Skip to main content

25. háskólafundur 17. apríl 2008

25. háskólafundur haldinn 17. apríl 2008 í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 13.30-16.30

Dagskrá

Kl. 13.30 - 13.35 Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir framkomnum gögnum (5 mín.).
Kl. 13.35 - 13.50 Dagskrárliður 1. Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands (15 mín.).
Kl. 13.50 - 14.20 Dagskrárliður 2. Stefna Háskóla Íslands 2006-2011. Staða mála. (30 mín.).
Kl. 14.20 - 15.20 Dagskrárliður 3. Stefna Háskóla Íslands 2006-2011. Framkvæmd stefnu Háskóla Íslands á sviði náms og kennslu. (60 mín.).
Kl. 15.20 - 15.40 Kaffihlé (20 mín.)
Kl. 15.40 - 16.30 Dagskrárliður 4. Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands: Háskóli Íslands sem miðstöð kennaramenntunar í landinu (50 mín.).
Kl. 16.30 Rektor slítur fundi.
 

Kl. 13.30-13.35: Fundarsetning

Rektor setti 25. háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Sérstaklega bauð rektor velkomna starfandi forstjóra Landspítala-háskólasjúkrahúss og aðra nýja fulltrúa á háskólafundi. Þá gerði rektor grein fyrir útsendum og framlögðum fundargögnum, dagskrá og tímaáætlun fundarins. Fundarritari var Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri Háskólans.

Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að eftir að fundarboð og fundargögn voru send út til fulltrúa á háskólafundi hefði komið fram nýtt frumvarp til laga um opinbera háskóla sem mælt væri fyrir á Alþingi á sama tíma og háskólafundur færi fram. Háskóli Íslands ætti eftir að fá frumvarpið til formlegrar umsagnar, en sökum þess hve brýnt það væri fyrir Háskólann að renna lagastoð undir innleiðingu nýs skipulags og stjórnkerfis Háskólans væri nauðsynlegt að taka frumvarpið til kynningar og umræðu á fundinum. Því bar rektor upp tillögu um að dagskrá fundarins yrði breytt svo:

Kl. 13.30 - 13.35 Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir framkomnum gögnum (5 mín.).
Kl. 13.35 - 14.10 Dagskrárliður 1. Stefna Háskóla Íslands 2006-2011 og mál sem eru efst á baugi (35 mín.).
Kl. 14.10 - 14.50 Dagskrárliður 2. Frumvarp til laga um opinbera háskóla. (40 mín.).
Kl. 14.50 - 15.10 Kaffihlé (20 mín.)
Kl. 15.10 - 15.50 Dagskrárliður 3. Stefna Háskóla Íslands 2006-2011. Framkvæmd stefnu Háskóla Íslands á sviði náms og kennslu. (40 mín.).
Kl. 15.50 - 16.30 Dagskrárliður 4. Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands: Háskóli Íslands sem miðstöð kennaramenntunar í landinu (40 mín.).
Kl. 16.30 Rektor slítur fundi.

Rektor gaf orðið laust en enginn tók til máls.

Þá bar rektor dagskrártillögu sína undir atkvæði.

- Samþykkt einróma.
 

Kl. 13.35 - 14.10 - Dagskrárliður 1: Stefna Háskóla Íslands 2006-2011 og mál sem eru efst á baugi

Rektor hóf mál sitt á því að rekja stuttlega helstu viðburði frá síðasta háskólafundi og stöðu mála varðandi framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011:

Helstu viðburðir frá síðasta háskólafundi
· 27. október sl. fór fram brautskráning kandídata í Háskólabíói. Brautskráðir voru tæplega 400 kandídatar frá öllum deildum Háskólans og þremur starfsmönnum veittar viðurkenningar fyrir lofsverðan árangur í starfi, Jórunni Erlu Eyfjörð, prófessor við læknadeild, fyrir framlag sitt til vísinda, Gylfa Zoëga, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild, fyrir framlag til kennslu og Evu Dagmar Steinsson, deildarstjóra launadeildar Háskólans, fyrir framlag til góðra starfshátta og starfsmannamála við Háskóla Íslands.
· 1. desember sl. fór fram við hátíðlega athöfn vígsla nýjustu bygginga Háskólans, Háskólatorgs, Gimlis og Traðar.
· 16. febrúar sl. var haldin glæsileg námskynning í Háskólatorgi. Á sjötta þúsund gestir lögðu leið sína á Háskólatorg til að kynna sér námsframboð skólans. Lögð var áhersla á að kynna fjölbreytni í námi en í boði eru um 500 námsleiðir. Að þessu sinni kynntu Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands nám sitt sameiginlega í ljósi þess að skólarnir verða sameinaðir 1. júlí nk. Þar með verður til langstærsti háskóli á Íslandi.
· Fyrir skömmu birti Gallup niðurstöður þjóðarpúls síns sem staðfestu enn að Háskóli Íslands er sú stofnun á Íslandi sem nýtur langmests trausts þjóðarinnar. Á síðustu árum hafa um 85% aðspurðra lýst miklu trausti til Háskólans, en traustið jókst nú enn og mældist um 90%.
· Hinn 8. apríl sl. hélt Al Gore, friðarverðlaunahafi Nóbels og fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, fjölsóttan fyrirlestur í Háskólabíói um áhrif loftslagsbreytinga. Fyrirlesturinn var í boði embættis forseta Íslands, Glitnis og Háskóla Íslands og vakti mikla athygli.

Framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011

Framúrskarandi rannsóknir
· Miðstöð framhaldsnáms. Í undirbúningi er stofnun Miðstöðvar framhaldsnáms (e. Graduate School) sem mun hafa það hlutverk að efla og samhæfa gæði meistara- og doktorsnáms við Háskóla Íslands. Stefnt er að því að auglýsa starf forstöðumanns Miðstöðvarinnar í haust.
· Fjölgun nýdoktora. Áfram er unnið markvisst að því að raungera það stefnumið að fjölga brautskráðum doktorum og að laða nýdoktora til starfa við Háskólann. Í þessu skyni voru nýverið auglýstir nokkrir styrkir fyrir störf nýdoktora við skólann og rennur umsóknarfrestur út 1. júní nk.
· Aukin sókn í erlenda samkeppnissjóði. Unnið er að því að koma á laggirnar styrkjakerfi til stuðnings akademískum starfsmönnum Háskólans sem sækja um styrki í erlenda samkeppnissjóði.
· Ný akademísk störf. Á grundvelli samnings við menntamálaráðuneytið um fjármögnun Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 verður akademískum störfum við skólann fjölgað um 20 árið 2008 og önnur 20 árið 2009.
· Stuðningur við öfluga rannsóknahópa. Háskólaráð hefur skipað nefnd sem hefur það hlutverk að gera tillögu um verklag við úthlutun styrkja til öflugra rannsóknahópa sem hafa burði til að vera í fremstu röð á alþjóðavísu.
· Aukið samstarf við erlenda háskóla og vísindastofnanir. Markvisst er unnið að því að byggja upp og treysta skipulegt samstarf við framúrskarandi erlenda háskóla og vísindastofnanir. Í því sambandi er sérstaklega horft til nemenda- og kennaraskipta og sameiginlegra prófgráða (e. joint degrees).
· Samstarf við Caltech. Nýlega lauk heimsókn stjórnenda Caltech-háskóla í Bandaríkjunum og afhendingu styrkja til þriggja nemenda Háskóla Íslands til dvalar við Caltech. Caltech er í hópi fimm fremstu háskóla heims, m.a. hafa verið 23 nóbelsverðlaunahafar meðal starfsmanna skólans, og er það því mikill heiður og viðurkenning fyrir Háskóla Íslands að verða formlegur samstarfsaðili hans.
· Samstarf við Asíu. Að undanförnu hafa verið gerðir formlegir samstarfssamningar við nokkra af bestu háskólum í Asíu, s.s. Fudan-háskóla í Shanghai og Jilin-háskóla í Changchun, NA-Kína. Síðarnefndi háskólinn er sá stærsti í Kína. Þá hefur verið stofnuð svonefnd Konfúsíusarstofnun við Háskóla Íslands. Ákvörðun um opnun hennar á Íslandi var tekin sameiginlega af yfirvöldum Kína og Íslands. Stofnunin hefur að markmiði að efla fræðslustarfsemi um kínversku og kínverska menningu og verður hún starfrækt í samstarfi Háskóla Íslands og Ningbo háskóla í Suður-Kína. Fyrir milligöngu kínverska menntamálaráðuneytisins hefur Háskóli Íslands fengið sendikennara til starfa fyrir árin 2007-2009. Í tengslum við undirbúning Konfúsíusarstofnunarinnar var tekin ákvörðun um að senda kennara frá Ningbo-háskóla, Linzhe Wang, en hann gegnir þar stöðu lektors. Stofnað hefur verið Asíusetur Íslands - ASÍS sem er samstarfsstofnun Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri með höfuðstöðvar í Háskóla Íslands. Asíusetrinu er ætlað að efla rannsóknir og fræðastörf á Íslandi sem lúta að Asíu og Asíufræðum. Forstöðumaður Asíuseturs Íslands er Geir Sigurðsson. Háskóli Íslands hefur gerst aðili að samstarfi norrænna háskóla í Kína (sjá www.nordiccentre.org/) og hliðstæðu samstarfi norrænna háskóla á Indlandi (sjá

www.nci.uu.se/

). Enn fremur hefur verið komið á formlegu samstarfi við Auðlindastofnun Indlands, TERI Institute í New Dehli.
· Samstarf við norræna og suður-afríska háskóla. Háskóli Íslands hefur nýlega gerst aðili að samtökunum SANORD sem eru samstarfsvettvangur háskóla á Norðurlöndunum og í Suður-Afríku.
· Akademískar nafnbætur. 20. nóvember sl. veitti háskólarektor akademískar nafnbætur starfsfólki LSH og Krabbameinsfélags Íslands sem sinnir rannsóknum og kennslu. Alls hlutu sautján einstaklingar akademískar nafnbætur. Er þetta í fjórða sinn sem Háskólinn veitir nafnbætur með þessum hætti, en í því felst viðurkenning Háskólans á akademísku hæfi þeirra starfsmanna sem nafnbótina hljóta. Nafnbæturnar undirstrika enn fremur hlutverk háskólastarfsemi á þessum stofnunum og órofa tengsl menntunar heilbrigðisstarfsfólks og þjónustu við sjúklinga.
· Fyrsta sameiginlega doktorsgráðan. Háskóli Íslands og Grenoble Institute of Technology (INPG) veittu Mathieu Fauvel fyrstu sameiginlegu doktorsgráðuna sem Háskóli Íslands er aðili að. Leiðbeinendur voru Jón Atli Benediktsson, prófessor við rafmagns- og tölvuverkfræðiskor verkfræðideildar Háskóla Íslands og Jocelyn Chanussot, prófessor við INPG.
· Sameiginlegar meistaragráður. Nýlega úthlutaði Norræna ráðherranefndin styrkjum til að koma á laggirnar norrænu meistaranámi á sex fræðasviðum. Háskóli Íslands er þátttakandi í þremur verkefnum.
· Háskólasjóður Eimskipafélags Íslands. Árið 2008 eru veittir fjórtán styrkir úr Háskólasjóði hf. Eimskipafélags Íslands til doktorsnema við Háskóla Íslands, alls að upphæð 78 m.kr. Úthlutun styrkjanna fór fram í Hátíðasal Háskólans 12. mars sl. Úthlutað var úr sjóðnum í fyrsta skipti árið 2006 og nú stunda á sjötta tug doktorsnema rannsóknir við Háskóla Íslands með stuðningi sjóðsins.

Framúrskarandi nám og kennsla
· Gæði kennslu og kennslumarkmið fræðasviða. Fjölmargar aðgerðir eru á döfinni til að styðja við markmið stefnu Háskóla Íslands um framúrskarandi nám og kennslu. Á þessum háskólafundi verða kynntar tillögur kennslumálanefndar háskólaráðs um framkvæmd stefnunnar í þessum málaflokki.
· Aðgerðir til að draga úr brottfalli og bæta námsframvindu nemenda. Um nokkurt skeið hefur verið starfandi nefnd sem hefur það hlutverk að gera tillögur um aðgerðir gegn brottfalli úr námi og bæta námsframvindu nemenda og mun hún skila tillögum sínum í júní nk.
· Stórbætt þjónusta við nemendur í Háskólatorgi. Með tilkomu Háskólatorgs hefur öll aðstaða fyrir nemendur tekið stakkaskiptum.
· Stórbætt þjónusta við nemendur og kennara vegna skipulagsbreytinga. Eitt af meginmarkmiðum nýs stjórnkerfis og skipulags Háskólans er að bæta þjónustu við nemendur og kennara.
· Afreks- og hvatningarsjóður stúdenta. Stofnaður hefur verður nýr afreks- og hvatningarsjóður stúdenta við Háskóla Íslands sem hefur það hlutverk að styrkja nýstúdenta við Háskóla Íslands sem náð hafa afburðaárangri á stúdentsprófi. Áformað er að víkka út hlutverk sjóðsins síðar með því að styrkja einnig nemendur sem sýna glæsilegan árangur í grunnnámi.
· Efling upplýsingatækni. Skipuð hefur verið nefnd sem hefur það hlutverk að setja fram heildstæða framtíðarstefnu fyrir Háskólann um upplýsingatæknimál og mun hún skila tillögum í vor. Unnið er að gerð nýs ytri vefs og verður hann vígður formlega um leið og Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands sameinast 1. júlí nk. Einnig er unnið að áframhaldandi þróun Uglu, innri vefs Háskólans.
· Bætt kennsluaðstaða í Háskólabíói. Nýlega er lokið endurnýjun á öllum minni sölum í Háskólabíói og hafa m.a. allir stólar verið endurnýjaðir.
· Ráðið í 20 ný akademísk störf árið 2009. Í Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 er m.a. kveðið á um umtalsverða fjölgun akademískra starfsmanna. Með gerð samnings við menntamálaráðuneytið um fjármögnun stefnunnar er nú raunhæft að hrinda þessu stefnumiði í framkvæmd og verða fljótlega auglýst 20 ný akademísk störf sem ráðið verður í árið 2009.
· Sigursælt lið lagadeildar Háskóla Íslands. Keppnislið lagadeildar Háskólans tryggði sér nýlega þátttökurétt í lokakeppni Jessup-málflutningskeppninnar með því að bera sigurorð af liðum frá lagadeild Háskólans í Reykjavík og lagadeild Háskólans á Akureyri. Lið Háskóla Íslands mun því verða fulltrúi Íslands í þessari stærstu málflutningskeppni heims, en lið frá 80 löndum munu taka þátt í lokakeppninni. sem haldin verður í Washington D.C. í Bandaríkjunum.
· Tannlæknanemar unnu til verðlauna. Sjötta árs nemar tannlæknadeildar Háskóla Íslands unnu til fyrstu verðlauna í rannsóknakeppni tannlæknanema í Norður Evrópu um síðustu helgi í Kaupamannahöfn. Alls tóku 17 rannsóknaverkefni þátt í DENTSPLY-keppninni sem fer fram árlega í Kaupmannahöfn á ársþingi danska tannlæknafélagsins. Er þetta afar glæsilegur árangur og staðfestir sterka stöðu tannlæknadeildar.

Framúrskarandi stjórnun og stoðþjónusta
· Nýtt skipulag og stjórnkerfi Háskóla Íslands. Eins og fram hefur komið á síðustu háskólafundum hefur um nokkurt skeið verið unnið að undirbúningi innleiðingar nýs skipulags og stjórnkerfis Háskóla Íslands. Var hið nýja stjórnkerfi samþykkt formlega á háskólafundi og í háskólaráði í október 2007 og hefur það verið kynnt ítarlega innan Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Samkvæmt nýju skipulagi mun Háskólinn skipast í 5 fræðasvið sem hvert um sig skiptist í 3-6 deildir.
· Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Verkefnisstjórn sameiningar hefur unnið að undirbúningi málsins í tæpt ár og eru enn fjölmörg mál í vinnslu (sjá

http://sameining.khi.is

). Meðal þeirra eru undirbúningur nýs sameiginlegs vefs, sameiginlegs skjalastjórnunarkerfis, sameiginleg námskynning, sameiginleg kennsluskrá o.fl. Þá væri í undirbúningi að stofna samstarfsfagráð Menntavísindasviðs og annarra fræðasviða Háskólans til að stuðla að samþættingu náms og eflingu kennaramenntunar. Einnig væri stefnt að flutningi Menntavísindasviðs í nýtt húsnæði á háskólalóðinni innan fimm ára. Loks minnti rektor á boð fyrir starfsfólk Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands í Háskólatorgi á morgun, föstudaginn 18. apríl nk.
· Ný heiti fræðasviða og deilda Háskóla Íslands. Háskólaráð hefur nýlega samþykkt íslensk og ensk heiti hinna 5 nýju fræðasviða og 26 deilda:

Félagsvísindasvið (School of Social Sciences)
Félags- og mannvísindadeild (Faculty of Social & Human Sciences)
Félagsráðgjafardeild (Faculty of Social Work)
Hagfræðideild (Faculty of Economics)
Lagadeild (Faculty of Law)
Stjórnmálafræðideild (Faculty of Political Science)
Viðskiptafræðideild (School of Business Administration)

Heilbrigðisvísindasvið (School of Health Sciences)
Hjúkrunarfræðideild (Faculty of Nursing)
Lyfjafræðideild (Faculty of Pharmaceutical Sciences)
Læknadeild (Faculty of Medicine)
Matvæla- og næringarfræðideild (Faculty of Food Science & Nutrition)
Sálfræðideild (Faculty of Psychology)
Tannlæknadeild (Faculty of Odontology)

Hugvísindasvið (School of Humanities)
Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda (Faculty of Foreign Languages, Literature and Linguistics)
Guðfræði- og trúarbragðafræðideild (Faculty of Theology and Religious Studies)
Íslensku- og menningardeild (Faculty of Icelandic and Comparative Cultural Studies)
Sagnfræði- og heimspekideild (Faculty of History and Philosophy)

Menntavísindasvið (School of Education)
Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild (Faculty of Sport Sciences, Social Education and Leisure Studies)
Kennaradeild (Faculty of Teacher Education)
Uppeldis- og menntunarfræðideild (Faculty of Education Studies)
Þroskaþjálfa- og tómstundafræðideild (Faculty of Social Education and Leisure Studies)

Verkfræði- og náttúruvísindasvið (School of Engineering and Natural Sciences)
Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild (Faculty of Industrial Engineering, Mechanical Engineering and Computer Science)
Jarðvísindadeild (Faculty of Earth Sciences)
Líf- og umhverfisvísindadeild (Faculty of Life and Environmental Sciences)
Rafmagns- og tölvuverkfræðideild (Faculty of Electrical and Computer Engineering)
Raunvísindadeild (Faculty of Physical Sciences)
Umhverfis- og byggingarverkfræðideild (Faculty of Civil and Environmental Engineering)

Samstarf við atvinnulíf
· Samningur við Glitni. Háskóli Íslands og Glitnir hafa undirritað styrktarsamning um verkefni í auðlindarétti til þriggja ára. Heildarframlag Glitnis á samningstímabilinu nemur 9 m.kr.
· Samstarf Háskóla Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landsbankans. Fulltrúar Háskóla Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landsbankans undirrituðu nýlega yfirlýsingu um samstarf og stuðning við þróunar- og rannsóknaverkefni Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála um íbúalýðræði, félagsauð, þátttöku og lýðræðiskerfi íslenskra sveitarfélaga árin 2007-2010.
· Samningur Háskóla Íslands og ÍSOR. Háskóli Íslands, Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) undirrituðu fyrir skömmu samstarfssamning sem felur m.a. í sér að dr. Ólafur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR og dr. Guðni Axelsson, deildarstjóri hjá ÍSOR gegni starfi gestaprófessora við verkfræði- og raunvísindadeildir Háskóla Íslands.
· Samstarfssamningur lagadeildar Háskóla Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins. Rektor Háskóla Íslands, forseti lagadeildar Háskólans og forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins undirrituðu í desember sl. nýjan samning um kennslu í almannatrygginga- og félagsmálarétti við lagadeild Háskólans til ársins 2010.
· Háskóli Íslands og Landmælingar Íslands í samstarf. Rektor Háskóla Íslands og Magnús Guðmundsson, forstjóri Landmælinga Íslands undirrituðu nýlega afnotasamning um notkun á IS 50V landfræðilega gagnagrunninum fyrir stofnanir og nemendur Háskólans.
· Samkomulag milli utanríkisráðuneytisins og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og rektor Háskóla Íslands undirrituðu fyrir skömmu samkomulag um samstarf ráðuneytisins og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands á sviði fræðslu og rannsóknastarfa í alþjóðamálum.
· Toyota styrkir japönskukennslu við Háskóla Íslands. Í lok febrúar sl. var skrifað undir samning um styrk frá Toyota á Íslandi til að efla kennslu í japönsku við hugvísindadeild Háskóla Íslands. Styrkurinn er mikilsvert framlag til að gera deildinni kleift að kenna japönsku næstu tvö ár. Þar með verður í fyrsta sinn mögulegt að ljúka prófi í japönsku sem aðalgrein við Háskóla Íslands. Mikill áhugi er á japönskunámi við skólann.
· Bent Scheving Thorsteinsson færir Háskóla Íslands veglega peningagjöf. Bent Scheving Thorsteinsson veitti í dag Háskóla Íslands veglega peningagjöf til styrktarsjóða skólans að upphæð 13 m.kr. Bent Scheving er einn tryggasti velgjörðarmaður Háskólans og með þessari gjöf hefur hann fært styrktarsjóðum Háskóla Íslands samtals 60 m.kr.

Viðburðir framundan
· Boð fyrir starfsfólk Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands 18. apríl nk.
· Heilsumánuður stendur yfir og verður haldið háskólahlaup 30. apríl nk.
· Formleg opnun Konfúsíusarstofnunar við Háskóla Íslands 16. maí nk.
· Veiting heiðursdoktorsnafnbótar 11. júní nk.
· Brautskráning kandídata í Laugardalshöll 14. júní nk.
· Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands 1. júlí nk.
· Gildistaka nýs skipulags og stjórnkerfis Háskóla Íslands 1. júlí nk.
· 100 ára afmæli lagadeildar haustið 2008.
· 100 ára afmæli Háskóla Íslands 2011.

Að lokinni framsögu sinni um helstu mál á döfinni og framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 fór rektor stuttlega yfir helstu mál framundan. Næsta skref í innleiðingu nýs stjórnkerfis og skipulags Háskóla Íslands er kjör forseta hinna nýju deilda. Um leið og ný lög um opinbera Háskóla taka gildi verða auglýst laus til umsóknar fimm ný störf forseta fræðasviða. Samhliða þessu verður áfram unnið að innra skipulagi fræðasviða og deilda og þar næst skipulagi rannsóknastofnana og þjónustustofnana. Samhliða þessu verður áfram unnið að gerð skorkorts fyrir Háskóla Íslands og er stefnt að því að skorkortið verði tilbúið í haust.

Að lokum lýsti rektor því hversu mikilvægt það hefði verið fyrir Háskóla Íslands að hafa sjálfur haft frumkvæði að því að koma á fót nýju skipulagi og stjórnkerfi við skólann. Víða um lönd væru háskólar að fara í gegnum hliðstætt breytingarferli, en í flestum tilvikum hefði frumkvæðið komið frá stjórnvöldum sem hefði leitt til margvíslegrar togstreitu. Háskóla Íslands hefði hins vegar tekist að fá stjórnvöld í lið með sér um framkvæmd stefnu skólans og myndi það m.a. skila sér í stórauknum fjárveitingum til skólans á næstu árum. Einnig hefði Háskólinn sýnt mikinn styrk í því hve lýðræðislega hefði verið staðið að undirbúningi málsins og hversu ítarlega það hefði verið rætt og loks til lykta leitt í háskólasamfélaginu. Nú væri orðið ljóst að stjórnskipulagstillögur Háskólans hefðu haft mikil áhrif á samningu nýs frumvarps til laga um opinbera háskóla og því hyllti nú undir að hringnum yrði lokað með farsælum hætti.
 

Kl. 14.10 - 14.50 - Dagskrárliður 2: Frumvarp til laga um opinbera háskóla

Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, gerði grein fyrir málinu. Byrjaði Þórður á að gera grein fyrir nokkrum helstu forsendum lagafrumvarpsins:

Forsendur
· Ytri úttektir og úrvinnsla þeirra innan Háskóla Íslands.
· Stefna Háskóla Íslands 2006-2011, samþykkt á háskólafundi 5. maí og staðfest í háskólaráði 11. maí 2006.
· Samningur Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytisins um fjármögnun stefnunnar. Samningurinn var undirritaður 11. janúar 2007 og gildir til ársloka 2011.
· Endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands á grunni stefnunnar. Lokatillögur voru samþykktar á háskólafundi 19. október og í háskólaráði 23. október 2007, nánari útfærsla samþykkt í háskólaráði 6. mars 2008.
· Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands 1. júlí 2008.

Þá rakti Þórður forsendur umsagnar Háskóla Íslands um frumvarpið:

Umsögn Háskóla Íslands
· Mælt er fyrir frumvarpi til laga um opinbera háskóla á Alþingi í dag (17. apríl 2008).
· Í kjölfarið verður leitað formlegrar umsagnar helstu hagsmunaaðila, þ.á.m. Háskóla Íslands.
· Umsögn Háskóla Íslands byggir á samþykktum Háskólans um nýtt skipulag og stjórnkerfi (háskólafundur 19. október 2007 og háskólaráð 23. október 2007 og 6. mars 2008).
· Háskólafundur og háskólaráð hafa því í reynd nú þegar lagt grunninn að umsögn Háskóla Íslands.

Næst bar Þórður saman frumvarpið og samþykktir Háskóla Íslands og fór yfir samsvörun og frávik:

Samsvörun frumvarps og samþykkta Háskóla Íslands
· Frumvarpið er í meginatriðum í samræmi við nýtt skipulag og stjórnkerfi Háskóla Íslands:
- Skipulagseiningar (4. og 11. gr.): Háskóla skipað í skóla (fræðasvið) og deildir.
- Skólum (fræðasviðum) stjórnað af forsetum og deildum af formönnum (forsetum) (12. gr.)
· Greinar 4, 11 og 12 eru forsenda fyrir innleiðingu nýs skipulags og stjórnkerfis Háskóla Íslands.

Frávik frumvarps frá samþykktum Háskóla Íslands
· Fulltrúar í háskólaráði (6. gr.):
- Samþykkt Háskóla Íslands: Rektor (formaður), fimm kjörnir fulltrúar fræðasviða, tveir fulltrúar stúdenta, þrír utanaðkomandi fulltrúar tilnefndir af fráfarandi háskólaráði og skipaðir af menntamálaráðherra. Samtals 11 manns, til tveggja ára í senn (utan rektor).
- Frumvarp: Rektor (formaður), einn fulltrúi háskólasamfélagsins skv. ákvörðun háskólafundar, einn fulltrúi stúdenta, tveir fulltrúar valdir af menntamálaráðherra og tveir fulltrúar valdir af þeim fulltrúum sem fyrir eru í háskólaráði. Við val síðastnefndu fulltrúanna skal leitast við að tryggja sem víðtækasta þekkingu og reynslu háskólanum til stuðnings.
- Samtals 7 manns, til þriggja ára í senn (utan rektor).

· Hlutverk og skipan háskólafundar (9. og 10. gr.):
- Samþykkt Háskóla Íslands: Hlutverk háskólaþings (háskólafundar) verði endurskoðað og eflt
- Núgildandi lög um Háskóla Íslands: Háskólafundur vinnur að þróun og eflingu Háskólans og mótar og setur fram sameiginlega stefnu hans. Háskólafundur setur sjálfum sér reglur um skipan fundarins.
- Frumvarp: Á vettvangi háskólafundar fer fram umræða um þróun og eflingu Háskólans. Fundurinn fjallar um og tekur þátt í að móta sameiginlega stefnu. Háskólaráð setur reglur um skipan háskólafundar.

· Starfstími formanna (forseta) deilda (12. gr.):
- Samþykkt Háskóla Íslands: Forsetar deilda eru kosnir til þriggja ára í senn.
- Frumvarp: Forseti skóla (fræðasviðs) velur formenn (forseta) deilda til tveggja ára í senn.

· Starfsheiti (15. gr.):
- Samþykkt Háskóla Íslands: Gerir ráð fyrir tilteknum heitum á skipulagseiningum (fræðasvið, deildir) og stjórnendum þeirra (forsetar).
- Frumvarp: Heimilt að nota önnur heiti fyrir skipulagseiningar, en ekki ótvírætt hvort einnig megi nota önnur heiti fyrir stjórnendur deilda (forseti í stað formaður).

· Ráðning akademískra starfsmanna (17. gr.):
- Samþykkt Háskóla Íslands: Forseti fræðasviðs ræður akademíska starfsmenn tímabundið í umboði rektors. Rektor tekur ákvörðun um ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna og um framgang á milli starfsheita.
- Frumvarp: Forseti skóla (fræðasviðs) ræður akademíska starfsmenn, hvort sem er tímabundið eða ótímabundið og án umboðs frá rektor.

· Þetta er í ósamræmi við ákvæði 4. gr. frumvarpsins um að rektor beri ábyrgð á ráðningarmálum skóla (fræðasviða) og stofnana.

· Samkvæmt núverandi reglum fyrir Háskóla Íslands tekur rektor ákvörðun um allar ráðningar akademískra starfsmanna.

Þá fór Þórður yfir þau ákvæði frumvarpsins sem fjalla um fjármál og bar þau saman við núgildandi lög um Háskóla Íslands:

Fjármál
· Ekki heimild til töku skólagjalda.
· Þjónustugjöld
- Vegna útgáfu staðfestra vottorða (nýtt).
- Vegna stöðu-, inntöku- og fjarprófa (nýtt).
- Vegna þjónustu sem háskóla er ekki skylt að veita (óbreytt).
- Fyrir þjónustu sem háskóli veitir á grundvelli samnings við menntamálaráðuneytið (óbreytt, sbr. lög um háskóla nr. 63/2006).
- Fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning (óbreytt).
- Heimilt að taka 15% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til skrásetningar utan auglýstra skrásetningartímabila (óbreytt).
- Háskólaráð getur gert tillögu til ráðherra um breytingu á hámarksfjárhæð skrásetningargjalda (óbreytt).

Að endingu vék Þórður sérstaklega að einu atriði sem varðar stjórn háskóla og loks fór hann nokkrum orðum um framhald málsins:

Annað
· Stjórn háskóla (5. gr.):
- Skerpa þarf á því að stjórn háskóla er ekki aðeins falin rektor og háskólaráði, heldur einnig forsetum skóla (fræðasviða) og stjórnum skóla (fræðasviða).

Framhaldið
· Í kjölfar gildistöku laganna setur háskólaráð reglur fyrir Háskóla Íslands. Stefnt er að því að þeirri vinnu verði lokið á háskólaárinu 2008-2009.
· Með reglunum getur háskólaráð kveðið á um ýmsa þætti sem ekki þarf að tilgreina í lögum, s.s. um forsetanefnd, kjör forseta deilda, hæfisskilyrði helstu stjórnenda o.fl.

Að kynningu lokinni gaf rektor orðið laust.

Líflegar umræður fóru fram um málið og komu fram fjölbreytt sjónarmið.

Sjálfstæði og akademískt frelsi
Almennt létu fundarmenn í ljós þá skoðun að frumvarpið væri í flestum atriðum í samræmi við samþykktir Háskólans og í takt við þær breytingar sem orðið hefðu á lagaumhverfi háskóla í nágrannalöndum okkar á undanförnum árum. Einnig var sammæli um það meðal fulltrúa á háskólafundi að það væri grundvallaratriði við setningu laga um opinbera háskóla að vernda sjálfstæði þeirra og akademískt frelsi.

Skipan háskólaráðs
Jafnframt töldu margir fulltrúar að nokkur ákvæði frumvarpsins, einkum þau sem lúta að stjórn háskóla, skipan háskólaráðs og hlutverki háskólafundar, stangist í veigamiklum atriðum á við samþykktir Háskólans. Sérstaklega voru skiptar skoðanir um þau ákvæði frumvarpsins er lúta að skipan háskólaráðs og fjölgun utanaðkomandi fulltrúa. Benti einn fundarmanna á að þessi ákvæði væru lítt rökstudd í frumvarpinu. Í stað eiginlegs rökstuðnings væri með óljósum og almennum hætti vísað í skýrslur úttektaraðila, skýrslur OECD og ótilgreindar "venjur", t.d. um stærð stjórna. Einnig var því haldið fram að ákvæði frumvarpsins um stjórn háskóla styrktu valdheimildir rektors og með þeim væri búin til stjórnunarlína sem næði frá rektor og háskólaráði til forseta skóla og loks niður til grasrótarinnar. Í þessu fælist það viðhorf að háskólar væru fyrirtæki sem best yrði stjórnað af fámennum hópi. Þessi tilhneiging væri varasöm því reynslan sýndi að háskólar döfnuðu best þegar þeir væru drifnir áfram af skapandi þekkingarleit grasrótarinnar. Annar fundarmaður hélt fram því sjónarmiði að ekki væri unnt að taka afstöðu til ákvæða frumvarpsins um skipan háskólaráðs nema með hliðsjón af því hvaða verkefni og völd ráðið ætti að hafa. Ef háskólaráði væri einkum ætlað að styrkja tengsl Háskólans við samfélagið væri eðlilegt og skynsamlegt að fjölga utanaðkomandi fulltrúum. Ef ráðið ætti hins vegar að mestu leyti að fjalla um innri mál Háskólans á borð við reglur, skiptingu fjár, kærumál nemenda o.fl. væri ástæðulaust og óskynsamlegt að kalla fólk til starfa í ráðinu sem ekki hefði efnislega þekkingu á innviðum skólans. Þetta skipti höfuðmáli. Ef frumvarpið yrði óbreytt að lögum þyrfti að tryggja að háskólaráð gagnaðist Háskólanum sem best, t.d. með því að framselja verkefni frá háskólaráði til háskólafundar. Því væri hins vegar ekki að leyna að eins og frumvarpið lægi fyrir væri Háskólinn að nokkru leyti háður því að vera heppinn um það hvaða einstaklingar veldust til að taka sæti í því.

Ósamræmi
Bent var á að nokkurs ósamræmis gætti í frumvarpinu á milli almennra ákvæða sem binda þyrfti í lög og sértækra ákvæða sem óþarft væri að kveða á um í lagatextanum. Þannig væri þar að finna ákvæði um ýmis mál sem ættu að vera á forræði háskólanna sjálfra, t.d. hvar stofnunum verði fyrir komið. Að vissu leyti rækjust hér á gömul og ný viðhorf til lagasetningar. Áður fyrr hefði útfærsla laga að mestu verið á höndum ráðuneyta en það fyrirkomulag hefði smátt og smátt vikið fyrir auknu sjálfstæði þeirra stofnana sem í hlut ættu og væri það vel. Eðlilegt væri að háskólar tækju sjálfir allar meiriháttar ákvarðanir um sín innri mál.

Skólagjöld
Rætt var um það að í frumvarpinu væri ekki að finna almenna heimild opinberra háskóla til að innheimta skólagjöld. Töldu fulltrúar lagadeildar og viðskipta- og hagfræðideildar þetta vera miður því setning nýrra laga væri einstakt tækifæri til að leiðrétta skakka samkeppnisstöðu íslenskra háskóla þar sem sumir hefðu heimild til að innheimta skólagjöld en aðrir ekki. Allir háskólar fengju greitt fyrir kennslu samkvæmt sama reiknilíkani, en einkareknir háskólar hefðu að auki heimild til að innheimta skólagjöld sem gæfi þeim umtalsvert samkeppnisforskot. Þá væru skólagjöld lánshæf hjá LÍN en sökum þess að námslán væru niðurgreidd af opinberu fé væru skólagjöld í reynd óbeint viðbótarframlag ríkisins til einkaskólanna. Þetta fyrirkomulag fæli í sér óréttlæti sem væri í senn óþolandi og einsdæmi í heiminum því það tíðkaðist ekki í neinu öðru ríki. Opinberir háskólar gætu brugðist við þessu með tvennu móti, annað hvort með því að óska einnig eftir heimild til að taka skólagjöld eða með því að krefjast þess að ríkið legði þeim til jafn mikið eða meira fé en einkaskólunum. Að vissu leyti hefði ríkisvaldið komið til móts við Háskóla Íslands með því að veita honum hærra framlag til rannsókna en öðrum skólum, en reynslan sýndi að hinir skólarnir gerðu sífellt meiri kröfu til þess að fá einnig slíkt framlag. Réttlátasta lausnin á þessum vanda væri að ríkisvaldið legði Háskólanum til ígildi skólagjalda sem skólinn ákvæði sjálfur hvernig hann deildi út til deilda. Þá gæti Háskólinn t.d. ákveðið að greiða þetta ígildi skólagjalda til greina þar sem erfitt yrði að fá nemendur með því að leggja á þá skólagjöld eða til þess að jafna út félagslegar og fjárhagslegar forsendur nemenda. Hvernig svo sem þetta yrði útfært í einstökum atriðum þyrfti Háskóli Íslands altént að leita að málamiðlunarleið sem hægt væri að kynna stjórnvöldum. Ólíklegt væri að stjórnvöld tæki málið upp af eigin frumkvæði og því myndu samkeppnisdeildir fara hallloka að óbreyttu.

Sumir fulltrúar vildu ganga lengra og héldu því fram að það væri óhjákvæmilegt að Háskóli Íslands tæki afstöðu til skólagjalda í umfjöllun sinni um frumvarpið. Á móti héldu stúdentar ákveðið fram þeirri skoðun að þeir hefðu ætíð verið á móti skólagjöldum og myndu halda áfram að berjast gegn þeim. Við byggjum í þjóðfélagi sem hefur lagt áherslu á jafnrétti til náms. Vitnuðu stúdentar til þess að rannsóknir samtaka evrópskra stúdenta hefðu sýnt fram á að í löndum þar sem skólagjöld hefðu verið innleidd hefði það haft mikil áhrif á það hverjir færu í háskólanám og hvaða námsgreinar þeir veldu. Annað dæmi um áhrif hagrænna þátta á nám væri afnám tekjutengingar námsmanna við maka sem hefði haft í för með sér að konur hefðu leitað í auknum mæli inn í skólana. Þar að auki væri hvorki minnst á skólagjöld í frumvarpinu né í fundarboði fyrir háskólafundinn og því væri óviðeigandi ræða þau frekar á honum.

Háskólafundur
Rætt var um skipan og hlutverk háskólafundar. Í því sambandi var bent á að í samþykktum háskólafundar og háskólaráðs væri kveðið á um að styrkja ætti hlutverk fundarins, en frumvarpið gerði þvert á móti ráð fyrir veikingu hans. Æskilegt hefði verið að gera ráð fyrir fækkun fulltrúa á fundinum, tíðari fundum og tilfærslu starfsnefnda Háskólans frá háskólaráði til háskólafundar.

Deildir
Nokkuð var fjallað um stöðu og hlutverk háskóladeilda í lagafrumvarpinu. Voru skiptar skoðanir á þessu máli. Töldu sumir að með frumvarpinu væri vald fært frá yfirstjórn háskóla annars vegar og frá deildum hins vegar til skóla og að það væri framfaraspor. Aðrir héldu því fram að hlutur deilda væri of rýr í frumvarpinu og með því yrði undirstaða háskólastarfsins veikt. Þá virtist frumvarpið ekki gera ráð fyrir þeim möguleika að stofnanir verði starfræktar á vegum deilda. Í þessu sambandi var einnig á það bent að í frumvarpinu væri talað um að deildir tilnefndu formann og því haldið fram að þetta væri afturför frá því fyrirkomulagi að deildir kysu sér forseta.

Ráðningarvald
Rætt var um það hver færi með ráðningarvald í akademísk störf samkvæmt frumvarpinu. Benti einn fundarmanna á að texti frumvarpsins væri ekki skýr í þessu efni. Öðrum þræði virtist sem ráðningarvaldið væri að alfarið hjá forseta skóla, en einnig mætti skilja ákvæði frumvarpið svo að forsetinn færi með þetta vald í umboði rektors sem hefði hið endanlega ákvörðunarvald. Þetta þyrfti að skýra.

Umsögn háskólafundar
Að lokinni efnislegri umræðu um frumvarpið var rætt um form og innihald umsagnar Háskólans. Voru fundarmenn sammála um að byggja ætti á fyrri samþykktum háskólaráðs og háskólafundar, enda fælu þær í reynd í sér umsögn Háskólans. Þótt mikill samhljómur væri á milli samþykkta Háskólans og frumvarpsins væri grundvallar munur á afstöðunni til þess hver skipan háskólaráðs ætti að vera. Nauðsynlegt væri að árétta vilja Háskólans í umsögninni.

Að umræðu lokinni bar rektor upp svohljóðandi tillögu um málsmeðferð:

1. Rektor og háskólaráði verði falið að ganga frá umsögn Háskóla Íslands um frumvarp til laga um opinbera háskóla á grundvelli fyrri samþykkta háskólafundar og háskólaráðs og með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram komu á fundinum. Öllum fulltrúum á háskólafundi verði gefinn kostur á að senda inn ábendingar innan tveggja vikna.
2. Í haust verði efnt til umræðu um fjármögnun opinberra háskóla.

- Samþykkt samhljóða með meginþorra atkvæða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Þórðar Kristinssonar, þau Rúnar Vilhjálmsson, Ingjaldur Hannibalsson, Ólafur Þ. Harðarson, Róbert R. Spanó, Oddný G. Sverrisdóttir, Björg Magnúsdóttir, Þórir Hrafn Gunnarsson, Jón Atli Benediktsson, Eiríkur Tómasson og Runólfur Smári Steinþórsson.
 

Kl. 15.10 - 15.50 - Dagskrárliður 3: Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Framkvæmd stefnu Háskóla Íslands sviði náms og kennslu

Sigurður J. Grétarsson, prófessor og formaður kennslumálanefndar háskólaráðs gerði grein fyrir tillögum nefndarinnar um framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 á sviði náms og kennslu. Flutti Sigurður mál sitt undir fyrirsögninni „Tillögur um leiðir að marki í kennslumálum."

Nokkur undirstöðuatriði
· Háskólinn hefur einsett sér að taka til hendinni.
· Kennsla er í grundvallaratriðum á forræði faggreina (nú skora, deilda). Þróun kennslu- og námsskilyrða þarf að fara fram sem næst þeim vettvangi.
· Miðlæg stjórnsýsla á að sinna samræmingu, gæðaeftirliti og sameiginlegri stoðþjónustu.

Fjórar aðaltillögur
· Kennslunefndir starfi á öllum sviðum og séu virkar í þróun námsumhverfis og kennslu. Þær séu í góðu samstafi við stjórnsýslu og kennara.
· Miðlæg gæðastjórn miði eftirlit m.a. við starf kennslunefnda.
· Efld samvinna við Kennslumiðstöð.
· Haldnar verði kennsluferilskrár kennara í skólanum.

Hugmynd um stöðu kennslunefnda
· Kennslunefnd starfar á hverju fræðasviði, skipuð fulltrúum deildanna á sviðinu. Skrifstofur sviðs og deilda eru þeim til fulltingis.
· Kennslunefndir eru skipaðar áhugasömum kennurum. Huga þarf að aðild nemenda.
· Formenn eða fulltrúar kennslunefnda sviða (5) mynda kennslumálanefnd háskólaráðs.

Meginhlutverk kennslunefnda (1)
· Þróun náms- og kennsluumhverfis.
- Mótun og efling kennslustefnu á sviði.
- Efling góðra kennsluhátta og kennslumenningar.
- Skipulag á kynningu og ráðgjöf við nemendur og margvíslegt samstarf við þá.
- Aðstoð við kennara í þessum efnum, þróunarstarf, námskeið, málþing, leiðsögn, nemendasamstarf, þróun námsmats, samstilling einkunnakvarða o. fl.

Meginhlutverk kennslunefnda (2):
· Mótun aðferða til að meta kennslu og kennsluframlag fyrir innra og ytra gæðastarf, framgang og umbun. Allt í nánu samstarfi við stjórnsýslu.
- Mótun og rekstur kennslukönnunar.
- Eftirfylgd með kennslukönnun.
- Þróun aðferða til að meta kennsluframlag og umsjón með slíku mati.
- Þróun á umbunarkerfi fyrir kennsluframlag.
- Mótun og viðhald kennsluferilsskráa.

Kennslunefndir og gæðastjórn
· Gæðaeftirlit með kennslu miðist við starf kennslunefnda. Gæðamælikvarðar miðist m.a. við hvort tiltekin starfsemi á meginsviðum kennslustefnu sé fyrir hendi og standist kröfur skólans.
· Meginsvið geta til dæmis verið:
- Þjálfunar- og eflingarmöguleikar fyrir kennara, aðhald fyrir nýja kennara.
- Ráðgjöf og kynning fyrir nemendur.
- Þróun á kennsluskipan og námsmati

Kennsluferilsskrár 1
· Skólinn heldur kennsluferilsskrá fyrir starfsmenn sína (í samvinnu við þá).
· Skráin staðfestir vilja skólans til að leggja alúð við kennslu í orði og á borði.
· Áhersluatriði skrárinnar eiga einkum að vera uppörvandi - viðurkenning skólans á kennslu, áhuga á kennslu, þróunarstarfi, námsefnisgerð, leiðbeiningu og aðstoð viðkomandi við stúdenta og fleira.

Kennsluferilsskrár 2
· Upplýsingar úr kennslumati, sérstöku mati deildar eða sviðs, t.d. umsagnir, eru skráðar.
· Skráin er notuð við mat á framgangi, við innra og ytra eftirlit og við sérstaka umbun fyrir kennslu.

Vinnumat fyrir kennslu
· Hvatt er til þess að finna leiðir til að umbuna ekki bara einstökum kennurum með greiðslu fyrir árleg framtalin ferlisverk í beinni keppni við rannsóknavinnumat heldur miða við lengri tímabil, sérstakt svigrúm og stærri starfseiningar.
· Sérstakar tímabundnar heiðursstöður í kennslu, ívilnun til starfshópa og starfseininga koma meðal annars til greina.

Kennslumálasjóður
· Minnt er á að Kennslumálasjóður hefur veitt forgang verkefnum sem stuðla að sterkri kennslumenningu í deildum.
· Hægt er að fela sjóðnum að styrkja sérstaklega verkefni sem efla góða kennslumenningu.

Rektor þakkaði Sigurði fyrir framsöguna og kennslumálanefnd fyrir vandaða vinnu við undirbúning málsins. Rektor gaf orðið laust.

Málið var rætt ítarlega og lýstu fulltrúar á háskólaþingi ánægju með tillögur kennslumálanefndar.

Kennsla - rannsóknir
Nokkrir fundarmenn gerðu að umtalsefni hlutverk kennslu og rannsókna í háskólum. Töldu þeir að þótt mikil áhersla væri lögð á rannsóknir væri ekki síður nauðsynlegt að hlúa að kennsluþættinum. Einnig var á það bent að þótt Háskólinn legði um þessar mundir mikla áherslu á rannsóknir gæti sú þróun snúist við þegar hann hefði náð þroska sem rannsóknaháskóli. Slíka þróun mætti sjá víða í erlendum háskólum þar sem akademískir starfsmenn fengju iðulega ekki fastráðningu nema þeir hefðu náð góðum árangri á sviði kennslu. Mikilvægt væri að umbunarkerfi Háskólans tæki mið af þessu.

Faglegar undirstöður
Rætt var um það hvort fulltrúar í kennslunefndum fræðasviðanna þyrftu einkum að búa yfir kennslureynslu eða hvort þeir þyrfti einnig að hafa faglega sérþekkingu í kennslufræði.

Samstarf
Bent var á mikilvægi þess að kennslunefndir, Kennslumiðstöð, kennslusvið og aðrir málsaðilar störfuðu náið saman og samhæfðu verkefni sín. Einnig þyrfti að huga sérstaklega að því að virkja þá miklu sérfræðiþekkingu á sviði náms og kennslu sem væri fyrir hendi innan Menntavísindasviðs.

Kennslunefndir
Rætt var um tillögu kennslumálanefndar um að komið verði á fót föstum kennslunefndum á hverju hinna fimm fræðasviða sem fái skýrt umboð og umbun. Velti einn fundarmanna því upp hvort í stað slíkra fastra nefnda gæti verið heppilegra að skipa tímabundna starfshópa með skýrt afmarkað hlutverk er skiluðu tillögum sem yrðu ræddar á vettvangi viðkomandi fræðasviðs. Slíkir starfshópar gætu átt fast bakland í öflugri stjórnsýslu, bæði miðlægt og á vettvangi fræðasviða.

Samræming - fjölbreytni
Rætt var um samræmingu gæðakrafna til náms og kennslu. Lögðu sumir fulltrúar áherslu á nauðsyn þess að tryggja visst lágmarks samræmi, bæði innan hvers fræðasviðs og fyrir skólann í heild, en aðrir töldu farsælast að veita hverju fræðasviði og hverri deild sem mest frelsi á þessu sviði. Í tengslum við þessa umræðu var einnig bent á mikilvægi þess að kennslunefndirnar einblíndu ekki á söfnun upplýsinga og samræmingu gæðakrafna. Jafn mikilvægt væri að miðla upplýsingunum og tryggja hverju fræðasviði sjálfstæði um viðmið og kröfur.

Kennsluferilskrár
Einnig var nokkuð rætt um tillögu kennslumálanefndar um kennsluferilskrár. Bent var á að áður en ráðist yrði í slíka söfnun upplýsinga yrði að gæta að því hvort þær samræmdust upplýsingalögum. Einnig væri skynsamlegt að huga að því frá upphafi að kennsluferilskrárnar yrðu í rafrænu formi. Einn fundarmanna vakti máls á því að við mat á kennslu skipti ferillinn til lengri tíma mestu máli, ekki skammtímaárangur.

Aðkoma stúdenta
Fulltrúar stúdenta sögðu það vera mikilvægt að nánar yrði skilgreint hvað átt væri við með því að „huga þyrfti að aðkomu stúdenta“ að starfi kennslunefndanna. Eðlilegt væri að gera ráð fyrir því að stúdentar ættu fasta(n) fulltrúa í nefndunum.

Umbun
Fundarmenn tóku undir það sjónarmið kennslumálanefndar að miklu skipti að hvetja kennara og að komið verði á virku umbunarkerfi kennslu. Fram kom að nefndin hefði gert tilraun með líkan að nýju stigamatskerfi kennslu, hliðstæðu því matskerfi rannsókna sem notað hefur verið með góðum árangri um árabil. Niðurstöður tilraunarinnar bentu til þess að ekki væri heppilegt að yfirfæra rannsóknamatskerfið yfir á kennsluna og einblína á talningu starfsþátta. Þegar kennsla ætti í hlut gagnaðist betur að beita fjölbreyttari aðferðum til hvatningar og umbunar.

Þjálfun
Greint var frá því að Kennslumiðstöð hefur verið að þróa námsleið eða námsbraut fyrir kennara eins og alsiða er í nágrannalöndum okkar. Í samvinnu við Menntavísindasvið væri verið að skoða möguleika á eins eða tveggja missera löngu námi í þessu skyni. Sérstaklega væri mikilvægt að taka vel á móti nýjum kennurum og styðja þá í starfi.

Kennslukönnun
Rætt var um kennslukannanir og hlutverk þeirra. Bent var á að þegar nemendur mynduðu sér skoðun á náminu styddust þeir ekki aðeins við tiltekinn kennara eða námskeið heldur legðu mat á námsbraut sína í heild. Þetta sýndi að mat á kennslu ætti að vera samstarfsverkefni heilla eininga en ekki persónuleikakönnun eða mat á einstaklingum sem yrði lögð til grundvallar afdrifaríkum ákvörðunum.

Að umræðu lokinni bar rektor upp þá tillögu um málsmeðferð að háskólafundur beindi því til rektors og háskólaráðs að við framkvæmd stefnu Háskóla Íslands á sviði náms og kennslu verði fylgt þeim sjónarmiðum sem fram koma í tillögum kennslumálanefndar. Hliðsjón verði höfð af framkomnum sjónarmiðum á fundinum.

- Samþykkt einróma.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Sigurðar, þau Ebba Þóra Hvannberg, Helga Lára Haarde, Kári Hólmar Ragnarsson, Þorgerður Einarsdóttir, Rúnar Vilhjálmsson, Jón Atli Benediktsson, Þórólfur Matthíasson, Runólfur Smári Steinþórsson og Guðrún Geirsdóttir.
 

Kl. 15.50 - 16.30 - Dagskrárliður 4: Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Háskóli Íslands sem miðstöð kennaramenntunar í landinu.

Ólafur Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands reifaði nokkur málefni í tengslum við sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

Aðstæður
· Hver er meginstarfsemi Kennaraháskóla Íslands?
· Hver er meginstarfsemi Háskóli Íslands á sviði uppeldis- menntunar- og kennarafræða?

Háskóli Íslands: Miðstöð menntavísinda
· Miðstöð starfsmenntunar fyrir kennara á öllum skólastigum og fyrir aðrar uppeldis- og menntunarstéttir (grunnmenntun, framhaldsmenntun, símenntun).
· Miðstöð menntarannsókna og rannsóknarnáms á sviði uppeldis- og menntunarfræði.
· Þjónustu- og þróunarstofnun með gagnvirk tengsl við vettvang uppeldis, menntunar, náms og kennslu utan og innan formlegra stofnana eins og skóla.
· Virk þátttaka í alþjóðlegu samfélagi á sviði menntavísinda.

Hvers vegna sérstakt menntavísindasvið?
· Verkefnið er mjög stórt og flókið, en að sama skapi mikilvægt fyrir samfélagið allt, og þess vegna má ekki dreifa ábyrgðinni um of heldur tryggja að í meginatriðum verði hún á einum stað.
· Verkefnið er hins vegar í grundvallaratriðum þverfaglegt eins og flest annað starfsnám og þess vegna er bæði mikilvægt og nauðsynlegt að byggja brýr á milli fræðigreina og efla virkt samstarf menntavísindasviðs við önnur fræðasvið skólans.

Sameiginlegur vandi allra þverfaglegra fræðasviða
· Að missa ekki sjónar af meginverkefni viðkomandi þverfaglegs fræðasviðs - t.d. kennarafræði, læknisfræði, lögfræði, guðfræði, hjúkrunarfræði, verkfræði, sjúkraþjálfun, þroskaþjálfun, félagsráðgjöf -vegna ofuráherslu á einstakar fræðigreinar.
· Að veita nemendum nægjanlega dýpt, yfirsýn og skilning í einstökum fræðigreinum til þess að geta unnið á skapandi og gagnrýnan hátt að þeim verkefnum sem leysa þarf hverju sinni.

Rektor þakkaði Ólafi fyrir og gaf orðið laust.

Erindi Ólafs var rætt stuttlega. Þökkuðu fundarmenn honum fyrir fróðlegt innlegg. Tekið var undir þau orð Ólafs að þótt formleg sameining skólanna stæði fyrir dyrum tæki það nokkurn tíma að samþætta starfsemina til fulls. Einnig var á það bent að í þessu skyni væri nauðsynlegt að Kennaraháskóli Íslands, sem með sameiningunni 1. júlí nk. fær heitið Menntavísindasvið Háskóla Íslands, flyttist á háskólalóðina á Melunum.

Rektor þakkaði fulltrúum á háskólafundi fyrir góðan fund og bauð þeim að þiggja hressingu fyrir framan Hátíðasal.

Fleira var ekki gert. Fundi slitið kl. 16.30.

Listi yfir gögn sem lögð voru fram á 25. háskólafundi 17. apríl 2008:

1. Dagskrá og tímaáætlun 25. háskólafundar 17. apríl 2008.
2. Dagskrártillaga rektors.
3. Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.
4. Fundargerð 24. háskólafundar 19. október 2007.
5. Tillögur kennslumálanefndar háskólaráðs um framkvæmd stefnu Háskóla Íslands á sviði náms og kennslu.
6. Frumvarp til laga um opinbera háskóla.