Skip to main content

Háskólaráðsfundur 7. apríl 2011

04/2011

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2011, fimmtudaginn 7. apríl var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Börkur Hansen, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Hulda Proppé (varamaður Péturs Gunnarssonar), Margrét Arnardóttir (varamaður Fannars Freys Ívarssonar), Sigríður Ólafsdóttir, Sigríður Valgeirsdóttir (varamaður Hilmars B. Janussonar), Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þórður Sverrisson. Fundinn sat einnig Jón Atli Benediktsson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1.    Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir nokkrum viðburðum frá síðasta fundi ráðsins og málum á döfinni.
a)    Rektor átti nýlega fund með Stúdentaráði þar sem ýmis sameiginleg mál voru rædd.
b)    Viðburðir samkvæmt dagskrá aldarafmælis Háskóla Íslands ganga vel. Marsmánuður var helgaður Hugvísindasviði og lauk dagskránni með glæsilegu Hugvísindaþingi. Aprílmánuður er tileinkaður Verkfræði- og náttúruvísindasviði og er boðið upp á fjölbreytta dagskrá. Í því sambandi er vert að geta sérstaklega öndvegisfyrirlesturs David Suzuki, prófessors við University of British Columbia í Vancouver, umhverfisverndarsinna og sjónvarpsmanns. Þá er framundan fjölbreytt dagskrá á landsbyggðinni, m.a. í samstarfi við rannsóknasetur Háskóla Íslands.
c)    Í síðustu viku fór fram við hátíðlega athöfn veiting akademískra nafnbóta til 12 starfsmanna Landspítala-háskólasjúkrahúss og eins starfsmanns Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
d)    Í gær fór fram í Hátíðasal fyrsta úthlutun úr Styrktarsjóði Watanabe við Háskóla Íslands að viðstöddum stofnanda sjóðsins, Toshizo Watanabe. Doktorsnemi og BA-nemi frá Háskóla Íslands fengu styrki til námsdvalar í Japan og doktorsnemi frá Japan fékk styrk til að nema við Háskóla Íslands.
e)    Hinn 19. maí nk. fer fram úthlutun styrkja til doktorsnema úr Háskólasjóði hf. Eimskipafélags Íslands.
f)    Rektor flutti nýverið tvö erindi á opinberum vettvangi. Annars vegar var um að ræða erindi á Sprotaþingi Íslands sem fjallaði um nýsköpun við Háskóla Íslands, hins vegar erindi á fundi norrænna og þýskra rektora sem haldið var í Gautaborg.
h)    Í næstu viku verður opnuð ný ofurtölvumiðstöð við Háskóla Íslands. Fyrirséð er að notkun ofurtölva muni auka reiknigetu og nýtast fjölmörgum greinum og sviðum raunvísinda, heilbrigðisvísinda, verkfræði og hug- og félagsvísinda.

2.    Fjármál Háskóla Íslands.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs og gerðu grein fyrir stöðu og horfum í fjármálum Háskóla Íslands, erindi rektors til mennta- og menningarmálaráðherra vegna fjárlagatillagna HÍ árið 2012 og erindi rektora opinberra háskóla til ráðherra um hækkun skrásetningargjalds. Málið var rætt og svöruðu rektor, Guðmundur og Sigurður spurningum ráðsmanna.

3.    Fjárhagslíkan vegna þverfræðilegra námsleiða við Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá tillaga fjármálanefndar um fjárhagslíkan vegna þverfræðilegra námsleiða við Háskóla Íslands. Guðmundur R. Jónsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Samþykkt einróma með smávægilegum orðalagsbreytingum.

4.    Málefni Háskólabíós.
Guðmundur R. Jónsson gerði stuttlega grein fyrir málefnum Háskólabíós. Málið var rætt og verður það áfram á dagskrá næsta fundar háskólaráðs. Minnisblað verður sent út fyrir fundinn.

5.    Gæðaráð háskóla.
Fyrir fundinum lágu drög að handbók nýs gæðaráðs háskóla og gerði Magnús Diðrik Baldursson, gæðastjóri HÍ, ítarlega grein fyrir henni. Málið var rætt og svaraði Magnús spurningum ráðsmanna.

6.    Mögulegar aðgangstakmarkanir við Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, gerði grein fyrir framlögðu minnisblaði starfshóps háskólaráðs um mögulegar aðgangstakmarkanir við Háskóla Íslands. Í starfshópnum eiga sæti, auk Jóns Atla sem er formaður, Róbert H. Haraldsson, formaður kennslumálanefndar, Magnús Diðrik Baldursson, gæðastjóri HÍ, Ásta Bjarnadóttir, forstöðumaður innlendra háskólasamskipta HÍ og Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, fulltrúi stúdenta. Málið var rætt ítarlega og svaraði Jón Atli spurningum fulltrúa í háskólaráði.
- Samþykkt að fela starfshópnum að halda áfram starfi sínu, m.a. með því að útfæra nánar annars vegar þá leið að innleiða almenn inntökupróf og hins vegar að auka kröfur um námsframvindu.

7.    Nýbygging fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.
Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi fjáröflun og undirbúning nýbyggingar fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Bar rektor upp tillögu um að skipuð verði byggingarnefnd vegna nýbyggingarinnar. Í nefndinni verði þau Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri, formaður, Auður Hauksdóttir, dósent við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda, Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, Inga Jóna Þórðardóttir, viðskiptafræðingur, Ingjaldur Hannibalsson, prófessor við Viðskiptafræðideild, Pétur Gunnarsson, rithöfundur, fulltrúi í háskólaráði, og fulltrúi stúdenta sem verði skipaður síðar. Með nefndinni starfi Sigurlaug I. Lövdahl, skrifstofustjóri  framkvæmda- og tæknisviðs.
- Samþykkt einróma.

8.    Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum í kjölfar gildistöku nýrra laga, sameiginlegra reglna og breytts skipulags Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson og gerði grein fyrir málinu.

a)    Reglur um meistaranám á Menntavísindasviði.
- Samþykkt einróma, með þeirri breytingu að í 6. gr. verði vísað til siðareglna Háskóla Íslands.

b)    Reglur um doktorsnám á Félagsvísindasviði.
- Samþykkt einróma, með þeirri breytingu að heiti Miðstöðvar framhaldsnáms verði skrifað fullum fetum í lok 3. mgr. 1. gr.

9.    Stjórnir, nefndir og ráð.
a)    Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Tern Systems hf. (Flugkerfa).
Sigurður J. Hafsteinsson gerði grein fyrir málinu. Rektor bar upp tillögu um að fulltrúi Háskóla Íslands stjórn Tern Systems hf. (Flugkerfa) verði áfram Ebba Þóra Hvannberg, prófessor og að varamaður hennar verði Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs HÍ.
- Samþykkt einróma. Málefni Tern Systems hf. verða aftur á dagskrá háskólaráðs á næstunni.

Sigurður J. Hafsteinsson vék af fundi við afgreiðslu málsins.

10.    Erindi vegna breytinga á framgangskerfi.
Fyrir fundinum lá minnisblað vísindasviðs vegna erindis vegna breytinga á framgangskerfi HÍ. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Rektor falið að svara erindinu í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í minnisblaði vísindasviðs.

11.    Erindi til háskólaráðs vegna siðanefndar Háskóla Íslands í máli 1/2010.
- Frestað.

12.    Mál til fróðleiks.
a)    Samgöngukönnun, janúar 2011.
b)    Ársreikningur Keilis hf. 2010.
c)    Dagskrá aldarafmælis Háskóla Íslands á landsbyggðinni.

13.    Erindi til háskólaráðs vegna fornleifafræði.
Rektor gerði stuttlega grein fyrir málinu.
- Erindinu vísað til forseta Hugvísindasviðs til umsagnar.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.40.