Skip to main content

20. háskólafundur 5. maí 2006

20. háskólafundur haldinn 5. maí 2006 í Hátíðasal Háskóla Íslands á 2. hæð í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 14.00-17.00

Dagskrá

Kl. 14.00 - 14.05  Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir fundagögnum.
Kl. 14.05 - 14.15  Dagskrárliður 1. Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands.
Kl. 14.15 - 15.15  Dagskrárliður 2. Stefnumótun og framkvæmdaáætlun Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2006-2011.
Kl. 15.15 - 15.30  Kaffihlé.
Kl. 15.30 - 16.10  Dagskrárliður 2 (frh.). Stefnumótun og framkvæmdaáætlun Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2006-2011.
Kl. 16.10 - 17.00  Dagskrárliður 3. Fýsileiki sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.
Kl. 17.00  Rektor slítur fundi.

Kl. 14.00-14.05: Fundarsetning

Rektor setti 20. háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Fundarritari var Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu. Greindi rektor frá því að tveimur fulltrúum úr verkefnisstjórn yfirstandandi stefnumótunarvinnu fyrir Háskólann, þeim Runólfi Smára Steinþórssyni, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild, og Ómari Kristmundssyni, dósent í félagsvísindadeild, hefði verið boðið að sitja fundinn sem og formanni heildarstefnuhóps, Jóni Atla Benediktssyni, prófessor í verkfræðideild, sem myndi kynna lokadrög að stefnu Háskóla Íslands á fundinum. Þá gerði rektor grein fyrir útsendum og framlögðum fundargögnum, dagskrá og tímaáætlun fundarins.

Kl. 14.05 - 14.15 - Dagskrárliður 1: Stefnumótun og framkvæmdaáætlun Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2006-2011.

Rektor bauð Runólfi Smára Steinþórssyni, prófessor og fulltrúa í verkefnisstjórn stefnumótunarstarfsins, að greina frá þeirri vinnu sem fram hefur farið í vetur. Hóf Runólfur mál sitt á því að kynna stjórn verkefnisins, en í henni sátu, auk rektors og Runólfs, Ómar Kristmundsson, dósent í félagsvísindadeild og Haukur Ingi Jónasson, stundakennari við verkfræðieild, auk þess sem Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Talnatök, starfaði með stjórninni.

Rektor reifar málefni Háskóla Íslands

Rektor skýrði frá því að á síðasta háskólafundi fyrir hálfum öðrum mánuði hafi verið farið ítarlega yfir helstu mál á döfinni í Háskóla Íslands og því yrði aðeins drepið stuttlega á þrjú mál að þessu sinni:

1. Stefnumótun Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2006-2011.
Eins og áður hefur komið fram hefur viðamesta einstaka mál yfirstandandi háskólaárs verið mótun stefnu og framkvæmdaáætlunar Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2006-2011. Nú sér fyrir endann á þessu starfi og verður afraksturinn af því kynntur ítarlega á þessum háskólafundi.

2. Hugsanleg sameining HÍ og KHÍ.
Staða viðræðna um hugsanlega sameiningu HÍ og KHÍ verður annað aðaldagskrárefni þessa háskólafundar og mun Ólafur Þ. Harðarson, forseti félagsvísindadeildar gera grein fyrir málinu. Um þessar mundir er skilagrein nefndar sem menntamálaráðherra skipaði til að kanna fýsileika sameiningar skólanna til umsagnar hjá deildum. Þá rektor boðið Ólafi Proppé, rektor KHÍ, að halda erindi um stefnumörkun KHÍ 17. maí nk. og mun hann einnig greina frá sjónarmiðum skólans varðandi sameiningaráformin.

3. Nýr samstarfssamningur milli HÍ og LSH.
Á ársfundi LSH 27. apríl sl. var undirritaður endurnýjaður samstarfssamningur milli HÍ og LSH um uppbyggingu háskólasjúkrahúss, kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindagreinum og fleiri þætti. Samningurinn mun styrkja enn frekar farsælt samstarf milli beggja stofnananna. Þá fór fram veiting akademískra nafnbóta til starfsmanna LSH við sérstaka athöfn í Hátíðasal í síðustu viku. Handhafar hinna akademísku nafnbóta munu framvegis birta vísindagreinar sínar undir nafni Háskóla Íslands ekki síður en undir nafni Landspítalans.

Kl. 14.15 - 14.35 - Dagskrárliður 2

Upphafið
Vinnan við stefnumótun Háskóla Íslands hófst á háskólafundi í nóvember 2005 að frumkvæði rektors. Hér var á ferðinni afar metnaðarfullt verkefni sem miðaði að því að setja fram skýran vegvísi fyrir allt starf skólans fram til ársins 2011 þegar ein öld verður liðin frá því að Háskóli Íslands var stofnaður. Þegar í upphafi var ákveðið markmið að virkja til þátttöku sem flesta starfsmenn í öllum deildum og stjórnsýslu skólans og freista þess að ljúka starfinu á stuttum tíma.

Í upphafi stefnumótunarvinnunnar lagði rektor línurnar fyrir starfið með því að gera grein fyrir því, hvers vegna þörf væri á rannsóknarháskóla í fremstu röð á Íslandi. Benti rektor á 3 grundvallarþætti sem þyrftu að vera til staðar til að árangur næðist: Í fyrsta lagi þyrfti sterkan grunn. Viðamiklar úttektir á starfi skólans hafi sýnt að Háskóli Íslands hafi skilað drjúgu og gæðamiklu dagsverki. Vísindamenn skólans séu margir taldir í fremstu röð og séu afkastamiklir í alþjóðlegum samanburði. Úttektirnar hafi staðfest að grunnurinn sé traustur. Í öðru lagi þurfi skýra framtíðarsýn, markvissa stefnu um uppbyggingu með mælanlegum og tímasettum markmiðum, raunhæfar verkáætlanir og öfluga eftirfylgni. Í þriðja lagi þurfi stuðning samfélagsins sem skólinn þjónar og samstarf stjórnvalda við framtíðarfjármögnun.

Skipulag
Strax í upphafi var tekin ákvörðun um að stefnumótunin fengi algjöran forgang í starfi Háskólans veturinn 2005-2006 og var mikil vinna og metnaður lagður í hana. Eins og áður sagði skipaði rektor verkefnisstjórn til að hafa yfirumsjón með framkvæmdinni. Rektor og verkefnisstjórn héldu fundi í öllum deildum skólans og stjórnsýslu í upphafi til að skýra tilgang, forsendur og verklag stefnumótunarinnar. Efnisleg vinna við undirbúning stefnunnar var á höndum svonefnds heildarstefnuhóps undir stjórn Jóns Atla Benediktssonar, prófessors í verkfræðideild. Þá voru stofnaðir kjarnahópar í hverri deild og stjórnsýslu skólans og höfðu deildarforsetar og framkvæmdastjórar forystu um starf þeirra. Stúdentar í grunn- og framhaldsnámi tóku virkan þátt í stefnumótuninni. Einnig voru kallaðir til fjölmargir einstaklingar og hópar utan og innan Háskólans til samráðs. Loks skipaði rektor ritnefnd sem hafði það hlutverk að ganga frá endanlegum texta stefnuskjalsins.

Vinnuferlið
Næst brá Runólfur upp nokkrum glærum sem sýndu nálgunina í vinnunni og vinnuferlið, bæði í heild og í einstökum deildum og stjórnsýslu skólans. Haldinn var ítarlegur vinnufundur kjarnahópa deilda og kjarnahóps stjórnsýslu með heildarstefnuhópi þar sem áherslur eininganna og skilaboð til heildarstefnuhóps voru lögð fram. Í framhaldinu héldu fulltrúar heildarstefnuhóps röð funda með fulltrúum allra kjarnahópa til að ræða nánar um einstök atriði. Þá skipaði rektor ritnefnd sem hafði það hlutverk að taka saman heildstætt stefnuskjal og voru drög að því lögð fram til kynningar á 19. háskólafundi 24. mars 2006. Í kjölfarið var skjalið sent deildum og stjórnsýslu til umsagnar og loks gekk ritnefnd frá endanlegum drögum að stefnuskjali með hliðsjón af þeim athugasemdum og ábendingum sem borist höfðu. Þetta skjal er lagt fram á þessum háskólafundi til umræðu og afgreiðslu. Samhliða vinnunni við heildarstefnuskjal Háskólans var vinnu deilda og stjórnsýslu við stefnuskjöl sín áfram haldið og er gert ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki í haust.

Starfi heildarstefnuhópsins
Fyrsta verkefni heildarstefnuhóps var að greina núverandi stefnu og árangursviðmið Háskólans. Á vettvangi hópsins fór fram mikil sérhæfð upplýsingaöflun og greining á ytri og innri þáttum í starfsemi skólans. Þá gekkst hópurinn fyrir ítarlegri SVÓT-greiningu fyrir Háskólann í heild sinni, hélt vinnufundi með samráðshópum og kjarnahópum deilda og vann að samræmingu á hinum einstöku stefnuskjölum. Heildarstefnuhópurinn hélt sérstakan starfsdag þar sem dregin voru fram gildi, hlutverk, framtíðarsýn, meginmarkmið, starfsmarkmið, mælikvarðar og aðgerðir fyrir háskólann í heild. Í starfi sínu tók heildarstefnuhópurinn m.a. mið af vísinda- og menntastefnu Háskólans, stefnu skólans í einstökum málaflokkum og nýlegri skýrslu starfshóps rektors um viðbrögð við niðurstöðum ytri úttekta á Háskóla Íslands 2004 og 2005.

Stefnumótunarvinnan innan Háskólans
Þegar horft er tilbaka er óhætt að fullyrða að upphaflegur ásetningur um að laða sem flesta starfsmenn Háskólans til þáttöku í stefnumótunarferlinu hefur gengið eftir. Innan skólans hefur ríkt mikil samstaða um þetta mikilvæga verkefni og hefur sú mikla sérþekking sem þar er til staðar verið nýtt til hins ítrasta. Stefnumótunarferlið hefur eflt metnað starfsfólks og aukið skilning á milli deilda og þannig skapað forsendur fyrir enn frekara samstarf og samhæfingu í starfi háskólans.

Næst tók Jón Atli Benediktsson, formaður heildarstefnuhóps, til máls og kynnti framlögð lokadrög að stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2006-2011.

Áður en Jón Atli hóf kynningu sína greindi hann frá því að fyrri stefnudrög hefðu verið kynnt ítarlega á síðasta háskólafundi og því myndi hann leggja áherslu á að gera grein fyrir þeim breytingum sem orðið hefðu á plagginu eftir umsagnir háskólafundar, háskólaráðs, deilda og stjórnsýslu.

Vinna við lokadrögin
Byrjaði Jón Atli á því að gera grein fyrir vinnuferlinu við gerð lokadraga stefnunnar. Eins og áður hefur komið fram voru fyrstu drög kynnt deildarforsetum, háskólaráði og háskólafundi í mars. Í kjölfarið var textinn sendur deildum og stjórnsýslu til umsagnar og síðan öllum framkomnum athugasemdum safnað saman. Skýrði Jón Atli frá því að umsagnirnar hefðu almennt verið jákvæðar og uppbyggilegar. Mikil og almenn ánægja hefði verið með það langtímamarkmið að verða á meðal 100 bestu háskóla heims sem og aðalmarkmiðin þrjú í stefnunni. Nokkrar breytingatillögur bárust varðandi texta og einstök undirmarkmið og hefði verið leitast við að taka tillit til þeirra við frágang lokadraga stefnunnar sem eru til umræðu á þessum háskólafundi.

Uppbygging stefnuskjals
Þá rakti Jón Atli stuttlega uppbyggingu stefnuskjalsins sem skiptist í þessa kafla:

 • Ávarp rektors
 • Vaxandi háskóli
 • Sáttmáli Háskóla Íslands við samfélagið
 • Framtíðarsýn
 • Samanburðarháskólarnir
 • Grunngildin
 • Markmið og aðgerðir
 • Framkvæmd og eftirfylgni

Vaxandi háskóli
Í kaflanum „Vaxandi háskóli“ er sérstaklega fjallað um þessi atriði:

 • Alþjóðleg samskipti
 • Lykilhlutverk Háskólans í íslensku samfélagi
 • Skyldu Háskólans til að ávaxta íslenskan menningararf og stunda öflugar rannsóknir á íslenskri tungu, menningu og samfélagi
 • Háskólanum beri því að leggja rækt við þær fræðigreinar og rannsóknir sem varða Ísland og Íslendinga sérstaklega
 • Mannauð og rannsóknavirkni
 • Stærð skólans og gróskuna í framhaldsnáminu
 • Áherslu á rannsóknir á flestum sviðum vísinda- og fræða
 • Náin tengsl við atvinnu- og þjóðlíf
 • Hlutverk sérfræðinga og stjórnenda LSH og tengsl HÍ og LSH.

Sáttmáli Háskólans við samfélagið
Í kaflanum „Sáttmáli Háskólans við samfélagið“ er einkum lögð áhersla á fernt:

 • Stuðningur við Háskólann verði í samræmi við evrópska viðmiðunarháskóla
 • Háskólinn bjóði úrvalskennslu
 • Aðbúnaður rannsókna og kennslu verði bættur
 • Skilvirkt stjórnkerfi og stoðþjónustu.

Framtíðarsýn
Næst vék Jón Atli að kaflanum um „framtíðarsýn“. Hann hefst með þessum orðum: „Til að þjóna sem best íslensku samfélagi hefur Háskóli Íslands sett sér það langtímamarkmið að vera á meðal 100 bestu háskóla í heimi.“ Síðan er dregin upp mynd af Háskólanum þegar stefnan er komin til framkvæmdar:

 • Framúrskarandi menntun nemenda
 • Öflugt vísinda- og fræðastarf
 • Aðstæður munu gjörbreytast á háskólalóðinni
 • Samstarf og sátt við samfélagið.

Samanburðarháskólarnir
Þá eru nefndir til sögunnar 8 erlendir háskólar sem Háskóli Íslands ber sig saman við og staða þeirra á lista yfir bestu háskóla í heimi höfð í sviga aftan við:

 • Háskólinn í Kaupmannahöfn (56)
 • Háskólinn í Helsinki (76)
 • Háskólinn í Lundi (99)
 • Háskólinn í Uppsölum (60)
 • Háskólinn í Tromsø (401-500)
 • Háskólinn í Bergen (301-400)
 • Háskólinn í Aberdeen (301-400)
 • Boston University (80).

Grunngildin
Næst kemur stuttur kafli sem tilgreinir þau megingildi sem Háskóli Íslands hefur í heiðri:

 • Akademískt frelsi
 • Sjálfstæði og ábyrgð
 • Fjölbreytni
 • Jafnrétti og lýðræði
 • Heilindi og virðing
 • Hagsæld og velferð.

Markmið og aðgerðir
Að þessum inngangsköflum loknum taka við þrír kaflar sem hver fyrir sig hefst á einu meginmarkmiði og tilgreinir síðan fjölda undirmarkmiða og aðgerða. Meginmarkmiðin þrjú eru þessi:
1. Framúrskarandi rannsóknir
2. Framúrskarandi kennsla
3. Framúrskarandi stjórnun og stoðþjónusta

1. Framúrskarandi rannsóknir
Meginmarkmiðinu er lýst svo: Háskóli Íslands ætlar að efla hágæða rannsóknir sem standast alþjóðleg viðmið á fjölbreyttum sviðum vísinda og fræða. Til þess þarf að stórefla doktorsnám og auka samstarf við aðra háskóla, rannsóknastofnanir og fyrirtæki.

Undirmarkmiðin eru þessi:

 • Fimmfalda fjölda brautskráðra doktora
 • Auka rannsóknavirkni og gæði rannsókna - fjölga birtingum í virtum alþjóðlegum ritrýndum tímaritum
 • Auka skipulagt samstarf við erlenda háskóla og háskóladeildir í fremstu röð í heiminum
 • Auka sókn í samkeppnissjóði vegna rannsókna
 • Stórefla aðstöðu til rannsókna og kennslu og auka aðgang að rafrænum tímaritum og gagnagrunnum
 • Auka þverfræðilegar rannsóknir
 • Efla nýsköpun og tengsl við rannsóknastofnanir, atvinnulíf og landsbyggð.
 • Auka rannsóknavirkni og gæði rannsókna - fjölga birtingum í virtum alþjóðlegum ritrýndum tímaritum
 • Birtingum í virtum alþjóðlegum ritrýndum ISI-fræðiritum fjölgi um 100% fyrir árslok 2011. Í því skyni verði matskerfi rannsókna endurskoðað þannig að slíkar greinar fái aukið vægi. Umbunað verði sérstaklega fyrir greinar í fremstu tímaritum heims á hverju fræðasviði, svo sem Nature og Science. Þá verði umbunað meira fyrir bækur sem gefnar eru út hjá virtustu alþjóðlegu forlögunum. Breytingarnar taki gildi árið 2007. Reglur um sérstakt mat og endurmat á ritverkum verði áfram í gildi.
 • Við mat á ritverkum verði lögð áhersla á að Háskóli Íslands gegnir forystuhlutverki í rannsóknum á íslenskri menningu og þjóðfélagi og því er hvatt til birtinga í virtum ritrýndum íslenskum tímaritum og bókum.

2. Framúrskarandi kennsla
Meginmarkmiðinu er lýst svo: Háskóli Íslands þjónar samfélaginu og þörfum þess fyrir menntun á heimsmælikvarða með því að veita nemendum framúrskarandi kennslu í nánum tengslum við rannsóknastarf skólans.

Undirmarkmiðin eru þessi:

 • Laða að hæfustu nemendurna og skapa fyrirmyndar námsumhverfi
 • Ráða hæfustu kennarana
 • Efla stuðnings- og gæðakerfi kennslu
 • Endurmeta og þróa námsframboð
 • Efla upplýsingatækni
 • Auka ábyrgð nemenda og draga úr brottfalli
 • Efla endurmenntun.

3. Framúrskarandi stjórnun og stoðþjónusta
Meginmarkmiðinu er lýst svo: Háskóli Íslands ætlar að styðja vel við rannsóknir og kennslu með skilvirku stjórnkerfi, góðri stoðþjónustu og öflugu gæðakerfi.

Undirmarkmiðin eru þessi:

 • Háskóla Íslands verði skipt í nokkra skóla og stjórnkerfi hans styrkt
 • Gæðakerfi og gæðamenning innan Háskólans verði efld
 • Háskóli Íslands styrki tengsl sín við íslenskt atvinnulíf, mennta- og menningarstofnanir, stjórnvöld og hollvini skólans og taki virkan þátt í opinberri umræðu
 • Fjárhagur Háskóla Íslands endurspegli hlutverk skólans, markmið og árangur.

Heildarstefnuhópur
Að endingu greindi Jón Atli frá því hverjir hefðu átt sæti í heildarstefnuhópnum:

 • Jón Atli Benediktsson, prófessor við verkfræðideild, formaður
 • Ásta Hrönn Maack, skrifstofustjóri rekstrar og framkvæmda
 • Elías Jón Guðjónsson, formaður stúdentaráðs
 • Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri rannsóknasviðs
 • Helga Ögmundsdóttir, prófessor við læknadeild og formaður vísindanefndar
 • Hólmfríður Garðarsdóttir, dósent við hugvísindadeild og formaður jafnréttisnefndar
 • Inga Jóna Þórðardóttir, viðskiptafræðingur og fulltrúi þjóðlífs í háskólaráði
 • Ingibjörg Harðardóttir, dósent við læknadeild
 • Ingjaldur Hannibalsson, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild og formaður fjármálanefndar
 • Matthías Páll Imsland, deildarsérfræðingur og fulltrúi þjóðlífs í háskólaráði
 • Róbert H. Haraldsson, dósent við hugvísindadeild
 • Sigurður J. Grétarsson, prófessor við félagsvísindadeild og formaður kennslumálanefndar
 • Snorri Þór Sigurðsson, prófessor við raunvísindadeild
 • Þórhallur Guðlaugsson, lektor við viðskipta- og hagfræðideild og formaður markaðs- og samskiptanefndar
 • Með hópnum störfuðu: Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Talnatök og Magnús Diðrik Baldursson, gæðastjóri HÍ og skrifstofustjóri rektorsskrifstofu.

Þakkaði Jón Atli rektor fyrir það mikla traust að fá að vinna þessa skemmtilegu vinnu.

Rektor þakkaði Jóni Atla fyrir framsöguna og fór að því búnu nokkrum orðum um stefnuna. Greindi rektor m.a. frá því að leiðarljósið við stefnumótunarvinnuna hefði verið að leita svara við því, með hvaða hætti Háskóli Íslands geti best þjónað íslensku samfélagi. Öflugur háskóli sem stæði jafnfætis bestu skólum í heiminum væri forsenda þess að hér verði áfram velsældaríki, Íslandi vegni vel í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og að við missum ekki okkar besta fólk úr landi. Þessu til stuðnings vísaði rektor til nýlegrar skoðanakönnunar Samtaka atvinnulífsins þar sem fram hefði komið að ungt fólk á Íslandi væri sannfært um að mikilvægustu þættirnir í að viðhalda samkeppnishæfni Íslands væru menntun, rannsóknir og nýsköpun.

Til að þjóna þessu markmiði hefði Háskóli Íslands nú sett fram skarpa stefnu með tímasettum og mælanlegum markmiðum. Öll þjónuðu þau því langtímamarkmiði að koma Háskólanum í hóp 100 bestu háskóla í heimi. Það gæfi auga leið að ekki væri til einn einhlítur mælikvarði til að meta hvað einkenndi svo góðan háskóla. Engu að síður væri samhljómur með þeim listum yfir bestu háskóla heims sem birtir væru opinberlega og því hefði verið ákveðið að styðjast við þá viðurkenndu mælikvarða sem liggja mikilvægustu listunum til grundvallar. Þá vekti það athygli að í hópi 100 bestu háskólanna væru 7 ríkisreknir norrænir háskólar. Þetta væri stórkostlegur árangur sem Norðurlöndin gætu verið stolt af. Í stefnumótunarvinnunni hefði verið athugað sérstaklega hver væri lykillinn að árangri þessara skóla og hefði það m.a. komið í ljós að Háskóli Íslands hefði alla burði til að ná sambærilegum árangri.

Þrátt fyrir þessa miklu alþjóðlegu áherslu væri mikilvægt að Háskólinn ræki af kostgæfni skyldu sína við séríslensk viðfangsefni. Í stefnunni væri leitast við að samræma þetta tvennt, hið alþjóðlega og hið íslenska sjónarhorn.

Þá gat rektor þess að í umræðunni um stefnumótun Háskólans síðastliðin vetur hefði mátt heyra lýst áhyggjum af því að metnaður skólans kunni að vera of mikill. Á móti benti rektor á Háskóli Íslands og íslenska þjóðin þyrfti frekar að herða en að hægja á því verkefni að byggja upp alþjóðlega samkeppnisfæran háskóla. Um allan heim væru framsæknar þjóðir að stórauka framlög sín til háskóla og rannsókna og mesta hættan sem steðjaði að íslensku samfélagi væri að því lánaðist ekki að skynja kall tímans. Einnig hefðu þær raddir heyrst, að við hefðum ekki ráð á svo metnaðarfullri menntasókn. Sagði rektor að íslenska þjóðin hefði ekki efni á að sækja ekki fram af metnaði. Hik og kyrrstaða í þessum efnum jafngiltu afturför.

Rektor gaf orðið laust.

Málið var rætt ítarlega. Létu fundarmenn almennt í ljós mikla ánægju með framlögð lokadrög að stefnu Háskóla Íslands 2006-2011. Til þess var tekið að plaggið hefði tekið miklum framförum frá síðustu gerð og að það væri nú allt í senn, heilsteypt, metnaðarfullt og svaraði kalli tímans.

Rætt var um þau viðmið og þá árangursmælikvarða sem liggja stefnunni til grundvallar. Í því sambandi var sérstaklega vikið að röðun Institute of Higher Education við Shanghai Jiao Tong háskólann á bestu háskólum í heimi. Taldi einn fundarmanna varhugavert að binda sig við þennan lista og mælikvarðana sem að baki búa. Á móti var á það bent að heildarstefnuhópurinn hefði farið rækilega yfir helstu lista yfir bestu háskóla í heimi og viðmiðin sem þeir byggja á. Að vandlega íhuguðu máli hefði verið ákveðið að hafa til hliðsjónar fleiri lista, einkum lista Times Higher Education Supplement, sem og viðurkennd alþjóðleg viðmið. Staðreyndin væri sú að mikill samhljómur er meðal þekktustu listanna og taka þeir t.d. allir mið af birtingum í alþjóðlegum ISI-tímaritum.

Einnig var rætt um auknar heimildir Háskólans til að afla fjár, s.s. með skólagjöldum og þjónustugjöldum. Töldu fulltrúar stúdenta að í stefnunni ætti hvorki að geta skólagjalda né annarra gjalda sem hugsanlega yrðu lögð á nemendur. Til dæmis væri sérstök gjaldheimta fyrir inntökupróf ósanngjörn. Um væri að ræða hluta af námsferlinu og með gjaldheimtu yrði námsaðgengi nemenda skert. Fulltrúi heildarstefnuhóps svaraði því til að mikið hefði verið fjallað um þetta atriði í stefnumótunarvinnunni og núverandi orðalag væri málamiðlun sem sátt hefði náðst um eftir vandlega íhugun. Þá hélt forseti raunvísindadeildar, Hörður Filippusson, því fram að í stefnunni væri afstaðan til skólagjalda ekki orðuð nógu skýrt heldur sagt að hún myndi skýrast síðar. Einnig væri óljóst hvort verið væri að vísa til afstöðu Háskólans eða stjórnvalda. Ef átt væri við afstöðu stjórnvalda væri auðvitað rétt að Háskólinn ætti ekki að taka af skarið, enda væri það hlutverk löggjafans. Ef þetta væri raunin ætti alls ekki að fjalla um málið í stefnuskjali Háskólans. Ef hins vegar væri um að ræða afstöðu Háskólans ætti að segja berum orðum að hann óskaði ekki eftir heimild til að fá að taka upp skólagjöld. Lagði hann til að setningin „Afstaða til skólagjalda mun skýrast við endurskoðun laga um ríkisháskóla á haustþingi 2007 eða vorþingi 2008“ yrði felld út úr stefnuskjalinu. Brást rektor við með því að benda á að í framtíðarstefnu Háskólans væri nauðsynlegt að fjalla um fjármögnun skólans og í því sambandi væri óhjákvæmilegt að minnast með einhverjum hætti á skólagjöld. Það væri bundið í núverandi lög um Háskóla Íslands að skólinn hefði ekki heimild til að innheimta slík gjöld, en fyrir dyrum stæði endurskoðun á lögunum og þá myndi þetta mál væntanlega skýrast.

Nokkur umræða spannst um boðaða endurskoðun á deildarskiptingu Háskólans, hugsanlega skiptingu hans í skóla og mögulega sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Benti fulltrúi heildarstefnuhóps á að leiðarljósið við stefnumótunarvinnuna hefði verið að efla sem mest starfseiningar skólans. Ekki lægi fyrir hvernig skipulagi skólans verði breytt í einstökum atriðum, heldur gert ráð fyrir að nefnd sem rektor skipi setji fram tillögur að höfðu samráði við deildarforseta og aðra stjórnendur. Rektor bætti því við að í lokaskýrslum vegna úttekta Ríkisendurskoðunar og Samtaka evrópskra háskóla hefði verið lögð áhersla á að endurskoða þyrfti núverandi skiptingu Háskólans í ellefu deildir sem eru mjög misjafnar bæði að stærð og gerð. Í þessu sambandi benti forseti verkfræðideildar á að taka geta þyrfti stofnanna Háskólans í tengslum við skólaskiptinguna. Tók rektor undir þessa ábendingu og lagði til að stofnananna yrði sérstaklega getið á bls. 14.

Lýsti einn fundarmanna þeirri skoðun að í stefnuskjalinu væri lögð meiri áhersla á raun-, verk- og lífvísindi en hug- og félagsvísindi. Sagði hann þetta ekki koma á óvart og vera í samræmi við ríkjandi tilhneigingu í alþjóðlegri umræðu um vísindi og rannsóknir á undanförnum árum og endurspeglast í þeim viðmiðum sem lögð eru til grundvallar við röðun háskóla heimsins á lista. Víða væri nú verið að leiðrétta þessa skekkju og þróa mælikvarða sem gerðu hinum ólíku fræðigreinum jafn hátt undir höfði. Að baki þessari tímabæru leiðréttingu lægju djúptækar þjóðfélagslegar breytingar sem lýsa mætti sem þróun frá iðnaðarsamfélagi til þjónustusamfélags. Færa mætti rök fyrir þeirri skoðun að áherslan á hin „hörðu“ vísindi væri arfleifð frá iðnaðarsamfélaginu. Alltént væri það staðreynd að á Íslandi skiptist landsframleiðsla nokkurn veginn til helminga á milli opinbera geirans og einkageirans. Í framlagðri stefnu Háskólans kæmi framangreind slagsíða t.d. fram í því að lögð væri áhersla áherslunni á einkaleyfi og sprotafyrirtæki, en ekki væri minnst á skipulag heilbrigðisþjónustu, þ.e. ekki lækningarnar sjálfar heldur þætti sem varða þjónustu, hagfræði, lögfræði og félagsvísindi. Annað dæmi væru hinir áformuðu Vísindagarðar Háskólans sem oftast væri talað um sem vettvang verk- og raunvísinda. Í ljósi framangreindrar þróunar væri ef til vill ástæða til spyrja, hvort Vísindagarðar ættu ekki að vera aflstöð fyrir þjónustusamfélag framtíðarinnar sem þyrfti á öllum greinum vísinda og fræða og gróskumiklu samstarfi þeirra að halda.

Nokkrir fundarmenn fögnuðu því sérstaklega að í stefnuplagginu væri því lýst yfir að Háskóli Íslands vildi sinna íslenskum menningararfi, og taldi að mætti jafnvel geta þessa í kaflanum um sáttmála við samfélagið. Háskóli Íslands væri eini háskólinn heiminum sem bæri ábyrgð á þeim fræðasviðum sem fjölluðu gagngert um íslenskan menningararf og þetta legði honum ríkar skyldur á herðar.

Fulltrúar stúdenta lýstu vilja sínum til að taka þátt í framkvæmd og eftirfylgni stefnunnar og óskuðu eftir að samráð yrði haft við þau. Nýlegar úttektir á Háskóla Íslands sýndu að í alþjóðlegum samanburði hefðu stúdentar skólans ríka aðkomu að stjórn hans og væri æskilegt að það gilti einnig um framkvæmd framtíðarstefnu hans.

Forseti læknadeildar vakti athygli fundarmanna á því að í stefnuplagginu væri lítið fjallað um fyrirhugaða nýbyggingu Landsdpítala-háskólasjúkrahúss. Þessi framkvæmd muni valda gerbylta starfsaðstöðu heilbrigðisvísindadeildanna og vert væri að geta þess með einhverjum hætti í textanum. Þakkaði rektor fyrir gagnlega ábendingu sem tekið yrði mið af við lokafrágang stefnuskjalsins.

Þeirri spurningu var velt upp hvort áherslan á doktorsnám í stefnuskjalinu gæti orðið á kostnað meistaranámsins. Svaraði fulltrúi heildarstefnuhóps því til að þótt doktorsnámi væri gert hátt undir höfði í heildarstefnunni væri ljóst að deildir skólans væru mislangt á veg komnar í þessu efni og hefðu misjafnar forsendur til að bjóða upp slíkt nám á breiðum grundvelli. Það væri því undir deildunum komið hvort þær vildu jafnframt leggja sérstaka áherslu á meistaranám í stefnuskjölum sínum.

Í lok umræðunnar bar Ólafur Þ. Harðarson, forseti félagsvísindadeildar, upp tillögu um að tillögu Harðar Filippussonar, forseta raunvísindadeildar, yrði vísað frá. Rökstuddi hann frávísunartillögu sína með því að brýnt væri að samþykkja stefnuna í sátt á þessum fundi. Ef byrjað yrði að breyta henni í einstökum atriðum gæti það haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar og sett alla vinnuna í uppnám. Minnti Ólafur einnig á að gert væri ráð fyrir að stefnuskjalið yrði í sífelldri yfirvegun og endurskoðað reglulega.

Minnti rektor á að ekki væri ástæða til að gera of mikið úr skólagjaldamálinu á þessum fundi. Aðalatriðið væri að í stefnunni er lögð áhersla á að fá ríkisframlag til Háskólans stórhækkað þannig að það verði sambærilegt við ríkisframlag til samanburðarháskóla í nágrannalöndum okkar. Skólagjöld muni aldrei duga til að brúa bilið.

Þegar hér var komið sögu kvaddi Hörður Filippusson sér hljóðs og lýsti því yfir að til þess að fundurinn gæti samþykkt stefnuna í sátt myndi hann draga breytingartillögu sína til baka. Þar með féll frávísunartillaga Ólafar Þ. Harðarsonar einnig niður.

Þá bar rektor framlögð drög að stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 undir atkvæði, með þeirri breytingu sem Stefán B. Sigurðsson, forseti læknadeildar, hefði lagt til, um að getið yrði þess ávinnings sem væntanleg nýbygging Landspítala-háskólasjúkrahúss hefði yfir heilbrigðisvísindadeildir Háskólans.

- Samþykkt einróma og með lófataki.

Til máls tóku undir þessum dagskrárlið, auk rektors og Jóns Atla Benediktssonar, þau Dagný Ósk Aradóttir, Stefán B. Sigurðsson, Oddný G. Sverrisdóttir, Ólafur Þ. Harðarson, Hörður Filippusson, Sigurður Brynjólfsson, Sigurður Örn Hilmarsson, Gylfi Magnússon, Ómar Kristmundsson, Dagný Kristjánsdóttir, Páll Hreinsson og Þorsteinn Loftsson.

Að lokum þakkaði rektor öllum sem komið hefðu að málinu. Greindi rektor frá því að í kjölfar fundarins yrði stefnan lögð fyrir háskólaráð til staðfestingar. Strax að því loknu myndi rektor kynna stefnuna fyrir forsætisráðherra, menntamálaráðherra og fjármálaráðherra. Einnig yrði haldinn opinn kynningarfundur fyrir starfsfólk Háskólans og fréttamenn. Næsta skref í stefnumótunarferlinu væri svo fólgið í því að deildir og stjórnsýsla Háskólans myndi skila drögum að stefnuskjölum sínum til formanna starfsnefnda háskólaráðs sem myndu veita umsagnir um þær. Stefnt væri að því að stefnur deilda og stjórnsýslu yrði starfsfestar af háskólaráði um miðjan júní og loks kynntar á háskólafundi í haust.

Kl. 16.10-17.00 - Dagskrárliður 3: Fýsileiki sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands

Rektor rakti stuttlega aðdraganda málsins. Fyrir fáeinum árum var að frumkvæði Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands unnin skýrsla um möguleika nánari samvinnu eða sameiningar skólanna og var það niðurstaða skýrslunnar að slík nálgun væri fýsileg. Á síðasta ári hafði menntamálaráðherra samband við stjórnendur skólanna og setti í samráði við þá á laggirna nefnd til að vinna áfram að framgangi málsins. Nefndina skipuðu f.h. Háskóla Íslands þau Kristín Ingólfsdóttir, rektor, Ólafur Þ. Harðarson, prófessor og forseti félagsvísindadeildar og Þórður Kristinsson, framkvæmdastjóri akademískrar stjórnsýslu, en f.h. Kennaraháskóla Ísland þeir Ólafur Proppé, rektor, Börkur Hansen, prófessor, og Guðmundur Ragnarsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs. Þegar niðurstaða nefndarinnar lá fyrir var hún send til menntamálaráðherra og rædd í háskólaráði og á forsetafundi. Loks hefði málið verið sent til deilda Háskólans til umsagnar og væri gert ráð fyrir að álit Háskólans yrði sent menntamálaráðherra fyrir næstu mánaðarmót. Að endingu vakti rektor athygli á því að Ólafur Proppé myndi halda opinn fund um stefnu Kennaraháskóla Íslands í Háskóla Íslands á næstunni og þar myndi hann einnig víkja að sjónarmiðum skólans varðandi hugsanlega sameiningu.

Rektor bauð Ólafi Þ. Harðarsyni að gera grein fyrir málinu.

Byrjaði Ólafur á því að greina frá því að á síðustu árum hefði í Evrópu og víðar komið til sameiningar háskóla og kennaraháskóla sem margt mætti læra af. Varðandi hugsanlega sameiningu HÍ og KHÍ dró Ólafur fram nokkrar röksemdir sem koma við sögu. Í fyrsta lagi væru bundnar þær vonir við sameiningu þessara skóla að hún geti styrkt í senn kennaranámið og háskólana. Samhliða þessu væri kennaranám víða að lengjast úr þremur eða fjórum árum í fimm, eins og verið hefur t.d. í Finnlandi um nokkra hríð, og svipaði kennaraprófi því æ meira til hefðbundins meistaraprófs. Þessi breyting hefði einnig verið mikið rædd hér á landi, bæði innan KHÍ og HÍ. Í síðarnefnda skólanum hefur kennsluréttindanámið hingað til byggst á hefðbundnu þriggja ára BA- eða BS-námi að viðbættu einu ári í kennslufræðilegum greinum, en nú væri verið að þróa námið í átt að fimm ára námi. Í KHÍ væri hins vegar um að ræða heildstætt nám í einum skóla. Hér vaknaði sú spurning, hvor leiðin væri skynsamlegri, að greina á milli fagnáms og kennaranáms eða að hafa allt námið, þ.m.t. faglega hlutann, í einum og sama skólanum. Þá þyrfti Háskóli Íslands einnig að spyrja sig að því, hvort sameinaður háskóli, sem tvímælalaust yrði sá langstærsti í landinu, þjónaði hagsmunum Háskólans í samkeppninni við erlenda og innlenda háskóla.

Í öðru lagi þyrfti að fara rækilega yfir það hvernig háttað yrði samnýtingu á því námi sem í boði væri í báðum skólum. Tvær leiðir virtust helst koma til álita. Önnur væri sú að kennaraefnin tækju fyrst þrjú ár í tiltekinni grein á grunnstigi háskólanáms, t.d. í spænsku, líffræði eða félagsfræði, og bættu svo við tveggja ára námi á meistarastigi á sviði kennslufræða og kennslutækni. Hin leiðin væri að nemendur tækju fullt uppeldisvísindanám innan hins sameinaða skóla. Einnig þyrfti að taka afstöðu til þess hvort beita eigi almennum aðgangstakmörkunum í kennaranámið eða hvort greina eigi með öðrum hætti á milli venjulegra háskólanema og nemenda sem ekki vildu stunda nám með rannsóknaáherslu heldur í því skyni að ganga að því loknu til margskonar hagnýtra starfa í samfélaginu. Hér væri um að ræða einskonar þjónustukennslu og ræða þyrfti vandlega hvernig slíkt samrýmdist vísindamarkmiðum Háskólans.

Í þriðja lagi hnigu veigamikil rök að því að ef af sameiningunni verður þyrfti að flytja KHÍ úr Stakkahlíð og á lóð Háskóla Íslands. Varasamt væri að starfrækja hinn sameinaða skóla á tveimur aðgreindum stöðum í Reykjavík, og þannig næðust ekki hin mögulegu samlegðaráhrif. Auðvelt ætti að vera að nýta fasteignir KHÍ í öðrum tilgangi, t.d. undir framhaldsskóla sem eru í miklum húsnæðisvanda, eða koma þeim í verð og nýta söluandvirðið til að byggja upp öfluga aðstöðu á háskólalóðinni.

Í fjórða lagi taldi Ólafur mikilvægt að hin hugsanlega sameining fari ekki þannig fram með þeim hætti að KHÍ verði tólfta deild Háskóla Íslands heldur verði málið tekið upp í tengslum við þá endurskoðun á skipulagi Háskólans sem kveðið er á um í nýsamþykktri stefnu skólans.

Rektor þakkaði Ólafi fyrir framsöguna og gaf orðið laust.

Málið var rætt ítarlega. Fögnuðu sumir fundarmenn því að þetta mál væri nú komið fram af fullri alvöru og töldu að vinna ætti hratt og örugglega að sameiningunni. Aðrir töldu betra að fara sér hægt og gaumgæfa vandlega alla þætti málsins enda myndu eflaust líða nokkur ár áður en samlegðaráhrifin skiluðu sér.

Fram kom það sjónarmið að horfa ætti á málið í stærra samhengi þar sem allt íslenska háskólakerfið væri undir. Þannig mætti vel hugsa sér að til lengri tíma litið væri skynsamlegt að fleiri íslenskir háskólar rynnu í Háskóla Íslands.

Mikil samstaða var um að mikilvægasta markmið hugsanlegrar sameiningar væri að efla í senn kennaramenntun á Íslandi og að styrkja það markmið Háskóla Íslands að verða rannsóknaháskóli í fremstu röð. Í reynd væru þessi tvö markmið óaðskiljanleg því betri kennaramenntun skilaði betri grunnskólanemendum sem síðar yrðu betri framhaldsskólanemendur og loks betri háskólanemar. Einnig voru fundarmenn á einu máli um að hinum sameinaða háskóla væri best fyrir komið á Melunum og í Vatnsmýrinni.

Rætt var um hvort sameining skólanna myndi styrkja vísindamarkmið Háskóla Íslands. Fram kom að miðað við núverandi stöðu mála myndi sameining breyta litlu sem engu um stöðu Háskóla Íslands á lista yfir fremstu háskóla í heimi. Háskóli Íslands hefði þá sérstöðu meðal íslenskra háskóla að frá honum kæmu um 91-92% af öllum innlendum birtingum í ISI-tímaritum. Þótt nákvæmar tölu lægju ekki fyrir næmi framlag KHÍ líklega um 1,5-2%. Hér væri þó um heildartölur að ræða og taka þyrfti með í reikninginn að innan Háskóla Íslands væru nokkur fræðasvið sem skiluðu sambærilegum afköstum við KHÍ. Þegar betur væri að gáð kæmi í ljós að þetta væri ekki veikleiki, heldur væri í flestum tilvikum um að ræða ungar greinar með fremur litla rannsóknahefð og því mætti allt eins færa fyrir því rök að þar væru jafnframt mestu vaxtarmöguleikarnir. Þá þyrfti að hafa hugfast að uppbygging doktorsnáms væri mikilvægasta forsendan fyrir fjölgun ISI-greina og í framtíðinni skipti uppbygging doktorsnáms á sviði kennaramenntunar síst minna máli en á öðrum sviðum.

Þá var rætt um fjárhagsstöðu skólanna og á það bent að ef til sameiningar myndi koma þyrfti að endurskoða reikniflokka menntamálaráðuneytisins.

Á það var bent að með styttingu náms til stúdentsprófs þyrfti að veita kennaraefnum meiri fagmenntun og í því fælist tækifæri fyrir Háskóla Íslands. Á hinn bóginn yrði endurmenntun kennara sífellt mikilvægari og á því sviði hefði KHÍ mikið fram að færa til HÍ.

Í lok umræðunnar benti rektor á að þótt skriður væri kominn á viðræður um málið væri ekki búið að taka ákvörðun um hvort skólarnir myndu sameinast. Mikilvægt væri að vanda til málsmeðferðarinnar og ætla góðan tíma til undirbúnings ef til sameiningar kemur.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Ólafs Þ. Harðarsonar, þau Guðný Guðbjörnsdóttir, Dagný Kristjánsdóttir, Halldór Jónsson, Oddný G. Sverrisdóttir, Hörður Filippusson og Gylfi Magnússon.

Að lokum þakkaði rektor fyrir góða og málefnalega umræðu og bauð fundarmönnum að þiggja léttar veitingar undir ljúfum píanótónum Reynis Tómasar Geirssonar, prófessors í læknadeild.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 17.00.

Listi yfir gögn sem lögð voru fram á 19. háskólafundi 24. mars 2006:

1. Dagskrá og tímaáætlun 20. háskólafundar 5. maí 2006.
2. Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.
3. Fundargerð 19. háskólafundar 24. mars 2006.
4. Lokadrög að stefnu Háskóla Íslands 2006-2011.
5. Skilagrein nefndar sem menntamálaráðherra skipaði 12. janúar 2006 til að kanna fýsileika þess að sameina Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.