssonar, þau Ástráður Eysteinsson, Ólafur Þ. Harðarson, Hilmar B. Janusson, Inga Þórsdóttir, Jón Torfi Jónasson, Már Másson, Ómar H. Kristmundsson, Jón Atli Benediktsson, Karl G. Kristinsson, Anna Marsibil Clausen, Guðmundur Þorgeirsson, Róbert R. Spanó og Erna Guðrún Agnarsdóttir.

Að loknu háskólaþingi var send út svohljóðandi fréttatilkynning frá Háskóla Íslands:

Mikil verðmæti af erlendum rannsóknastyrkjum

„Tekjur Háskóla Íslands úr erlendum sjóðum jukust um 70% frá 2008 til 2011 og námu rúmlega 1.100 m.kr. árið 2011,“ sagði Daði Már Kristófersson, dósent í náttúruauðlindahagfræði, á fjölmennu háskólaþingi sem fór fram í Háskóla Íslands í dag. Daði ræddi þar sérstaklega tengsl Háskóla Íslands við atvinnulíf og beinan ávinning af rannsóknum skólans. Í stefnu háskólans 2011 til 2016 er lögð áhersla á að auka tengsl við atvinnulíf með markvissum aðgerðum. Sköpuðust fjörlegar umræður um þetta málefni á þinginu þar sem fjöldi starfsmanna og stúdenta af öllum fræðasviðum skólans tók til máls.

Kristín Ingólfsdóttir, rektor háskólans, sagði að háskólinn hefði á undanförnum misserum lagt mikla áherslu á aukin tengsl við atvinnulífið en ekki síður lagt þunga á að efla samþættingu ólíkra fræðagreina innan skólans með því að leiða saman fagfólk á ólíkum sviðum. „Þannig hafa skapast mjög eindregin verðmæti og afar áhugaverðar niðurstöður hafa komið fram úr rannsóknum vegna aðkomu vísindamanna úr ólíkum greinum.“ Ræddi Kristín sérstaklega verkefni sem tengjast endurnýjanlegri orku, sjávarútvegi, ferðaþjónustu, miðaldafræði, norðurslóðum, lífvísindum og fjarkönnun en á öllum þessum sviðum hefðu margar fræðigreinar lagt saman krafta til að auka þekkingu og nýsköpun.

Daði Már sagði að starfsmenn Háskóla Íslands hefðu blásið til sóknar í öflun erlendra rannsóknarstyrkja á síðustu misserum og tekist þannig að tryggja áframhaldandi góðan árangur af starfi skólans, eins og nýlega hefur verið staðfest í mati Times Higher Education (THE) á alþjóðlegri stöðu hans. Háskóli Íslands er nú númer 271 á lista THE yfir bestu háskóla í heiminum.

Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, sagði athyglisvert hversu háa einkunn háskólinn fengi fyrir nýsköpun og atvinnulífstengsl í samanburði við erlenda háskóla á lista Times Higher Education. „Fyrir tengsl við atvinnulíf fær skólinn 74 stig af 100 mögulegum. Þessi einkunn sýnir ótvírætt að tengsl Háskóla Íslands við atvinnulífið í landinu eru mjög mikil og raunar með því mesta sem gerist í samanburðarháskólum.“

Á þinginu kom fram að rannsóknarstarfsemi Háskóla Íslands skapi umfangsmiklar gjaldeyristekjur sem geri háskólanum kleift að halda áfram að byggja upp rannsóknarnám við skólann. Þannig hafi ársverk í rannsóknum nemenda á meistara- og doktorsstigi aukist um rúmlega 300 frá 2008 til 2011. „Gríðarleg tækifæri eru framundan í þekkingartengdri atvinnustarfsemi. Uppbygging á því sviði er besta trygging fyrir þróttmiklum vexti í íslensku atvinnulífi til framtíðar. Háskóli Íslands hefur fullan styrk til að vera áfram leiðandi í þeirri þróun,“ sagði Daði Már.

Hilmar Bragi Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, sagði á þinginu að starfsemi tengd rannsóknum doktorsnema við háskólann jafnaðist á við stóriðju og þá væri ekki tekinn til hliðsjónar afraksturinn af sjálfu vísindastarfinu. Hilmar sagði að með áherslu á doktorsnám hefði skólinn aukið tengsl við atvinnulífið með nýjum hætti. „Ársverk, sem tengjast doktorsnáminu eru ný störf. Í heildina eru 750 ársverk í framhaldsnámi við skólann, í meistara- og doktorsnámi. Doktorsnemar eru iðulega þátttakendur í nýsköpunarverkefnum innan öflugra fyrirtækja og leggja mikið til í framlagi til vöruþróunar. Þarna er uppspretta nýsköpunar.“

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, sagði á þinginu að á síðustu árum hefði orðið til fjöldi sprotafyrirtækja úr rannsóknavinnu kennara og stúdenta skólans sem velta á annan milljarð króna og veita hátt á annað hundrað manns atvinnu. „Þótt árangur undanfarinna ára sé góður þurfum við að gera enn betur. Í stefnu Háskóla Íslands til næstu ára er áhersla lögð á að hagnýta rannsóknaniðurstöður og hugmyndir enn frekar, skapa efnisleg verðmæti og störf.“

Kristín sagði enn fremur að háskólinn hefði aukið samstarf við rannsóknastofnanir, háskóla, fyrirtæki og menningarstofnanir og lagt enn meiri þunga á þróunar- og samstarfsverkefni við atvinnulífið en áður.

Kl. 15.00-16.00 - Dagskrárliður 3: Skýrsla jafnréttisnefndar háskólaráðs, Staða og þróun jafnréttismála við Háskóla Íslands 2008-2011

Í upphafi greindi rektor frá því að í jafnréttisáætlun Háskóla Íslands er m.a. gert ráð fyrir að jafnréttisnefnd láti vinna úttekt á stöðu jafnréttismála innan skólans á fjögurra ára fresti. Áður hafa tvær slíkar úttektir verið gerðar en á þessu þingi verður kynnt sú þriðja og nýjasta sem er fyrir tímabilið 2008-2011. Bauð rektor Hrefnu Friðriksdóttur, dósent við Lagadeild og formann jafnréttisnefndar háskólaráðs, að gera grein fyrir málinu.

Tilefni

· Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2009-2013:

· Jafnréttisnefnd skal láta vinna úttekt á stöðu jafnréttismála innan skólans á fjögurra ára fresti

- Staða og þróun jafnréttismála við Háskóla Íslands 1997-2002

- Staða og þróun jafnréttismála við Háskóla Íslands 2003-2007

· Endurskoðun jafnréttisáætlunar skal hefjast 2012 og vera lokið fyrir árslok 2013

· Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann skýrsluna og hafði Auður Magndís Leiknisdóttir, verkefnisstjóri, umsjón með verkinu

Markmið

· Markmið úttektarinnar er að gera ítarlega grein fyrir þróun jafnréttismála innan Háskóla Íslands á árabilinu 2008-2011, m.a.

- að gera grein fyrir jafnréttisstarfinu

- að safna saman tölulegum upplýsingum, greina og bera saman við eldri tölur

- að fjalla um einstaka hópa stúdenta og starfsmanna

- að fjalla um samþættingu kynjasjónarmiða við stefnumótun, kennslu og rannsóknir innan Háskóla Íslands

- að fjalla um viðhorf, mat og framtíðarsýn

- að setja fram tillögur til úrbóta og aðgerða

Aðferðir

· Vinna úr fyrirliggjandi gögnum

· Megindleg gagnaöflun

- spurningalisti til fastráðins starfsfólks við Háskóla Íslands

- spurningalisti til hagsmunafélaga nemenda og formanna nemendafélaga

· Eigindleg gagnaöflun

- viðtöl við aðila sem starfað hafa að jafnréttismálum innan Háskóla Íslands

- viðtöl við aðila innan stjórnsýslunnar

Jákvætt

· Metnaðarfull og fagleg jafnréttisáætlun

· Jafnréttisnefndir á hverju sviði skólans

- jafnréttisáætlanir sviða

- tengiliðir

· Árlegir jafnréttisdagar

· Hlutfall kvenna meðal kennara aukist

· Flestir töldu litla sem enga fordóma í garð hinsegin stúdenta og starfsfólks

· Miklar og jákvæðar breytingar fyrir fatlaða stúdenta

Tillögur að úrbótum

· Fræðsla

· Samþætting kynjasjónarmiða

· Athuganir og rannsóknir

· Samskipti

· Tölur

Fræðsla

· Bæta úr skorti á þekkingu og mæta þörf fyrir fræðslu um jafnréttismál, bæði meðal starfsmanna og stúdenta

Samþætting kynjasjónarmiða

· Í 17. gr. jafnréttislaga nr. 10/2008 segir að kynjasamþættingar skuli gætt við alla stefnumótun, áætlanagerð og ákvarðanatöku á vegum opinberra stofnana

· Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands gengur út frá samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við alla stefnumótun og áætlanagerð

· Um 30% starfsfólks taldi samþætta alltaf eða oft, en

· mikilvægt að bæta úr vanþekkingu á hugtakinu kynjasamþætting og aðferðum til að beita henni

Samþætting við kennslu og rannsóknir

· Stefnt skal að því að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið við kennslu og rannsóknir

· Um 40% starfsfólks sem kennir taldi sig samþætta alltaf eða oft

· Meirihluti þeirra sem samþættu sjaldan eða aldrei töldu ekki þörf á því

Fræðsla um samþættingu

Athuganir og rannsóknir

· Kyngreindar upplýsingar um stöðu og kjör starfsmanna

· Rannsókn á samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs

· Rannsókn á ráðningarferli

· Rannsókn á kynjahlutföllum nemenda

· Vinna gegn kynbundnu námsvali

Samskipti

· Auka og efla umræðu innan Háskóla Íslands um framtíðarskipan og framkvæmd jafnréttismála

Tölur

· Konur 65% af nemendur við Háskóla Íslands – ólíkt milli sviða / deilda

· Hlutfall kvenna af aðjunktum, lektorum, dósentum og prófessorum

Í framhaldinu...

· Frekari úrvinnsla og kynning á skýrslunni

· Tvær nýjar rannsóknir

- Dagný Skúladóttir: Árangursmælingar í jafnréttisstarfi

- Kristín Anna Hjálmarsdóttir: Aðferðir til samþættingar í Háskóla Íslands

· Ný jafnréttisáætlun

Rektor þakkaði Hrefnu fyrir framsöguna og gaf orðið laust. Málið var rætt ítarlega og komu fram eftirfarandi sjónarmið.

Forseti Hugvísindasviðs vakti máls á því að í skýrslunni kemur fram að eingöngu konur komu að gagnaöflun, úrvinnslu og ritun hennar. Spurði forsetinn hvort með þessu væru ekki brotnar meginreglur jafnréttisstarfs. Þá sagði forsetinn að í skýrslu jafnréttisnefndar kæmi fram nokkur gagnrýni á stjórnendur háskólans og spurði hverjar ástæður þess væru, þ.e. hvort skipun miðlægrar jafnréttisnefndar og jafnréttisnefnda á öllum fræðasviðum hefði ekki dugað til að skapa fullnægjandi aðstæður á sviði jafnréttismála eða hvort einhver önnur ástæða væri fyrir þeirri gagnrýni sem fram komi í skýrslunni?

Forseti Menntavísindasviðs sagði að á fræðasviðinu hefði verið ákveðið að jafnréttisnefnd sviðsins fari yfir skýrsluna með opnum huga og legði á ráðin um hvaða lærdóma megi draga af henni.

Forseti Félagsvísindasviðs sagðist ekki hafa áhyggjur af gagnrýnisatriðum skýrslunnar. Jafnréttismál væru langtímaverkefni sem væri í ákveðnum farvegi og góðir hlutir gerðust hægt. Sagði forsetinn það vera sína skoðun að best væri að ræða efni skýrslunnar opinskátt, á víðum grundvelli og á mannamáli. Þetta gilti t.d. um mögulega dulda klámmenningu á kaffistofum, kynferðislega áreitni o.s.frv. Slík mál snérust sumpart um mannasiði og þeir skiptu sérstaklega miklu máli gagnvart stúdentum og öðru starfsfólki en kennurum.

Fulltrúi Félags starfsfólks í stjórnsýslu- og tæknistörfum við Háskóla Íslands gerði að umtalsefni að í skýrslunni væri m.a. fjallað um nýráðningar í akademísk störf út frá jafnrétti kynjanna. Spurði fulltrúinn hvort hliðstæð úttekt hefði verið gerð á nýráðningum í stjórnsýslustörf.

Forseti Heilbrigðisvísindasviðs fagnaði því að skýrsla jafnréttisnefndar væri tekin á dagskrá háskólaþings og sagði um mikilvægan málaflokk að ræða. Miklar framfarir hefðu orðið á síðustu árum og áratugum á sviði jafnréttismála, ekki síst í daglegum samskiptum á vinnustað. Þótt ekki væru allir sammála öllu sem fram kæmi í skýrslunni gerði þessi vinna gagn og væri til þess fallin að þoka málum áfram.

Forseti Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda á Hugvísindasviði greindi frá því að hún hefði um árabil verið formaður jafnréttisnefndar háskólaráðs og sæti nú í jafnréttisnefnd Hugvísindasviðs. Sagði deildarforsetinn ánægjulegt að sjá hve miklar framfarir hefðu orðið á sviði jafnréttismála í víðum skilningi, s.s. varðandi málefni fatlaðra, skipun jafnréttisnefnda á öllum fræðasviðum, með árlegum jafnréttisdögum o.s.frv. Þá vék deildarforsetinn að gagnrýni skýrslunnar á takmarkaða þekkingu á samþættingu jafnréttissjónarmiða. Sagði deildarforsetinn það vera ábyrgðarhluta þeirra sem hefðu ekki mikla þekkingu á þessum málaflokki að afla ráðgjafar þeirra sem byggju yfir þeirri þekkingu. Raunar vekti það athygli að samþættingarhugtakið væri hvergi útskýrt í skýrslunni. Þá lýsti deildarforsetinn þeirri skoðun sinni að jafnréttismál væru gæðamál og ef starfsfólk nyti sín ekki gæti það skaðað starfsemi og árangur skólans. Að lokum beindi deildarforsetinn því til höfunda skýrslunnar að gagnlegt gæti verið að stytta hana og gera hnitmiðaðri svo fleiri myndu lesa hana.

Forseti Jarðvísindadeildar á Verkfræði- og náttúruvísindasviði tók undir áður fram komin sjónarmið og sagði það vera ljóð á skýrslunni að þótt í henni væri víða fundið að því að háskólafólk skildi ekki samþættingarhugtakið væri það hvergi útskýrt. Þetta leiddi til þess að lesendur spyrðu sig því í sífellu hvað þeir gætu gert betur og hvernig en fengju ekkert svar. Í skýrsluna vantaði m.ö.o. skýra leiðbeiningu fyrir stjórnendur. Þá vék deildarforsetinn að tölulegum upplýsingum í skýrslunni um kynjahlutföll sem sýndu t.d. mikla fjölgun kvenna meðal nemenda. Sagði hann það skoðun sína að erfitt væri að gera mikið við þessu með sértækum aðgerðum því hér væri á ferðinni þróun sem ætti sér djúpar samfélagslegar rætur og hæfist á fyrri skólastigum.

Forseti Lyfjafræðideildar á Heilbrigðisvísindasviði ræddi málefni nemenda af erlendum uppruna. Sagði hann um tvískiptan hóp að ræða, annars vegar erlenda nemendur sem dveldu tímabundið hér á landi og hins vegar fólk af erlendum uppruna sem byggi á Íslandi og vildi stunda nám í sínu nýja heimalandi. Sagði deildarforsetinn síðarnefnda hópinn standa höllum fæti og að of lítil úrræði væru fyrir hann innan háskólans.

Forseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar á Hugvísindasviði gerði að umtalsefni hugtakið „jafnréttismál“ og sagði það vera þrengjandi og hafa tilhneigingu til að takmarkast við kynjajafnrétti. Í reynd væri um afar fjölbreyttan málaflokk að ræða sem tæki m.a. til fólks af ólíkum uppruna, fatlaðra, hinsegin stúdenta og starfsmanna o.s.frv. og aðgerðirnar væru að sama skapi margvíslegar. Því væri e.t.v. réttara að setja málaflokknum undir heitin „réttlæti“ og „mannréttindi“. Spurði deildarforsetinn formann jafnréttisnefndar hvort þetta hafi verið rætt í nefndinni.

Forseti Lagadeildar á Félagsvísindasviði sagði mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þegar kæmi að jafnrétti kvenna og karla annars vegar og öðrum þáttum málaflokksins hins vegar, t.d. mismunun af öðru tagi, þá gilti um það tvennt gagnvart lögum. Jafnrétti kvenna og karla væri fest í lög (kynjasamþætting er t.d. lögbundin), en sama væri ekki að segja um allt annað jafnrétti. Varðandi umræðuna um kynjasamþættingu sagði deildarforsetinn mikilvægt að útskýra hvert markmiðið væri með henni. Þá vék deildarforsetinn að umræðunni um jafnréttishugtakið. Sagði hann miklar framfarir hafa orðið á sviði jafnréttis kvenna og karla en meira áhyggjuefni væru ýmis málefni sem snúa að útlendingum, t.d. færi „xenophobia“ mjög í vöxt á vesturlöndum og leggja þyrfti meiri áherslu á forvarnir og aðgerðir á því sviði. Mikilvægt væri að þetta endurspeglaðist í áherslum jafnréttisnefndar háskólans. Loks ræddi forsetinn um málefni fatlaðra nemenda og sagði þann hóp njóta mikils og góðs stuðnings innan Háskóla Íslands. Fyrir það bæri einkum að þakka Námsráðgjöf Háskóla Íslands sem hefði unnið mjög gott starf.

Forseti Félags- og mannvísindadeildar á Félagsvísindasviði tók undir með fyrri fulltrúum sem kvatt höfðu sér hljóðs og sagði mikilvægt að beina sjónum að því að jafnréttishugtakið hefði mun fleiri víddir en aðeins kynjajafnrétti. Vakti deildarforsetinn í því sambandi athygli á doktorsritgerð sem lögð yrði fram til varnar við Háskóla Íslands innan skamms og fjallaði einmitt um aukna fjölbreytni jafnréttismála. Þá sagði deildarforsetinn frá því að í grannlöndum okkar hefði mikið verið rannsakað vinnuandrúmsloft og aðstæður í háskólum. Sýndu þessar rannsóknir að háskólar væru „gráðugir“ vinnustaðir í þeim skilningi að flestir starfsmenn tækju í vaxandi mæli vinnuna með sér heim að loknum venjulegum vinnudegi. Fyrir ekki mörgum árum síðan hefðu prófessorar flestir verið karlar sem notið hefðu samfélagslegrar virðingar. Þetta hefði breyst og háskólakennarar brynnu nú hratt upp í starfi. Í áðurnefndri doktorsritgerð, sem byggði á íslenskri rannsókn, kæmi m.a. fram að konum liði almennt verr í akademíunni og þær ættu erfiðara með að samræma vinnu og einkalíf. Karlar segðust hafa betri stjórn á tíma sínum. Um þetta sagði deildarforsetinn að ef einhverjum hópi liði verr en öðrum á vinnustað þyrfti að gefa því gaum. Að lokum sagði forsetinn að aðalatriðið varðandi skýrslu jafnréttisnefndar væri að nýta það besta úr henni og vinna með það áfram.

Kjörinn fulltrúi stúdenta nefndi þrjú atriði í innleggi sínu. Í fyrsta beindi fulltrúinn þeirri spurningu til formanns jafnréttisnefndar, á hvaða gögnum sú fullyrðing skýrslunnar byggði, að litlir fordómar væru í garð hinsegin stúdenta og starfsmanna innan háskólans? Í öðru lagi sagði fulltrúi stúdenta þörf á meiri rannsóknum og upplýsingum um stöðu og líðan erlendra stúdenta við Háskóla Íslands, einkum erlendra stúdenta sem búa hér á landi. Í þriðja lagi vék fulltrúinn að umræðu í fjölmiðlum undanfarið um klámfengið prentefni á vegum einstakra nemendafélaga í framhaldsskólum. Spurði stúdentinn hvað Háskóli Íslands gerði til að fyrirbyggja að slíkt gerðist t.d. á vettvangi nemendafélaga og sagðist telja það geta verið gagnlegt að gefa út einfalda og skýra útdrætti úr jafnréttisstefnu háskólans fyrir nemendur og starfsmenn.

Fulltrúi stúdenta í háskólaráði sem jafnframt er fulltrúi í jafnréttisnefnd Stúdentaráðs spurði hvernig háttað væri merkingum kennslustofa fyrir blinda og hvort gerð hefði verið úttekt á aðgengismálum fatlaðra í húsum háskólans.

Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs sagði skýrslu jafnréttisnefndar vera full langa og að það gæti dregið úr útbreiðslu hennar. Þá sagði forsetinn það vera staðreynd að Háskóli Íslands væri orðinn fjölbreyttur og alþjóðlegur vinnustaður sem væri jákvætt enda væru einsleitni og einhæfni óvinur nútímalegrar akademíu. Af þessu leiddi að mikilvægasta verkefnið væri að leita svara við því hvernig okkur gæti gengið best að vinna með fjölbreytileikann, einstaklingunum og háskólanum til hagsbóta. Hér væri verk að vinna, t.d. væru sífellt fleiri erlendir kennarar ráðnir til skólans án þess að tekið væri nógu vel á móti þeim.

Fulltrúi Félags prófessora í ríkisháskólum sagði að í skýrslunni kæmi fram að ekki hafi verið rannsakað hvort innan skólans viðgengist óútskýrður launamunur. Hvatti fulltrúinn til að slík rannsókn yrði gerð.

Formaður jafnréttisnefndar svaraði nokkrum af framkomnum spurningum og athugasemdum. Varðandi þá ábendingu að aðeins konur hefðu komið að undirbúningi og ritun skýrslu jafnréttisnefndar sagði formaðurinn það vissulega vera óheppilegt. Varðandi umræðuna um fjölbreytni jafnréttishugtaksins sagði formaðurinn það einnig vera óheppilegt að jafnréttisnefnd hefði ekki getað sinnt öllum þeim verkefnum sem henni bæri skv. erindisbréfi og gildandi jafnréttisstefnu skólans. Sagði formaðurinn mikilvægt í þessu sambandi að meiri fjármunum yrði veitt til jafnréttisrannsókna. Þrátt fyrir þessar takmarkanir væri hins vegar ljóst að krafan um samþættingu jafnréttissjónarmiða hvíldi á okkur öllum og það væri hlutverk jafnréttisnefndar að mæla hvort og hvernig til hefði tekist við innleiðingu samþættingarinnar. Jafnréttisnefnd hefði vilja og áhuga á að taka þetta mál fastari tökum, s.s. með aukinni fræðslu. Varðandi fyrirspurnina hvort gerð hefði verið úttekt á kynjajafnrétti við nýráðningar í stjórnsýslu sagðist formaðurinn ekki vita til þess að upplýsingar um þetta atriði væru fyrirliggjandi. Rannsókn á ráðningum væri þó mikilvægt verkefni sem þyrfti að sinna. Bætti formaðurinn því við að starfsfólk í stjórnsýslustörfum ætti ekki fulltrúa í jafnréttisnefnd, en fulltrúar þessa hóps störfuðu þó með nefndinni. Næst vék formaður jafnréttisnefndar að umræðunni um kynjað námsval og það sjónarmið, sem einn þingfulltrúi hefði látið í ljósi, að það ætti sér djúpar rætur og væri ekki auðvelt við að eiga. Sagðist formaðurinn ekki sannfærður um þetta, við gætum öll velt því fyrir okkur hvaða mynd Háskóli Íslands gæfi af einstökum námsgreinum og hvað hægt væri að gera til að hafa áhrif á þá mynd. Varðandi umræðuna um nemendur af erlendum uppruna sagði formaðurinn mikið hafa verið rætt um það innan jafnréttisnefndar hvort og að hvaða marki nefndin ætti að sinna öðrum þáttum málaflokksins en kynjajafnrétti, en það væri þó ljóst að kynjajafnrétti væri í öndvegi hjá jafnréttisnefnd. Sagði formaðurinn að þótt nú stæði fyrir dyrum endurskoðun á jafnréttisstefnu Háskóla Íslands væri það sín skoðun að megináherslan ætti áfram að vera á jafnrétti kynjanna, enda ætti nefndin í fullu tré með þann málaflokk áður en hún færi að beita sér á öðrum sviðum mannréttindamála. Þá kom formaðurinn inn á málefni hinsegin stúdenta og sagði að við gerð skýrslu jafnréttisnefndar hefðu ekki verið lagðar fram spurningakannanir fyrir þennan hóp sérstaklega, en kannski væri ástæða til að gera það í framtíðinni. Næst brást formaðurinn við spurningunni um merkingar fyrir blinda og aðgengismál fatlaðra og sagðist ekki hafa undir höndum upplýsingar um hvort úttekt hafi verið gerð á stöðu þeirra mála. Varðandi spurninguna um rannsóknir á kynbundnum launamun innan Háskóla Íslands sagðist formaðurinn taka heilshugar undir mikilvægi þess að slíkar rannsóknir færu fram. Þá sagði formaður jafnréttisnefndar að á heildina litið væri skýrsla jafnréttisnefndar ekki ólík öðrum rannsóknum á skipulagsheildum þótt hún beindist sérstaklega að Háskóla Íslands. Í skýrslunni kæmu fram margar gagnlegar upplýsingar en eðlilega væri mörgum spurningum einnig ósvarað, s.s. um aðstæður, aðbúnað og menningu háskólans sem vinnustaðar. Að endingu tók formaðurinn undir þá ábendingu að setja ætti fram helstu niðurstöður skýrslunnar í stuttu og aðgengilegu formi.

Fulltrúi Félagsvísindastofnunar og höfundur skýrslunnar lagði orð í belg varðandi þá gagnrýni að aðeins konur hefðu komið að gerð skýrslu jafnréttisnefndar. Sagði fulltrúinn þetta einkum stafa af því að hjá Félagsvísindastofnun störfuðu næstum eingöngu konur. Kollegar þeirra af karlkyni leituðu flestir í betur launuð störf á vettvangi atvinnulífsins.

Rektor þakkaði fyrir góða og málefnalega umræðu og vék síðan stuttlega að nokkrum atriðum í tengslum við skýrslu jafnréttisnefndar. Sagði rektor mikilvægt að huga vel að orðavali í skýrslunni til að koma í veg fyrir misskilning. Þannig segði t.d. að með því fyrirkomulagi sem gilti við skipun jafnréttisnefndar hefði nefndin verið „vængstýfð“, sem gæfi til kynna að um einhverskonar ásetning hefði verið að ræða. Staðreyndin væri hins vegar sú að fylgt hefði verið því fyrirkomulagi sem tíðkast við skipun helstu starfsnefnda háskólaráðs, þ.e. að formenn hliðstæðra nefnda á vettvangi fræðasviðanna ættu sjálfkrafa sæti í miðlægu nefndinni en formaður væri skipaður án tilnefningar. Í tilviki jafnréttisnefndar hefði þetta í reynd komið þannig út að meirihluti formanna jafnréttisnefnda fræðasviðanna hefði verið konur og því eingöngu unnt að hafa áhrif á kynjahlutfallið í nefndinni með því að skipta út formanninum. Það hefði hins vegar ekki þótt koma til greina því karlar væru í meirihluta meðal formanna starfsnefnda háskólaráðs og mikilvægt að fjölga konum í þeim hópi frekar en að fækka. Einnig hefði komið til álita að skipta út öðrum fulltrúum í nefndinni en það hefði líka reynst örðugt því fræðasviðin hefðu talið sig hafa teflt fram sínu hæfasta fólki í málaflokknum til formennsku í nefndunum. Næst vék rektor að aðbúnaði jafnréttismála við Háskóla Íslands og sagði í reynd mikla áherslu lagða á málaflokkinn og umtalsverðum fjármunum varið til jafnréttismála. Þannig væri t.d. starfandi jafnréttisfulltrúi í fullu starfi, jafnréttisnefnd háskólaráðs, jafnréttisnefndir á öllum fræðasviðum og víðar í skipulagi skólans. Einnig væru starfræktar við háskólann nokkrar rannsóknastofnanir og -stofur á sviði jafnréttismála og fjöldi kennara og nemenda stunduðu kraftmiklar rannsóknir á þessu sviði. Ástæða væri til að kanna hvort tækifæri til samstarfs væru vannýtt og tryggja mætti betur samstöðu og samvinnu sérfræðinga á sviði jafnréttismála, sbr. ábendingu í skýrslunni. Þá sagði rektor að sumt af því sem sagt væri í skýrslunni hefði hún frétt í fyrsta sinn við lestur hennar. Þetta benti til þess að bæta mætti upplýsingaflæði og samskipti. Mikilvægt væri að allir, starfsmenn og stúdentar, snéru bökum saman og skildu að jafnréttismál væru sameiginlegt verkefni sem þjónaði velferð Háskóla Íslands. Að lokum bar rektor upp svohljóðandi tillögu til ályktunar:

„Háskólaþing þakkar jafnréttisnefnd og Félagsvísindastofnun fyrir gerð skýrslu um þróun jafnréttismála við Háskóla Íslands 2008-2011. Í framhaldi af háskólaþingi verður skýrslan lögð fram í háskólaráði ásamt framkomnum ábendingum og athugasemdum á þinginu.“

- Samþykkt einróma.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Hrefnu Friðriksdóttur, þau Ástráður Eysteinsson, Jón Torfi Jónasson, Ólafur Þ. Harðarson, Ingibjörg Þórisdóttir, Inga Þórsdóttir, Hólmfríður Garðarsdóttir, Magnús Tumi Guðmundsson, Már Másson, Sólveig Anna Bóasdóttir, Róbert R. Spanó, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Anna M. Clausen, María Rut Kristinsdóttir, Hilmar B. Janusson, Torfi Tulinius og Auður Magndís Leiknisdóttir.

Að endingu þakkaði rektor fulltrúum á háskólaþingi fyrir góðar og málefnalegar umræður. Sleit rektor háskólaþingi og bauð fundarmönnum að þiggja hressingu í anddyri Hátíðasalar.

Útsend gögn og gögn sem lögð voru fram á 9. háskólaþingi 16. nóvember 2012:

1. Dagskrá og tímaáætlun 9. háskólaþings 16. nóvember 2012.

2. Listi yfir fulltrúa á háskólaþingi.

3. Fundargerð 8. háskólaþings 18. apríl 2012.

4. Skýrsla jafnréttisnefndar háskólaráðs, Staða og þróun jafnréttismála við Háskóla Íslands 2008-2011.