Skip to main content

9. háskólafundur 23. maí 2003

9. háskólafundur haldinn 23. maí 2003 í Hátíðasal Háskóla Íslands á 2. hæð í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 09:00-16:15

Dagskrá

Kl. 09:00 - 09:10  Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein  fyrir framkomnum tillögum.
Kl. 09:10 - 09:40  Dagskrárliður 1. Rektor gerir grein fyrir ýmsum sameiginlegum málefnum Háskólans sem tengjast vísinda- og menntastefnu hans.
Kl. 09:40 - 09:55  Dagskrárliður 2. Tillaga að breytingum á reglum um skipan og fundarsköp háskólafundar.
Kl. 09:55 - 10:25  Dagskrárliður 3. Endurskoðun á sameiginlegri vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands.
Kl. 10:25 - 10:45  Kaffihlé.
Kl. 10:45 - 12:15  Dagskrárliður 4. Þróunaráætlanir deilda og stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi.
Kl. 12:15 - 13:30  Matarhlé.
Kl. 13:30 - 15:00  Dagskrárliður 5. Siðareglur Háskóla Íslands og starfsreglur siðanefndar Háskólans.
Kl. 15:00 - 16:15  Dagskrárliður 6. Málstefna Háskóla Íslands.
Kl. 16:15  Rektor slítur fundi.
 

Kl. 09:00: Fundarsetning

Rektor setti níunda háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Þá fór rektor yfir dagskrá og tímaáætlun fundarins sem og framlögð fundargögn. Engar tillögur til ályktunar bárust að þessu sinni. Fundarritarar voru, eins og áður, Magnús Diðrik Baldursson, aðstoðarmaður rektors, og Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri rannsóknasviðs. Áður en gengið var til dagskrár rifjaði rektor upp hlutverk háskólafundar eins og það er skilgreint í lögum og reglum sem um Háskólann gilda.

 

Kl. 09:10 Dagskrárliður 1 - Rektor gerir grein fyrir ýmsum sameiginlegum málefnum Háskólans sem tengjast vísinda- og menntastefnu hans

1. Uppbygging Háskóla Íslands - Markmið og aðgerðir 2002-2005. Fyrir fundinum lá ný útgáfa af bæklingnum „Uppbygging Háskóla Íslands - Markmið og aðgerðir 2002-2005“, en tölulegar upplýsingar um starfsemi Háskólans á bakhlið hans hafa verið uppfærðar. Í bæklingnum eru sett fram þrjú meginmarkmið Háskólans, í fyrsta lagi að gera hann að enn öflugri rannsóknaháskóla, í öðru lagi að auka fjölbreytni námsins og efla alþjóðleg samskipti og í þriðja lagi að bæta starfsaðstöðu í háskólasamfélaginu. Síðan eru taldar upp fjölmargar aðgerðir til að ná fram þessum markmiðum og forsendur þeirra skýrðar. Þá er að finna í bæklingnum ýmsar tölfræðilegar upplýsingar um starfsemi Háskólans og svokölluð leiðarljós sem tekið er mið af í öllu starfi hans. Unninn hefur verið gátlisti um framkvæmd áætlunarinnar, þar sem fram kemur nákvæmlega hver(jir) ber(i) ábyrgð á hverju einstöku atriði, hvernig staðið er að framkvæmdinni, hvernig hún er fjármögnuð og hvenær henni verður lokið. Gátlistinn er til reglulegrar umfjöllunar með ábyrgðaraðilunum. Greindi rektor frá því að framkvæmd áætlunarinnar gengi að mestu leyti eftir áætlun og í nokkrum tilvikum væri hún vel á undan áætlun.

2. Gæðakerfi Háskólans. Gæðamál eru mjög ofarlega á baugi í háskólaumræðunni í Evrópu um þessar mundir og búast má við því að þau munu verða það einnig hér á landi áður en langt um líður. Háskólaráð samþykkti formlegt gæðakerfi Háskólans 26. júní 2002 og í kjölfarið hefur mikið starf verið unnið við framkvæmd þess. Meðal annars er í undirbúningi að hefja í haust reglubundnar formlegar úttektir á deildum, stofnunum og stjórnsýslueiningum Háskólans, haldið hefur verið námskeið fyrir stjórnendur Háskólans um stjórnun fjármála og starfsmannamála, í undirbúningi er innleiðing kerfisbundinna starfsmannasamtala í deildum skólans, verið er að semja reglur um gæði framhaldsnáms og fyrirhugað er að halda málþing um gæðamál næsta vetur. Magnús Diðrik Baldursson, aðstoðarmaður rektors, hefur umsjón með þessum málaflokki f.h. rektors. Þá má nefna að innan menntamálaráðuneytisins er nú hafið markvisst starf innan þessa málaflokks og hefur ráðuneytið í því sambandi m.a. skipað nefnd sem hefur það hlutverk að fylgjast með framkvæmd Bologna-ferlisins í íslenskum háskólum.

3. Staða meistara- og doktorsnáms. Rektor greindi frá því að hann hefur heimsótt flestar deildir Háskólans í vetur til að ræða sérstaklega um rannsóknir og rannsóknatengt framhaldsnám. Eins og kunnugt er hefur mjög mikill vöxtur verið í framhaldsnámi við Háskólann, sem sést best á því að fjöldi framhaldsnema hefur fimmfaldast á sl. sex árum. Helsta hættan við þennan mikla vöxt er hversu brátt hann ber að og að Háskólinn geti ekki veitt öllum þessum nemendafjölda fullnægjandi námsaðstöðu. Sami vandi er uppi á teningnum víða í Evrópu og er þar m.a. rætt um samstarf skóla á sviði rannsókna og rannsóknanáms, einkum samstarfi smærri skóla við stærri.

4. Alþjóðasamskipti. Alþjóðavæðing Háskólans er eitt höfuðeinkenni í þróun hans á undanförnum árum. Styrkur Háskólans er ekki síst sá að kennarar hans koma úr mjög ólíku umhverfi og hafa menntunarbakgrunn frá ólíkum löndum. Þetta er einstakt í heiminum og gerir Háskóla Íslands að óvenju alþjóðlegum háskóla. Þá greindi rektor frá því að í kjölfar stefnumótunar háskólafundar um alþjóðasamskipti og markmiðssetningu í áætluninni „Uppbygging Háskóla Íslands - Markmið og aðgerðir 2002-2005“ hafa Jón Torfi Jónasson prófessor og Karítas Kvaran, forstöðumaður Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins, nýlega framkvæmt könnun um stöðu alþjóðasamskipta við deildir skólans og verða niðurstöður hennar birtar bráðlega. Þá verða alþjóðasamskipti að nokkru leyti til umræðu síðar á fundinum, einkum varðandi kennslutungumál við Háskólann.

5. Vöxtur í starfsemi Háskólans. Eins og gert var ítarlega grein fyrir á nýafstöðnum ársfundi Háskólans hefur gríðarlegur vöxtur verið í allri starfsemi skólans á undanförnum árum. Kemur þetta berlega fram í mikilli fjölgun nemenda. Ekkert lát virðist vera á þessari þróun, eins og sést á því að á síðasta ári fjölgaði nemendum um 14% sem er mesta fjölgun milli ára frá stofnun Háskólans.

6. Fjárhagsþörf Háskólans. Hin mikli vöxtur í starfsemi Háskólans hefur í för með sér töluverða vaxtaverki, s.s. skort á fé, húsnæði og annarri aðstöðu. Eigi Háskólinn virkilega að blómstrar er gert ráð fyrir að heildarfjárþörfin sé um 1.300 m.kr. umfram það sem skólinn fær nú þegar. Þessi upphæð er sett þannig saman að 340 m.kr. vantar beinlínis vegna fjölgunar virkra nemenda. Einnig vantar um 250 m.kr. vegna hækkunar launa. Þá greiðir Happdrætti Háskóla Íslands, eitt happdrætta í landinu, einkaleyfisgjald og verður Háskólinn af um 100 m.kr. á ári vegna þess. Ennfremur vantar um 60 m.kr. vegna viðhalds húsnæðis. Loks vantar verulega á að fjárveitingar vegna rannsókna séu viðunandi. Háskólinn miðar í samningaviðræðum sínum við stjórnvöld við regluna „einn á móti einum“, þ.e. að fjárveiting til rannsókna verði jafnhá kennslufjárveitingu. Til að svo megi verða vantar um 500 m.kr. til viðbótar. Hlutfallið milli fjárveitinga til kennslu og rannsókna var 0,67 þegar kennslusamningurinn var undirritaður fyrir u.þ.b. þremur árum og hefur farið lækkandi síðan. Til að halda þessu hlutfalli óbreyttu vantar um 500 m.kr.

7. Staða samninga við ráðuneytið. Fram kom í máli rektors að ljúka átti við þróun árangursmælikvarða vegna rannsóknasamnings fyrir mitt ár 2002. Það hefur enn ekki verið gert og illa hefur gengið að fá ráðuneytismenn að samningaborði. Ekki hefur heldur verið gerður nýr kennslusamningur eins og átti gera á síðasta ári samkvæmt núgildandi samningi. Þessi staða í samningamálum við ríkisvaldið torveldar áætlanagerð og stendur starfsemi Háskólans fyrir þrifum. Þó náðist að fá stjórnvöld til að samþykkja sérstakan viðauka við kennslusamninginn 3. mars sl., sem felur að hluta til í sér viðurkenningu á þeirri fjölgun nemenda sem þegar er staðreynd.

8. Húsnæðismál. Lúkning Náttúrufræðahúss er stærsta einstaka framkvæmd í húsnæðismálum Háskólans á síðustu árum. Er framkvæmdin samkvæmt áætlun bæði hvað snertir tíma og kostnað. Þá reifaði rektor þann húsnæðisvanda sem engu að síður blasir við Háskólanum. Vegna mikillar fjölgunar nemenda er bráðaþörf fyrir húsnæði nú yfir 10 þúsund fermetrar og er það umfram það húsnæði sem tekið verður í notkun á árinu.

9. Þróun íslenska háskólakerfisins og málefni háskóla í Evrópu. Ýmsir hnökrar eru á íslenska háskólakerfinu. Ljóst er að endurskoða þarf lög og reglur varðandi kröfur og gæði. Háskólinn þarf að taka virkan þátt í þessari umræðu, einnig í Evrópusamhengi. Háskólinn er í raun orðinn fullgildur þátttakandi í Evrópusambandinu á sviði æðri menntunar, t.d. með virkri þátttöku sinni í starfi EUA (European University Association). Gerði rektor grein fyrir því í hverju sú þátttaka er fólgin.

10. Heimsóknir rektors í deildir næsta haust. Rektor hefur farið í heimsóknir í flestar deildir nú í vor og mun halda því áfram næsta haust. Kvaðst hann afar ánægður með þessar heimsóknir og hyggst gera þær að föstum lið í starfi sínu.

Kl. 09:40 - Dagskrárliður 2: Tillaga að breytingum á reglum um skipan og fundarsköp háskólafundar

Tryggvi Þórhallsson, lögfræðingur Háskólans, kynnti málið. Háskólafundur starfar eftir reglum um skipan og fundarsköp háskólafundar sem samþykktar voru á háskólafundi 5. nóvember 1999. Reglurnar eru nánari útfærsla á 7. og 8. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands sem kveða allítarlega á um það hvaða hlutverki fundurinn gegnir í háskólastarfinu. Nú þegar háskólafundur er haldinn níunda sinni er komin nokkur reynsla á framkvæmd fundarins. Það er því eðlilegt að hugað sé að því hvort endurskoða þurfi fyrirkomulagið. Ekki hefur komið fram þörf á neinni grundvallarendurskoðun en á hinn bóginn hafa í framkvæmd komið fram fáeinir hnökrar sem brugðist er við með fyrirliggjandi breytingatillögu. Tillögunni er ætlað að gera ákvæði reglnanna skýrari og auðvelda framkvæmd þeirra. Meginatriði tillagnanna eru þrjú:

Í fyrsta lagi þarf að skýra þá útreikningsreglu sem beitt er þegar fundið er út hve marga fulltrúa hver deild skal eiga á háskólafundi, en borið hefur á því að gildandi ákvæði reglnanna séu óljós um þetta atriði, einkum hvað varðar talningu á fjölda kennara og sérfræðinga að baki hverjum fulltrúa. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að skýrt liggi fyrir hvaða stofnanir heyri undir deildir og er lagt til að 27. gr. sameiginlegra reglna Háskóla Íslands verði þar lögð til grundvallar. Samkvæmt því myndu starfsmenn Raunvísindastofnunar Háskólans teljast með við kjör viðbótarfulltrúa raunvísindadeildar á háskólafundi en starfsmenn Tilraunastöðvar Háskólans í meinafræði að Keldum myndu á hinn bóginn ekki teljast með við kjör viðbótarfulltrúa læknadeildar. Báðar þessar stofnanir sem hér eru nefndar eiga fulltrúa sína á háskólafundi skv. 9. gr. reglnanna og er ekki lagt til að gerð verði breyting á því fyrirkomulagi. Þá þarf að skýra hvað telst vera fullt starf í skilningi reglnanna. Almenna reglan innan Háskólans miðast við starfshlutfallið 75% og hærra og sú regla gildir einnig varðandi fulltrúa deilda á háskólafundi. Á hinn bóginn verður jafnframt að taka tillit til sérstöðu háskólamanna sem samhliða háskólastarfinu eru í starfi við aðra stofnun í nánum tengslum við Háskólann. Á fundi háskólaráðs þann 6. mars 2003 var bókað að við þær aðstæður sé rétt að telja háskólamanninn vera í fullu starfi við Háskólann ef hlutfall háskólastarfsins er 50% eða hærra. Er lagt til að þessi skilningur verði festur í reglur háskólafundar. Jafnframt þarf að taka af skarið varðandi það hverjir teljist til kennara og sérfræðinga í skilningi reglnanna. Lagt er til að byggt verði á þeim starfsheitum sem fram koma í lögum um Háskóla Íslands að stundakennurum undanskildum, enda hefur starfsheiti fastráðinna stundakennara nú verið breytt í aðjúnkt. Skilgreining starfsheitisins „sérfræðingur“ hefur stundum valdið vafa, en lagt er til að í reglum þessum verði hugtakið notað í sömu merkingu og í lögunum þ.e. sérfræðingur með hæfnisdóm. Verkefnabundnir sérfræðingar teljast samkvæmt þessu ekki með sérfræðingum í skilningi reglnanna heldur í hópi annarra starfsmanna deilda og stofnana undir deildum.

Í öðru lagi hefur komið í ljós við framkvæmd reglnanna að erfiðlega hefur reynst að ná saman kjörnum fulltrúum deilda, m.a. vegna þess að kosið er á tveggja ára fresti. Lagt er til að brugðist verði við þessu með tvennum hætti. Annars vegar þannig að hver deild kjósi á tveggja ára fresti lista af viðbótarfulltrúum með tvöfalt fleiri nöfnum en sátu síðasta háskólafund áður en kjörið fór fram. Viðbótarfulltrúar deildar er síðan boðaðir á háskólafund samkvæmt röð á listanum. Þetta fyrirkomulag tryggir að kalla megi til viðbótarfulltrúa ef breytingar verða á fulltrúatölu á skipunartíma háskólafundar, en jafnframt að til staðar séu varamenn vegna forfalla. Hins vegar er talið rétt að bregðast við með því að veita deildarforseta heimild til þess að kalla til deildarmann til setu á háskólafundi ef fjöldinn á listanum hrekkur ekki til. Deildarmaður sem kallaður er til af deildarforseta hefði þó sömu réttindi og kjörnir viðbótarfulltrúar.

Í þriðja lagi er lagt til að gerðar verði á reglunum fáeinar orðalagsbreytingar og að tekið verði upp nákvæmt viðmið um það hvaða tölur eru lagðar til grundvallar við ákvörðun um fjölda viðbótarfulltrúa deilda og hverja skuli boða á háskólafund hverju sinni.

Að framsögu Tryggva lokinni gaf rektor orðið laust.

Málið var rætt og lagði rektor til að afgreiðslu þess yrði frestað til næsta fundar svo fundarmenn fengju meiri tíma til að kynna sér í hverju breytingartillögurnar væru fólgnar.

- Samþykkt einróma.

Kl. 09:55 - Dagskrárliður 3: Endurskoðun á sameiginlegri vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands

Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor og formaður starfshóps um framkvæmd sameiginlegrar vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands, gerði grein fyrir málinu f.h. starfshópsins. Hóf Ágústa mál sitt á því að rekja stuttlega það stefnumótunarstarf sem fram hefur farið á vettvangi háskólafundar. Í máli Ágústu kom m.a. fram að þungamiðja stefnumótunarstarfs háskólafundar hefur verið hin sameiginlega vísinda- og menntastefna Háskólans og að rauði þráðurinn í því starfi hefur verið efling Háskóla Íslands sem alþjóðlegs rannsóknaháskóla.

Næst reifaði Ágústa þríþætt hlutverk starfshóps um framkvæmd sameiginlegrar vísinda- og menntastefnu Háskólans: Í fyrsta lagi að fylgjast með framkvæmd vísinda- og menntastefnunnar og að tryggja að hún sé sífellt yfirveguð og skoðuð í ljósi þess hvernig til tekst með framkvæmd; í öðru lagi að vera tengiliður milli háskólafundar og háskólaráðs og brúa þannig bilið á milli stefnu og framkvæmdar, og í þriðja lagi að gera háskólafundi reglulega grein fyrir starfi sínu og framkvæmd vísinda- og menntastefnunnar.

Þá rifjaði Ágústa upp fyrri tillögu starfshópsins um áframhald vinnu við vísinda- og menntastefnu Háskólans, sem samþykkt var á 6. háskólafundi í nóvember 2001. Tillagan var tvíþætt: Í fyrsta lagi að tillögur um breytingar á vísinda- og menntastefnu Háskólans yrðu ekki til umræðu fyrr en haustið 2002. Auglýst yrði eftir breytingartillögum eða athugasemdum við vísinda- og menntastefnuna frá deildum og stofnunum sem eiga fulltrúa á háskólafundi. Í öðru lagi að lögð yrði áhersla á kynningu vísinda- og menntastefnunnar eins og hún liggur fyrir. Um síðari lið tillögunnar er það að segja að hann hefur að öllu leyti gengið eftir. Vísinda- og menntastefnan hefur verið vel kynnt eins og fram kom á síðasta Háskólafundi.

Á 8. háskólafundi í nóvember 2002 lagði starfshópurinn þá tillögu fyrir háskólafund um áframhaldandi málsmeðferð vísinda- og menntastefnunnar að hver deild og stofnun sem á fulltrúa á háskólafundi gefi stutt yfirlit yfir framkvæmd og endurskoðun þróunaráætlana sinna á næsta fundi. Með fundarboði fyrir 9. háskólafund vorið 2003 var auglýst eftir athugasemdum við vísinda- og menntastefnuna. Engar nýjar athugasemdir bárust en fyrir lágu breytingartillögur frá forseta læknadeildar, Reyni Tómasi Geirssyni. Auk nokkurra minni háttar breytinga um málfar, sem starfshópurinn fór yfir og felldi inn í textann, er um að ræða efnislegar breytingartillögur frá forseta læknadeildar og eru þær bornar undir fundinn.

Rektor þakkaði Ágústu og gerði síðan grein fyrir breytingartillögunum. Fyrri tillagan gerir ráð fyrir að í kaflanum um rannsóknir komi í lok fimmtu efnisgreinar undirkaflans um framkvæmd, ný setning er hljóðar svo:

„Standist starfsmaður ekki almennar kröfur um virkni og vönduð vinnubrögð skal tekið mið af því í framgangskerfinu og við framhald ráðningar í Háskólanum.“

Í greinargerð rektors kom m.a. fram að tillagan felur í raun ekki í sér nýmæli heldur staðfestingu á því sem þegar er gert í Háskólanum. Séu starfsmenn ekki virkir og ástundi þeir ekki vönduð vinnubrögð hefur það bein áhrif á framgang þeirra, enda gerir framgangskerfi Háskólans skýrar kröfur um virkni í rannsóknum. Virkni og vönduð vinnubrögð eru því að sjálfsögðu dæmi um sjónarmið sem leggja á til grundvallar við framgang eða framhald ráðningar, þ.e. þegar um tímabundna ráðningu er að ræða.

Rektor gaf orðið laust:

Tillagan var rædd ítarlega og tóku fundarmenn almennt undir hana. Í umræðunni var m.a. rætt um kosti og galla núgildandi starfsmannalaga, þ.á.m. hversu erfitt er fyrir Háskólann að segja upp óhæfum starfsmönnum, nauðsyn þess að hvetja starfsmenn til dáða og veita þeim aðhald, gildandi reglur um virkni og vönduð vinnubrögð, vöntun á skýrum tímamörkum í framgangsreglum Háskólans, sanngirni stigamatskerfisins gagnvart ólíkum fræðasviðum og gagnsemi reynslutíma við nýráðningar.

Í lok umræðunnar bar Ingjaldur Hannibalsson upp þá breytingartillögu að setningin komi ekki í rannsóknakafla vísinda- og menntastefnunnar heldur í inngangskaflanum þar sem fjallað er almennt um kröfur til háskólakennara og sérfræðinga.

Rektor bar fyrri breytingartillöguna, ásamt viðbótartillögu Ingjaldar, undir atkvæði.

- Samþykkt með 36 atkvæðum, en einn var á móti.

Síðari breytingartillagan gerir ráð fyrir að í kaflanum um rannsóknir verði áttunda efnisgrein undirkaflans um framkvæmd breytt á þessa leið:

„Háskólinn skal setja sér skýrar siðareglur, reglur um samvinnu við fyrirtæki utan Háskólans og við sprotafyrirtæki svo og um höfundarétt og eignarhald á rannsóknaniðurstöðum.“

Í greinargerð rektors kom m.a. fram að allmargir háskólamenn hafa nú þegar bein og óbein tengsl við fyrirtæki í gegnum rannsóknir sínar. Í sumum tilvikum eru þessi tengsl mjög náin, jafnvel þannig að einstakir starfsmenn Háskólans sinna rannsóknum sínum, í heild eða að hluta, inni í fyrirtækjum og á þeirra forsendum. Um þetta gilda engar reglur, en í sumum tilvikum liggur fyrir samkomulag milli Háskóla Íslands og viðkomandi fyrirtækis. Hugverkanefnd Háskólans hefur undanfarin misseri verið með þessi mál í skoðun og er það niðurstaða hennar, eins og deildarforseta læknadeildar, að nauðsynlegt sé að setja um þetta reglur og móta viðmið við gerð samninga.

Rektor gaf orðið laust.

Breytingartillagan var rætt stuttlega og tóku fundarmenn undir hana.

Að umræðu lokinni bar rektor síðari breytingartillöguna undir atkvæði.

- Samþykkt einróma.

Loks bar rektor breytingartillögurnar í heild, þ.á.m. allar tillögur um orðalagsbreytingar, undir atkvæði.

- Samþykkt einróma.

Til máls tóku undir þessum dagskrárlið, auk rektors, þau Anna Agnarsdóttir, Guðmundur Halfdanarson, Gunnlaugur H. Jónsson, Halldór Elíasson, Halldór Jónsson, Helgi Tómasson, Ingjaldur Hannibalsson, Marga Thome, Ólafur Þ. Harðarson, Reynir Tómas Geirsson, Sigurður Brynjólfsson, Þorsteinn Loftsson og Þorsteinn Vilhjálmsson.

Kl. 10:45 - 12:15 - Dagskrárliður 4: Þróunaráætlanir deilda og stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi.

Rektor kynnti málið og lýsti m.a. þeirri ánægjulegu þróun sem átt hefur sér stað innan Háskólans á síðustu árum að háskólafólk deilir nú í ríkara mæli en áður reynslu sinni með öðrum og hafa þróunaráætlanir deilda og stofnana átt sinn þátt í því.

Þá bað rektor deildarforseta og forstöðumenn stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi um að flytja greinargerðir sínar um framkvæmd og endurskoðun þróunaráætlana sinna. (Greinargerðirnar fylgja með fundargerðinni aftast.)

Greinargerðir fluttu Gunnlaugur A. Jónsson, forseti guðfræðideildar, Reynir Tómas Geirsson, forseti læknadeildar, Eiríkur Tómasson, forseti lagadeildar, Ágúst Einarsson, forseti viðskipta- og hagfræðideildar, Anna Agnarsdóttir, forseti heimspekideildar, Ragnar Árnason, forseti tannlæknadeildar, Sigurður Brynjólfsson, forseti verkfræðideildar, Hörður Filippusson, forseti raunvísindadeildar, Ólafur Þ. Harðarson, forseti félagsvísindadeildar, Þórdís Kristmundsdóttir, forseti lyfjafræðideildar, Marga Thoma, forseti hjúkrunarfræðideildar, Vésteinn Ólason, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, Sigurður Ingvarsson, forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Sigrún Klara Hannesdóttir, landsbókavörður, Kristín Jónsdóttir, forstöðumaður Endurmenntunar Háskóla Íslands og Margrét Jónsdóttir fulltrúi Orðabókar Háskólans. Enginn fulltrúi Raunvísindastofnunar Háskólans var mættur á fundinn.

Að loknum flutningi greinargerða deilda og stofnana var þróunarstarf þeirra rætt.

Kl. 13:30 - Dagskrárliður 5: Siðareglur Háskóla Íslands og starfsreglur siðanefndar Háskólans.

Eftir matarhlé bauð rektor fundarmenn aftur velkomna til starfa. Fyrir fundinum lágu drög að siðareglum Háskóla Íslands og drög að starfsreglum siðanefndar Háskólans. Fyrirliggjandi drög hafa verið unnin á síðustu mánuðum af Sigurði Kristinssyni, lektor við Háskólann á Akureyri, og Magnúsi Diðrik Baldurssyni, aðstoðarmanni rektors. Hafa drögin verið til umfjöllunar á fundum rektors með deildarforsetum auk þess sem hópur sérfræðinga á sviði heimspekilegrar siðfræði og lögfræði hefur lesið þau og komið með fjölmargar athugasemdir og ábendingar sem tekið hefur verið mið af við frágang fyrirliggjandi draga. Flutti Sigurður framsögu f.h. þeirra Magnúsar.

Sigurður hóf mál sitt á því að skýra helstu sjónarmið að baki siðareglunum út frá spurningunni, hvaða siðareglur eru gildar. Fyrsta atriðið sem ber að hafa í huga þegar leitast er við að svara þessari spurningu, er að siðareglur hafa gildi óháð því hvort þær hafa verið skráðar. Skráning siðareglna tryggir ekki gildi þeirra og við skráninguna kann að hafa verið sleppt einhverjum gildum reglum. Verkefnið er m.ö.o. ekki að búa til reglur, heldur að skrá einhverjar af þeim reglum sem virðast gilda. Siðferðileg sannindi eru því uppgötvuð fremur en fundin upp. Skráðar siðareglur eru að þessu leyti ólíkar settum reglum sem eiga að samræma störf og hegðun til að forðast árekstra (umferðarreglur eru dæmi um reglur til að koma í veg fyrir árekstra í bókstaflegum skilningi!). Í slíkum tilfellum skiptir ekki höfuðmáli hverjar reglurnar eru, heldur að einhverjum reglum sé fylgt. Þá er skynsamlegt að fela einhverjum vald til að leggja línurnar og mikilvægast að fólk fylgi þeim og sé ekki sífellt að krefjast réttlætingar á einstökum reglum, því slík réttlæting er yfirleitt ekki til. Slíkar reglur öðlast gildi við það að vera settar. Réttnefndar siðareglur eru ekki af þessu tagi. Hver regla verður að vera styðjanleg rökum sem allir ættu að geta fellt sig við. Af þessum sökum væri líka rangt að líta svo á að gildi skráðra siðareglna byggist á samningi þeirra sem reglurnar gilda um. Samningar eru bindandi fyrir þá sem gera þá með sér, en siðareglunum er ætlað að leiðbeina mun fleirum en t.d. þeim sem sitja þennan fund. Frekar mætti líta svo á að gildi reglnanna byggist á því að á þær yrði fallist ef allir sem þær eiga að ná yfir hefðu tök á að koma saman og rökræða gildi þeirra skynsamlega. Af þessu sést að til að siðaregla eigi að teljast gild verður að vera unnt að rökstyðja hana skynsamlega - hún verður að geta staðið af sér málefnalega gagnrýni. Hér er gengið út frá því að slíkur rökstuðningur byggist á tveimur meginstoðum. Annars vegar er um að ræða frumskuldbindingu, við hlutverk og tilgang starfanna. Hver er sá tilgangur? Hvaða markmið og gildi leiða af honum? Rannsóknafrelsið er rökstutt með þessum hætti. Hins vegar er um að ræða almenn siðferðisgildi. Hvað þarf að hafa sérstaklega í huga til að þessi störf verði unnin í samræmi við almenn gildi á borð við það að ganga ekki á bak orða sinna, valda engum skaða að ófyrirsynju, vekja ekki innistæðulausar væntingar, notfæra sér ekki trúgirni fólks, misnota ekki vald sitt yfir öðrum, vera sanngjarn og heiðarlegur o.s.frv.?

Næst vék Sigurður að spurningunni, hvers vegna eigi að skrá siðareglur Háskólans. Megintilgangurinn með skráningu siðareglnanna er að vera háskólafólki hvatning og leiðsögn. Þeim er ætlað að hjálpa fólki að gera sér grein fyrir þeim og tileinka sér þær. Þannig geta siðareglurnar orðið til þess að ýta undir góðar starfsvenjur, stuðla að árangursríkara starfi og starfi sem samrýmist sem best þeim gildum og markmiðum sem háskólastarfið tengist sérstaklega, til dæmis frelsi til rannsókna, öguðum af viðmiðum fræðigreina og óháðum annarlegum þrýstingi. Þá er hinum skráðu siðareglum ætlað að skapa málefnalegan farveg til að greiða úr ágreiningi.

Þegar ákveðið hefur verið að skrá siðareglur Háskólans yfirhöfuð, vaknar næst sú spurning, hvaða reglur eigi að skrá. Því er fyrst til að svara að siðareglurnar eiga ekki að leiðbeina um hegðun fólks í smáatriðum. Þær eiga að halda sig við aðalatriði sem víðtæk samstaða ætti að vera um innan háskólasamfélagsins, þannig að dómgreindin hafi jafnframt nauðsynlegt svigrúm. Siðareglurnar eru listi minnisatriða yfir almenn gildi og ábyrgð, sem einstakar ákvarðanir þurfa að taka mið af. Þær ættu að vera þannig að auðvelt sé að tileinka sér þær. Þetta þýðir að þrátt fyrir að siðareglur Háskólans hafi verið skráðar kann að vera þörf á leiðbeiningum um hegðun á tilteknum verksviðum; t.d. má í þessu sambandi benda á bækling Háskólans um góða starfshætti við kennslu og próf. Annað dæmi væri nánari reglur um rannsóknir á mönnum. Slíkar nánari reglur ættu að vera á vettvangi fagfélaga, deilda og skora (sbr. siðareglur sagnfræðinga og mannfræðinga). Háskólinn gæti líka sett sérstakar reglur um eftirlit með rannsóknum á mönnum. Þetta væri æskilegt vegna faglegs sjálfstæðis skólans sem og vegna þess að núverandi eftirlit er sniðið utan um rannsóknir á sviði heilbrigðis. Loks gat Sigurður þess að siðareglurnar gera mest gagn ef þær minna á ábyrgð sem vitað er að fólk freistast til að ýta til hliðar vegna þekktra hagsmuna. Til dæmis um þetta má nefna ólík atriði eins og ritstuld eða mikilvægi hlutlægni og faglegra sjónarmiða við jafningjamat.

Loks fór Sigurður nokkrum orðum um skipulag og framsetningu siðareglnanna. Þegar siðareglur Háskólans eru bornar saman við siðareglur fagfélaga blasir við að þær síðarnefndu hverfast yfirleitt um tiltölulega vel skilgreinda sameiginlega faghugsjón. Samfélag háskólaborgara er hins vegar mun víðara. Af þessum sökum er reglunum skipt í tvennt eftir því hvort um er að ræða atriði sem lúta að akademískum störfum sérstaklega eða ekki. Siðferðileg ábyrgð er alltaf borin af einhverjum og gagnvart einhverjum. Tvískipting siðareglnanna ræðst af því hver ber ábyrgðina (sá sem sinnir akademískum störfum eða hinn almenni háskólaborgari). Innan hvors hluta er ákvæðum hins vegar skipað eftir því gagnvart hverjum ábyrgðin er borin. Almennu ákvæðin skiptast í þrennt: Gagnvart þjónustuþegum, stofnuninni og öðru starfsfólki. Sérhæfðu ákvæðin skiptast í fernt: Gagnvart eigin fræðigrein, gagnvart nemendum/kennurum, gagnvart kollegum og gagnvart samfélaginu. Þetta þýðir að ákvæði um jafnræði kemur fyrir oftar en einu sinni, en ekki þótti ástæða til að forðast þá endurtekningu, enda verður sú góða vísa tæplega of oft kveðin. Þriðji hluti bálksins lýtur síðan að viðbrögðum við brotum á siðareglunum. Afar mikilvægt er að skilgreindur farvegur fyrir brot sé til og að hann sé sem best skilgreindur, þótt vissulega sé æskilegast að sem sjaldnast komi til kasta siðanefndarinnar.

Að lokum beindi Sigurður þeim orðum til fundarmanna að það væri vonandi að siðareglurnar ættu eftir að þjóna hlutverki sínu, sem er eins og áður sagði fyrst og fremst að vera til hvatningar og leiðbeiningar. Þetta gera þær ekki nema fólk sýni því áhuga að tileinka sér og notfæra sér þær sem og að huga að þeim á gagnrýnan hátt. Siðareglur Háskóla Íslands mega ekki staðna, heldur verða að vera sífellt til endurskoðunar.

Að lokinni framsögu Sigurðar gaf rektor orðið laust.

Málið var rætt ítarlega og lýstu fundarmenn almennt ánægju sinni með að Háskóli Íslands skyldi nú hafa skráð siðareglur sínar. Rætt var um fjölmörg einstök atriði fyrirliggjandi draga að siðareglum Háskóla Íslands, s.s. nauðsyn þess að háskólafólk lifi við skráðar siðareglur, m.a. vegna þess aðhalds sem þær veita, hvort reglurnar skuli vera almennt orðaðar eða tiltaka áþreifanleg dæmi, hvort reglurnar skuli orðaðar ‘neikvætt', þ.e. með því að tilgreina hvað háskólafólki ber ekki að gera, eða ‘jákvætt' með því að tilgreina hvað beri að gera, hvort gagnlegt geti verið að fjalla ítarlegar um ábyrgð nemenda, enda mikið gert úr ábyrgð kennara í siðareglunum, hverjar skyldur starfsmanna séu við Háskólann og hvort skylda þeirra sé ríkari, við Háskólann eða við þátttöku í félags- og stjórnmálum og hvort skylda beri háskólafólk til að gagnrýna Háskólann ef fyrir liggja rökstuddar ástæður. Einnig var rætt sérstaklega um fyrirliggjandi drög að starfsreglum siðanefndar Háskólans. Meðal annars var spurt, hvort heppilegra sé að setja á laggirnar sérstaka siðanefnd eða treysta því að háskólafólk viti hvað eru góðir siðir og eftirláta það rektor og deildarforsetum að bregðast við hugsanlegum brotum, hvert sé túlkunarsvið slíkrar nefndar og hvernig siðanefnd geri grein fyrir og birti niðurstöður sínar. Svöruðu þeir Sigurður og Magnús Diðrik framkomnum spurningum og athugasemdum.

Að umræðu lokinni bar rektor upp þá tillögu að fyrirliggjandi drögum að siðareglum Háskóla Íslands og drögum að reglum um siðanefnd Háskólans verði vísað til frekari skoðunar til rektors og deildarforseta. Þessi hópur leggi fram endurskoðuð drög á næsta háskólafundi.

- Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og þeirra Sigurðar Kristinssonar og Magnúsar D. Baldurssonar, Anna Agnarsdóttir, Ágúst Einarsson, Einar Ragnarsson, Guðmundur Halfdanarson, Guðrún Þórhallsdóttir, Gunnar Harðarson, Halldór Elíasson, Jón Torfi Jónasson, Kristín Jónsdóttir, Rannveig Traustadóttir, Reynir Tómas Geirsson, Stefán B. Sigurðsson, Vésteinn Ólason og Þórður Harðarson.

 

Kl. 15:00 - 16:15 - Dagskrárliður 6: Málstefna Háskóla Íslands.

Í upphafi þessa dagskrárliðar greindi rektor frá því að á fyrri háskólafundum hefði málstefna Háskóla Íslands iðulega borið á góma, m.a. í tengslum við mótun sameiginlegrar vísinda- og menntastefnu Háskólans, án þess að hún hefði verið beinlínis á dagskrá. Því hefði verið ákveðið taka hana til sjálfstæðrar umfjöllunar á þessum háskólafundi. Í þessu skyni var leitað til þeirra Kristjáns Árnasonar prófessors og Karítasar Kvaran, forstöðumanns Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins og þau fengin til að hafa stuttar framsögur um efnið. Þau hafa hvort með sínum hætti mikið fengist við spurningar tengdar málstefnu Háskólans.

Að þessum inngangsorðum slepptum gaf rektor Kristjáni Árnasyni, fyrri frummælanda undir þessum dagskrárlið, orðið. Bar erindi Kristjáns yfirskriftina „Málstefna Háskóla Íslands. Nokkrir punktar“. Hóf Kristján mál sitt á því að nefna til sögunnar þrjú almenn sjónarmið varðandi málrækt og málstefnu: Í fyrsta lagi umdæmisvanda málsins, þ.e. hvar það sé notað, í öðru lagi formvanda málsins, þ.e. hvernig megi rækta form þess, efla það og auðga, og í þriðja lagi sjálfa málnotkunina. Varðandi síðasttalda sjónarmiðið benti Kristján sérstaklega á að spurningin um góða eða vonda málnotkun takmarkast ekki við íslensku, heldur eigi hún ekki síður við notkun ensku, latnesku, þýsku, frönsku eða hvaða tungumáls sem vera vill, hvort sem um er að ræða málnotkun í Háskóla Íslands eða annars staðar.

Næst vék Kristján að hlutverki og starfsemi Háskóla Íslands. Greindi hann á milli kennslu- og rannsóknahlutverks skólans annars vegar og fræðslu og þjónustuhlutverks hans hins vegar, eins og gert er í lögum um Háskóla Íslands og vísinda- og menntastefnu hans. Felst fræðslu- og þjónustuhlutverkið einkum í því að efla þekkingu í samfélaginu, en segja má að það gerist ekki fyrr en þekkingin er orðuð á íslensku. Í framhaldi af þessu fór Kristján fáeinum orðum um mikilvægi rannsóknafrelsis og kjölfestuhlutverk Háskólans í akademísku lífi á Íslandi. Háskólinn er stærsti vinnustaður íslenskra vísindamanna, þar sem flestir þeirra stíga sín fyrstu skref sem nemar og margir eyða stórum hluta starfsævi sinnar sem kennarar. Það er frumskylda Háskólans við nemendur og starfsfólk að skapa því hvetjandi umhverfi til vísindastarfa, t.d. með því að efla erlend samskipti. Þó er ekki síður mikilvægt að Háskólinn stuðli að því eftir föngum að íslenskir vísindamenn geti fullnægt metnaði sínum hér heima og á íslenskum forsendum, m.a. með því að umbuna þeim fyrir að gera fræðin íslensk, þ.e. skrifa um þau á íslensku.

Í framhaldi af þessari lýsingu á hlutverki Háskólans varpaði Kristján fram þeirri spurningu, hvað eigi að móta málstefnu skólans. Var svar Kristjáns tvíþætt: Í fyrsta lagi eigi málstefnan að vera partur af meginstefnu Háskólans í rannsókna- og menntunarmálum, og í öðru lagi eigi Háskólinn að leitast við að samræma þau markmið að vera í senn hluti af hinu alþjóðlega vísindasamfélagi og halda uppi merki íslenskra fræða og sinna íslensku samfélagi. Þegar talað er um íslensk fræði er mikilvægt að gera greinarmun á því hvort átt er við öll þau fræði sem Íslendingar stunda annars vegar, hvort sem um er að ræða íslenska verkfræði eða íslensk málvísindi, eða fræði sem fást við íslensk efni hins vegar. Slík efni geta ýmist verið íslensk félags- og hugvísindi, s.s. saga Íslands, íslensk tunga og íslenskt samfélag, eða raunvísindi er afla þekkingar á íslenskri náttúru og leggja fram skerf til alþjóðlegra fræða, ekki síst með því að beita vísindalegum aðferðum við rannsóknir á íslenskum raunheimi. Hér má minna á að ýmis einkenni íslensks máls sem hafa vakið áhuga málvísindamanna vítt um heim og vafalaust er svo um fleiri efni og vísindagreinar.

Lokahluta framsöguerindis síns hóf Kristján á því að bera upp tillögu um málstefnu Háskóla Íslands sem byggir á þeirri meginreglu að kennslumál og ritmál Háskólans verði fyrst og fremst íslenska - nema sérstaklega standi á. Þetta felur í sér að próf, ritgerðir t.o.m. meistaraprófi verði á íslensku - nema sérstaklega standi á. Doktorsritgerðir geti hins vegar verið á erlendu máli ef henta þykir. Þessi skilgreining á málstefnu vekur upp þá spurningu, hvenær standi sérstaklega á. Svaraði Kristján því til að sérstaklega standi á ef kennari er erlendur eða kennslan sé einkum ætluð útlendingum. Slík kennsla fari fram á alþjóðlegum námsbrautum og það verði hlutverk háskólaráðs að taka afstöðu til þess hvort námsbraut skuli skilgreind sem alþjóðleg. Setja verði reglur um aðgang íslenskra stúdenta að námsbrautunum, og ekki virðist hægt að banna þeim þátttöku í alþjóðlegu námi. En vissulega gæti þá t.d. komið upp sú sérkennilega staða að íslenskur málfræðingur kenni fjórum íslenskum nemendum og einum norskum um „Old Norse“/„Insular Scandinavian“ á ensku!

Til að bregðast við umdæmisvandanum og formvandanum, sem getið var um í upphafi, þyrfti Háskólinn að hvetja starfsmenn sína til að sinna málrækt og umbuna þeim fyrir slík störf. Þetta mætti gera með því að meta fræðirit á íslensku að verðleikum og jafnvel verðlauna þau sérstaklega. Einnig gæti gerð orðasafna talist hluti af rannsókna- og kennsluskyldu starfsmanna Háskólans, þannig að menn gætu fengið stig fyrir slík störf.

Að endingu varpaði Kristján fram til umhugsunar hugmynd um stofnun Rithjálparstöðvar fyrir stúdenta og aðra starfsmenn Háskólans, sem hefði það hlutverk að stuðla að betri málnotkun. Til greina kæmi að fela Málvísindastofnun að annast starfsemina eða leita eftir samstarfi við Íslenska málstöð. Á vegum Rithjálparstöðvar gætu meistaranemar í heimspekideild tekið að sér að lesa ritgerðir annarra.

Síðari framsöguna undir þessum dagskrárlið flutti Karítas Kvaran, forstöðumaður Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins. Hóf Karítas mál sitt á því að rekja sögu skipulegra stúdentaskipta Háskóla Íslands við erlenda háskóla, en upphaf þeirra má rekja til ársins 1989 þegar Nordplus-áætlun Norðurlandaráðs var hleypt af stokkunum. Árið 1992 fengu Íslendingar aðgang að Eramsus-stúdentaskiptaáætlun Evrópusambandsins og 1997 gerðumst við aðilar að bandarísku stúdentaskiptasamtökunum ISEP, en jafnframt hefur verið unnið að gerð tvíhliða samninga við fjölmarga háskóla víðsvegar um heiminn. Í dag eru í gildi um 300 samningar við erlenda háskóla. Stúdentaskipti við háskólann í Minnesóta í Bandaríkjunum eiga sér þó lengri sögu, en á síðasta ári var haldið upp á 25 ára afmæli samstarfssamnings við þann skóla.

Í fyrstu voru stúdentaskiptin aðallega á annan veginn, þ.e. Háskóli Íslands sendi stúdenta til útlanda en mjög fáir erlendir stúdentar komu hingað til náms. Þetta varð til þess að samstarfsaðilar okkar við erlenda háskóla þrýstu á að hér yrði boðið uppá nám sem hentaði þeirra nemendum því stúdentaskiptin áttu ævinlega að vera gagnkvæm. Tungumálið var helsti þröskuldurinn, þar sem íslenska er eitt af minna útbreiddu tungumálum veraldar og fáir stúdentar sem hyggjast koma hingað til 3-9 mánaða dvalar hafa nægilega kunnáttu til að geta nýtt sér kennslu á íslensku. Háskóli Íslands stóð því frammi fyrir því vali að draga sig út úr þessu samstarfi eða koma til móts við þá erlendu stúdenta sem hefðu áhuga á því að koma hingað og taka hluta af námi sínu við Háskólann, með því að bjóða þessum hópi upp á námskeið kennd á ensku. Þetta er sú leið sem Norðurlandaþjóðirnar, Hollendingar og ýmsir aðrir sem tala lítt útbreidd tungumál hafa farið. Í upphafi buðu deildir Háskólans upp á stök námskeið kennd á ensku og ekki stóð á því að að erlendir stúdentar tóku að streyma til landsins. Síðar fóru deildirnar að bjóða upp á misseris og síðar árs nám kennt á ensku og var tilgangurinn með þessu ætíð sá að koma til móts við skiptistúdenta. Í dag er á heimasíðu Háskólans listi með um 190 námskeiðum kenndum á ensku sem standa erlendum stúdentum til boða næsta skólaár. Af þessum námskeiðum eru 30 í enskuskor. Nú er svo komið að Háskólinn tekur við fleiri skiptistúdentum en hann sendir utan. Á þessu kennsluári sendir Háskólinn um 190 stúdenta utan en tekur á móti um 240 erlendum stúdentum.

Það sem einnig hefur gerst í kjölfar þess að farið var að bjóða upp á námskeið á ensku er að erlendir nemendur sem ekki eru skiptistúdentar en sækja um skólavist á eigin vegum, hafa aukinn áhuga á þessum námskeiðum. Sumir þeirra ætla sér að fara til síns heima að loknu eins árs námi kenndu á ensku, en stór hópur kemur hingað til lands í þeim tilgangi að ljúka námi frá Háskóla Íslands. Fyrsta árið taka þeir nám kennt á ensku en síðan kemur að því að þeir þurfa að fara í nám kennt á íslensku og þá vandast málið því fæstir hafa nokkra kunnáttu í íslensku.

Í dag er staðan sú að af 572 erlendum stúdentum sem eru við nám við Háskóla Íslands er tæplega helmingur skiptistúdentar sem fara heim eftir 1-2 misseri og útskrifast frá sínum heimaskóla.

Stór hluti þess hóps erlendra stúdenta sem kemur á eigin vegum vill ljúka námi og útskrifast með próf frá Háskóla Íslands.

Í dag eru engar formlegar kröfur gerðar til erlendra stúdenta sem koma til náms við Háskóla Íslands um tungumálakunnáttu, hvorki í íslensku né ensku. Hvað skiptistúdentana varðar eru í gildi samningar við samstarfsskóla erlendis og er þeim treyst til að velja stúdenta sem hingað eru sendir sem hafi nægilega þekkingu á ensku til að geta nýtt sér það nám sem hér er í boði, en engar formlegar tungumálakröfur eru gerðar til annarra erlendra stúdenta.

Sem dæmi um þetta má nefna að í einni deild Háskólans eru 60 erlendir stúdentar og aðeins 20 af þeim eru skiptistúdentar. Dæmi eru um að nemendur sem hafa enga íslenskukunnáttu og litla sem enga enskukunnáttu hafi verið teknir inn í skólann sem fullgildir nemendur. Það segir sig sjálft að ef slíkum stúdentum fjölgar mikið skapar það mikinn vanda.

Í ljósi þessa má spyrja hvort ekki sé tímabært að Háskóli Íslands fari sömu leið og háskólar á hinum Norðurlöndunum, í Evrópu, Bandaríkjunum og í flestum löndum sem við eigum samstarf við og geri þá kröfu að erlendir stúdentar sem koma hingað á eigin vegum standist stöðupróf í þeim tungumálum sem kennt er á við skólann áður en þeir fá samþykki um skólavist. Þetta felur í sér að erlendir stúdentar sem ætla að stunda nám kennt á íslensku verði að standast stöðupróf í íslensku áður en skólavist er samþykkt og þeir sem ætla að stunda nám kennt á ensku þurfi að sýna fram á ákveðna lágmarkseinkunn á TOEFL-prófi eða öðru sambærilegu þekktu alþjóðlegu enskuprófi fyrir útlendinga. Þeir sem hafa ensku sem móðurmál væru þó undanþegnir enskuprófi.

Þó ekki sé hægt að alhæfa um tungumálakunnáttu stúdenta eftir þjóðernum hefur reynslan samt kennt okkur að stúdentar frá Norðurlöndunum og Norður-Evrópu standa oftast betur að vígi hvað varðar enskukunnáttu en t.d. stúdentar frá Suður- og Austur-Evrópu, svo ekki sé minnst á stúdenta frá ýmsum fjarlægari heimshlutum. Það er vitað að sumir háskólar, t.d. í Hollandi, krefjast þess að stúdentar frá Ítalíu sýni fram á lágmarkseinkunn á TOEFL-enskuprófi, en gera ekki sambærilegar kröfur til stúdenta frá t.d. Norðurlöndunum. Þetta er gert að fenginni margra ára reynslu af því að taka á móti erlendum stúdentum.

Íslenskir stúdentar sem fara til náms erlendis eru varið því að þurfa að gangast undir tungumálapróf af þessu tagi og þykir öllum sjálfsagt mál. Spurningin sem Háskóli Íslands þarf að taka afstöðu til er m.ö.o. sú, hvort ekki sé tímabært að sambærilegar reglur verði innleiddar við skólann.

Að erindunum loknum þakkaði rektor framsögumönnum fyrir og gaf orðið laust. Sköpuðust fjörugar umræður um málstefnu Háskólans þar sem m.a. var rætt um hrakandi íslenskukunnáttu íslenskra stúdenta og leiðir til úrbóta, m.a. í samráði við lægri skólastig, hvernig Háskólinn geti betur fært sér í nyt þá auðlind sem erlendir stúdentar iðulega eru, hvort það eigi að vera markmið í sjálfu sér að fjölga erlendum stúdentum við Háskólann eða hvort það sé nauðsynlegur fylgifiskur alþjóðlegs rannsóknaháskóla, hvernig auka megi samskipti milli íslenskra og erlendra stúdenta, hvort gera eigi skýrari greinarmun á erlendum skiptistúdentum og stúdentum sem koma til Háskólans á eigin vegum, t.d. með því að láta síðarnefnda hópinn þreyta inntökupróf í íslensku eða ensku máli, þá breyttu stöðu sem komin er upp með íslensku fjölmenningarsamfélagi, t.d. þegar nýbúar sem eru Íslendingar tala ekki íslensku, hvort gera eigi erlendum nemendum utan Evrópusambandsins sem koma á eigin vegum að greiða skólagjöld, t.d. með því að færa námskeiðin eða námsbrautirnar fyrir þá til Endurmenntunarstofnunar, hvort gera eigi skýrari greinarmun á almennri fjölgun námskeiða og skilgreindum námsbrautum á ensku, muninn á mati á birtingum háskólakennara á innlendum og erlendum vettvangi, hvort kennarar séu almennt í stakk búnir að kenna á ensku og um aukið álag á kennara sem þurfa að kenna ýmist á íslensku eða ensku og hvort hraðvaxandi alþjóðavæðing krefjist þess að íslensk þjóð verði tvítyngd.

Að umræðu lokinni þakkaði rektor fundarmönnum fyrir og lagði til að málið yrði áfram á dagskrá á næsta fundi. Rektor og deildarforsetar myndu undirbúa málið fyrir þann fund.

- Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og þeirra Kristjáns Árnasonar og Karítas Kvaran, Anna Soffía Hauksdóttir, Ágúst Einarsson, Eiríkur Tómasson, Guðmundur Halfdanarson, Halldór Jónsson, Ingjaldur Hannibalsson, Jón Torfi Jónasson, Kristín Jónsdóttir, Rannveig Traustadóttir og Sigurður Brynjólfsson.

Að lokum þakkaði rektor þeim sem tóku þátt í undirbúningi fundarins.

Fleira var ekki gert.

Rektor sleit fundi kl. 16:15 og bauð fundarmönnum að þiggja léttar veitingar í anddyri Hátíðasalar.
 

Listi yfir gögn sem lögð voru fram á 9. háskólafundi:

1.  Dagskrá 9. háskólafundar 23. maí 2003.
2.  Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.
3.  Árbók Háskóla Íslands 2002.
4.  Ritaskrá Háskóla Íslands 2002.
5.  Glærur frá ársfundi Háskólans 21. maí 2003.
6.  Minnisblað rektors um ýmis sameiginleg málefni Háskólans, dags. 23.  maí 2003.
7.  Tillögur um breytingar á reglum um skipan og fundarsköp háskólafundar.
8.  Drög að siðareglum Háskóla Íslands ásamt drögum að starfsreglum siðanefndar Háskóla Íslands.
9.  Glærur við framsögu Kristjáns Árnasonar v. dagskrárliðar 6 um  málstefnu Háskólans.
10. Glærur við framsögu Karítas Kvaran v. sama dagskrárliðar.
11. Samantekt um þróunaráætlun raunvísindadeildar.
12. Samantekt um þróunaráætlun læknadeildar.