Skip to main content

Háskólaráðsfundur 5. september 2013

07/2013

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2013, fimmtudaginn 5. september var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Rut Kristjánsdóttir, Börkur Hansen, Ebba Þóra Hvannberg, Guðrún Hallgrímsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Kristinn Andersen, Margrét Hallgrímsdóttir, María Rut Kristinsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þorfinnur Skúlason. Fundinn sátu einnig Jón Atli Benediktsson og Þórður Kristinsson sem ritaði fundargerð.

Rektor bauð fulltrúa í háskólaráði velkomna til fyrsta fundar á nýju háskólaári og setti fundinn. Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan að til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki.

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir óskaði eftir því að liður 7a) undir bókfærð mál, tillaga að breytingu á reglum um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands, nr. 263/2010, yrði ræddur.

Rektor lagði til að undir öðrum málum yrði tekin fyrir skipun formanns vísindanefndar háskólaráðs til loka skipunartíma nefndarinnar 30. júní 2014.
- Samþykkt.

María Rut Kristinsdóttir, fulltrúi stúdenta og formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, óskaði eftir því að rætt yrði undir öðrum málum um óvissu vegna námslána stúdenta.
- Samþykkt.

Guðrún Hallgrímsdóttir óskaði eftir því að rætt yrði undir öðrum málum um flutning verkefna frá mennta- og menningarmálaráðuneyti til forsætisráðuneytis, sbr. síðasta fund.
- Samþykkt.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir nokkrum málum og viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og framundan.
a) Rektor óskaði Maríu Rut Kristinsdóttur, fulltrúa stúdenta í háskólaráði, til hamingju með að hafa verið kjörin formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
b) Rektor gat þess að miðað við fjölda staðfestra skráninga nemenda á sama tíma í fyrra væri útlit fyrir að nemendum muni fjölga um 4% frá fyrra ári. Endanlegar tölur liggja fyrir 20. október nk.
c) Forstöðumaður nýrrar Skrifstofu alþjóðasamskipta, Friðrika Harðardóttir, hefur tekið til starfa. Skrifstofunni er ætlað að veita öllum erlendum stúdentum og starfsmönnum háskólans þjónustu og ráðgjöf um nám, kennslu og rannsóknir í samvinnu við yfirstjórn, fræðasvið, deildir og samtök stúdenta.
d) Rektor greindi frá því að tvær byggingar á vegum Félagsstofnunar stúdenta hefðu verið opnaðar nú í sumarlok, nýir Stúdentagarðar við Sæmundargötu og viðbygging við Háskólatorg.
e) Húseignin Bjarkargata 12 hefur verið auglýst til sölu. Áslaug Hafliðadóttir arfleiddi eftir sinn dag Háskóla Íslands eignina til minningar um foreldra sína ásamt 25% af öllum bankainnistæðum og andvirði verðbréfa í sinni eigu. Söluandvirðið mun renna í Styrktarsjóð Áslaugar Hafliðadóttur til eflingar íslenskri tungu.
f) Hvað varðar framkvæmdir við nýjar byggingar á vegum háskólans og tengdra stofnana þá gat rektor þess að nokkur óvissa ríkti um framhaldið. Um er að ræða byggingu fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Hús íslenskra fræða og nýja byggingu fyrir Landspítala.
g) Rektor vakti athygli á samstarfssamningi við University of California, Santa Barbara (sbr. dagskrárlið 8j). Gerður hefur verið sérstakur viðbótarsamningur við Verkfræði- og náttúruvísindasvið þar sem allt að 20 stúdentum býðst að taka hluta af námi við UCSB án þess að greiða skólagjöld. Einnig eru möguleikar á styrkjum vegna ferðalaga. Í undirbúningi er viðbótarsamningur við Félagsvísindasvið.
h) Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hélt opinn fyrirlestur fyrir fullu húsi í Hátíðasal Háskóla Íslands, þriðjudaginn 2. júlí sl. Fyrirlesturinn bar yfirskriftina Ísland og Sameinuðu þjóðirnar: Sjálfbær framtíð fyrir alla. Í fyrirlestrinum fjallaði Ban Ki-moon um baráttuna gegn fátækt og hlutverk Sameinuðu þjóðanna við að stuðla að alþjóðafriði og öryggi.
i) Rektor greindi frá fundi í samstarfsnefnd háskólastigsins 30. ágúst sl. þar sem m.a. kom fram að stjórnendur allra háskóla eru gríðarlega áhyggjufullir vegna fjárlaga fyrir næsta ár.
j) Rektor ræddi málefni starfsmanna háskólans og stundakennara, kjör þeirra og aðstöðu. Mikið áhyggjuefni að ekki skuli vera svigrúm til að bæta kjörin við núverandi aðstæður.
k) Vegna umræðu í fjölmiðlum að undanförnu um aðkomu að stundakennslu í Stjórnmálafræðideild gat rektor þess að skýrt væri í reglum skólans að deildir háskólans eru faglega ábyrgar fyrir kennslu. Ábyrgð á ráðningu aðjúnkta og stundakennara er hins vegar á hendi forseta fræðasviðs og ekki hafði verið gerður ráðningarsamningur í umræddu tilviki. Í reynd er í öllu kerfi háskólans lögð áhersla á lýðræðisleg vinnubrögð, faglegt sjálfstæði deilda og fræðasviða og akademískt frelsi. Samkvæmt reglum skólans ber forsetum fræðasviða að setja verklagsreglur um undirbúning ráðningar stundakennara og er verklag í flestum tilvikum skýrt.

2. Starfsreglur háskólaráðs, tillaga að uppfærslu, sbr. síðasta fund.
Fyrir fundinum lá tillaga að uppfærðum starfsreglum háskólaráðs, sbr. síðasta fund, þar sem stjórnsýslunni var falið að fara yfir nefndarálit um starfsreglurnar og gera tillögu að uppfærslu þeirra í ljósi umræðna. Málið var rætt. Fram kom tillaga um að sleppa upptalningu á dæmum í 2. mgr. í kaflanum um dagskrá og var það samþykkt.
Uppfærðar starfsreglur háskólaráðs Háskóla Íslands samþykktar einróma.

3. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur og áætlun.
a) Hálfsársuppgjör Háskóla Íslands 2013.

Fyrir fundinum lá hálfsársuppgjör Háskóla Íslands fyrir árið 2013 frá Fjársýslu ríkisins. Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs. Guðmundur og Jenný Bára gerðu grein fyrir málinu. Almennt er reksturinn í jafnvægi. Gert er ráð fyrir að leggja fram slík uppgjör ársfjórðungslega.

b) Fjárlagagerð 2014.
Fyrir fundinum lá minnisblað vegna fjárlagagerðar 2014 sem Guðmundur og Jenný Bára gerðu grein fyrir. Í lok febrúar sl. var sent inn erindi til mennta- og menningarmálaráðuneytis vegna fjárlagagerðarinnar. Ekki hafa nein formleg viðbrögð borist við erindinu. Einungis hefur verið rætt um 1,5% niðurskurð/hagræðingarkröfu til háskólastigsins, en til þess teljast háskólar, ýmsar rannsóknastofnanir og sjóðir. Rektor fór jafnframt yfir ýmsar stærðir og áherslur háskólans í tengslum við undirbúning fjárlaga fyrir næsta ár. Málið var rætt ítarlega og settar fram ábendingar um einstök atriði.

c) Kjarasamningar.
Til fróðleiks undir þessum lið var vísað til kjarakönnunar BHM 2013, en niðurstöður hafa nýlega verið kynntar opinberlega. Guðmundur R. Jónsson greindi frá því að miðlægir kjarasamningar eru lausir í lok febrúar nk. Háskólinn kemur síðan að um 10 stofnanasamningum sem eru nánari útfærsla miðlægra samninga. Viðræður eru hafnar við fjármálaráðuneyti um komandi kjarasamninga. Málið var rætt.

4. Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Yfirlit um framkvæmd stefnu Háskóla Íslands, stöðu starfsáætlunar Háskóla Íslands fyrir háskólaárið 2012-2013 og drög að starfsáætlun Háskóla Íslands fyrir háskólaárið 2013-2014.
Fyrir fundinum lá vinnuskjal með yfirliti um framkvæmd stefnu Háskóla Íslands 2011-2016 og stöðu starfsáætlunar Háskóla Íslands fyrir háskólaárið 2012-2013, ásamt drögum að starfsáætlun Háskóla Íslands fyrir háskólaárið 2013-2014. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Starfsáætlun Háskóla Íslands fyrir háskólaárið 2013-2014 samþykkt einróma.

5. Skýrsla starfshóps háskólaráðs um samræmingu á reglum og verklagi fræðasviða og deilda við ákvörðunartöku um málefni nemenda og starfsmanna, sbr. fund ráðsins 12. apríl 2012.
Háskólaráð ákvað 12. apríl 2012 að skipa starfshóp til könnunar á reglum og verkferlum háskólans, með það að markmiði að samræma efnisreglur og verklag við töku ákvarðana um réttindi og skyldur stúdenta. Starfshópnum var falið að kortleggja þau álitamál sem uppi eru í þessu sambandi. Einnig var hópnum falið að kanna hvort breytinga væri þörf á miðlægri stjórnsýslu háskólans, þannig að hún yrði betur í stakk búin til að sinna samræmingu og eftirliti með sviðum og deildum. Í starfshópinn voru skipuð þau Róbert R. Spanó, prófessor, forseti Lagadeildar, sem var jafnframt formaður, Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, Trausti Fannar Valsson, lektor í Lagadeild, og Kristín Helga Markúsdóttir, lögfræðingur starfsmannasviðs. Inn á fundinn kom Trausti Fannar Valsson, staðgengill formanns starfshópsins, og gerði grein fyrir efnistökum, ályktunum og tillögum sem fram eru lagðar í skýrslunni. Málið var rætt og svaraði Trausti Fannar spurningum ráðsmanna. Samþykkt að óska eftir umsögnum um skýrsluna og tillögurnar sem þar eru settar fram frá stjórnum fræðasviða fyrir lok september og fela miðlægri stjórnsýslu að fengnum umsögnum að undirbúa málið fyrir fund ráðsins í nóvember nk.

6. Vísindanefnd háskólaráðs. Frestað á síðasta fundi.
a) Störf vísindanefndar háskólaráðs.

Inn á fundinn kom Ármann Jakobsson, prófessor, staðgengill formanns vísindanefndar háskólaráðs, og gerði ítarlega grein fyrir störfum nefndarinnar, þ.m.t. þeim viðmiðum sem notuð eru við úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og hugmyndum að breytingum. Málið var rætt og svaraði Ármann spurningum og athugasemdum ráðsmanna.
b) Viðmið við úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, sbr. gögn fyrir síðasta fund.
Fjallað var um málið undir dagskrárlið 6a).

7. Bókfærð mál.
a) Reglur um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands, nr. 263/2010. Tillaga að breytingum.

Fyrir fundinum lá tillaga að breytingum á reglum um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands, nr. 263/2010, ásamt uppfærðum verklagsreglum um framgang akademískra starfsmanna strax í kjölfar nýráðningar. Með fylgdi minnisblað um breytingarnar. Málið var rætt og svaraði Jón Atli Benediktsson fyrirspurnum. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir kom með þá breytingartillögu að liður f í tölulið 1 í 6. gr. reglnanna yrði felldur út. Breytingartillagan var samþykkt.
Reglur um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands, nr. 263/2010 voru samþykktar svo breyttar. Jafnframt voru breyttar verklagsreglur um framgang akademískra starfsmanna strax í kjölfar nýráðningar samþykktar.
b) Endurskoðaðar verklagsreglur um viðurkenningar Háskóla Íslands fyrir lofsverðan árangur í starfi.
– Samþykkt einróma.

8. Mál til fróðleiks.
a) Dagatal Háskóla Íslands háskólaárið 2013-2014.
b) Nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að.
c) 
Erindisbréf úttektarnefndar Háskóla Íslands.
d) Úthlutun styrkja úr kennslumálasjóði vorið 2013.
e) Greinargerð um samstarf Þjóðminjasafns Íslands og Háskóla Íslands árið 2012.
f) Fréttabréf Félagsvísindasviðs, útg. í júlí 2013.
g) Hugskeyti, fréttabréf Hugvísindasviðs, útg. 27. júní 2013.
h) Fréttabréf Menntavísindasviðs, útg. í maí 2013.
i) Verklagsreglur um samkeppnina „Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands“.
j) Samstarfssamningur á milli University of California, Santa Barbara og Háskóla  Íslands. 
k) Ársskýrsla EUA fyrir árið 2012.
l) Bréf umboðsmanns Alþingis, dags. 31. júlí sl., mál nr. 6517/2011.

9.  Önnur mál.
a) Formaður vísindanefndar háskólaráðs.
Guðrún Marteinsdóttir, prófessor, hefur óskað eftir því að vera leyst undan formennsku í vísindanefnd háskólaráðs vegna veikinda. Rektor lagði til að Ármann Jakobsson, prófessor, sem verið hefur starfandi formaður sl. misseri, verði kjörinn formaður til loka skipunartíma nefndarinnar 30. júní 2014.
– Samþykkt einróma.

b) Málefni stúdenta gagnvart Lánasjóði íslenskra námsmanna.
María Rut Kristinsdóttir, fulltrúi stúdenta og formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) vakti máls á óvissu sem verið hefur um lánamál stúdenta, m.a. niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur 30. ágúst sl. í máli SHÍ gegn Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) og íslenska ríkinu. Málið var rætt og eftirfarandi fært til bókar:
„Almennt styður háskólaráð aðgerðir sem jafna möguleika til náms og auka möguleika til menntunar. Jafnframt telur ráðið mikilvægt að hvetja nemendur til að ljúka námi á tilsettum tíma. Hins vegar er mjög bagalegt að viðmið um námslán og lánshæft nám séu sett í óvissu eftir að námsmenn hafa gert ráðstafanir um nám á komandi háskólaári miðað við tilteknar forsendur um fjölda eininga í lánshæfu námi. Slík óvissa er óheppileg bæði fyrir nemendur og Háskóla Íslands þar sem hún ýtir undir ómarkvissar skráningar í námskeið og raskar þar með skipulagi skólastarfsins og veldur auknum kostnaði.“

c) Flutningur verkefna á milli ráðuneyta.
Guðrún Hallgrímsdóttir óskaði eftir því að rætt yrði um flutning verkefna frá mennta- og menningarmálaráðuneyti til forsætisráðuneytis, sbr. síðasta fund.
– Frestað til næsta fundar.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.30.