Skip to main content

Samfélagstúlkun - Grunndiplóma

Samfélagstúlkun - Grunndiplóma

Hugvísindasvið

Samfélagstúlkun

Grunndiplóma – 60 einingar

Með hraðvaxandi fjölgun innflytjenda frá ýmsum heimshornum hefur þörf fyrir túlka á fjölda erlendra mála aukist gríðarlega. Þetta stafar meðal annars af lagaskyldu til að útvega túlka við tilteknar aðstæður á sviðum dóms-, heilbrigðis-, skóla- og félagsmála.

Skipulag náms

X

Þýðingar (ÍSE502G)

Námskeiðið er inngangur að þýðingum, þýðingasögu og þýðingafræði. Nemendur kynnast helstu hugtökum og kenningum á sviði þýðinga, en einnig verður farið yfir grundvallaratriði í túlkafræði. Námskeiðið skiptist í tvo þætti: Hinn fræðilegi og sögulegi þáttur námskeiðsins fer fram í formi fyrirlestra og umræðna. Jafnframt leggur kennari fram lesefni sem nemendur kynna sér. Námsmat felst í prófi/ritgerð þar sem skyldulesefni er undirstaðan. Verklegi þátturinn fer fram í hópvinnustofum þar sem nemendur æfa sig í þýðingarýni og þýðingum (bókmenntaþýðingum eða nytjaþýðingum) undir handleiðslu kennara. Námsmat felst í skriflegu verkefni eða verkefnum. Nemendur í íslensku sem öðru máli þurfa að hafa lokið öllum námskeiðum á 1. og 2. ári.

X

Inngangur að lotutúlkun (TÁK006G)

Nemendur æfa glósutækni og lotutúlkun undir leiðsögn kennara. Kennari velur texta af tilteknu orðræðusviði í samráði við aðra kennara þannig að nemendur öðlist um leið innsýn í orðafar þess sviðs.

X

Túlkunarfræði (TÁK501G)

Markmið: Að nemendur öðlist grunnþekkingu í túlkunarfræðum og kynnist kenningum um túlkun og hlutverk túlksins.

Viðfangsefni: Farið verður í kenningar um ferli túlkunar og kenningar um hlutverk túlksins. Fjallað verður um menningarleg og málleg vandamál sem upp koma við túlkunaraðstæður og hlutverk túlksins í því að brúa bil milli tveggja menningarheima. Farið verður í mismunandi svið túlkunar, rætt um hagsmunaárekstra og ólíkar aðstæður í túlkun.

Vinnulag: Kennsla er að hluta til í fyrirlestrarformi en nemendur taka virkan þátt í umræðum og vinna bæði hóp- og einstaklingsverkefni á misserinu.

Námsmat: Skriflegt próf og verkefni

Lesefni: Tilkynnt síðar

X

Talað mál og framsögn (TÁK503G)

Meginmarkmið námskeiðsins er að gera nemendur færa um að miðla íslensku á vönduðu máli.
Kynntar verða áherslur á flutningi talaðs mál við formlegar og óformlegar aðstæður og nemendur fá þjálfun í að flytja mál sitt skýrt og áheyrilega.
Lögð er áhersla á að nemendur þekki eigin rödd, veikleika og styrkleika, og gildi réttrar raddbeitingar. Þá er undirstrikað að raddvernd er grunnur að áheyrilegri miðlun. Nemendur fá þjálfun í beitingu málsins með innsýn í helstu reglur í íslensku talmáli og vinna munnleg verkefni  þar sem reynir á skýra framsögn, raddbeitingu, ríkan orðaforða, vandað mál og að miðla af öryggi. Í öllum verkefnum eru þættir eins og raddbeiting, framburður, hrynjandi, málnotkun, orðaforði og stíll metnir.
Kennsla fer fram í formi fyrirlestra, verkefnatíma með leiðsögn og verklegrar þjálfunar.

Mætingarskylda er 80% og er forsenda próftökuréttar.

X

Fjölmiðlamál (ÍSE601G)

Fjallað verður um mál í fjölmiðlum, einkum dagblöðum en einnig talmiðlum. Lesnar verða blaðagreinar af ýmsum toga (s.s. leiðarar, pistlar, minningargreinar og íþróttafréttir) og áhersla lögð á atriði sem oft vefjast fyrir annarsmálsnemum, s.s. orðatiltæki, augnablikssamsetningar, orðaleiki, kaldhæðni og vísanir íslenskan menningarheim. Mismunandi málsnið, munur talmáls og ritmáls, sjónvarpsþýðingar og fyrirsagnir verða einnig til umræðu. Þá verður fjallað ítarlega um íslenska málstefnu.

X

Inngangur að snartúlkun (TÁK007G)

Nemendur æfa ráðstefnutúlkun í túlkunarklefa undir leiðsögn kennara. Nemendur kynnast þeirri tækni og samvinnu sem nauðsynleg er í túlkaklefa. Kennari velur texta af tilteknu orðræðusviði í samráði við aðra kennara þannig að nemendur öðlist innsýn í orðafar þess sviðs.

X

Siðfræði túlkunar (TÁK601G)

Markmið: Nemendur fái innsýn í klassískar siðakenningar og kynnist grundvallarhugtökum siðfræðinnar. Þeir þjálfist í að greina siðræn álitamál tengd túlkun og að taka rökstudda afstöðu til þeirra. Kennslan byggist á fyrirlestrum og umræðum. Í námskeiðinu er fyrst og fremst farið í klassískar kenningar siðfræðinnar og hugtök sem líta má á sem nauðsynlegan grunn til að takast á við þau álitamál sem sérstaklega snúa að starfsvettvangi túlka. Jafnframt er lögð áhersla á að tengja umfjöllunina við siðferðileg álitamál sem upp kunna að koma í túlkaaðstæðum. Mikið er lagt upp úr virkri umræðu nemenda í tímum og því mikilvægt að þeir kynni sér vel lesefni fyrir tímana.

X

Þýðingarýni og þýðingatækni (ÞÝÐ201G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur læra að greina texta til þýðinga og átta sig á þeim hjálpargögnum og hjálpartækjum sem til eru. Einnig fá þeir innsýn í starf atvinnuþýðenda á ýmsum sviðum.

Kennsla fer að mestu leyti fram í formi hagnýtra æfinga og verkefna undir handleiðslu kennara. Fáir fyrirlestrar undirbúa nemendur undir hópvinnu og æfingar í tímum. Fram að verkefnaviku vinna nemendur vikulega stutt heimaverkefni og fá leiðsagnarmat kennara. Eftir verkefnaviku fara nemendur með kynningar á „tækjum og tólum“ sem nýtast í þýðingarferli.

Einnig koma gestakennarar í tíma sem segja frá vinnu og starfsumhverfi atvinnuþýðenda. Hópurinn fer líka í vettvangsheimsóknir, t.d. í Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytis. Í verksmiðjutímum undir lok námskeiðsins vinna nemendur saman og leggja lokahönd á þýðingar sínar og greinargerðir.

Þýðingatækni og textagreining er skyldunámskeið í Þýðingafræði sem aukagrein á BA stigi. Það er einnig opið öðrum nemendum en góð færni í erlendu tungumáli (samsvarandi 3. ári í grunnnámi) er nauðsynleg undirstaða.

Kennsla fer fram á íslensku. Nemendur þýða úr erlendu máli yfir á móðurmálið. Önnur verkefni eru unnin á íslensku.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Ewa Waclawek
Ewa Waclawek
Samfélagstúlkur

Nám í samfélagstúlkun við HÍ er frábært og mjög hagnýtt nám sem kemur sér vel í túlka starfi. Ég kláraði námið í samfélagstúlkun árið 2016 og mæli hiklaust með því fyrir alla sem hafa áhuga á að vinna í túlkaþjónustu að klára þetta nám. Í náminu lærði ég mjög mikið um samfélagstúlkun og einnig um snartúlkun, lotutúlkun, hvísltúlkun og símatúlkun. Auk þess lærði ég um réttindi og skyldur túlka sem finnst mér mjög mikilvægt í túlkastarfi. Túlkaþjónusta er ein mikilvægasta þjónustan í fjölmenningarsamfélagi og á sama tíma ein ört vaxandi þjónusta í okkar samfélagið. Gæði túlkunar skiptir miklu máli fyrir þjónustunotenda og vegna þess eru vel menntaðir og áreiðanlegir túlkar mjög verðmætur starfskraftur. Allir sem hafa áhuga á að starfa í túlkaþjónustu og hjálpa innflytjendum að kynnast íslensku kerfi, þekkja réttindi sín og hjálpa þeim að taka virkan þátt í okkar samfélagi ættu að íhuga að skrá sig í nám í samfélagstúlkun og ég mæli sterklega með því.

Hafðu samband

Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2

Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.

Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.

Fylgstu með Hugvísindasviði:

Háskóli Íslands - aðalbygging

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.